Bókaþjóðin kynnt innan ESB
Sýningin Sögueyjan Ísland - Portrett af íslenskum samtímahöfundum opnaði í dag í húsakynnum framkvæmdastjórnar ESB í Brussel þar sem um 1000 starfsmenn framkvæmdastjórnarinnar, aðallega á sviði mennta-, menningar- og æskulýðsmála, starfa. Sýningin sem er hönnuð af Matthias Wagner K byggir á veggspjöldum með portrettljósmyndum Kristins Ingvarssonar ljósmyndara af á þriðja tug íslenskra rithöfunda og viðtölum Péturs Blöndal blaðamanns við þá um hvað í íslenskum söguarfi hafi helst haft áhrif á listsköpun þeirra. Sýningin hefur verið þýdd á fimm tungumál og hafa sendiráð og bókmenntastofnanir víða um heim notað hana til kynningar á íslenskum samtímabókmenntum.
Þórir Ibsen, sendiherra Íslands gagnvart ESB, og Jan Truszczynski, framkvæmdastjóri stjórnarsviðs mennta- og menningarmála, opnuðu sýninguna. Framkvæmdastjórinn sagði að íslenskar miðaldabókmenntir væru gimsteinn innan heimsbókmenntanna og þakkaði fyrir að fá tækifæri til að kynnast betur bókmenntaarfleið bókaþjóðarinnar íslensku í gegnum sjónarhorn íslenskra samtímahöfunda. Á sýningunni lágu frammi tugir íslenskra bóka sem þýddar hafa verið á ensku, þýsku og frönsku.
Björk Óskarsdóttir, fiðluleikari, spilaði íslensk sönglög eftir Sigfús Halldórsson og Atla Heimi Sveinsson. Á opnuninni var jafnframt sýnd ný heimildarmynd eftir Helgu Brekkan, Iceland's Artists and Sagas.
Ísland sem bókaþjóð hefur verið áberandi í Evrópu undanfarna mánuði eftir heiðursþátttöku Íslands á stærstu bókasýningu heims, Frankfurter Buchmesse, í október sl. en framkvæmdastjórn ESB var einn styrktaraðili hennar. Í ágúst sl. var svo Reykjavíkurborg útnefnd bókmenntaborg UNESCO.
Bókmenntakynningin er liður í viðleitni sendiráðs Íslands í Brussel til að efla áhuga fyrir Íslandi og íslenskri menningu í Belgíu, sem og í umdæmisríkjunum Hollandi og Lúxemborg. Í síðustu viku var Sögueyjan í Evrópuþinginu og á næstunni verður hún sett upp í fleiri stofnunum Evrópusambandsins og í menningarstofnunum í Benelúxlöndunum.
Nánari upplýsingar má finna á vef Sögueyjunnar.