Meiri slysahætta vegna kæfisvefns en skertrar sjónar eða heyrnar
Gunnar Guðmundsson, sérfræðingur í lungnalækningum, sagði íhugunarefni á málþingi um syfju og akstur hvort krefja ætti ökumenn læknisvottorðs um hvort þeir þjáðust af kæfisvefni rétt eins og krafist væri vottorðs um sjón ökumanna áður en ökuskírteini er gefið út.
Gunnar var meðal fyrirlesara á málþingi Umferðarstofu í gær um syfju og akstur og sagði hann norskar rannsóknir sýna að ekki væri mikil hætta á slysum þótt ökumenn hefðu skerta sjón, heyrn eða hreyfigetu eða byggju við hjarta- og æðasjúkdóma. Mikil áhætta væri hjá ökumönnum sem þjáðust af áfengissýki, taugasjúkdómum, geðsjúkdómum og lyfjanotkun og mjög mikil áhætta fylgdi kæfisvefni. Af þeim sökum mætti íhuga að á vottorði vegna ökuskírteinis kæmi fram hvort viðkomandi þjáðist af kæfisvefni.
Akstur er flókið verkefni
Læknirinn benti á að akstur væri flókið verkefni, ökumenn vinni stöðugt úr upplýsingum og áreitum og frammistaða færi versnandi eftir því sem liði á daginn og þreyta sækti á. Hann sagði ýmsar orsakir geta verið fyrir þreytu og syfju, langan vinnudag, vaktavinnu, hávaða í daglegu umhverfi, síaukna og lengri afþreyingu og of lítinn svefn. Allt þetta gæti haft áhrif á frammistöðu ökumanna og versnandi frammistaða fæli í sér lengri viðbragðstíma og fleiri villur. Hann sagði um 2000 manns njóta í dag meðferðar við kæfisvefni en ljóst væri að mun fleiri þyrftu hennar við. Hann sagði dagsyfju meðal afleiðinga kæfisvefns sem fram kæmi meðal annars í óþolinmæði og einbeitingarskorti. Talið væri að kæfisvefn ylli milli 5 og 10% slysa.
Ágúst Mogensen, forstöðumaður Rannsóknarnefndar umferðarslysa, greindi frá banaslysum árin 1998 til 2006 sem rekja mætti til svefns og þreytu. Ágúst sagði að 68% banaslysa á áðurnefndu tímabili mætti rekja til 10 þátta. Sagði hann svefn fjórðu algengustu orsök næst á eftir hraða, ölvunarakstri og því að bílbelti væru ekki notuð. Hann sagði svefn ökumanna hafa orsakað 10 slys á tímabilinu og að svefn væri meðorsök í 11 slysum til viðbótar. Fjöldi látinna væri alls 27 í þessum slysum.
Upplýsingar fengnar víða
Erfitt gæti verið að ákvarða hvort svefn væri augljós orsök. Þegar ljóst væri af vettvangi að engin sýnileg viðbrögð væru, til dæmis engin hemlaför en hemlar samt sem áður í lagi, eða af upplýsingum frá farþegum, vitnum eða heilbrigðisstarfsmönnum, svo og upplýsingum um lengd ökuferðar, svefn eða athafnir ökumanns áður en ferð hófst, væri unnt að meta slíkt með nokkurri vissu.
Þá sagði Ágúst að sá sem vakað hefði í 18 klukkustundir hefði álíka skerta hæfni og sá sem hefði 0,5 prómill áfengis í blóðinu. Einnig sagði hann rannsóknir hafa sýnt að einstaklingur sem þjáðist af vægum eða miðlungs alvarlegum einkennum kæfisvefns án meðhöndlunar sýndi minni hæfni en einstaklingur sem hefði 0,6 prómill áfengis í blóðinu.
Ágúst minnti á að vegtæknilegar aðgerðir gætu dregið úr slysaáhættu af völdum syfju. Hann sagði ljóst að margir ökumenn könnuðust við þennan vanda og væru áreiðanlega tilbúnir að þiggja ráð og ábendingar.
Syfjaðir ökumenn glaðvakna
Erna Hreinsdóttir, tæknifræðingur hjá Vegagerðinni, greindi frá tilraunum Vegagerðarinnar með svonefndar vegrifflur. Rifflur í vegum eru skilgreindar sem umferðartæknileg aðgerð til að vekja athygli ökumanna á að þeir séu í þann veginn að keyra út af vegi eða yfir á akrein með umferð á móti.
Fræstar eru öldur í vegkanta og við miðlínu á malbikuðum vegum og sagði Erna slíka kafla nú á Grindavíkurvegi og á Hringveginum á Kjalarnesi og við vegkanta í Svínahrauni. Verður ökumaður strax var við ef hann ekur óvart yfir rifflurnar og glaðvaknar ef hann hefur dottað. Vegrifllur koma ekki í stað vegriða en þær væru ódýr kostur, kostuðu innan við 400 þúsund krónur á hvern kílómetra. Sagði hún tölur frá Bandaríkjunum sýna að vegrifflur í vegköntum fækkuðu slysum vegna útafaksturs um 31-70%.
Sagðist hún hafa fengið jákvæð viðbrögð við þessum aðgerðum, meðal annars frá ökumönnum sem þökkuðu fyrir að rifflurnar hefðu vakið sig. Lagði hún til að rifflur verði íhugaðar gaumgæfilega sem ódýr og áhrifamikill kostur til að fækka slysum og bjarga þannig mannslífum, koma í veg fyrir meiðsl og örorku og draga úr eignatjóni.
Tæknibúnaður í bílum
Ágúst Hallvarðsson, sölustjóri hjá Brimborg, greindi frá nýjungum sem Volvo hefur sett í bíla og hafa þann tilgang að vekja ökumann ef bíll hans tekur að rása óeðlilega eða leitar út af vegi. Skynjarar nema línumerkingar á vegum og gefur búnaðurinn frá sér hljóð til að vekja athygli ökumanns. Á sama hátt er athygli ökumanns vakin ef bíllinn tekur að rása, þá bendir búnaðurinn á að nú sé mál að taka hlé frá akstrinum og hvílast eða nærast.
Umferðarstofa hefur gefið út bækling um syfju og akstur. Kemur þar meðal annars fram að syfja sé talin jafn hættuleg ökumönnum og ölvun við akstur, syfja ökumanns sé orsök fyrir um 13% framanáárekstra og útafakstur megi í 12% tilvika rekja til syfju.
Sjá má ýmsar gagnlegar upplýsingar um syfju og akstur á vefsíðunni 15.is.