Hoppa yfir valmynd
20. september 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 346/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 346/2023

Miðvikudaginn 20. september 2023

Dánarbú A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 11. júlí 2023, kærði B, f.h. dánarbús A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 23. maí 2023 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2022.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

A fékk greiddar tekjutengdar greiðslur á árinu 2022. A lést 11. apríl 2022 og tók þá kærandi við öllum réttindum og skyldum hennar. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. maí 2023, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna fyrir árið 2022 hafi leitt í ljós ofgreiðslu bóta að fjárhæð 30.016 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. júlí 2023. Með bréfi, dags. 24. júlí 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 4. ágúst 2023, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. ágúst 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að kærð sé niðurstaða Tryggingastofnunar ríkisins um endurútreikning bóta.

A hafi látist þann 11. apríl 2022. Eftir þann dag hafi greiðslur bóta frá Tryggingastofnun til hennar stöðvast, eins og eðlilegt sé. Í bréfi sem hafi borist ættingjum frá Tryggingastofnun þann 16. maí 2022 komi skýrt fram að skuldastaða A hafi verið 0 kr. Eftir endurútreikning bóta hjá Tryggingastofnun í maí 2023 hafi skuldastaða hennar skyndilega verið 30.016 kr. Að mati kæranda sé óskiljanlegt hvernig látin manneskja geti safnað skuld við Tryggingastofnun.

Eftir dánardag tilheyri dánarbú eftirlifandi ættingjum og því sé um að ræða þjófnað á fjármunum ættingja. Látin manneskja geti ekki með nokkru móti safnað skuldum. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að taka þær fjármagnstekjur sem kærandi hafi fengið eftir andlátið og reiknað sem tekjur fyrir heilt ár. Í 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 standi skýrt að eignarrétturinn sé friðhelgur. Því geti Tryggingastofnun ekki seilst í vasa ættingja dánarbús.

Farið sé fram á að skuldin við Tryggingastofnun verði felld niður.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2022.

Um útreikning ellilífeyris hafi verið fjallað í III. kafla þágildandi laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi verið kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun skyldi standa að útreikningi bóta.

Samkvæmt þágildandi 16. gr. laga um almannatryggingar hafi Tryggingastofnun borið að líta til tekna við útreikning bóta, meðal annars ellilífeyris, sbr. 33. gr. núgildandi laga um almannatryggingar. Í 2. mgr. greinarinnar hafi komið fram að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teldust tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teldist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum, sbr. 30. gr. núgildandi laga um almannatrygginga.

Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. þágildandi laga um almannatryggingar lækki ellilífeyrinn um tiltekið hlutfall af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn falli niður.

Í 5. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi komið fram að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skyldi leggja 1/12 af áætluðum tekjum greiðsluþegans á bótagreiðsluárinu. Þá hafi sagt að áætlun um tekjuupplýsingar skyldi meðal annars byggjast á nýjustu upplýsingum frá greiðsluþega, sbr. 39. gr. laganna þar sem hafi sagt að greiðsluþega væri skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem gætu haft áhrif á bætur eða greiðslur.

Í 3. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009.

Í 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 598/2009 segi að við endurreikning bóta til þeirra sem bótaréttur breytist hjá í kjölfar breyttra aðstæðna, sbr. 2. mgr. 6. gr., gildi eftirfarandi:

„a) Byggja skal á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda þegar um er að ræða tekjur sem eru staðgreiðsluskyldar samkvæmt lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Ef bótagreiðsluár skiptist í tvö eða fleiri útreikningstímabil skal endurreikningur bóta taka mið af því á hvaða tímabili þessar tekjur eru skráðar í staðgreiðsluskrá.

b) Aðrar tekjur en þær sem greinir í a-lið 2. mgr. skulu hafa áhrif á endurreikning bóta í hlutfalli við fjölda þeirra mánaða sem tilheyra hverju tímabili. Þegar hjúskap eða sambúð er slitið á bótagreiðsluári er þó heimilt að undanskilja þessar tekjur að hluta eða öllu leyti við endurreikning tímabilsins eftir að hjúskaparstaða breyttist.“

Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Ef í ljós komi við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 34. gr. laga um almannatryggingar. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

A hafi þegið ellilífeyri frá Tryggingastofnun frá 1. janúar til 30. apríl 2022.

Með bréfi, dags. 28. janúar 2022, hafi A hafi verið send tillaga að tekjuáætlun fyrir árið 2022. Þar hafi verið áætlað að A kæmi til með að hafa 1.741.329 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 28.668 kr. í fjármagnstekjur á árinu. Með öðrum orðum hafi verið áætlað að hún hefði 580.443 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 16.664 kr. í fjármagnstekjur á tímabilinu 1. janúar til 30. apríl 2022. Þá hafi henni einnig verið bent á að tekjutengd réttindi yrðu endurreiknuð þegar álagning skattyfirvalda lægi fyrir. A hafi fengið greiddar tekjutengdar greiðslur sínar á grundvelli þeirrar tekjuáætlunar þessa fjóra mánuði.

Í upplýsingabréfi í tengslum við andlát A, dags. 16. maí 2022, hafi verið minnt á að þegar staðfest skattframtal lægi fyrir myndi stofnunin endurreikna réttindi fyrir árið 2022. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur kæranda á árinu 2022 hafi legið fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum hafi komið í ljós að kærandi hafi í raun haft 575.478 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 114.797 kr. [í vexti og verðbætur] á umræddu tímabili. Samkvæmt því hafi fjármagnstekjur kæranda verið vanáætlaðar á áðurnefndri tekjuáætlun og því hafi hún fengið ofgreiddar tekjutengdar greiðslur á árinu 2022.

Kærandi geri athugasemd við það að skuld geti myndast vegna ofgreiðslu eftir andlát greiðsluþega.

Í þágildandi 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar hafi komið fram að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teldust tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teldist til tekna og tiltekinna frádráttarliða í 30. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga eða takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Í þessu ákvæði hafi því verið tilgreint við hvaða tekjur Tryggingastofnun skyldi miða útreikning og endurreikning bóta og jafnframt hafi verið tilgreindar þær undantekninga sem stofnuninni hafi borið að hafa hliðsjón af við þá framkvæmd. Til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar hafi verið lagðar 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins í samræmi við 5. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar. Tekjurnar hafi verið áætlaðar á grundvelli upplýsinga um tekjur A á fyrri árum. Tryggingastofnun hafi upplýst A um forsendur bótaútreikningsins, minnt á skyldu hennar til þess að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem gætu haft áhrif á greiðslur til hennar og gefið henni kost á að koma að athugasemdum með bréfi, dags. 28. janúar 2022, sbr. 9. mgr. 16. gr. þágildandi laga.

Í samræmi við 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 598/2009 höfðu fjármagnstekjur kæranda áhrif á endurreikning greiðslna í hlutfalli við fjölda þeirra mánaða sem kærandi hafi þegið ellilífeyri á árinu 2022.

Eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur greiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda sé Tryggingastofnun skylt að endurreikna fjárhæðir greiðslna á grundvelli endanlegra upplýsinga um tekjur greiðsluþega á árinu sem liggi þá fyrir, sbr. 2. mgr. 33. gr. núgildandi laga um almannatryggingar. Ef Tryggingastofnun hafi ofgreitt bætur til greiðsluþega sé stofnuninni skylt að endurkrefja það sem hafi verið ofgreitt í samræmi við 34. gr. laganna. Meginreglan sé því sú að ef tekjur þær sem lagðar séu til grundvallar endurreikningi reynist hærri en tekjuætlun hafi gert ráð fyrir og ofgreiðslan stafi af því að bótaþegi hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður, þá skuli sú ofgreiðsla endurkrafin. Þá skipti ekki máli hvort greiðsluþegi hafi getað séð fyrir þessa tekjuaukningu eða breyttu aðstæður. Niðurstaða endurreiknings og uppgjör tekjutengdra greiðslna hafi því ekki legið fyrir fyrr en 16. maí 2022.

Kærð ákvörðun sé í samræmi við lög og reglur sem gildi um uppgjör og endurreikning tekjutengdra bóta. Tryggingastofnun fari því fram á að ákvörðun stofnunarinnar frá 23. maí 2023 um niðurstöðu endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2022, verði staðfest fyrir nefndinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2022.

A fékk greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins í janúar til og með apríl 2022. Í þágildandi 1. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar kemur fram að lífeyristryggingar taki m.a. til ellilífeyris.  

Samkvæmt þágildandi 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunni að hafa áhrif á bótarétt.

Í þágildandi 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í þágildandi 2. mgr. ákvæðisins segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með tilteknum undantekningum. Á grundvelli 3. mgr. 33.gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Ef í ljós kemur við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 34. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Samkvæmt gögnum málsins sendi Tryggingastofnun A tekjuáætlun, dags. 28. janúar 2022, vegna ársins 2022 þar sem gert var ráð fyrir 1.741.329 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 28.668 kr. í vexti og verðbætur á árinu. Þann 1. mars 2022 sendi A Tryggingastofnun nýja tekjuáætlun þar sem hún gerði ráð fyrir 1.741.329 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 50.000 kr. í vexti af innistæðum. Sú tekjuáætlun var samþykkt af Tryggingastofnun þann 30. mars 2022, bótaréttur var endurreiknaður og A var jafnframt upplýst um áætlaða kröfu að fjárhæð 1.646 kr. Samkvæmt nýju tekjuáætluninni var gert ráð fyrir að fyrstu fjóra mánuði ársins, janúar til apríl 2022, fengi hún 580.443 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 16.664 kr. í vexti og verðbætur. A lést þann 11. apríl 2022. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 16. maí 2022, var dánarbúinu gefnar upplýsingar í tengslum við andlát. Með bréfinu fylgdi kröfuyfirlit þess efnis að skuldastaða þess væri 0 kr.

Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2022 reyndust lífeyrissjóðstekjur A fyrstu fjóra mánuði ársins vera 575.478 kr. og fjármagnstekjur 114.797 kr. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna janúar til apríl 2022 leiddi í ljós ofgreiðslu að fjárhæð 30.016 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Dánarbúið hefur verið krafið um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar.

Samkvæmt framangreindu reyndust fjármagnstekjur A vera hærri á árinu 2022 en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlun og leiddu til kærðrar ofgreiðslukröfu. Fjármagnstekjur í formi vaxta og verðbóta eru tekjustofn sem hefur áhrif á bótarétt samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. C-lið 7. gr. laga um tekjuskatt. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur.

Kærandi gerir þær athugasemdir að krafa Tryggingastofnunar sé á hendur dánarbúinu eftir andlát A og að með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 16. maí 2022, hafi ættingjum hennar verið greint frá því að skuldastaðan væri 0 kr. Eins og greint er frá hér að framan eru tekjutengdar bætur greiddar á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun. Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs ársins 2022 var aftur á móti byggð á upplýsingum í skattframtali dánarbúsins vegna ársins 2022 sem liggur ekki fyrir fyrr en árið 2023. Í bréfi Tryggingastofnunar til kæranda, dags. 16. maí 2022, var greint frá því að þegar staðfest skattframtal lægi fyrir myndi stofnunin endurreikna réttindi fyrir árið 2022. Því var skuldastaða dánarbúsins þann dag einungis bráðabirgðarniðurstaða þar til upplýsingar út skattframtali lægju fyrir.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun um endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum A vegna ársins 2022.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum dánarbús A, á árinu 2022, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta