Hoppa yfir valmynd
3. febrúar 2012 Utanríkisráðuneytið

Hoyvíkurráðið fundar í Reykjavík

Össur Skarphéðinsson og Kaj Leo Johannesen við upphaf fundarins í gær
Össur Skarphéðinsson og Kaj Leo Johannesen við upphaf fundarins í gær

Á árlegum fundi Hoyvíkurráðsins sem haldinn var í Reykjavík í gær ræddu Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Kaj Leo Johannesen lögmaður Færeyja aukin viðskipti milli Íslendinga og Færeyinga. Á síðasta ári fluttu Íslendingar vörur að verðmæti 3,3 milljarða króna til Færeyja og Færeyingar fyrir um 2 milljarða til Íslands. Einkum er um að ræða sjávarafurðir en Færeyjar eru í auknum mæli að verða mikilvægur markaður fyrir landbúnaðarafurðir. Því til dæmis má nefna að flutt voru um 800 tonn af lambakjöti frá Íslandi til Færeyja í fyrra.

Hoyvíkursamningurinn er, að EES-samningnum frátöldum, víðtækasti fríverslunarsamningur sem Ísland hefur gert. Hann tekur meðal annars til vöruviðskipta, þjónustuviðskipta, frjálsrar farar fólks og búseturéttar, stofnsetningarréttar, fjármagnsflutninga og fjárfestinga, auk þess sem hann leggur einnig bann við mismunun af öllu tagi.

Meðal annarra umræðuefna á fundi Hoyvíkurráðsins voru loðnuveiðar en Íslendingar gáfu Færeyingum kvóta þegar kreppa gekk yfir eyjarnar undir lok síðustu aldar. Einnig var ítarlega farið yfir stöðuna í makrílviðræðunum. Þá var rætt um skipti á starfsmönnum milli utanríkisþjónustu Íslands og Færeyja.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir Hoyvíkursamininginn hafa rækilega sannað gildi sitt og viðskipti milli Íslendinga og Færeyinga fari sívaxandi. Hann hafi hug á að auka viðskiptin enn frekar enda séu Færeyjar rísandi markaður fyrir heilnæmar íslenskar landbúnaðarvörur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta