Hoppa yfir valmynd
15. janúar 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 9/2006: Dómur frá 15. janúar 2007

Ár 2007, mánudaginn 15. janúar, var í Félagsdómi í málinu nr. 9/2006:

 

Alþýðusamband Íslands f.h.

Flugfreyjufélags Íslands

gegn

Samtökum atvinnulífsins f.h.

Samtaka ferðaþjónustunnar vegna

Icelandair hf.

                                                          

kveðinn upp svofelldur

 

D Ó M U R:

 

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 5. desember sl.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Lára Júlíusdóttir og Valgeir Pálsson.

 

Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, kt. 420169-6129, Sætúni 1, Reykjavík, fyrir hönd Flugfreyjufélags Íslands, kt. 550169-5099, Borgartúni 22, Reykjavík.

 

Stefndi er Samtök Atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Borgartúni 35, Reykjavík, fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar, kt. 550269-6359, til heimilis að sama stað vegna Icelandair hf., kt. 461202-3490, Reykjavíkurflugvelli, 101 Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda 

Að dæmt verði að stefndi hafi brotið ákvæði greinar 06-8 í kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Icelandair hf. og Flugfreyjufélags Íslands frá 6. desember 2004 með þeim hætti að stefndi hefur talið kjarasamningsbundinn hvíldardag starfsmanna samkvæmt téðri grein til orlofsdags í orlofi félagsmanna Flugfreyjufélags Íslands.

Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að viðbættu 24,5% álagi vegna virðisaukaskatts að mati Félagsdóms eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

 

Dómkröfur stefnda 

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Þá er gerð krafa um að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.

 

Málavextir

Stefnandi málsins, Flugfreyjufélag Íslands, er verkalýðsfélag flugfreyja og flugþjóna á Íslandi og þar með talið þeirra starfsmanna stefnda Icelandair hf. sem gegna þeim störfum hjá félaginu.

Gildandi kjarasamningur milli Flugfreyjufélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Icelandair hf. var síðast framlengdur við undirritun kjarasamnings aðila hinn 6. desember 2004. Gildistími kjarasamningsins var ákvarðaður til 31. desember 2007. Kjarasamningurinn er gerður við Samtök atvinnulífsins fyrir hönd Icelandair hf. sem er samningsaðili við Flugfreyjufélags Íslands vegna flugfreyja og flugþjóna sem starfa um borð í flugvélum Icelandair hf.      

Í kjarasamningi aðila eru svohljóðandi ákvæði:

06-0 Orlof og frídagar.

06-08 Orlof og frídagar skulu ekki hefjast fyrr en að hvíldartíma, samkvæmt hvíldartímareglum, er lokið. ( Frávik sjá grein 13-18 )

13-0 Flugtími – Vakttími – Hvíldartími.

13-18 Eftir Ameríkuferð, KEF-GLA-CPH-GLA-KEF og næturflug sem varir 7 ½ flugtíma eða lengur skal f/f fá minnst tveggja nátta hvíld í heimahöfn. Fari tveir eða fleiri frídagar í hönd að lokinni tveggja nátta  hvíld má dagurinn að lokinni hvíld einnar nætur teljast frídagur.

Ekki skal kveðja f/f til starfa fyrr en eftir kl. 12.00 að lokinni tveggja nátta hvíld eftir Floridaflug.

Á fundi samstarfsnefndar stefnanda og stefnda, Icelandair, sem haldinn var 1. ágúst 2006, vöktu fulltrúar stefnanda máls á því að ekki mætti hefja töku á orlofi daginn eftir að flugliðar kæmu heim frá USA eða daginn eftir kvöldflug og ”nota þannig lögbundna hvíld sem orlofsdag”, sbr. fundargerð stefnanda af þeim fundi. Málið var tekið upp að nýju á næsta fundi nefndarinnar, þann 5. september 2006. Af hálfu stefnanda er þar gerð grein fyrir því að félagið hefði farið yfir allar vinnuskrár á síðasta orlofstímabili og fundið 69 tilfelli þar sem orlof hófst á samningsbundnum hvíldardegi.

Í bréfi stefnanda til stefnda í framhaldi af fundinum í september 2006 var vísað  til gr. 06-8 í kjarasamningi aðila og þess óskað að Icelandair útskýrði og rökstyddi þá túlkun sína á þessu ákvæði að hvíld geti fallið inn í orlof.

Stefndi vísar í svarbréfi sínu, dags. 26. september 2006, til þess að ekki hafi áður komið upp ágreiningur um túlkun þessa ákvæðis. Framkvæmd félagsins sé óbreytt og hafi verið sú sama og ágreiningslaus frá upphafi. Hvíldartíma sé eðli máls lokið þegar vinna eða taka frídaga geti hafist. Orlof og taka frídaga sé lagt að jöfnu að þessu leyti. Þetta hafi hingað til verið sameiginlegur skilningur aðila, að minnsta kosti hafi annað ekki komið fram.

Þar sem ekki hefur náðst samkomulag í málinu er mál þetta höfðað til að fá dóm um túlkun á kjarasamningi aðila málsins að þessu leyti.

 

Málsástæður stefanda

Stefnandi byggir mál sitt á eftirfarandi málsástæðum:

Stefnandi bendir á að félagsmenn sínir eigi rétt á lágmarks orlofi samkvæmt ákvæðum orlofslaga 27/1987 en jafnframt gildi um orlof og frídaga stefndu ákvæði 6. kafla kjarasamnings aðila. Jafnframt liggi fyrir sú almenna regla að orlofskjör starfsmanna stefnda Icelandair hf. verði aldrei lakari en ákvæði laganna mæli fyrir um en geti verið rýmri leiði slíkt af kjarasamningi aðila málsins.

Fyrir liggi að vinnuframlag félagsmanna stefnanda sé að ýmsu leyti óvenjulegt þar sem þremur dögum fyrir mánaðamót fái hver einstakur félagsmaður vinnuskrá sem kveði á um vinnu hans í komandi mánuði. Þá séu sérreglur um orlof þannig að vinnuskylda og orlof félagsmanna stefnanda sé ólíkt því sem almennt sé á vinnumarkaði.

Þá liggi og fyrir að félagsmenn stefnanda eigi ekki rétt á nema einu helgarfríi í mánuði en á móti eigi félagsmenn rétt á alls 8 frídögum á mánuði á sumrin og 9 frídögum á mánuði yfir vetrartímann. Frídagar komi þannig á móti venjulegum helgarfríum annarra starfsstétta. Jafnframt liggi fyrir að nái stefndi Icelandair ekki að láta starfsmann vinna alla mögulega vinnudaga á tiltekinni skrá (á mánaðartímabili) þá bætist slíkir dagar ekki við sem taldir frídagar síðar, sem leiði því hvorki til skerðingar launa í viðkomandi mánuði né aukinnar vinnuskyldu í næsta mánuði eða síðar.

Í 6. kafla kjarasamnings aðila eru m.a. svohljóðandi ákvæði:

06-5      Ef f/f óskar, og því verður viðkomið, skal tengja einn eða fleiri frídaga við orlof.

Í orlofsmánuði skulu frídagar vera í réttu hlutfalli við frídaga.

06-6      Frídagar skulu að lágmarki vera 8 í hverjum mánuði á tímabilinu 1. maí til 30. september en 9 dagar 1. október til 30. apríl í heimahöfn.

F/f á rétt á einu helgarfríi í mánuði (þ.e. laugardag og sunnudag).

06-7      Frídagur skal að lágmarki vera 24 klst. og hefst samkvæmt skrá kl. 08,00 að morgni. Þó má dagurinn kallast frídagur ef óviðráðanlegar aðstæður koma upp eftir að vakt er hafin, en vakt skal þá lokið fyrir kl. 20.00 og hvíld fyrir kl. 10.00.

06-8      Orlof og frídagar skulu ekki hefjast fyrr en að hvíldartíma, samkvæmt hvíldartímareglum er lokið (Frávik sjá gr. 13-18)

06-11   Falli samningsbundinn frídagur niður af einhverjum ástæðum skal bæta hann upp með öðrum frídegi á næstu áhafnarskrá. Ef samningsbundinn frídag vantar á skrá skal bæta hann upp með 2 dögum í næsta mánuði.

Grein 13-18 í kjarasamningi er svohljóðandi eins og áður greinir:

13-18 Eftir Ameríkuferð, KEF-GLA-CPH-GLA-KEF og næturflug sem varir     minnst 7 ½ flugtíma eða lengur skal f/f fá minnst tveggja nátta hvíld í heimahöfn. Fari tveir eða fleiri frídagar í hönd að lokinn tveggja nátta  hvíld má dagurinn að lokinn hvíld einnar nætur teljast frídagur.

Þau flug sem um ræðir eru ýmist talin erfiðari og/eða unnin í öllu verulegu á svefntíma. Því sé hvíld umfram það sem venjulegt sé nauðsynleg eftir slíkt vinnuframlag og samningsbundin. Sé félagsmaður t.d. að koma frá USA þá sé lagt af stað á kvöldi miðað við staðartíma (almennt um 20.00) og lent á Íslandi um kl. 06.00 til 07.00 að morgni og félagsmaður því að koma á heimili sitt eftir vökunótt kl. 08.00 til 09.00 að morgni. Hann fari því ekki til starfa næsta dag vegna hvíldartímareglna.

Fyrir liggi að stefnda sé skylt að virða lágmarkskjör samkvæmt gildandi kjarasamningi milli aðila málsins og ekki geti verið deila um slíkt. Af afstöðu stefnda verði það hins vegar ráðið að hann telji sig geta skert orlofsdaga félagsmanna stefnanda með því að beita fráviksreglu um frídaga í grein 13-18 í kjarasamningi um orlofsdagana.

Fyrir liggi að stefnandi telur slíka afstöðu fráleita og í henni felist að undanfarna mánuði eða ár og enn í dag hafi stefndi af stórkostlegu gáleysi og a.m.k. nú af ásetningi verið að brjóta ákvæði kjarasamnings með því að skerða orlofsdaga með frídagareglum sem eigi ekki og geti ekki átt við um orlofsdaga.

Fyrir liggi að almennt eigi verkafólk frídaga um helgar og á helgidögum en ekki félagsmenn stefnanda þannig að í 6. kafla kjarasamnings aðila séu settar reglur um frídaga. Um sérstakar reglur sé að ræða, settar vegna eðlis starfsins og þarfa Icelandair hf. sem ekki geti veitt starfsfólki sínu sambærilega frídaga og öðru verkafólki. Frídagar séu sérstaklega skilgreindir og skulu vera 8 til 9 í mánuði. Til viðbótar þessum dögum séu síðan hvíldardagar sem ekki séu taldir til frídaga nema í undantekningarákvæði greinar 13-18. Þá sé beinlínis mælt fyrir um að að frídagur skuli ekki hefjast fyrr en að loknum hvíldartíma samkvæmt hvíldartímareglum að teknu tilliti til greinar 13-18.

Hins vegar sé ekki um það að ræða og hvergi heimilað í kjarasamningi að skerða megi hvíldartíma með því að orlofsdagur fari saman við hvíldardag. Slíkt sé einhliða afstaða stefnda sem sé alfarið mótmælt og hafnað sem rangri. Það sé jafnframt í andstöðu við meginreglur vinnuréttar og  orlofs þar sem orlof sé samkvæmt ákvörðun stefnanda látið fara saman við samningsbundna hvíld.

Hin áunnu réttindi sem felist í orlofi og launþegi hafi unnið sér inn séu með þessu skert samkvæmt einhliða ákvörðun stefnda. Um hvíldardag án vinnuskyldu sé að ræða sem geti ekki talist orlof enda sé hann háður sérstöku ákvæði kjarasamnings sem hafi ekki með ákvörðun orlofs að gera. Þá valdi þetta ójafnræði milli starfsmanna varðandi hvíldardaga eftir t.d. flug frá USA þar sem þeir sem byrji orlof daginn eftir heimkomu frá USA sæti skerðingu orlofs hvað þetta varðar en ekki þeir sem komi tveimur eða þremur dögum fyrr.

Þannig liggi fyrir að áliti stefnanda að meginreglan um orlof sé skýr samkvæmt grein 06-8 í kjarasamningi eða að orlof verði ekki fellt inn í hvíldartíma eftir flug. Grein 13-18 á samkvæmt orðanna hljóðan ekki við orlofsdaga og verði því ekki beitt um orlofsdagana til skerðingar á þeim gegn mótmælum stéttarfélags starfsmanna og starfsmannanna sjálfra hvað sem líði ásetningi stefnda. Stefnandi telur þetta jafngilda því að orlof á venjulegum vinnumarkaði myndi að öllu jöfnu hefjast á laugardegi sem talinn yrði fyrsti orlofsdagur venjulegs verkafólks hvað sem lögum og kjarasamningi liði.

Gerð er í málinu krafa um málskostnað byggð á skaðleysissjónarmiði.

Stefnandi byggir málsókn sína á ákvæðum laga nr. 80/1938. Um dómsvald Félagsdóms er vísað til 44. gr. og um aðild til 45. gr. laga nr. 80/1938. Vísað er til meginreglna vinnuréttarins. Vísað er til laga um orlof nr. 27/1987. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðst við lög nr. 50/1988, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

 

Málsástæður stefnda

Stefndi telur rétt að benda á ágalla í málatilbúnaði stefnanda. Krafist sé viðurkenningar á því að stefndi hafi brotið ákvæði gr. 06-8 í kjarasamningi aðila með þeim hætti að telja ”kjarasamningsbundinn hvíldardag starfsmanna samkvæmt téðri grein til orlofsdags í orlofi félagsmanna Flugfreyjufélags Íslands.” Gr. 06-8 hafi ekki að geyma nein ákvæði um hvíldardaga. Þar segi aðeins að orlof og frídagar skuli ekki hefjast fyrr en að hvíldartíma samkvæmt hvíldartímareglum sé lokið. Ekki sé tiltekið hvaða hvíldardagsreglu krafan lúti að, það sé hvaða tilteknu réttindabrotum krafist sé viðurkenningar á. Einhlíta skýringu sé heldur ekki að finna í rökstuðningi stefnanda. Að mati stefnda sé málatilbúnaður stefnanda því ekki nægjanlega ljós og ákveðinn til að uppfylla skilyrði d- og e-liðar 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938.    

Sýknukrafa stefnda er byggð á því að hann hafi ekki brotið gegn kjarasamningi aðila. Hvíldartíma sé eðli máls lokið þegar vinna eða taka frídaga geti hafist samkvæmt kjarasamningi aðila.

Grein 06-8 feli í sér að orlof og taka frídaga skuli ekki hefjast fyrr en að loknum hvíldartíma. Það eigi samkvæmt skýrum texta ákvæðisins jafnt við um orlof og frídaga. Orlof og taka frídaga sé lagt að jöfnu að þessu leyti.  Það styðjist einnig við tilvísunina sem bætt hafi verið við samningsgreinina í útgáfu stefnanda. Þar stendur innan sviga, “Frávik sjá gr. 13-18” 

Báðar þessar greinar, þ.e. gr. 06-8 og 13-18, hafi verið mjög lengi í kjarasamningi aðila og hafi fráviksregla gr. 13-18 frá upphafi, eða svo lengi sem menn muna, verið túlkuð þannig að orlof gæti hafist á slíkum frídegi. Sömu reglum hafi því verið fylgt mjög lengi hvað þetta varðar.

Þetta hafi fram til þessa verið sameiginlegur skilningur aðila, að minnsta kosti hafi annað ekki komið fram. Framkvæmd félagsins sé óbreytt og hafi verið sú sama og ágreiningslaus frá upphafi. Hvorki fyrri stjórnir stefnanda né einstakir félagsmenn hans hafi gert athugasemd við þessa framkvæmd stefnda.  Hún hafi staðið óslitið um langa hríð og sé því orðin venjubundin.  

Þeirri túlkun verði því ekki breytt einhliða af stefnanda enda ekkert sem gefi tilefni til slíkrar breytingar.

Stefndi kannast ekki við að framkvæmd hans feli í sér önnur frávik frá reglu greinar 06-8.

Stefndi mótmælir því sem ósönnuðu og röngu að fyrirkomulagi um upphaf orlofs hafi verið breytt.  Því til stuðnings bendir stefndi meðal annars á að fjölmörg dæmi um fyrrgreinda framkvæmd hafi fundist við lauslega athugun á áhafnarskrám frá árinu 2004.

Um sé að ræða vaktavinnu alla daga ársins og séu reglur um framlagningu vaktskrár ekki ósvipaðar því sem viðgengst í slíkri vinnu, sbr. gr. 07-1 um áhafnarskrá. 

Orlof flugfreyja sé talið í virkum dögum, sbr. grein 06-1 í kjarasamningi. Flugfreyjur og flugþjónar séu að því leyti jafnsett öðrum launþegum hvað varðar útreikning orlofsdaga. Tilvísun stefnanda til sambands helgarfría og samningsbundinna frídaga hafi því enga þýðingu varðandi úrlausn máls þessa.

Flugfreyjum og flugþjónum sé einnig tryggður ákveðinn fjöldi frídaga í hverjum mánuði, sbr. gr. 06-6 í kjarasamningi aðila. Tölvuforrit það sem stefndi notar við gerð áhafnarskrár sé þannig hannað að áunnir frídagar komi ávallt til úthlutunar. Fjöldi samningsbundinna frídaga í mánuði hverjum eigi því ekki að skerðast í framkvæmd. Ekki sé ágreiningur um að ofangreint fyrirkomulag á úttekt orlofsdaga hafi ekki áhrif á hlutfallslegan fjölda frídaga og því vandséð í hverju deilan sé fólgin. 

Stefndi vísar einnig til þess að skilyrði kjarasamnings aðila um lágmarkshvíld séu uppfyllt. Eftir flug frá Orlando, sem sé um það bil 7 klst. með lendingu kl. 7 að morgni sé hvíldinni lokið næsta morgun, sbr. gr. 13-14 til 13-17.  Ákvæði gr. 13-18 sem stefndi byggir á feli í sér frávik frá þeirri reglu og veiti rétt til lengri hvíldar í heimahöfn nema tveir eða fleiri frídagar fari í hönd. 

Þá bendir stefndi á að orlof samkvæmt orlofslögum sé 24 dagar. Flugfreyjur og flugþjónar stefnda njóti lengra orlofs, samtals 36 til 43 daga, sbr. gr. 06-1 í kjarasamningi aðila. Það gildi einnig þótt hluti heildarorlofs teldist vera vegna vinnu á helgidögum. Slík vetrarorlof samsvari almennt um 10 vinnudögum. 

Óumdeilt sé að orlof eða frídagar skuli ekki hefjast fyrr en að afloknum hvíldartíma. Frá því sé gert frávik í grein 13-18, sbr. gr. 06-8. Það frávik hafi engin áhrif á fjölda orlofsdaga, sbr. reiknireglu gr. 06-1. Það sé því fráleitt að líkja framkvæmd stefnda við það að orlof starfsmanna myndi að öllu jöfnu hefjast á laugardegi sem talinn yrði fyrsti orlofsdagur hvað sem lögum og kjarasamningum liði.  Slíkum aðdróttunum sé mótmælt sem röngum og að engu hafandi.

Með vísan til alls þessa sé fullyrðingum stefnanda um skerðingu orlofsdaga félagsmanna hans því mótmælt sem röngum. Stefndi mótmælir því einnig harðlega að hann ástundi brot á kjarasamningi aðila af ásetningi eða gáleysi. 

Stefndi byggir fyrst og fremst á kjarasamningi aðila og lögum um orlof nr. 30/1987. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, 129. og 130. gr. 

 

Niðurstaða

Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Deilt er um hvíldartíma flugfreyja og flugþjóna og túlkun á grein 06-8 og 1. mgr. greinar 13-8 í kjarasamningi milli Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair sem gildir frá 1. desember 2004 til 31. desember 2007, en greinar þessar fjalla um frídaga og orlofstöku flugfreyja og flugþjóna í tengslum við Ameríkuferð og fleiri ferðir.  Í grein 06-8 segir:  “Orlof og frídagar skulu ekki hefjast fyrr en að hvíldartíma, samkvæmt hvíldartímareglum, er lokið.” 1. mgr. greinar 13-18 í samningnum er svohljóðandi: “Eftir Ameríkuferð, KEF-GLA-CPH-GLA-KEF og næturflug, sem varir 7 ½ flugtíma eða lengur, skal f/f fá minnst tveggja nátta hvíld í heimahöfn.  Fari tveir eða fleiri frídagar í hönd að lokinni tveggja nátta hvíld má dagurinn að lokinni hvíld einnar nætur teljast frídagur.”  Hér er um að ræða frávik frá hvíldartímareglum. Stefndi hefur litið svo á að fráviksregla þessi tæki einnig til orlofs og að með frídögum í 1. mgr. greinar 13-18 í kjarasamningi aðila sé einnig átt við orlofsdaga.  Stefnandi telur aftur á móti að túlka beri ákvæði þetta þannig að frídagur geti ekki verið orlofsdagur og að orlof megi ekki hefjast fyrr en lögbundinni hvíld sé lokið.

Stefnandi gerði eftir því sem af gögnum málsins má ráða fyrst athugasemdir við framkvæmd stefnda á ákvæðinu á samstarfsnefndarfundi aðila 1. ágúst 2006.  Í framhaldi af samstarfsnefndarfundi aðila 5. september 2006, þar sem ágreiningsefni þetta var til umfjöllunar, ritaði formaður Flugfreyjufélags Íslands bréf til stefnda dagsett í september 2006 og óskaði eftir útskýringum og rökstuðningi á þessari túlkun.  Svarbréf stefnda er dagsett 26. september 2006. Þar kemur fram að ágreiningur um það hvernig túlka beri grein 06-8 í kjarasamningi hafi ekki komið upp áður og að framkvæmd félagsins sé óbreytt og hafi verið sú sama og ágreiningslaus frá upphafi.

Ragnar Jón Pétursson, áhafnarskrárritari Icelandair ehf., kom fyrir dóminn.  Ragnar hefur starfað við ritun áhafnaskrár hjá stefnda allt frá árinu 1982.  Hann greindi frá því að við túlkun á ákvæði 1. mgr. greinar 13-18 í kjarasamningi væru orlof og frídagar skilgreindir á sama hátt.  Tilviljanakennt væri hvort orlof væri hluti af þeim þremur dögum sem þurfa að líða í hvíld eftir flug af þessu tagi, og tölvan væri forrituð þannig að þess háttar skerðing yrði eins sjaldan og kostur væri. Í málinu liggja meðal annars frammi kjarasamningar aðila frá 1973 og 1992. Þar er samsvarandi ákvæði að finna og í núgildandi samningi aðila í greinum 06-8 og 13-18.  Einnig liggja frammi í málinu upplýsingar úr áhafnaskrám á árabilinu 1996 til 2006.  Þar koma fram dæmi um þá framkvæmd sem hér er deilt um, að þriðji dagur í fríi reynist vera orlofsdagur.  Stefndi þykir með þessu hafa sýnt fram á að sú túlkun hans á umdeildum ákvæðum hafi verið með þessum hætti um árabil og hafi verið athugasemdalaus af hálfu stefnanda allan þann tíma. Með vísan til hinnar löngu venju sem komin er á framkvæmd samkvæmt greinum 06-8 og 13-18 í kjarasamningi aðila er stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda. 

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að  greiða stefnda 200.000 krónur í málskostnað.

 

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Samtök atvinnulífsins f.h. Samtaka ferðaþjónustunnar vegna Icelandair ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Alþýðusambands Íslands f.h. Flugfreyjufélags Íslands.

Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað.

 

Eggert Óskarsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Lára V. Júlíusdóttir

Valgeir Pálsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta