Hoppa yfir valmynd
30. mars 2022 Utanríkisráðuneytið

Nýsköpun og öryggismál efst á baugi í opinberri heimsókn til Finnlands

Frá heimsókn í Business Finnland - mynd

Vinátta og samskipti Íslands og Finnlands, samvinna á sviði nýsköpunar og öryggismála og stríðið í Úkraínu voru í brennidepli í opinberri heimsókn Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra til Finnlands.

Þriggja daga opinberri heimsókn ráðherra til Finnlands lauk í dag en hún var í tilefni af því að um þessar mundir eru 75 ár síðan Ísland og Finnland tóku upp formlegt stjórnmálasamband. Með í för var viðskiptasendinefnd Íslandsstofu og íslenskra fyrirtækja sem eru leiðandi í grænum orkulausnum.

Í dag átti Þórdís Kolbrún fund með Matti Vanhanen, forseta finnska þjóðþingsins en fyrr í heimsókninni hitti hún Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands og Sauli Niinistö, Finnlandsforseta. „Auk náinnar og einlægrar vináttu Íslands og Finnlands ræddum við hvernig styrkja megi samstarf ríkjanna enn frekar, ekki síst á sviði viðskipta og nýsköpunar. Óhjákvæmilega kom stríðið í Úkraínu til tals enda hefur innrásin eðli máls samkvæmt haft djúpstæð áhrif á öryggisumhverfi Finnlands. Norðurlöndin hafa verið samstíga í sínum viðbrögðum við innrásinni og átt mikið og gott samstarf.“

Fyrr í dag heimsótti Þórdís Kolbrún Evrópska öndvegissetrið um fjölþáttaógnir. 31 aðildarríki Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins eiga nú aðild að setrinu en Ísland bættist formlega í þann hóp í desember síðastliðnum. „Samvinna á sviði fjölþáttaógna hefur sjaldan verið jafn áríðandi. Hún skiptir líka höfuðmáli fyrir sameiginlega viðnámsgetu okkar og samkeppnishæfni í sífellt flóknari heimi þar sem við þurfum svo sannarlega að berjast fyrir sameiginlegum gildum okkar, fyrir lýðræði, réttarríkinu og mannréttindum.“

Í dag heimsótti ráðherra jafnframt höfuðstöðvar finnsk-íslenska tölvuleikjafyrirtækisins Mainframe Industries. Fyrirtækið var stofnað árið 2020 og verður með starfsstöðvar í bæði Helsinki og Reykjavík. Þar var meðal annars farið yfir samskipti ríkjanna á sviði leikjaiðnaðarins og nýsköpunar.

 

  • Þórdís Kolbrún og Pekka Haavisto á fréttamannafundi í Helsinki - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta