96 þúsund manns nýttu skattahvata og gáfu milljarða til almannaheillastarfsemi
Hátt í 96.000 einstaklingar nýttu sér skattahvata til að styðja við almannaheillastarfsemi á síðasta ári. Lög um skattalega hvata til almannaheillastarfsemi tóku gildi á síðari hluta ársins 2021 og var árið 2022 því fyrsta heila árið sem þau giltu.
Lögin fela í sér að einstaklingar geta dregið allt að 350 þúsund krónur á ári frá skattskyldum tekjum sínum utan atvinnurekstrar vegna framlaga til almannaheillastarfsemi. Alls drógu einstaklingar um 4,8 milljarða króna frá tekjuskattsstofni sínum í fyrra vegna slíkra framlaga en í heild námu framlög einstaklinga og lögaðila til almannaheillafélaga 6,6 milljörðum króna.
Með lagabreytingunum var auk þess kveðið á um tvöföldun á hlutfalli sem atvinnurekstraraðilar mega draga frá skattskyldum tekjum vegna slíkra framlaga og fór það úr 0,75% í 1,5%. Um svipað leyti var frádráttarheimild atvinnurekenda vegna framlaga til kolefnisjöfnunar tvöfölduð, úr 0,75% í 1,5%. Alls geta atvinnurekendur því fengið frádrátt frá skattskyldum tekjum sem nemur 3% á ári vegna framlaga sinna.
Í lögunum felst jafnframt að almannaheillafélög njóta ýmissa undanþága frá greiðslu skatta, m.a. frá greiðslu tekjuskatts og staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, auk undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts í tilteknum tilvikum.
Enn fremur fela lögin í sér að aðilar sem starfa til almannaheilla eru undanþegnir greiðslu stimpilgjalds og geta auk þess sótt um endurgreiðslu á allt að 100% greidds virðisaukaskatts af vinnu manna á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra . Þá er í lögunum veitt undanþága frá greiðslu erfðafjárskatts af gjöfum til aðila í almannaheillastarfsemi.
Markmið breytinganna var að hvetja einstaklinga og fyrirtæki til að styðja við almannaheillastarfsemi milliliðalaust, auk þess að styrkja stöðu lögaðila sem starfa til almannaheilla.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:
„Það er gríðarlega ánægjulegt að sjá hve margir hafa nýtt úrræðið til að láta gott af sér leiða með stuðningi við almannaheillafélög, án milligöngu hins opinbera. Skilaboðin til þeirra sem sinna almannaheillastarfsemi eru skýr; fólk kann að meta störf þeirra.“