Mál nr. 164/2020
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 164/2020
Miðvikudaginn 26. ágúst 2020
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, móttekinni 6. apríl 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. febrúar 2020 um að stöðva greiðslu heimilisuppbótar afturvirkt frá 1. febrúar 2019 og krefjast endurgreiðslu ofgreiddrar heimilisuppbótar með 15% álagi.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með ákvörðun, dags. 11. nóvember 2019, samþykkti Tryggingastofnun ríkisins greiðslu heimilisuppbótar til kæranda frá 1. janúar 2019 til 31. desember 2019. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 3. janúar 2020, var kærandi upplýstur um að hann uppfyllti ekki skilyrði greiðslna heimilisuppbótar um að vera einn um heimilisrekstur þar sem samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá hafi hann gift sig 30. janúar 2019. Kæranda var veittur fjórtán daga frestur til andmæla. Þá kom fram í bréfinu að heimilisuppbót yrði stöðvuð frá 1. febrúar 2019 ef engin gögn/andmæli bærust. Með tölvubréfi 10. og 14. janúar 2020 vísar kærandi til þess það eigi ekki að fella niður heimilisuppbótina fyrr en frá […] þar sem fram að þeim tíma hafi hann búið einn. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. febrúar 2019, var kæranda annars vegar tilkynnt um stöðvun greiðslu heimilisuppbótar frá 1. febrúar 2019 og hins vegar um endurgreiðslukröfu að fjárhæð 557.871 kr. með 15% álagi.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. apríl 2020. Með bréfi, dags. 17. apríl 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 30. apríl 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. maí 2020. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi óskar eftir að niðurfelling heimilisuppbótar miðist við […].
Í kæru segir að kærandi hafi fengið greidda heimilisuppbót frá mars 2018 en Tryggingastofnun hafi afturkallað heimilisuppbótina frá febrúar 2019. Í kæru er greint frá þeim skilyrðum sem fram komi á heimasíðu stofnunarinnar um skilyrði greiðslna heimilisuppbótar og í hvaða tilfellum fella eigi hana niður. Nánar tiltekið sé þar tilgreint að heimilt sé að fella niður heimilisuppbót ef einstaklingur búi ekki lengur einn, ef tekjutrygging falli niður, ef flutt sé úr landi eða ef skipt sé um húsnæði.
Tryggingastofnun vilji fella niður heimilisuppbót frá þeim tíma sem hann hafi gifst, þ.e. 30. janúar 2019. Að mati kæranda sé eðlilegt að heimilisuppbótin verði felld niður frá og með […] þegar eiginkona hans hafi flutt til hans. Fram að þeim tíma hafi hann búið einn og hafi því uppfyllt skilyrði til að þiggja heimilisuppbót.
Eiginkona kæranda hafi aldrei dvalið á X fyrr en […]. Hún hafi fljótlega fengið atvinnuleyfi og persónuafsláttur hennar hafi tekið gildi […] samkvæmt ákvörðun Ríkisskattstjóra. Skattstjóri byggi ákvörðun um persónuafslátt á búsetu á Íslandi en miði ekki við giftingardag þeirra og því sé eðlilegt að aðrar opinberar stofnanir miði við sömu forsendur. Eins telji kærandi rétt að Tryggingastofnun miði við þær reglur sem komi fram á heimasíðu stofnunarinnar.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé stöðvun heimilisuppbótar og endurkrafa með 15% álagi frá 1. febrúar 2019.
Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 3. janúar 2020, hafi kæranda verið tilkynnt um stöðvun heimilisuppbótar frá 1. febrúar 2019 þar sem samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá hefði kærandi gift sig þann 30. janúar 2019. Í bréfinu hafi komið fram að ef engin andmæli bærust yrði krafa mynduð frá 1. febrúar 2019 með 15% álagi. Andmæli kæranda bárust í tölvupóstum 10. janúar 2020 og 14. janúar 2020 sem hafi verið svarað með bréfi, dags. 5. febrúar 2020, þar sem fram komi að ekki hafi verið hægt að taka tillit til andmælanna og að krafa að fjárhæð 557.871 kr. hefði verið mynduð með 15% álagi. Þann 19. febrúar 2020 hafi Tryggingastofnun samþykkt greiðslu heimilisuppbótar til kæranda frá 1. mars 2018 til 31. desember 2018, eða tvö ár aftur í tímann frá því að umsókn, dags. 17. febrúar 2020, barst stofnuninni.
Samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða einhleypingi, sem njóti óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, að auki heimilisuppbót. Eigi viðkomandi rétt á skertri tekjutryggingu samkvæmt lögum um almannatryggingar skuli lækka heimilisuppbótina eftir sömu reglum.
Nánar sé fjallað um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri í reglugerð nr. 1052/2009 ásamt reglugerðarbreytingum.
Samkvæmt 45. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar skuli Tryggingastofnun reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á. Í 2. mgr. 45. gr. komi fram að grundvöll bótaréttar megi endurskoða hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum sem orðið hafi á aðstæðum greiðsluþega. Í 3. mgr. 45. gr. komi svo fram að leiki rökstuddur grunur á að bótaréttur sé ekki fyrir hendi sé heimilt að fresta greiðslum tímabundið á meðan mál sé rannsakað frekar og stöðva greiðslur komi í ljós að bótaréttur sé ekki fyrir hendi. Um ofgreiðslur og vangreiðslur fari samkvæmt 55. gr. laganna. Í 5. mgr. 45. gr. segi svo að komi í ljós að rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar hafi vísvitandi verið veittar eða einstaklingur hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að njóta tryggingar eða fá óréttmætar greiðslur, skuli greiðsluþegi endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi.
Kærandi hafi sótt um greiðslu heimilisuppbótar með umsókn, dags. 8. nóvember 2019, og hafi hún verið afgreidd frá 1. janúar 2019. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá sé kærandi í hjúskap frá og með 30. janúar 2019. Sú skráning hafi verið framkvæmd í Þjóðskrá þann 18. desember 2019.
Kærandi segi í kæru að það sé rétt að hann hafi gengið í hjúskap í janúar 2019 en kona hans hafi ekki […] fyrr en í […] og því eigi að miða stöðvun heimilisuppbótarinnar við þá dagsetningu.
Í málinu liggi fyrir að kærandi sé giftur frá því í janúar 2019 en hafi ekki verið í samvistum við maka sinn fyrr en í […]. Þegar svo hátti til sem hér segi, þ.e. að um giftan einstakling sé að ræða, séu skilyrði heimilisuppbótar ekki uppfyllt þar sem kærandi sé ekki einhleypur. Kærandi eigi því ekki rétt á greiðslu heimilisuppbótar frá þeim tíma sem hann gekk í hjúskap.
Í 5. mgr. 45. gr. laga um almannatryggingar segi að komi í ljós að rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar hafi vísvitandi verið veittar eða einstaklingur hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að njóta tryggingar eða fá óréttmætar greiðslur skuli greiðsluþegi endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi.
Í máli þessu hafi kærandi verið í hjúskap frá því í janúar 2019 og hafi því ekki uppfyllt skilyrði fyrir greiðslum frá 1. febrúar 2019. Kæranda hafi verið skylt að upplýsa Tryggingastofnun um stofnun hjúskaparins, sbr. 39. gr. laga um almannatryggingar, sem hann hafi ekki gert þegar hann sótti um í nóvember 2019. Tryggingastofnun telji að kærandi hafi verið meðvitaður um þá skyldu sína, enda hefur hann verið á greiðslum frá stofnuninni frá árinu X og hafi ítrekað verið upplýstur um skyldu sína til að láta vita ef breytingar verði á aðstæðum í umsóknum sem hann hafi skilað inn til stofnunarinnar. Í ljósi þess telji Tryggingastofnun að kærandi hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að fá óréttmætar greiðslur. Því beri kæranda að endurgreiða ofgreiddar bætur með 15% álagi, sbr. 5. mgr. 45. gr. laga um almannatryggingar.
Tryggingastofnun telji ljóst að stöðvun stofnunarinnar á greiðslu heimilisuppbótar til kæranda og endurkrafa hennar að viðbættu 15% álagi hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög, reglugerðir og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem ekki sé hægt að veita heimilisuppbót til giftra einstaklinga. Á þeim forsendum telji Tryggingastofnun ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðun sinni.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar og endurkrefja kæranda um ofgreiðslu heimilisuppbótar frá 1. febrúar 2019 með 15% álagi.
Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingu, segir að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.
Til þess að eiga rétt á heimilisuppbót þurfa öll skilyrði ákvæðisins að vera uppfyllt. Í reglugerð nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, með síðari breytingu, eru skilyrði ákvæðisins nánar útfærð.
Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda lög nr. 100/2007 um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Þá segir í 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð að beita skuli V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna.
Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 39. gr. laga um almannatryggingar, sem er í V. kafla laganna, er greiðsluþega skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Um eftirlit og viðurlög er fjallað í 45. gr. laganna sem er jafnframt í V. kafla laganna. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal Tryggingastofnun reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á. Einnig segir í 2. mgr. 45. gr. að grundvöll bótaréttar megi endurskoða hvenær sem er og samræma betur þeim breytingum sem orðið hafi á aðstæðum greiðsluþega. Þá segir í 2. málsl. 3. mgr. ákvæðisins að um ofgreiðslur og vangreiðslur fari samkvæmt 55. gr. Ákvæði 1. mgr. 55. gr. laganna hljóðar svo:
„Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“
Þá segir svo í 5. mgr. 45. gr. laganna:
„Komi í ljós að rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar hafi vísvitandi verið veittar eða einstaklingur hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að njóta tryggingar eða fá óréttmætar greiðslur skal greiðsluþegi endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi.“
Fyrir liggur að Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt kæranda heimilisuppbót frá 1. mars 2018 í kjölfar umsókna hans, dags. 8. nóvember 2019 og 17. febrúar 2020. Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá voru þann 18. desember 2019 skráðar upplýsingar um hjúskap kæranda frá 30. janúar 2019.
Eins og komið hefur fram þarf að uppfylla öll skilyrði 8. gr. laga um félagslega aðstoð til að eiga rétt á heimilisuppbót. Tryggingastofnun ríkisins stöðvaði greiðslu heimilisuppbótar á þeirri forsendu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 8. gr. laganna um að vera einhleypur. Samkvæmt þeirri skilgreiningu sem fram kemur í Íslenskri nútímamálsorðabók, sem birt er á netinu og unnin hjá orðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, merkir orðið einhleypur einstaklingur sem hvorki er í sambúð né í hjónabandi. Eins og fram hefur komið kvæntist kærandi 30. janúar 2019.
Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi teljist ekki einhleypur í skilningi 8. gr. laga um félagslega aðstoð og hafi hann þar með ekki uppfyllt skilyrði ákvæðisins til þess að hljóta greiðslur heimilisuppbótar frá 30. janúar 2019 þegar hann gekk í hjúskap.
Í kæru vísar kærandi til þess að líta eigi til þess að á heimasíðu Tryggingastofnunar komi fram að heimilt sé að fella niður heimilisuppbót í þeim tilfellum þegar einstaklingur búi ekki lengur einn, ef tekjutrygging falli niður, ef flutt er úr landi eða þegar skipt er um húsnæði. Kærandi telur að miða eigi stöðvun heimilisuppbótar við […] þegar eiginkona kæranda hafi flutt til hans þar sem fram að þeim tíma hafi hann búið einn. Vakin er athygli kæranda á því að á heimasíðu Tryggingastofnunar sé auk framangreinds tilgreint að einstaklingur eigi ekki rétt á heimilisuppbót nema hann sé einhleypur. Hin kærða ákvörðun verður því ekki felld úr gildi með vísan til framangreindrar málsástæðu kæranda.
Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslu heimilisuppbótar frá 1. febrúar 2019 staðfest.
Eins og áður hefur komið fram fékk kærandi greidda heimilisuppbót, þrátt fyrir að hann uppfyllti ekki skilyrði laga fyrir greiðslum. Tryggingastofnun á því endurkröfurétt á hendur kæranda samkvæmt almennum reglum, sbr. 1. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 39. gr. laganna var kæranda skylt að upplýsa Tryggingastofnun um aðstæður sem gætu haft áhrif á bætur eða greiðslur. Úrskurðarnefndin telur að leggja verði til grundvallar að kæranda hafi mátt vera ljós sú skylda hans til að upplýsa stofnunina um hjúskapinn. Í því sambandi skal tekið fram að kærandi hefur notið greiðslna frá Tryggingastofnun frá árinu X, auk þess sem á umsóknareyðublöðum stofnunarinnar kemur með skýrum hætti fram að upplýsa eigi Tryggingastofnun ef breytingar verði á tekjum eða aðstæðum, sbr. til dæmis umsókn kæranda um örorkulífeyri frá 8. nóvember 2019. Í ljósi þess telur úrskurðarnefndin að kærandi hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um hjúskap sinn. Því er fallist á að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar bætur vegna tímabilsins 1. febrúar 2019 með 15% álagi, sbr. 5. mgr. 45. gr. laga um almannatryggingar.
Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til kæranda og endurkrefja hann um ofgreiddar bætur frá 1. febrúar 2019 með 15% álagi, staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til A, og endurkrefja um ofgreiddar bætur frá 1. febrúar 2019 með 15% álagi, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir