Fundur um þróunarmál í Reykjavík
Árlegur fundur ráðuneytisstjóra þróunarmála frá Íslandi, Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð, Bretlandi, Írlandi og Hollandi var haldinn í Reykjavík í dag og í gær. Ríkin eiga reglulegt samráð um það sem hæst ber í þróunarmálum á heimsvísu sem hefur lagt grunninn að árangursríku samstarfi þeirra á alþjóðavettvangi.
Á fundinum var kynnt staða og stefna í þróunarsamvinnu í fyrrgreindum ríkjum, rætt var um undirbúning nýrrar stefnu Evrópusambandsins í þróunarmálum, og undirbúning og samvinnu í tengslum við Ríó+20 ráðstefnuna um sjálfbæra þróun sem haldin verður í Ríó de Janeiró í júní. Ennfremur var rætt um eftirfylgni Búsan-yfirlýsingarinnar um skilvirkni og árangur þróunarsamvinnu sem samþykkt var í desember síðastliðinn, sem og framvindu þúsundaldarmarkmiða Sþ og hvað mun taka við af þeim árið 2015.
Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, stýrði fundinum.
Mynd: (frá vinstri) Ib petersen, Stephen Brown, Ingrid Fiskaa, Einar Gunnarsson, Anna Sipiläinen, Rob Swartbol, Michael Gaffey og Björn Anderson.