Hoppa yfir valmynd
8. júní 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið, Menningar- og viðskiptaráðuneytið

RÚV Orð styður innflytjendur í íslenskunámi

Frá vinstri: Óttarr Ólafur Proppé, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, Niss Jonas Carlsson stofnandi Språkkraft, Stefán Eiríksson útvarpsstjóri og Óttar Kolbeinsson Proppé. Á myndina vantar Ásmund Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. - myndRagnar Visage / RÚV

Íslensk stjórnvöld halda áfram að auka aðgengi að fjölbreyttu og einstaklingsmiðuðu íslenskunámi sem stunda má hvar og hvenær sem er. RÚV Orð er nýr vefur fyrir sjálfsnám í íslensku með notkun sjónvarpsefnis frá RÚV. Það er afrakstur af samstarfi við Språkkraft, óhagnaðardrifið sænskt félag sem hefur sérhæft sig í hönnun máltæknilausnar þar sem fólk getur valið eigið færnistig í tungumáli. Menningar- og viðskiptaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og mennta- og barnamálaráðherra gerðu fyrr á árinu samning við RÚV um verkefnið sem stórbætir aðgengi allra aldurshópa að fjölbreyttu efni til að læra íslensku á öllum færnistigum. 

RÚV Orð verður aðgengilegt í spilaraumhverfi RÚV þegar notendaprófunum lýkur í sumarlok. Þar verður hægt að velja sjónvarpsefni frá RÚV og tengja við tíu tungumál; ensku, frönsku, þýsku, lettnesku, litáísku, pólsku, rúmensku, spænsku, taílensku og úkraínsku. Fólk velur færnistig í samræmi við íslenskukunnáttu sína miðað við sex færnistig Evrópska tungumálarammans, allt frá því að skilja aðeins mjög einföld orð og setningar upp í að geta auðveldlega lesið nánast allt ritað mál á íslensku.


Þegar notendur hafa valið færnistig geta þeir horft á það sjónvarpsefni sem birtist í RÚV Orð og æft sig á orðum og setningum eins og má sjá í myndbandinu hér fyrir ofan. Íslenskur texti sem birtist á skjánum er litakóðaður í samræmi við íslenskufærni notandans. Vefurinn er gagnvirkur og þar er til að mynda hægt að vista orð til að læra síðar og leysa próf og verkefni. Vonir standa til þess að persónuleg nálgun hvetji innflytjendur til að læra íslensku á sinn hátt og út frá sínu áhugasviði.

Markmiðið með verkefninu er að stuðla að inngildingu fólks með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn í íslenskt samfélag með því að tryggja aðgang að stafrænni tungumálaþjálfun af viðurkenndum gæðum, byggða á efni úr miðlum RÚV. Um leið eykst aðgengi innflytjenda að íslensku samfélagi og lýðræðislegri umræðu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum