Hoppa yfir valmynd
21. desember 2006 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 13/2006

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 13/2006:

A

gegn

utanríkisráðuneytinu

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 21. desember var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með kæru, dags. 13. september 2006, óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort utanríkisráðuneytið hefði brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla með ákvörðun um greiðslu eftirlauna vegna starfsloka þriggja forsetaskipaðra embættismanna hjá ráðuneytinu.

Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt utanríkisráðuneytinu með bréfi, dags. 18. september 2006. Umsögn utanríkisráðuneytisins barst með bréfi, dags. 9. október 2006, og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 18. október 2006. Þær voru sendar utanríkisráðuneytinu til kynningar með bréfi, dags. 19. október 2006. Athugasemdir utanríkisráðuneytisins bárust með bréfi, dags. 30. október 2006, og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi, dags. 7. nóvember 2006. Engar frekari athugasemdir bárust nefndinni.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II.

Málavextir

Kærandi starfaði hjá utanríkisráðuneytinu árin 1954–1962, og frá 1964 þar til hún lét af störfum 31. mars 2006 en þá hafði hún náð sjötugsaldri. Kærandi, sem starfaði sem ritari, var skipuð deildarstjóri árið 1981. Kærandi kveðst hafa verið lausráðin í ráðuneytinu í þrettán ár og því hafi lífeyrishlutfall hennar einungis verið um 65% við starfslok.

Utanríkisráðuneytið kynnti kæranda drög að starfslokasamkomulagi, dags. 1. júlí 2004, sem hafði „þann tilgang að auðvelda kæranda að láta af störfum um ári áður en sjötíu ára aldri var náð“, eins og segir í umsögn ráðuneytisins til kærunefndarinnar, dags. 9. október 2006. Kærandi hafnaði tilboði ráðuneytisins með bréfi, dags. 18. ágúst 2004, þar sem hún fór meðal annars fram á fimm flokka launahækkun. Þeirri kröfu kæranda svaraði ráðuneytið ekki.

Kærandi telur sér hafa verið mismunað þar sem tveir karlmenn sem starfað höfðu í utanríkisráðuneytinu hefðu verið skipaðir sendiherrar nokkrum mánuðum áður en þeir hafi látið af störfum í þeim tilgangi að rétta eftirlaunakjör þeirra. Þessir karlmenn og kærandi hafi átt það sameiginlegt að vera forsetaskipaðir embættismenn. Þeir hafi því fengið umtalsverðar kjarabætur við sín starfslok sem kærandi hafi ekki fengið.

Af hálfu utanríkisráðuneytisins er því alfarið hafnað að tilhögun umræddra starfsloka, sem erindi kæranda lýtur að, hafi falið í sér brot á ákvæðum jafnréttislaga. Að mati ráðuneytisins séu störf ritara annars vegar og störf sendiherra og sendifulltrúa hins vegar hvorki sambærileg né jafnverðmæt í skilningi jafnréttislaga.

 

III.

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er á því byggt að henni hafi verið mismunað við greiðslu eftirlauna hjá utanríkisráðuneytinu. Kærandi hafi upphaflega hafið störf í utanríkisráðuneytinu 1. maí 1954 og unnið samfleytt til síðla árs 1962 er hún fluttist tímabundið af landi brott. Seinni hluta árs 1964 hafi hún komið aftur til landsins og verið lausráðin í ráðuneytinu allt til ársins 1980. Á þessum tíma hafi ekki verið greitt iðgjald af launum hennar til lífeyrissjóðs fyrr en árið 1977. Af þessu leiddi að eftirlaunahlutfall hennar hafi einungis verið um 65% við starfslok hennar við 70 ára aldur. Hún hafi gegnt starfi ritara fram til ársins 1981 þegar hún hafi verið skipuð deildarstjóri með forsetabréfi. Á ferli sínum hafi hún meðal annars um margra ára skeið gegnt störfum sem ritari ráðherra og ráðuneytisstjóra.

Það sem veki kæranda til umhugsunar um hvort brotið hafi verið á henni sé sú staðreynd að tveir karlar hafi verið skipaðir sendiherrar nokkrum mánuðum áður en þeir hafi látið af störfum um síðastliðin áramót, í þeim eina tilgangi að bæta eftirlaunakjör þeirra. Kærandi eigi það sameiginlegt með umræddum körlum að hafa verið forsetaskipaður embættismaður. Það sé augljóst að þeir hafi fengið umtalsverðar kjarabætur við sín starfslok umfram kæranda. Kærandi hafi ítrekað farið fram á kjarabætur vegna misbrests á greiðslum í lífeyrissjóð en þeirri beiðni hafi ekki verið sinnt. Er kærandi hafi leitað svara við því hvers vegna hún hafi ekki fengið sambærileg kjör og umræddir karlmenn hafi því verið svarað að þá hefði þurft að hækka laun hennar með sex mánaða fyrirvara.

Forsaga málsins sé sú að á miðju ári 2004 hafi kærandi fengið í hendur bréf frá rekstrarstjóra utanríkisráðuneytisins. Efni bréfsins hafi verið svohljóðandi: „Utanríkisráðuneytið og A gera með sér eftirfarandi samkomulag. Til að auðvelda A að láta af störfum nokkru áður en sjötíu ára aldri er náð mun ráðuneytið hækka grunnlaun A frá 1. maí 2004 úr kr. X á mánuði í kr. Y. Þessi breyting gefur henni hækkun um Z á mánuði, eða alls kr. Þ fyrir tímabilið frá 1. maí 2004 til 14. mars 2005. A lætur af störfum 14. mars 2005, þegar hún verður 69 ára. Lífeyrir hennar þá verður 63.56% af grunnlaunum, eða um kr. S. Lífeyrir hennar við starfslok við 70 ára aldur yrði til samanburðar kr. T ef ekki kæmi til launahækkun. Ráðuneytið mun gera tímabundinn ráðningarsamning við A þann 15. mars 2005 um hlutastarf og skal hún fá greiddar U kr. á mánuði. Samningurinn gildir til 14. mars 2006. Á þessu tímabili skal hún vinna að sérverkefnum skv. nánari ákvörðun síðar, allt að 10 tíma á viku.“ Þessu erindi hafi kærandi hafnað þar sem hún hafi talið eðlilegra að hún fengi fimm launaflokka hækkun einkum vegna misbrests á greiðslum til lífeyrissjóðs. Einnig krafðist kærandi skriflegrar staðfestingar á því að öll áunnin réttindi varðandi orlof, veikindadaga o.fl. myndu haldast til að endanlegra starfsloka. Enn fremur hafi kærandi óskað eftir því að tvær ferðir erlendis á vegum ráðuneytisins yrðu greiddar. Framangreindu erindi kæranda hafi ekki verið svarað af ráðuneytinu. Sem lokatilraun til að ná samkomulagi um bætt kjör við starfslok hafi kærandi skrifað ráðuneytinu erindi þann 31. janúar 2006 en því hafi ekki verið svarað. Kærandi vilji árétta að á sínum tíma hafi hún vænst þess að fá svar við erindi sínu frá utanríkisráðuneytinu þar sem hún hafi meðal annars farið fram á fimm launaflokka hækkun. Um gagntilboð hafi verið að ræða, enda hafi hún ekki hafnað starfslokabeiðni ráðuneytisins.

Kærandi vilji jafnframt taka fram að kæra hennar byggist ekki á samanburði, hvorki hvað varði menntun né stöðuheiti, heldur jöfnum rétti til bættra kjara eftir að starfsferli ljúki.

Kærandi hafi á sínum tíma lokið gagnfræðaprófi eins og algengt hafi verið á fyrri árum. Hún hafi auk þess sótt nám í Kanada á unglingsárum og búi því að mjög góðri enskukunnáttu. Kærandi hafi auk þess starfað í um það bil 11 ár á varnarmálaskrifstofu ráðuneytisins og haft þar þó nokkur sjálfstæð verkefni sem núverandi yfirmönnum sé að sjálfsögðu ekki kunnugt um.

Starfsmannamál ráðuneytisins séu að mati kæranda langt í frá eðlileg, til dæmis miðað við önnur ráðuneyti, þar sem tíð mannaskipti orsaki það að vitneskja og þekking á fortíð og bakgrunni starfsmanna sé ekki fyrir hendi. Kærandi hafi ráðist til starfa í utanríkisráðuneytið árið 1954 og á árinu 1956 hafi hún orðið ritari utanríkisráðherra en því starfi hafi hún gegnt til ársins 1962 er hún hafi flust tímabundið til Bandaríkjanna. Hún telji að sér hafi verið veitt það starf vegna þess trausts sem til hennar hafi verið borið. Síðustu tólf árin hafi hún starfað sem ritari ráðuneytisstjóra og ekki verði fram hjá því litið að slíkt starf krefjist vandvirkni og nákvæmni í hvívetna. Kæranda hafi einnig verið falið um árabil að sinna afleysingastörfum á skrifstofu forseta Íslands vegna orlofa og fæðingarorlofa, aðallega í tíð Kristjáns Eldjárns og Vigdísar Finnbogadóttur.

 

IV.

Sjónarmið utanríkisráðuneytisins

Af hálfu utanríkisráðuneytisins er því haldið fram að erindi kæranda eigi ekki við rök að styðjast og því hafni ráðuneytið því alfarið að tilhögun umræddra starfsloka hafi falið í sér brot á ákvæðum jafnréttislaga.

Í ágústmánuði árið 2004, um tveimur árum áður en kæranda hafi borið að láta af störfum, hafi ráðuneytið kynnt kæranda drög að starfslokasamkomulagi. Hafði samkomulagið þann tilgang að auðvelda kæranda að láta af störfum um ári áður en sjötíu ára aldri væri náð. Ráðuneytið hafi talið eftirsóknarvert, út frá hagræðingar- og mannauðsstjórnunarsjónarmiðum, að gera slíkt samkomulag við kæranda. Kærandi hafi hafnað samkomulaginu með bréfi, dags. 18. ágúst 2004. Ráðuneytið taldi þá ljóst að kærandi hefði ekki áhuga á gerð starfslokasamnings. Frekari viðræðum við kæranda hafi þá verið hætt enda hafi ráðuneytið talið, í ljósi yfirlýsingar kæranda, rétt að láta málið niður falla.

Með bréfi, dags. 31. janúar 2006, hafi kærandi farið fram á það við ráðuneytið að það veitti henni „góða launahækkun í starfslok“. Þegar hér hafi verið komið við sögu hafi verið tveir mánuðir í það að kæranda bæri að láta af störfum sökum aldurs, sbr. 2. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996. Ráðuneytið hafi á þessum tímapunkti talið sér hvorki heimilt né skylt að veita kæranda launahækkun.

Þeir tveir karlmenn sem kærandi ber sig saman við hafi starfað sem sendifulltrúar í ráðuneytinu. Á árinu 2005 hafi átt sér stað viðræður milli þeirra og yfirstjórnar utanríkisráðuneytisins um mögulega tilhögun starfsloka þeirra. Báðir hafi átt það sammerkt, sökum langs starfsaldurs, að vera búnir að ná svokölluðu 95 ára marki, sbr. 4. mgr. 24. gr. laga um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 1/1997. Á sama tíma hafi æðstu yfirmönnum utanríkisþjónustunnar, það er sendiherrum, fjölgað á skömmum tíma. Legið hafi ljóst fyrir að nokkur fjöldi nýrra sendiherra myndi koma til starfa á næstu mánuðum. Var talið nauðsynlegt að geta boðið þessum nýju sendiherrum störf og verkefni við hæfi.

Ráðuneytið hafi því talið, út frá hagræðingar- og mannauðsstjórnunarsjónarmiðum, heppilegt að bjóða sendifulltrúunum starfslokasamninga. Að óbreyttu hefðu þeir gegnt störfum til sjötugs, sbr. 33. gr. laga nr. 70/1996. Öðrum hefði ekki borið skylda til að láta af störfum fyrr en í ágústlok 2010 og hinum ekki fyrr en í ágústlok 2012. Hafi komist á starfslokasamningar sem hafi falið það í sér að sendifulltrúarnir fengju báðir skipun sem sendiherra frá 1. júní 2005 að telja. Samhliða hafi þeir báðir óskað, með bréfum dagsettum 2. júní 2005, eftir lausn úr embætti frá og með 31. desember 2005.

Óhjákvæmilegt sé að gera samanburð á menntun, starfsferli og fyrirkomulagi starfsloka kæranda og þeirra tveggja karla sem hún beri sig saman við. Kærandi sé fædd í marsmánuði árið 1936 og hafi lokið barnaskólaprófi. Kærandi hafi hafið störf hjá utanríkisráðuneytinu árið 1954. Hún hafi hætt störfum hjá ráðuneytinu árið 1962, en hafið störf þar að nýju árið 1964. Kærandi hafi eftir það starfað óslitið hjá ráðuneytinu, sem ritari, þar til hún hafi látið af störfum 31. mars 2006 en þá hafði hún náð sjötugsaldri. Kærandi hafi þá haft stöðuheitið deildarstjóri, samanber skipunarbréf frá árinu 1981. Rétt sé að nefna, til útskýringar, að nokkrir ritarar innan stjórnarráðsins hafi á árum áður hlotið stöðuheitið deildarstjóri, en sú nafnbót hafi falið í sér kjarabót en að jafnaði hvorki mannaforráð né yfirmannshlutverk.

Kærandi hafi starfað ritari og hafi þar af leiðandi verið lægra sett en bæði sendiherra og sendifulltrúi. Hún hafi aldrei gegnt yfirmannsstöðu og hafi aldrei haft mannaforráð með höndum. Kærandi hafi ekki verið embættismaður í skilningi 22. gr. laga nr. 70/1996 þó hún teldist æviráðin, sbr. 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum. Um launakjör og önnur kjarasamningsbundin réttindi kæranda hafi farið samkvæmt kjarasamningi Félags starfsmanna stjórnarráðsins og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs.

Annar karlanna sem kærandi ber sig saman við sé fæddur í ágústmánuði 1940 og hafi Cand. oecon gráðu. Hann hafi starfað sem fulltrúi í Seðlabanka Íslands á árunum 1967 til 1970. Hann hafi hafið störf sem fulltrúi í utanríkisþjónustu Íslands árið 1970. Hann hafi verið skipaður sendiráðsritari árið 1972, sendiráðunautur árið 1979, sendifulltrúi árið 1985, skrifstofustjóri prótókollskrifstofu utanríkisráðuneytisins árið 2004 og sendiherra þann 1. júní 2005. Á starfsferli sínum í utanríkisþjónustunni hafi hann gegnt fjölmörgum ábyrgðar- og trúnaðarstörfum fyrir íslensku utanríkisþjónustuna, erlendis jafnt sem innanlands. Hann hafi á árunum 1971 til 1981 starfað sem sendiráðsfulltrúi, sendiráðsritari og síðar sendiráðunautur í Kaupmannahöfn, Moskvu og síðar í París jafnframt því að hafa verið þar varafastafulltrúi gagnvart OECD og UNESCO. Hann hafi starfað sem sendifulltrúi í utanríkisráðuneytinu frá árinu 1981 til ársins 1985, í sendiráði Íslands í New York frá árinu 1986 til ársins 1991 jafnframt því að hafa verið þar aðalræðismaður og settur fastafulltrúi fastanefndarinnar. Hann hafi starfað í utanríkisráðuneytinu frá árinu 1992 til ársins 1994 jafnframt því að hafa gegnt þar stöðu varafastafulltrúa gagnvart Vestur-Evrópusambandinu. Hann hafi gegnt embætti skrifstofustjóra upplýsinga- og menningarskrifstofu utanríkisráðuneytisins árin 1997 til 1999. Árin 1999 til 2004 hafi hann starfað í sendiráði Íslands í París jafnframt því að vera varafastafulltrúi Íslands gagnvart UNESCO. Hann hafi gegnt embætti skrifstofustjóra prótókollskrifstofu utanríkisráðuneytisins frá árinu 2004 allt þar til hann hafi látið af störfum í árslok 2005.

Hinn karlinn sem kærandi ber sig saman við sé fæddur í ágústmánuði 1942 og hafi Cand. oecon gráðu. Á starfsferli sínum innan stjórnarráðsins hafi hann gegnt fjölmörgum ábyrgðar- og trúnaðarstörfum bæði hjá viðskiptaráðuneytinu og í íslensku utanríkisþjónustunni, erlendis jafnt sem innanlands. Hann hafi hafið störf í viðskiptaráðuneytinu sem fulltrúi árið 1970 og verið skipaður deildarstjóri þar árið 1973. Hann hafi starfað sem viðskiptafulltrúi í París frá árinu 1978 til ársins 1982 þegar hann hafi verið skipaður skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneytinu. Árið 1988 hafi hann verið skipaður sendifulltrúi í utanríkisráðuneytinu. Frá árinu 1992 til ársins 1997 hafi hann starfað í sendiráði Íslands í París jafnframt því að vera varafastafulltrúi Íslands gagnvart OECD, UNESCO og Evrópuráðinu. Hann hafi starfað í sendiráði Íslands í Washington frá árinu 1991 til ársins 2001. Hann hafi gegnt embætti sendifulltrúa hjá utanríkisráðuneytinu, frá árinu 2001, meðfram því að vera fastafulltrúi gagnvart FAO, allt þar til að hann hafi hlotið sendiherranafnbót 1. júní 2005. Hann hafi látið af störfum í árslok 2005.

Fram að setningu laga um kjararáð nr. 47/2006 hafi launakjör sendiherra og sendifulltrúa verið ákvörðuð af kjaranefnd, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga um Kjaradóm og kjaranefnd nr. 120/1992. Nú séu launakjör þeirra ákvörðuð af kjararáði. Almenningur hafi aðgang að úrskurðum þessara stjórnsýslunefnda á grundvelli upplýsingalaga og þeir hafi verið birtir á heimasíðu kjaranefndar. Því eigi sú staðhæfing kæranda að erfitt sé að komast nákvæmlega að launakjörum sendiherra og sendifulltrúa ekki við rök að styðjast.

Við úrlausn ágreinings þessa máls þurfi að skera úr um það hvort störf kæranda annars vegar og karlmannanna tveggja hins vegar hafi verið sambærileg í skilningi 14. og 23. gr. jafnréttislaga. Í stjórnsýsluframkvæmd kærunefndar jafnréttismála, sbr. til dæmis mál nefndarinnar nr. 7/1997 og 11/2004 og dómaframkvæmd Hæstaréttar, sbr. til dæmis mál nr. 11/2000 og 258/2004, hafi meðal annars verið vísað til þess að við mat á því hvort störf teldust jafnverðmæt og sambærileg í skilningi jafnréttislaga yrði að byggja á heildstæðu mati. Þannig geti störf verið jafnverðmæt og sambærileg í skilningi jafnréttislaga þótt einstaka þættir þeirra kunni að vera ólíkir og þau krefjist til dæmis mismunandi menntunar. Þá hafi verið litið til þess hvort störfin séu sambærileg að ábyrgð, inntaki og ytri búnaði, og því hvort störfunum hafi verið ætlað nokkuð jafnræði í ytri ásýnd.

Að mati ráðuneytisins séu störf ritara annars vegar og störf sendiherra og sendifulltrúa hins vegar hvorki sambærileg né jafnverðmæt í skilningi jafnréttislaga. Þessa staðreynd leiði af mismunandi eðli starfanna og þeim mun sem sé á starfsskyldum og ábyrgð. Löggjafinn hafi einnig afmarkað mismunandi inntak og mikilvægi þessara starfa með 8. gr. laga um utanríkisþjónustu Íslands nr. 39/1971 og 2. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 70/1996. Í fyrrgreindu ákvæði 8. gr. laga nr. 39/1971 sé fjallað um flokkun starfsmanna utanríkisráðuneytisins. Þar sé sendiherrum skipað í 1. flokk ásamt ráðuneytisstjóra. Undir 2. flokk heyri meðal annars sendifulltrúar, en undir 5. og neðsta flokk heyri meðal annars ritarar. Í 2. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 70/1996 sé tiltekið að sendiherrar og sendifulltrúar séu embættismenn í skilningi laganna.

Samkvæmt framangreindu séu sendiherrar og sendifulltrúar meðal æðstu yfirmanna utanríkisþjónustunnar og er þeim meðal annars ætlað að veita forstöðu stofnana utanríkisþjónustunnar, þ.e. sendiráðum og fastanefndum. Þá sinni þeir mikilvægum og sérhæfðum embættisstörfum í milliríkjasamskiptum þar með talið samningagerð, samskiptum við alþjóðastofnanir og þátttöku í starfi alþjóðastofnana. Ritarar raðist hins vegar skv. 8. gr. laga nr. 39/1971 neðst í ábyrgðarstigann innan utanríkisþjónustunnar. Verksviði ritara hafi meðal annars verið lýst svo að þeir skrásetji munnlegar eða skriflegar upplýsingar á pappír eða véltækt form, stjórni bókhalds- og reiknivélum, skrifi og gangi frá bréfum og vinni önnur ritarastörf. Riturum sé, öfugt við sendiherra og sendifulltrúa, ekki ætlað að starfa sem skrifstofustjórar í utanríkisráðuneytinu, sem forstöðumenn sendiráða eða fastanefnda eða sem fastafulltrúar gagnvart alþjóðastofnunum. Þeim sé heldur ekki ætlað að gegna yfirmanna- eða stjórnendahlutverki gagnvart öðrum starfsmönnum utanríkisþjónustunnar. Af hinni lögmæltu umgjörð utanríkisþjónustunnar og eðli máls megi ljóst vera að störf ritara annars vegar og störf sendiherra og sendifulltrúa hins vegar séu hvorki sambærileg né jafnverðmæt í skilningi 14. og 23. gr. jafnréttislaga. Til þess sé munurinn á ábyrgð og inntaki starfsskyldna of mikill.

Jafnframt er á því byggt að málefnalegar forsendur, en ekki kynferði, hafi legið að baki tilhögun starfsloka karlmannanna tveggja og þær hafi ekki falið í sér brot gagnvart kæranda. Ráðuneytið hafi greitt kæranda laun í samræmi við ákvæði laga og kjarasamninga. Kærandi hafi kosið að starfa þangað til hún næði sjötugsaldri og láta þá af störfum í samræmi við ákvæði 2. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996. Ráðuneytinu hafi hvorki borið skylda til að gera starfslokasamning við kæranda né heldur að bjóða henni kauphækkun skömmu áður en hún lét af störfum. Þá hafði ráðuneytið áður boðið kæranda starfslokasamning sem hún hafði hafnað. Kærandi hafi því fengið þær greiðslur sem henni hafi borið lögum samkvæmt og eigi ekki rétt á frekari greiðslum.

Starfslokasamningar ráðuneytisins við sendifulltrúanna tvo hafi byggst á þörf ráðuneytisins til að geta skipulagt betur mannahald og úthlutun verkefna til æðstu yfirmanna utanríkisþjónustunnar. Hafa beri í huga að umræddir sendifulltrúar hafi átt rétt á því að gegna störfum sínum til sjötugs. Þeir hafi hins vegar sjálfviljugir gengið til samninga við ráðuneytið og látið fyrr af störfum að eigin ósk. Hér hafi verið um að ræða samningagerð á grundvelli hagræðingar- og mannauðsstjórnunarsjónarmiða sem báðir samningsaðilar hafi talið sig hafa hag af. Telja verði að þessi samningsgerð hafi rúmast innan ramma stjórnunarréttar ráðuneytisins sem vinnuveitanda. Sendifulltrúarnir tveir hafi einnig verið vel að stöðuhækkunum komnir enda hafi þeir gegnt ábyrgðar- og tignarstöðum sem hafi verið hefðbundinn undanfari þess að hljóta sendiherranafnbót. Umræddir starfslokasamningar hafi ekkert haft með kynferði að gera og hafi því ekki falið í sér mismunum í garð kæranda.

   

V.

Niðurstaða

Í 1. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla segir að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 14. gr. laganna skulu konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Með jöfnum launum er átt við að laun skuli ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla og skulu þau viðmið sem liggja til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun. Með kjörum er, auk launa, átt við lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur starfskjör eða réttindi sem metin verða til fjár. Samkvæmt 23. gr. laga nr. 96/2000 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki sínu í launum og öðrum kjörum á grundvelli kynferðis fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.

Í máli þessu er deilt um hvort utanríkisráðuneytið hafi brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við starfslok þriggja starfsmanna ráðuneytisins, kæranda annars vegar og tveggja karla hins vegar.

Forsaga málsins er sú að kærandi starfaði sem ritari í utanríkisráðuneytinu um langt árabil. Var henni boðinn starfslokasamningur árið 2004, tæplega tveimur árum áður en hún átti að hætta störfum fyrir aldurs sakir. Í drögum að samkomulagi, dags. 1. júlí 2004, sem teflt var fram af hálfu ráðuneytisins, var kæranda boðin hækkun grunnlauna og tímabundinn ráðningarsamningur um hlutastarf „til að auðvelda A að láta af störfum nokkru áður en sjötíu ára aldri er náð“ eins og fram kemur í drögunum. Kærandi taldi tilboð ráðuneytisins ekki ásættanlegt og krafðist meðal annars meiri hækkunar á grunnlaunum. Taldi ráðuneytið þá ekki vera grundvöll fyrir samkomulagi um starfslok og var málið látið niður falla.

Kærandi starfaði síðan í utanríkisráðuneytinu þar til hún varð sjötug, en tveimur mánuðum fyrir starfslok fór hún þess á leit með erindi, dags. 31. janúar 2006, að laun hennar yrðu hækkuð í ljósi þess hversu lágt lífeyrishlutfall hennar væri. Taldi kærandi það sanngjarnt í ljósi þess að hún hefði starfað hjá utanríkisráðuneytinu í um 50 ár, hún hefði ekki fengið launahækkanir utan þeirra sem kjarasamningar kvæðu á um, og með vísan til þess að konur í sambærilegum störfum í öðrum ráðuneytum væru hærra launaðar en hún. Kærandi vísaði enn fremur til þess að tveir karlar, sem nýlega hefðu látið af störfum, hefðu um það bil sex mánuðum áður fengið stöðuhækkun og sendiherranafnbót sem myndi tryggja þeim hærri eftirlaun.

Ekki var orðið við þessari umleitan kæranda og telur hún að sér hafi verið mismunað með ólögmætum hætti vegna kynferðis síns með vísan til starfsloka karla þeirra sem áður greinir. Þeir karlar, sem kærandi ber sig saman við í máli þessu, störfuðu sem sendifulltrúar í utanríkisráðuneytinu og er starfsferill þeirra rakinn í IV. kafla hér að framan. Utanríkisráðuneytið greinir svo frá að á árinu 2005 hafi átt sér stað samskipti milli karlanna og yfirstjórnar ráðuneytisins um mögulega tilhögun starfsloka þeirra. Báðir hafi átt það sammerkt, sökum langs starfsaldurs, að vera búnir að ná svokölluðu 95 ára marki, sbr. 4. mgr. 24. gr. laga um lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins nr. 1/1997, en þeim hafi ekki borið skylda til að láta af störfum fyrir aldurs sakir fyrr en árið 2010 og 2012. Á sama tíma hafi æðstu yfirmönnum utanríkisþjónustunnar, það er sendiherrum, fjölgað á skömmum tíma. Legið hafi ljóst fyrir að nokkur fjöldi nýrra sendiherra myndi koma til starfa á næstu mánuðum. Var talið nauðsynlegt að geta boðið þessum nýju sendiherrum störf og verkefni við hæfi.

Ráðuneytið hafi því talið, út frá hagræðingar- og mannauðsstjórnunarsjónarmiðum, heppilegt að bjóða sendifulltrúunum starfslokasamninga nokkrum árum áður en þeir hefðu þurft að láta af störfum fyrir aldurs sakir. Gekk það eftir og komust á starfslokasamningar sem fólu það í sér að sendifulltrúarnir fengu báðir, með skipunarbréfum, dags. 27. maí 2005, skipun sem sendiherra frá 1. júní 2005 að telja. Í staðinn hafi báðir óskað, með bréfum dagsettum 2. júní 2005, eftir lausn úr embætti frá og með 31. desember 2005 og hafi verið fallist á það.

Við úrlausn um það, hvort kæranda hafi verið mismunað við starfslok svo brjóti í bága við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, ber að líta til þess hvort störf kæranda annars vegar og karlanna tveggja hins vegar hafi verið jafnverðmæt og sambærileg í skilningi 14. og 23. gr. laga nr. 96/2000.

Kærandi starfaði sem ritari í utanríkisráðuneytinu um áratuga skeið, þar á meðal sem ritari ráðherra og ráðuneytisstjóra. Hún fékk skipun sem deildarstjóri árið 1981, en í þeirri stöðu fólst að sögn utanríkisráðuneytisins hvorki mannaforráð né yfirmannshlutverk, og hefur þeirri staðhæfingu ekki verið andmælt af hálfu kæranda. Ráðuneytið lýsir verksviði ritara annars vegar og sendifulltrúa hins vegar þannig að ritarar skrásetji munnlegar eða skriflegar upplýsingar, stjórni bókhalds- og reiknivélum, skrifi og gangi frá bréfum og vinni önnur ritarastörf. Sendiherra og sendifulltrúar séu meðal æðstu yfirmanna utanríkisþjónustunnar, og sé þeim ætlað að gegna forstöðu stofnana utanríkisþjónustunnar og enn fremur gegni þeir mikilvægum og sérhæfðum embættisstörfum í milliríkjasamskiptum.

Fallast verður á það með utanríkisráðuneytinu að störf ritara annars vegar og störf sendifulltrúa hins vegar geti hvorki talist sambærileg né jafnverðmæt í skilningi laga nr. 96/2000, með vísan til eðlis starfanna og þess munar sem er á starfsskyldum og ábyrgð í starfi, sbr. og 8. gr. laga um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39/1971, og 2. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Því verður ekki talið að rekja megi þann mun, er var á milli starfsloka kæranda og þeirra tveggja karla sem hún ber sig saman við, til kynferðis kæranda.

Það er því álit kærunefndar jafnréttismála, að ekki teljist hafa verið brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í máli þessu.

 

Björn L. Bergsson

Ragna Árnadóttir

Ása Ólafsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta