Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2018 Forsætisráðuneytið

Setning fullveldishátíðar 1. desember

Fullveldishátíðin verður sett fyrir framan Stjórnarráðshúsið laugardaginn 1. desember kl. 13:00 og mun Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, setja hátíðina þar sem haldin verða stutt ávörp í bland við tónlistarflutning. Meðal gesta við setningarathöfnina verða Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Margrét II. Danadrottning og Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur.

Ríkisstjórn Íslands efnir til fullveldishátíðar í tilefni þess að 100 ár eru liðin síðan Ísland öðlaðist fullveldi. Ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna tekur virkan þátt í athöfninni og munu tveir fulltrúar ráðsins ávarpa viðstadda, þau Kristbjörg Mekkín Helgadóttir og Mathias Bragi Ölvisson. Þá mun Jelena Ćirić tónlistarkona flytja ávarp.

Söngfólk ásamt blásarasveit annast tónlistarflutning við athöfnina. Tónlistarstjóri er Samúel Jón Samúelsson. Kórarnir sem fram koma eru Hinsegin kórinn, Skólakór Kársness, Kvennakórinn Katla, Múltíkúltíkórinn, Söngfélagið, Karlakór Kjalnesinga, Ekkó kórinn og Léttsveitin, ásamt tveimur söngvurum sem syngja á íslensku táknmáli. Setningarathöfnin verður í beinni útsendingu í sjónvarpi RÚV.

Rauði krossinn mun bjóða upp á heitt kakó á Lækjartorgi í tilefni dagsins.

Vakin er athygli á því að skipulagt hátíðarsvæði er Lækjartorg, Lækjargata, Bankastræti, Hverfisgata og Arnarhóll og að umferð ökutækja er takmörkuð um svæðið meðan á athöfn stendur.

Lokanir vegna fullveldishátíðar 1. desember

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta