Hoppa yfir valmynd
18. desember 2006 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 7/2006

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 7/2006:

A

gegn

Háskóla Íslands

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 18. desember 2006 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með kæru, dags. 26. maí sl., óskaði kærandi A eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Háskóli Íslands hefði brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, með ráðningu karlmanns í starf sérfræðings við stærðfræðistofu Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands, en ráðið var í starfið frá og með 1. ágúst 2005.

Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt Háskóla Íslands með bréfi, dags. 31. maí sl. Umsögn Háskóla Íslands barst með bréfi, dags. 23. júní sl., og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi mótteknu þann 17. júlí sl. Síðastnefndar athugasemdir voru sendar Háskóla Íslands til kynningar með bréfi, dags. 17. júlí sl.

Með bréfi, dags. 1. ágúst 2006, voru málsaðilar boðaðir á fund kærunefndar jafnréttismála sem haldinn var 16. ágúst 2006. Kærandi mætti á fund nefndarinnar ásamt B lögfræðingi. Fyrir hönd Háskóla Íslands mættu D, starfsmannastjóri Háskóla Íslands og E, lögfræðingur Háskóla Íslands.

Þann 10. október sl. voru málsaðilum send þau gögn sem lögð voru fram á fundi nefndarinnar þann 16. ágúst sl. Í meðfylgjandi bréfi kærunefndarinnar til málsaðila var jafnframt tekið fram að af hálfu nefndarinnar væri ekki litið svo á að á fyrrgreindum fundi hefðu komið fram sjónarmið sem ekki teldust þegar hafa komið fram í gögnum málsins. Þann 23. október sl. bárust athugasemdir kæranda vegna framangreindra gagna og voru þær sendar Háskóla Íslands til kynningar með bréfi, dags. 24. október sl. Engar frekari athugasemdir bárust nefndinni.

 

II.

Málavextir

Málavextir eru þeir að Háskóli Íslands auglýsti í desember árið 2004 laust til umsóknar starf sérfræðings við stærðfræðistofu Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands. Í auglýsingu vegna starfsins var tekið fram að umsóknir sem féllu vel að áherslusviðum stofunnar í rannsóknum nytu að öðru jöfnu forgangs. Einnig kom fram að ráðið yrði í starfið til allt að tveggja ára frá 1. ágúst 2005, eða samkvæmt samkomulagi, með möguleika á framlengingu. Umsækjendur skyldu hafa lokið doktorsprófi en um hæfi umsækjenda og meðferð umsókna færi eftir lögum um Háskóla Íslands, nr. 41/1999, og reglum fyrir Háskóla Íslands, nr. 458/2000. Jafnframt kom fram að umsóknum skyldi fylgja ítarleg greinargerð um menntun, vísindaleg störf, rannsóknir og ritsmíðar auk ítarlegrar lýsingar á fyrirhuguðum rannsóknum. Æskilegt væri að umsóknum fylgdu umsagnir frá einum til þremur dómbærum mönnum á vísindasviði umsækjanda um menntun hans og vísindaleg störf.

Umsækjendur um starfið voru 24. Að mati dómnefndar voru 18 umsækjenda hæfir til að gegna starfinu. Á fundi stærðfræðistofu þann 15. júní 2005 var ákveðið að bjóða F starfið en hann þáði það ekki. Í framhaldi af því sendi stofustjóri starfsmönnum stærðfræðistofu bréf og fór þess á leit við þá að þeir kæmu með ráðningartillögur. Í framhaldi af því var boðað til framhaldsfundar þann 24. júní 2005. Á fundinum komu fram fjórar tillögur um tilnefningar í starfið. Ákveðið var að skera úr um það með skriflegum atkvæðagreiðslum með hverjum skyldi mælt í starfið. Í ljósi þeirra niðurstaðna sem fengust úr atkvæðagreiðslum lagði stofustjóri fram tillögu um að mælt yrði með tilteknum karlmanni í starf sérfræðings við stærðfræðistofu. Tillagan var samþykkt með sex atkvæðum, en einn sat hjá.

Með bréfi, dags. 8. september 2005, óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun rektors Háskóla Íslands um ráðningu í starf sérfræðings við stærðfræðistofu. Sá rökstuðningur var veittur með bréfi rektors, dags. 12. september 2005.

Í kæru til kærunefndarinnar kemur fram að kærandi telji sig hafa meiri reynslu á sviði rannsókna í stærðfræði heldur en sá sem ráðinn var. Auk þess hafi kærandi haft reynslu af kennslu í rannsóknartengdu framhaldsnámi og leiðbeiningu mastersnema en það hafi sá sem var ráðinn ekki. Að mati kæranda sé um brot á jafnréttislögum að ræða þar sem minna hæfur karlmaður hafi verið ráðinn í stöðu á stærðfræðistofu Raunvísindastofnunar þar sem engar konur séu fyrir með sérfræðingsstöður eða stöður innan stærðfræðiskorar.

Af hálfu Háskóla Íslands hefur framangreindum sjónarmiðum verið hafnað og því mótmælt að umsækjendum hafi að einhverju leyti verið mismunað á grundvelli kynferðis við ákvörðun um ráðningu í umrætt starf og því hvorki ástæða til að líta svo á að ákvæði laga nr. 96/2000 hafi verið brotin né að mat stærðfræðistofu hafi verið ómálefnanlegt.

 

III.

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er á því byggt að lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, hafi verið gróflega brotin við umrædda ráðningu. Kærandi sé ekki aðeins jafnhæf heldur hæfari en sá karlmaður sem var ráðinn. Í jafnréttisáætlun Háskóla Íslands standi: „Verði tveir eða fleiri umsækjendur um starf taldir jafnt að starfinu komnir þar sem þeir eru metnir jafn hæfir, verði umsækjandi valinn af því kyni sem er í minnihluta á umræddu starfssviði í samræmi við þau lagasjónarmið sem fram koma í dómi Hæstaréttar frá 2. desember 1993, H 1993: 2230.“ Aðeins ein kona hafi starfað sem sérfræðingur við stærðfræðistofu fyrir utan kæranda en það hafi verið árin 1975–1977. Þar fyrir utan hafi kona verið í hálfri stöðu um skeið vorið 1988. Þar starfi hins vegar tólf karlar sem annaðhvort séu með sérfræðingsstöður eða lektors-, dósents- eða prófessorsstöður innan stærðfræðiskorar eða eðlisfræðiskorar. Við stærðfræðiskor sé engin kona með fasta stöðu og hafi aldrei verið, en um það bil tíu karlar starfi þar. Það sé því ljóst að konur séu í minnihluta meðal stærðfræðinga við Háskóla Íslands.

Í auglýsingu vegna umrædds starfs hafi staðið að við ráðningu yrði tekið mið af jafnréttisáætlun háskólans, þrátt fyrir þetta hafi hvergi í öllu ferlinu verið minnst á þessa áætlun nema í bréfi G, lögfræðings Háskóla Íslands, til stærðfræðistofu í ágúst árið 2005 og verði ekki séð hvar mið sé tekið af henni. Það sé raunar mjög óljóst hvar í ráðningarferlinu ætlunin hafi verið að taka mið af jafnréttisáætlun. Svo virðist hvorki hafa verið gert í dómnefndaráliti né við leynilega atkvæðagreiðslu stofu. Við lokaákvörðun virðist rektor hafa stuðst algerlega við rökstuðning stærðfræðistofu.

Dómnefnd hafi eingöngu verið skipuð karlmönnum sem allir starfi við stærðfræðistofu þrátt fyrir að í jafnréttisáætlun háskólans standi: „Skipaðir verði fulltrúar af báðum kynjum í dómnefndir vegna nýráðninga og framgangs, verði því við komið, sbr. 20. grein laga nr. 96/2000.“ Á Íslandi starfi einungis tvær konur sem hafi doktorsgráðu í stærðfræði, þ.m.t. kærandi, en ekki hafi verið leitað til hinnar konunnar á þessum tíma um setu í dómnefnd þó svo hún hafi oft sinnt slíkum störfum og ekki hafi verið leitað erlendis að kvenkyns fulltrúa í dómnefnd. Það verði að teljast merkilegt, í ljósi þess að um er að ræða fag þar sem mjög fáar konur starfa, að háskólinn skuli ekki reyna að fylgja eigin jafnréttisáætlun.

Kærandi hafi gert nokkrar athugasemdir við álit dómnefndar um hæfi umsækjenda, meðal annars við það að karlkyns umsækjandi sem stundi rannsóknir á sama sérsviði og hún, víxlinni algebru, hafi fengið hrós fyrir að hafa fengið birtar greinar í „fine mathematical journals“ en kærandi ekki þrátt fyrir að hafa fengið greinar birtar í nákvæmlega sömu tímaritum. Dómnefnd svari því til að orðið „fine“ í umsögn um karlkyns umsækjandann hafi verið óviðeigandi og ætti að strika burt. Kærandi hafi einnig gert athugasemdir við mismunandi notkun á meðmælabréfum og mismunandi mat á umsækjendum yfir höfuð en samkvæmt minnisblaði til dómnefnda beri að gæta jafnræðis milli umsækjenda. Kærandi hafi í athugasemdum sínum gert grein fyrir þeim framförum sem höfðu orðið varðandi rannsóknaráætlun hennar síðan umsóknarfrestur hafði runnið út en það hafi öllum umsækjendum verið heimilt að gera.

Dómnefndarálit segi eftirfarandi um þann karlmann er var ráðinn: „Evaluation: H has only worked intermittently on subjects of direct relevance to the advertised post, and his achievements in them are therefore limited. They do however show that he is able to conduct independent research. We conclude that he is qualified for the post of research scientist.“ Einnig komi fram í dómnefndaráliti: „Of direct relevance to the advertised post are two papers listed in MathSciNet on sympletic geometry and invariants, and one unpublished paper from 2004 on Newton polyhedra and Poisson structures.“ Í þessu samhengi megi nefna að hin óbirta grein sem nefnd hafi verið hafi ekki verið samþykkt til birtingar og samkvæmt umsóknargögnum frá þeim sem var ráðinn hafði hún ekki verið send inn til birtingar þegar umsóknarfrestur rann út. Fyrir utan þetta hafi dómnefnd nefnt eina grein í tölvunarfræði, sem ekki sé stærðfræði, og eina grein í fléttufræði, sem sé stærðfræði en ekki á rannsóknarsviði stofunnar, sem hafi verið birtar. Báðar greinarnar hafi sá sem var ráðinn skrifað með öðrum höfundum, þótt þess hafi ekki verið getið í dómnefndaráliti.

Sá karlmaður er var ráðinn hafi fengið þrjár stærðfræðigreinar samþykktar eða birtar í ritrýndum tímaritum, þar af hafi hann verið meðhöfundur einnar en þá grein hafi dómnefnd ekki talið „of direct relevance“. Kærandi hafi fengið fimm greinar birtar og hafi verið eini höfundur þeirra allra. Sá sem var ráðinn hafi sent með umsókn greinina „Newton Polyhedra and Poisson structures from certain linear Hamiltonian circle actions“. Greinin hafi verið sett inn á vef þar sem allir geti sett þær greinar sem þeir vilji og því hægt að nálgast þar nýtt efni sem ekki enn hafi verið samþykkt til birtingar eða ritrýnt. Ekki komi fram í umsóknargögnum að sá sem var ráðinn hafi sent greinina inn til ritrýningar eða birtingar. Kærandi hafi lýst í greinargerð um rannsóknir nýrri niðurstöðu í ákveðnu rannsóknarverkefni sem hún hefði unnið að. Í athugasemdum með dómnefndaráliti hafi kærandi getið þess að niðurstaðan hefði verið samþykkt til flutnings á alþjóðlegri ráðstefnu um Gröbnergrunna í Japan í ágúst 2005. Þess megi geta að niðurstaða þessi sé nú orðin að grein sem hafi verið samþykkt til birtingar í ritrýndu alþjóðlegu tímariti. Kærandi hafi getið þess í athugasemdum við dómnefndarálit að rannsóknarverkefni sem lýst hafi verið í greinargerð um rannsóknir sem hún hafði unnið að með mastersnema væri nú lokið. Út úr þessu samstarfi hafi komið grein sem nú hafi verið samþykkt til birtingar í alþjóðlegu tímariti.

Sá sem var ráðinn hafi flutt fyrirlestra í nokkrum háskólum auk fyrirlestra hjá einkafyrirtækjum. Ekki komi fram í ferilskrá hans að hann hafi flutt fyrirlestra um rannsóknir sínar á alþjóðlegum stærðfræðiráðstefnum. Kærandi hafi flutt fyrirlestra í nokkrum háskólum og á alþjóðlegum ráðstefnum í Þýskalandi og Bandaríkjunum auk fyrirlesturs á ráðstefnu Íslenska stærðfræðafélagsins. Í athugasemdum við dómnefndarálit hafi komið fram að hún myndi flytja fyrirlestur á alþjóðlegri ráðstefnu í apríl 2005 í Rúmeníu og að hún myndi flytja fyrirlestur á alþjóðlegri ráðstefnu í Japan í ágúst 2005.

Sá sem var ráðinn hafi kennt við University of Wisconsin og University of California. Í dómnefndaráliti komi fram að hann hafi kennt mörg mismunandi námskeið í B.S.-námi og að hann hafi „high reputation“ sem kennari. Ekki hafi komið fram hvort hann hafi kennt námskeið í rannsóknarnámi eða hvort hann hafi leiðbeint mastersnemum. Kærandi hafi kennt við Stockholms Universitet, Háskóla Íslands, Kungliga Tekniska Högskolan í Stokkhólmi og Malardalens Högskola í Eskilstuna auk kennslu sem hún hafi sinnt sem doktorsnemi við Northwestern University, lllinois og Stockholms Universitet. Kærandi hafi kennt mörg mismunandi námskeið á B.S.-stigi auk algebru fyrir doktorsnema við Stockholms Universitet (rannsóknarnám). Í dómnefndaráliti hafi láðst að geta kennslu kæranda á árunum 1998–2001. Kærandi fái einnig hrós fyrir kennslu í meðmælabréfi þótt dómnefnd hafi ekki séð ástæðu til að geta þess í álitinu þar sem fjallað sé um kennslu. Kærandi hafi skilgreint, skipulagt og kennt nýtt námskeið, „Reiknialgebru“, á B.S.-/mastersstigi í stærðfræði við Háskóla íslands á vorönn 2004. Hún hafi skipulagt litla ráðstefnu í júní 2004, „Reiknialgebrudagur“. Við það tækifæri hafi kærandi flutt fyrirlestur um grunnatriði þess fags. Kærandi hafi fengið hugmynd að og hrint í framkvæmd ásamt tilteknum aðila vefsíðu sem hafi að geyma kennsluefni í notkun táknreiknikerfisins „Maple“ í stærðfræði, sem kærandi sé meðritstjóri að. Kærandi hafi leiðbeint mastersnema við Háskóla Íslands á árunum 2003–2005. Þetta hafi verið fyrsti mastersneminn sem hafi útskrifast í hreinni stærðfræði frá Háskóla Íslands og hafi kærandi skipulagt allt nám hans, bæði hvað varðaði námskeið og rannsóknir.

Í rökstuðningi stærðfræðistofu hafi verið rakin tvö meginsjónarmið og komi fram að meirihluti stærðfræðistofu telji þann sem var ráðinn hæfastan með tilliti til þessara sjónarmiða. Fyrra meginsjónarmiðið hafi verið: „Um er að ræða sérfræðingsstarf sem ráðið er í til tveggja ára, með möguleika á framlengingu. Skilgreining starfsins af hálfu stærðfræðistofu byggist annars vegar á því að um sé að ræða eina af þeim “post doc” stöðum, sem hefð er fyrir innan Raunvísindastofnunnar og eru einkum ætlaðar yngra vísindafólki, sem komið er vel áleiðis í sjálfstæðum rannsóknum og er að byggja upp tilkall til veigameiri akademískra starfa.“ Þetta sjónarmið sé að mati kæranda í nokkurri mótsögn við þær aðstæður sem hafi verið innan stærðfræðistofu um langt árabil en burt séð frá því séu engin rök fyrir því að sá karlmaður sem var ráðinn sé hæfari en kærandi með tilliti til þessa. Kærandi sé fædd árið 1964, sá sem var ráðinn sé fæddur árið 1966, þau séu því á svipuðum aldri. Kærandi sé augljóslega komin lengra áleiðis í sjálfstæðum rannsóknum en sá sem var ráðinn enda hafi hann unnið að ýmsu öðru sem ekki skipti máli varðandi hæfni til að gegna þeirri stöðu er hér um ræði. Síðara meginsjónarmiðið hafi verið: „Hins vegar er byggt á því að starfið falli vel að áherslusviðum stærðfræðistofu sem eru einkum rannsóknir í hreinni stærðfræði og stærðfræðilegri eðlisfræði. Öflug og áhugaverð rannsóknavirkni á þessum sviðum er þar forgangsatriði, sem og að nýlegar rannsóknir (þ.e. að afloknu doktorsprófi) falli vel að starfsemi stofunnar.“ Að mati kæranda falli rannsóknir hennar vel að áherslusviðum stofunnar enda hafi hún verið sérfræðingur við stofuna á árunum 2001–2005. Á hinn bóginn hafi ein grein af þremur ritrýndum greinum þess sem var ráðinn, sem hann hafi verið meðhöfundur að, verið á sviði fléttufræði sem ekki hafi verið áherslusvið stofunnar hingað til. Í starfsauglýsingu hafi komið fram: „Laust er til umsóknar starf sérfræðings við stærðfræðistofu. Umsóknir sem falla vel að áherslusviðum stofunnar í rannsóknum njóta að öðru jöfnu forgangs“, einnig hafi komið fram: „Umsækjendur skulu hafa lokið doktorsprófi. Um hæfi umsækjenda og meðferð umsókna fer eftir ákvæðum laga um Háskóla Íslands nr. 41/1999 og reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000“. Hvergi í auglýsingunni hafi komið fram að það væri sérstök ástæða til þess að telja umsækjendum doktorsritgerð ekki til tekna við mat á hæfni þeirra. Kærandi hafi sótt um og fengið nokkrar stöður á undanförnum árum á Íslandi og í Svíþjóð en hún hafi aldrei áður séð, hvorki í dómnefndarálitum né fundargerðum deilda, skora eða stofnana, að greinar sem skrifaðar séu upp úr doktorsritgerðum séu ekki taldar með. Það sé almennt frekar talið að doktorsritgerð sé þeim mun betri eftir því sem stærri hluti hennar verður að birtingarhæfum greinum. Góð doktorsritgerð sé talin merki um hæfni til að stunda rannsóknir.

Þegar sú ákvörðun hafi verið tekin af stærðfræðistofu að bjóða þeim sem var ráðinn umrædda stöðu hafi það verið að undangenginni kosningu. Ekki hafi verið kosið um rökstudda tillögu heldur hafi verið kosið á milli fjögurra aðila, síðan þriggja og að lokum á milli tveggja. Tíu atkvæðisbærir menn hafi kosið en hins vegar hafi þrír verið fjarverandi og því ekki tekið þátt í umræðum. Rökstuðningur stofustjóra hafi verið skrifaður niður einum og hálfum mánuði eftir fundinn og virðist rökstuðningurinn hafa verið skrifaður til þess að réttlæta kosningu stofunnar. Stofustjóri árétti tvisvar í bréfinu mikilvægi þess að athuga virkni að loknu doktorsprófi enda virðist það algerlega nauðsynlegt að telja doktorsritgerð ekki með. Það sé hins vegar engan veginn ljóst þegar litið sé framhjá doktorsritgerðum kæranda og þess sem var ráðinn að sá karlmaður er hlaut starfið sé hæfari þegar skoðaðar séu birtar og samþykktar greinar á áherslusviðum stofunnar eða önnur virkni sem hafi að gera með hæfni til að gegna umræddu starfi. Stofustjóri skilgreini „nýlega virkni“ sem virkni eftir doktorspróf, það sé merkilegt í ljósi þess að sá sem hlaut starfið hafi lokið sínu doktorsnámi í maí 1995 en kærandi í október 1997. Þess beri að geta að kærandi hafi eignast barn í júlí 2002 eftir að hafa verið frá vinnu vegna veikinda á meðgöngu í nokkra mánuði, auk þess hafi kærandi tekið sex mánaða fæðingarorlof frá júlí til desember 2002. Ef skoðuð sé nýleg virkni á sviðum sem hafi með umrædda stöðu að gera komi í ljós að á árunum 2003 og 2004 hafi kærandi skrifað tvær greinar sem hafi verið samþykktar til birtingar í ritrýndum tímaritum, þar af önnur þeirra í alþjóðlegu tímariti. Hún hafi einnig fundið nýjar rannsóknarniðurstöður sem lýst hafi verið í umsókn og sem nú séu orðnar að grein sem verði birt í alþjóðlegu ritrýndu tímariti. Hún hafi kennt mörg námskeið við stærðfræðiskor og séð um gerð kennsluefnis. Hún hafi verið leiðbeinandi mastersnema og búið til nýtt námskeið og hún hafi einnig kennt á mastersstigi við Háskóla Íslands. Á sama tíma, ef miðað sé við ferilskrá, hafi sá sem var ráðinn kennt árið 2003 við Berkeley háskóla og hafi árið 2004 verið „visiting“ á sama stað. Hann hafi einnig skrifað handrit að einni grein sem hann hafi ekki sent inn til birtingar þrátt fyrir að hún hafi verið tilbúin a.m.k. tveimur mánuðum áður en umsóknarfrestur hafi runnið út.

Í athugasemdum við dómnefndarálit hafi kærandi gert grein fyrir virkni sinni á fyrstu mánuðum ársins 2005 og hafi hún síst verið minni en árin 2003 og 2004. Sá sem hlaut starfið hafi átt þess kost að gera grein fyrir sinni virkni en hann hafi valið að gera það ekki.

Á lokastigi málsins hafi það verið rektor Háskóla Íslands sem hafi tekið ákvörðun. Samkvæmt svari rektors við beiðni kæranda um rökstuðning hafi hún byggt ákvörðun sína á tillögu og rökstuðningi stærðfræðistofu. Rektor hafi hins vegar ekki verið bundinn af atkvæðagreiðslu stærðfræðistofu og hefði því getað tekið mið af jafnréttisáætlun við ákvörðunina. Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 3259/2001 er varðar stöðuveitingu við Háskóla Íslands standi í V. kafla, grein fjögur: „Eins fram kemur í kafla IV hér að framan fer rektor með vald til þess að ákveða hver skuli ráðinn í starf lektors við háskólann og er hann ekki bundinn af áliti skorar eða deildarfundar í því efni.“ Það megi ætla að sama gildi um veitingu starfa sem sérfræðingur.

Prófessorarnir I og J, sem báðir stundi rannsóknir við stærðfræðistofu, hafi að eigin frumkvæði skrifað umsögn um ráðningarmálið, þar sem þeir meðal annars beri saman birt verk kæranda og þess sem var ráðinn. Þeir komist að þeirri niðurstöðu að þar halli frekar á þann sem var ráðinn.

Kærandi fellst ekki á athugasemdir K, stofustjóra stærðfræðistofu, og L, skorarformanns stærðfræðiskorar, við umsögn J og I.

Í bréfi stofustjóra til rektors, dags. 11. ágúst 2005, segir að meirihluti stærðfræðistofu hafi talið karlmann þann sem ráðinn var hæfastan þeirra umsækjenda sem að lokum komu til álita með vísan til þess að hann hefði að loknu doktorsprófi sýnt mesta virkni í rannsóknum á áherslusviðum stærðfræðistofu og að þær rannsóknir hafi að mati stofunnar verið afar áhugaverðar og fallið vel að starfsemi hennar þá hafi hann einnig komið vel út í mati á öðrum þáttum svo sem kennslu.

 

IV.

Sjónarmið Háskóla Íslands

Af hálfu Háskóla Íslands er ekki fallist á að umsækjendum hafi einhverju leyti verið mismunað á grundvelli kynferðis við ákvörðun um ráðningu í starf sérfræðings og því séu ekki efni til að líta svo á að Háskólinn hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu í starfið né að mat stærðfræðistofu hafi verið ómálefnalegt.

Um ráðningu sérfræðinga við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands fari samkvæmt lögum og reglum um Háskóla íslands og Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. Ákvörðun um ráðningu þess karlmanns er var ráðinn í starf sérfræðings við stærðfræðistofu Raunvísindastofnunnar hafi að meginstefnu til verið í samræmi við gildandi lög og reglur. Það hafi verið mat stofufundar á grundvelli umsókna, mats dómnefndar, menntunar og reynslu umsækjenda að menntun, reynsla og rannsóknasvið hans hafi skipað honum framar öðrum umsækjendum sem til greina hafi komið við ákvörðun um ráðninguna eins og fram komi í bréfi K stofustjóra til rektors, dags. 11. ágúst 2005.

 

V.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum karla og kvenna og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 24. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr. sömu laga.

Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þegar ráðið var í starf sérfræðings við stærðfræðistofu Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands, en ráðið var í starfið frá og með 1. ágúst 2005.

Auglýst var laust til umsóknar starf sérfræðings við stærðfræðistofu Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands. Tekið var fram að umsóknir sem féllu vel að áherslusviðum stofunnar í rannsóknum nytu að öðru jöfnu forgangs. Umsækjendur skyldu hafa lokið doktorsprófi, en um hæfi umsækjenda og meðferð umsókna færi samkvæmt lögum um Háskóla Íslands, nr. 41/1999, og reglum fyrir Háskóla Íslands, nr. 458/2000. Kveðið var á um það í auglýsingunni að sérfræðingurinn yrði ráðinn til rannsóknarstarfa, en kennsla við Háskóla Íslands væri háð samkomulagi milli deildarráðs raunvísindadeildar og stjórnar Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands, meðal annars um hvort kennsla skyldi teljast hluti af starfsskyldum viðkomandi sérfræðings. Umsóknum skyldi fylgja ítarleg greinargerð um menntun, vísindaleg störf, rannsóknir og ritsmíðar, auk lýsingar á fyrirhuguðum rannsóknum. Æskilegt var talið að umsóknum fylgdu umsagnir dómbærra manna á vísindasviði viðkomandi um menntun hans og vísindaleg störf.

Í dómnefndaráliti sem aflað var í tilefni af fyrirhugaðri ráðningu kom fram að bæði kærandi og karlmaður sá sem ráðinn var, sem bæði höfðu lokið tilskildu doktorsprófi, töldust hæf til að gegna hinu umrædda starfi.

Fyrir liggur í málinu að ráðning í umrædda stöðu kom til umfjöllunar á fundi stærðfræðistofu Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands hinn 19. maí 2005, en þar kom meðal annars fram hugmynd um að staðan yrði notuð sem svokölluð „post-doc“ staða. Af fundargerð stofufundar frá 15. júní 2005 þar sem fjallað var um umsóknir virðist mega ráða að ekki hafi þá legið fyrir sértæk útlistun á áhersluþáttum eða stefnumótun varðandi umrætt starf. Virðist sem fundi hafi verið frestað til frekari umfjöllunar um málið, síðar sama dag. Niðurstaða stofunnar virðist hafa verið sú á síðastnefndum fundi að val stæði á milli kæranda annars vegar og annars karlmanns en þess sem síðar var ráðinn til starfans hins vegar, og fékk kærandi stuðning fjögurra en karlmaðurinn stuðning fimm stofumanna. Síðar kom í ljós að karlmaður sá sem um ræddi kaus að taka ekki stöðuna og var því málið tekið fyrir að nýju hjá stærðfræðistofu.

Fyrir liggur fundargerð stærðfræðistofu frá 24. júní 2005 þar sem fram kemur að fjórar tilnefningar í starfið hafi komið fram, meðal annars um kæranda og karlmann þann sem ráðinn var. Fram kemur í fundargerð að tilteknir stofumenn hafi verið „löglega forfallaðir“ en þeir hefðu lýst vilja sínum varðandi þær tillögur sem fram höfðu komið og að stofustjóri hafi farið „með umboð þeirra“. Eftir allnokkrar umræður mun hafa komið fram, að skiptar skoðanir hafi verið á því með hverjum skyldi mæla í starfið og að gengið yrði til atkvæða. Eftir atkvæðagreiðslur milli þriggja umsækjenda varð niðurstaðan sú í atkvæðagreiðslu milli kæranda og karlmanns sem hlaut starfið að lokum sú að kærandi fékk fjögur atkvæði en hann sex. Í framhaldi af þessu lagði stofustjóri fram tillögu um að mælt yrði með karlmanninum í starfið og var hún samþykkt með sex atkvæðum en einn sat hjá.

Ekki verður ráðið af fundargerð þessari á hvaða sjónarmiðum afstaða tiltekinna stofumanna var reist eða hvernig hún var rökstudd. Ekki verður heldur ráðið að á þeim fundi hafi verið mörkuð stefna varðandi umrætt starf eða tilgreind þau áhersluatriði sem miðað var við, við ráðningu í það.

Með bréfi, dags. 1. júlí 2005, tilkynnti Raunvísindastofnun Háskóla Íslands rektor Háskóla Íslands að stofufundur stærðfræðistofu hefði samþykkt að mæla með því að tiltekinn karlmaður yrði ráðinn í starfið og að stjórn Eðlis-, efna- og stærðfræðistofnunar hefði fjallað um tillöguna og samþykkt hana. Í því bréfi kemur ekki fram sérstakur rökstuðningur stjórnar Eðlis-, efna- og stærðfræðistofnunar eða Raunvísindastofnunar Háskólans fyrir ráðningunni, en umrædd atkvæðagreiðsla virðist hafa verið lögð til grundvallar.

Hinn 4. ágúst 2005 ritaði rektor Háskóla Íslands bréf til deildarforseta raunvísindadeildar þar sem vísað var til tilvísaðrar tilkynningar Raunvísindastofnunar Háskólans. Í bréfi rektors er vísað til 5. gr. reglna raunvísindadeildar Háskóla Íslands um veitingu starfa, nr. 18/2002, og þess óskað að látinn sé í té rökstuðningur fyrir tillögu um veitingu umrædds starfs. Var þess óskað að fram kæmi á hvaða meginsjónarmiðum væri byggt við val milli umsækjenda, auk þess sem vakin var athygli á því að séu tveir eða fleiri umsækjendur taldir hæfastir skyldu jafnréttissjónarmið hafa áhrif við val milli þeirra og var í því sambandi vísað í jafnréttisáætlun Háskóla Íslands.

Með bréfi, dags. 11. ágúst 2005, gerði forstöðumaður stærðfræðistofu Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands grein fyrir rökstuðningi stofunnar fyrir því að mæla með þeim karlmanni sem ráðinn var í stöðuna. Þar kom fram að tvö meginsjónarmið hafi legið til grundvallar ráðningu sérfræðings til tveggja ára, annars vegar að um væri að ræða eina af þeim „post doc“ stöðum sem hefð væri fyrir innan Raunvísindastofnunar og væru einkum ætlaðar yngra vísindafólki, sem komið væri vel áleiðis í sjálfstæðum rannsóknum, og hins vegar að starfið félli vel að áherslusviðum stærðfræðistofu sem séu einkum rannsóknir í hreinni stærðfræði og stærðfræðilegri eðlisfræði. Öflug og áhugaverð rannsóknarvirkni á þessum sviðum sé forgangsatriði sem og nýlegar rannsóknir, þ.e. að afloknu doktorsprófi, sem falli vel að starfsemi stofunnar. Stærðfræðistofa hafi að lokum staðið frammi fyrir vali á milli þriggja umsækjenda. Meirihluti stærðfræðistofu hafi talið karlmann þann er var ráðinn hæfastan með vísan til framangreindra forsendna, enda hafi hann að loknu doktorsprófi „sýnt hvað mesta virkni þeirra í rannsóknum á áherslusviðum stærðfræðistofu“. Þessar rannsóknir hafi að mati stofunnar verði afar áhugaverðar og fallið vel að starfsemi hennar, auk þess sem karlmaðurinn hafi komið vel út úr mati á öðrum þáttum, svo sem kennslu. Ekki kemur fram í bréfi þessu sérstaklega með hvaða hætti afstaða „meirihluta“ stofumanna hafi komið fram að þessu leyti, en í bréfi sama aðila til lögfræðings Háskóla Íslands, dags. 3. maí 2006, kemur fram að efni bréfs þessa, þ.e. frá 11. ágúst 2005, hafi verið „lagt fyrir alla starfsmenn stofunnar og samþykkt með lítilsháttar breytingum“, en þar hafi komið fram „þau rök er hann [stofustjóri] taldi liggja henni [þ.e. niðurstöðu stofunnar] til grundvallar“.

Með bréfi, dags. 8. september 2005, óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun rektors vegna ráðningar í starfið. Í svarbréfi rektors, dags. 12. september 2005, kemur fram að samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga um Háskóla Íslands, nr. 41/1999, ráði rektor kennara og sérfræðinga til skólans samkvæmt tillögu frá deild eða stofnun. Í þessu máli hafi legið fyrir tillaga stærðfræðistofu og hafi tillagan verið rökstudd í samræmi við ákvæði reglna sem gildi um veitingu starfs í raunvísindadeild og á Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. Að öðru leyti var vísað til bréfs stofustjóra stærðfræðistofu, dags. 11. ágúst 2005, og sem rakið var hér að framan.

Í umsögn Háskóla Íslands til kærunefndar jafnréttismála, dags. 23. júní 2006, vegna erindis kæranda til nefndarinnar, eru ítrekuð þau sjónarmið sem lögð voru til grundvallar ráðningunni og í því sambandi vísað til tilvísaðs erindis stofustjóra stærðfræðistofu, dags. 11. ágúst 2005. Í samræmi við framkomna ósk komu fulltrúar Háskóla Íslands fyrir kærunefnd jafnréttismála og gerðu nánari grein fyrir ráðningarfyrirkomulagi hjá Háskóla Íslands auk þess sem áður framkomin sjónarmið voru ítrekuð.

Af framangreindu verður ekki annað ráðið en að ráðningin hafi byggst á því sjónarmiði að talið hafi verið að karlmaðurinn væri hæfari en kærandi með vísan til framangreindra forsendna varðandi starfið sem tiltekið var að lagðar hefðu verið til grundvallar, enda hafi karlmaðurinn að loknu doktorsprófi sýnt meiri virkni í rannsóknum á áherslusviðum stærðfræðistofu og að þessar rannsóknir hafi að mati stofunnar verið afar áhugaverðar og fallið vel að starfsemi hennar, auk þess sem karlmaðurinn hafi komið vel út úr mati á öðrum þáttum, svo sem kennslu.

Ekki kemur fram í rökstuðningi forstöðumanns stærðfræðistofu Raunvísindastofnunar Háskólans hvað hafi sérstaklega falist í mati á „öðrum þáttum“ eða hvernig það mat hafi komið til. Að því er varðar kennslu verður heldur ekki ráðið með hvaða hætti sá samanburður fór fram eða á hverju hann byggðist. Er kærunefnd ekki unnt að leggja mat á umræddan samanburð að þessu leyti frekar, en ekkert þykir fram komið í málinu sem bendir til að kærandi hafi ekki getað staðist viðeigandi samanburð á umræddum þáttum.

Að því er varðar þann þátt rökstuðningsins, sem lýtur að virkni í rannsóknum á áherslusviðum stærðfræðistofu eftir doktorspróf, verður ekki séð að sérstakur samanburður hafi legið fyrir við ákvarðanatökuna að því er þetta varðar, en rannsóknum og birtingum á fræðigreinum eru gerð nokkur skil í umsögn dómnefndar vegna starfsins.

Í umsögn prófessora í stærðfræði sem lagðar hafa verið fyrir kærunefnd jafnréttismála, annars vegar þeirra I og J og hins vegar þeirra K og L, um framangreind atriði, virðist mega ráða að ágreiningur sé um það meðal þeirra sem um ráðninguna fjölluðu hvernig meta hafi mátt rannsóknarvirkni eftir doktorspróf. Hvernig svo sem því mati er háttað er það álit kærunefndar jafnréttismála að sá munur hafi ekki getað talist á umsækjendunum að þessu leyti að málefnalegt hafi verið að láta það atriði hafa úrslitaþýðingu við endanlegt mat, og er þá meðal annars haft í huga að í auglýsingu vegna starfsins var tiltekið að umsóknir sem féllu vel að áherslusviðum stofunnar myndu njóta forgangs að öðru jöfnu, en hins vegar verður ekki séð að samanburður á þessum atriðum hafi fengið sérstaka umfjöllun við hið endanlega mat.

Því hefur ekki verið andmælt af hálfu Háskóla Íslands að mjög fáar konur hafa starfað við stærðfræðistofu og að karlar hafa verið þar í miklum meirihluta í kennarastöðum. Þá liggur fyrir að samkvæmt jafnréttisáætlun skólans hafi borið að líta til jafnréttis kynjanna við ráðningu í starf.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er markmið þeirra að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 195/2006, frá 16. nóvember sl., segir meðal annars: „Markmið III. kafla laganna [laga nr. 96/2000] er að stemma stigu við mismunun á vinnumarkaði, en erfitt getur verið að sanna að um hana hafi verið að ræða. Lögin yrðu að þessu leyti þýðingarlítil nema meginreglur kaflans væru skýrðar svo, að konu skuli veita starf ef hún er að minnsta kosti jafnt að því komin og karlmaður, sem við hana keppir, að því er menntun varðar og annað sem máli skiptir, þegar á starfssviðinu eru fáar konur. Ber að fylgja fordæmum réttarins um þessa lögskýringu, sbr. H. 1993:2230, H.1996:3760 og H 1998:3599.“

Með vísan til ofangreinds og eðlis þess starfs sem hér er um að ræða verður ekki fallist á það með Háskóla Íslands að fyrir hafi legið við ákvarðanatöku um ráðningu karlmanns í starf sérfræðings við stærðfræðistofu Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands að kærandi hafi ekki að minnsta kosti mátt teljast jafnhæf karlmanninum til að gegna starfinu. Þykir málsmeðferð við ákvarðanatökuna ekki styðja aðra niðurstöðu að því er þetta varðar. Rétt er að taka fram að þótt ákvarðanir um skipun eða ráðningu í opinbert starf séu háðar mati og stjórnvöld hafi rúmar heimildir til að ákveða á hvaða sjónarmiðum matið eigi að byggjast og hvert vægi einstakra atriða eigi að vera í því sambandi verður að leggja á það áherslu að þær þurfa samt sem áður að uppfylla ákveðnar kröfur um málsmeðferð og efni sem leiða af reglum stjórnsýsluréttarins til að unnt sé að taka afstöðu til þess hvort þær samrýmist ákvæðum jafnréttislaga, sbr. til hliðsjónar álit nefndarinnar í máli nr. 10/2005. Þannig verður kærunefnd jafnréttismála að vera kleift að taka efni ákvörðunar til athugunar með tilliti til fyrirliggjandi gagna eða upplýsinga og meta hvort hún fái staðist ákvæði laga nr. 96/2000.

Fram er komið að konur voru í miklum minnihluta kennara við stærðfræðistofu og lagði það sérstakar skyldur á Háskóla Íslands svo sem rakið er hér að framan. Að teknu tilliti til framangreinds verður að telja að Háskóli Íslands hafi ekki sýnt fram á það að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar þeirri ákvörðun að ráða karlmann í umrædda stöðu sérfræðings. Verður því talið að brotið hafi verið gegn 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 með ráðningunni.

Það athugast að fyrirkomulag og starfsvenjur varðandi undirbúning ráðningar geta ekki að mati kærunefndar jafnréttismála leyst Háskóla Íslands undan ábyrgð sem á honum hvílir samkvæmt ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Að áliti kærunefndar jafnréttismála telst Háskóli Íslands hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, í máli þessu.

 

Andri Árnason

Ragna Árnadóttir

Ása Ólafsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta