Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 487/2017 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 487/2017

Fimmtudaginn 26. apríl 2018

A

gegn

Akraneskaupstað

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 29. desember 2017, kærir B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, ákvörðun Akraneskaupstaðar, dags. 10. nóvember 2017, um að synja beiðni hennar um áframhaldandi undanþágu frá reglum um félagslega heimaþjónustu til þess að sækja læknismeðferð á Landspítala.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi hefur þegið aðstoð frá Akraneskaupstað við að sækja læknismeðferð á Landspítala einu sinni í viku frá febrúar 2017, að undanskildum júní- og júlímánuðum sama ár. Nánar tiltekið hefur starfsmaður félagslegrar heimaþjónustu séð um að aka kæranda á bifreið hennar til og frá Landspítalanum. Kærandi óskaði eftir áframhaldandi þjónustu frá 1. janúar 2018 en var synjað á þeirri forsendu að umsóknin félli undir heilbrigðisþjónustu og væri því á ábyrgð Sjúkratrygginga Íslands. Kæranda var tilkynnt um þá ákvörðun með bréfi sveitarfélagsins, dags. 10. nóvember 2017.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 29. desember 2017. Með bréfi, dags. 8. janúar 2018, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Akraneskaupstaðar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Akraneskaupstaðar barst með bréfi, dags. 22. janúar 2018, og með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. janúar 2018, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún þurfi að fara í lífsnauðsynlega læknismeðferð tvisvar sinnum í viku á Landspítala. Í janúar 2017 hafi kæranda verið synjað um akstursþjónustu til að sækja þá læknismeðferð en sú ákvörðun hafi verið endurskoðuð í febrúar sama ár. Kærandi hafi þá fengið samþykkta aðstoð vegna tímabilsins 14. febrúar til 31. maí 2017 sem hafi síðan verið framlengd til ársloka 2017. Í nóvember 2017 hafi kæranda verið synjað um áframhaldandi stuðning með þeim rökum að það væri á ábyrgð Sjúkratrygginga Íslands/ríkisins að standa undir slíkum kostnaði, sbr. reglugerð nr. 871/2004.

Kærandi tekur fram að hún sé í þeirri stöðu að þurfa að sækja lífsnauðsynlega þjónustu utan lögheimilissveitarfélags og að hún hafi ekki val um neitt annað. Það geti ekki verið eðlilegt að vera fastur á milli stjórnsýslustiga vegna deilna um verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélags um hvor eigi að bera kostnað af slíkri þjónustu sem eigi að vera þjónustuþega að kostnaðarlausu samkvæmt lögum. Það geti heldur ekki verið tilviljun undirorpið hvort sjúklingur fái nauðsynlega aðstoð vegna þessa, eftir því hvort sveitarfélög kjósi að hafa slíkt ákvæði í sínum samþykktum eða reglum. Kærandi bendir á að það sé viðbótarálag við veikindin að þurfa að standa í slíku þrefi og það sé ekki sæmandi fyrir þjóðfélagið.

III. Sjónarmið Akraneskaupstaðar

Í greinargerð Akraneskaupstaðar er greint frá málsmeðferð sveitarfélagsins og afgreiðslum velferðar- og mannréttindaráðs en þar sé að finna helstu rök kaupstaðarins fyrir synjun á þjónustu í formi aksturs vegna læknismeðferðar. Tekið er fram að erindi kæranda lúti ýmist að liðveislu, félagslegri heimaþjónustu eða fjárhagsaðstoð en við meðferð málsins hafi verið, í samstarfi og sátt við hana og aðstandendur, litið á umsóknina sem heildstæða ósk um aðstoð við að sækja lífsnauðsynlega læknisþjónustu sem ekki sé veitt í heimabyggð. Undir það gæti fallið kostnaður aðstandenda vegna aksturs kæranda til Reykjavíkur (tími og útgjöld).

Akraneskaupstaður tekur fram að í febrúar 2017 hafi velferðar- og mannréttindaráð samþykkt að veita undanþágu frá reglum um félagslega heimaþjónustu. Samþykkt hafi verið þjónusta til að aðstoða kæranda við akstur vegna læknismeðferðar í Reykjavík einu sinni í viku. Í samvinnu við kæranda og fulltrúa hennar hafi starfsmaður félagslegrar heimaþjónustu séð um aksturinn og notast við bifreið kæranda. Í maí 2017 hafi verið samþykkt að veita kæranda áframhaldandi aðstoð einu sinni í viku frá 1. ágúst til 31. desember það ár en þjónustan myndi falla niður í júní og júlí vegna sumarleyfa. Kærandi hafi óskað eftir áframhaldandi þjónustu frá 1. janúar 2018 og sú beiðni hafi verið tekin fyrir á fundi velferðar- og mannréttindaráðs í nóvember 2017. Í bókun ráðsins komi fram að umsókn kæranda falli undir heilbrigðisþjónustu og sé því á ábyrgð Sjúkratryggingar Ísland. Umsókn kæranda um undanþágu frá reglum um félagslega heimaþjónustu hafi því verið hafnað.

Sveitarfélagið bendir á að velferðar- og mannréttindaráð, sviðsstjóri, bæjarstjóri og fulltrúar bæjarráðs hafi ákveðið í samráði við fulltrúa kæranda að aðstoð við kæranda vegna akstursins verði haldið áfram þrátt fyrir afgreiðslu velferðar- og mannréttindaráðs. Í ljósi þess verði frekari ákvörðun um þjónustu, aðstoð við akstur, ekki tekin fyrr en niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála liggi fyrir.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Akraneskaupstaðar um að synja beiðni kæranda um áframhaldandi undanþágu frá reglum um félagslega heimaþjónustu til þess að sækja læknismeðferð á Landspítala.

Í málinu liggur fyrir að kærandi hefur þegið aðstoð frá Akraneskaupstað við að sækja læknismeðferð á Landspítala einu sinni í viku frá febrúar 2017 til loka desember 2017, að undanskildum júní- og júlímánuðum sama ár. Í greinargerð Akraneskaupstaðar kemur fram að velferðar- og mannréttindaráð, sviðsstjóri, bæjarstjóri og fulltrúar bæjarráðs sveitarfélagsins hafi ákveðið, í samráði við kæranda og hennar aðstandendur, að aðstoð við kæranda vegna akstursins yrði haldið áfram þrátt fyrir afgreiðslu velferðar- og mannréttindaráðs. Því virðist sem svo að kærandi hafi áfram þegið aðstoð frá sveitarfélaginu á árinu 2018 þrátt fyrir synjun þar um. Úrskurðarnefnd velferðarmála bendir á að eftir að ákvörðun hefur verið birt hefur hún bindandi réttaráhrif á aðila máls, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að sama skapi er stjórnvald bundið af eigin ákvörðun eftir birtingu hennar.

Í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga kemur fram sú meginregla að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Æðra stjórnvaldi sé þó heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar meðan kæra er til meðferðar þar sem ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Sömu meginreglu er að finna í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála en þar segir að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar nema á annan veg sé mælt í lögum sem kæranleg ákvörðun byggist á. Úrskurðarnefndinni er þó heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar meðan kæra er til meðferðar þar sem ástæður mæla með því, bæði að eigin frumkvæði eða eftir beiðni frá kæranda. Þegar litið er til ákvörðunar Akraneskaupstaðar um að halda áfram að veita kæranda þjónustu sem þó hafði verið synjað um, sbr. bréf dags. 10. nóvember 2017, lítur úrskurðarnefndin svo á að það megi ætla að sveitarfélagið hafi með því viljað fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Þrátt fyrir framangreinda málsmeðferð sveitarfélagsins er það mat úrskurðarnefndarinnar að hin kærða ákvörðun verði tekin til efnislegrar endurskoðunar, bæði með tillliti til hagsmuna kæranda og í ljósi aðstæðna .

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við félagslega heimaþjónustu, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Samkvæmt 25. gr. laga nr. 40/1991 skal sveitarfélag sjá um félagslega heimaþjónustu til handa þeim sem búa í heimahúsum og geta ekki séð hjálparlaust um heimilishald og persónulega umhirðu vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, barnsburðar eða fötlunar. Í 26. gr. kemur fram að með félagslegri heimaþjónustu skuli stefnt að því að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsi við sem eðlilegastar aðstæður. Með félagslegri heimaþjónustu er átt við hvers konar aðstoð við heimilishald, persónulega umhirðu, félagslegan stuðning, gæslu og umönnun barna og unglinga, sbr. 27. gr. laganna. Þá segir í 28. gr. laganna að áður en aðstoð sé veitt skuli sá aðili, sem fari með heimaþjónustu, meta þörfina í hverju einstöku tilviki og læknisvottorð skuli liggja fyrir þegar um heilsufarsástæður sé að ræða.

Í 29. gr. laga nr. 40/1991 er sveitarstjórn gert að setja nánari reglur um framkvæmd félagslegrar heimaþjónustu. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti. Akraneskaupstaður hefur útfært nánar framkvæmd félagslegrar heimaþjónustu með reglum um félagslega heimaþjónustu sem samþykktar voru í bæjarstjórn 13. desember 2016.

Í 5. gr. reglnanna kemur fram að félagsleg heimaþjónusta sé fyrir þá sem eigi lögheimili á Akranesi og geti ekki séð hjálparlaust um heimilishald og persónulega umhirðu og nauðsynlegar athafnir daglegs lífs vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, veikinda, fötlunar eða af öðrum ástæðum sem velferðar- og mannréttindaráð metur gildar. Að jafnaði sé ekki veitt þjónusta á heimilið þegar aðrir heimilismenn eru eldri en 18 ára.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. reglnanna tekur félagsleg heimaþjónusta til eftirfarandi þátta:

·         Þrif og almenn heimilisstörf

·         Innlit og samvera

·         Persónulegur stuðningur og aðstoð sem ekki telst til heimahjúkrunar

·         Aðstoð og fylgd við rekstur erinda

·         Heimsending á mat

Þegar metið er hvort kærandi eigi rétt á þeirri þjónustu sem hún hefur farið fram á, verður að líta til þess að í ákvæði 27. gr. laga nr. 40/1991 er skilgreint hvað fellur undir félagslega heimaþjónustu. Að mati úrskurðarnefndarinnar fellur sú aðstoð sem kærandi hefur fengið til þess að sækja læknismeðferð í Reykjavík ekki undir skilgreiningu félagslegrar heimaþjónustu samkvæmt lögunum. Þá lítur úrskurðarnefndin til þess að lögin gera ráð fyrir ákveðnu svigrúmi fyrir sveitarfélög að útfæra nánar í sínum reglum framkvæmd þjónustunnar. Akraneskaupstaður hefur ekki fallist á að umbeðin þjónusta, þ.e. akstur kæranda frá Akranesi til Reykjavíkur til þess að sækja læknismeðferð falli undir reglurnar. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri synjun sveitarfélagsins á beiðni kæranda um áframhaldandi undanþágu frá reglum um félagslega heimaþjónustu til þess að sækja læknismeðferð á Landspítala.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Akraneskaupstaðar, dags. 10. nóvember 2017, um að synja beiðni A, um áframhaldandi undanþágu frá reglum um félagslega heimaþjónustu er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta