Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2012 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 4/2012

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

A

gegn

Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

 

Launamismunur.

Kærandi, sem er kona, taldi að brotið hefði verið gegn jafnréttislögum þar sem henni hefði verið mismunað í launum gagnvart samstarfsmanni sem er karlmaður.  Kærandi er iðjuþjálfi en karlmaðurinn var nærri því að afla sér starfsréttinda sem sálfræðingur þegar hann var ráðinn til starfa og þáði laun sem slíkur. Féllst kærunefndin á það að kæranda hefði verið mismunað í kjörum gagnvart þeim er hún bar sig saman við. Átti það við bæði um tímabilið fram til 1. desember 2011 þegar laun kæranda voru hækkuð en einnig eftir það tímamark þar sem ekki höfðu komið fram skýringar á því að kærandi nyti ekki kjara sem launaður staðgengill forstöðumanns.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 9. nóvember 2012 er tekið fyrir mál nr. 4/2012 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með bréfi dagsettu 30. maí 2012, óskaði Jafnréttisstofa eftir því að nefndin tæki mál A til meðferðar með vísan til 5. mgr. 4. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
  3. Beiðnin ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 12. júní 2012 og var í kjölfarið veittur frestur til andsvara fram í ágúst 2012. Greinargerð frá kærða barst með bréfi 20. ágúst og var send Jafnréttisstofu og kæranda til kynningar 28. ágúst 2012.
  4. Frekari athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dagsettu 10. september 2012 og var kærða gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við greinargerðina, sem kærði gerði með bréfi, dagsett 26. september 2012.
  5. Kærunefndin óskaði eftir frekari upplýsingum og gögnum frá kærða, sem bárust nefndinni þann 10. október 2012.
  6. Kærunefndin boðaði málsaðila á fund 24. október 2012 til þess að upplýsa frekar um málavexti.

    MÁLAVEXTIR

  7. Kærandi, sem er iðjuþjálfi, hóf störf í nóvember 2005 hjá Geðheilsu-eftirfylgd sem er starfseining, rekin af kærða. Hún þáði laun í samræmi við stofnanasamning Iðjuþjálfafélags Íslands og fleiri félaga við kærða sem gerður er á grundvelli viðkomandi kjarasamnings. Í desember 2007 var ráðinn karlmaður til starfa hjá Geðheilsu-eftirfylgd í stað sálfræðings sem látið hafði af störfum. Hann var langt kominn í meistaranámi í sálfræði. Naut hann frá því hann var ráðinn kjara sem sálfræðingur í samræmi við stofnanasamning Sálfræðingafélags Íslands við kærða.
  8. Kærandi ritaði hinn 24. október 2011 bréf til kærða ásamt forstöðumanns Geðheilsu-eftirfylgdar þar sem óskað var skýringa á launamun milli hennar og nefnds karlmanns og farið fram á að bætt yrði úr þeim mun. Leiddi erindið til þess að laun kæranda voru hækkuð um tvo launaflokka og tók sú breyting gildi 1. desember 2011. Eftir þá hækkun voru laun kæranda orðin nánast þau sömu og karlmannsins að krónutölu en áður eða frá 1. júní 2010 höfðu laun kæranda hækkað um einn launaflokk við það að kærandi varð staðgengill forstöðumanns.
  9. Fyrr á þessu ári leitaði kærandi til Jafnréttisstofu sem tók mál hennar til skoðunar. Jafnréttisstofa óskaði upplýsinga frá kærða með bréfi 13. apríl 2012. Svar kærða til Jafnréttisstofu er dagsett 24. apríl. Með bréfi 30. maí 2012 óskaði Jafnréttisstofa eftir því að kærunefnd jafnréttismála tæki mál kæranda til meðferðar á grundvelli 5. mgr. 4. gr. laga nr. 10/2008.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  10. Kærandi leitaði til Jafnréttisstofu og óskaði aðstoðar við að kanna hvort um kynbundinn launamun hefði verið að ræða á vinnustað hennar, Geðheilsu-eftirfylgd, sem er hluti af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hún taldi að karl sem vann sama eða jafnverðmætt starf og hún hjá Geðheilsu- eftirfylgd, hefði verið með hærri laun en hún, án þess að það væru fyrir því málefnalegar ástæður.
  11. Jafnréttisstofa skrifaði forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins bréf, dagsett 13. apríl 2012, þar sem málið var reifað og upplýsinga og gagna óskað til að leggja mat á hvort tilefni væri til þess að æskja þess að kærunefnd jafnréttismála tæki málið til meðferðar. Svarbréf Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er dagsett 24. apríl 2012.  
  12. Upplýsingar í svarbréfinu frá 24. apríl voru að mati Jafnréttisstofu taldar renna frekari stoðum undir að brotið hafi verið gegn ákvæðum jafnréttislaga nr. 10/2008, sér í lagi 19. gr. Með vísan til 5. mgr. 4. gr. laganna óskaði Jafnréttisstofa eftir því að kærunefnd jafnréttismála tæki málið til meðferðar.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA
  13. Kærði bendir á að í samskiptum sínum við Jafnréttisstofu hafi afstaða kærða komið fram skýrlega og staðhæfingum sem kærandi hefur haldið fram alfarið mótmælt. Af hálfu kærða sé því ennfremur mótmælt að stofnunin hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008.
  14. Kærða þyki sérstök ástæða til að vekja athygli á því að í málinu beri kærandi sig saman við samstarfsmann sinn og samkvæmt upplýsingum sem kærandi hafi sent Jafnréttisstofu sinni þau sama starfinu á vinnustaðnum. Sú staðhæfing sé efnislega röng og styðjist ekki við staðreyndir máls. Hið rétta sé að kærandi hafi starfað sem iðjuþjálfi hjá stofnuninni en samstarfsmaður hennar hafi starfað þar sem sálfræðingur. Vegna ólíks bakgrunns og menntunar hafi þau átt hvort um sig aðild að hlutaðeigandi stéttarfélögum, þ.e. kærandi að Iðjuþjálfafélagi Íslands og hann að Fræðagarði.
  15. Umrædd stéttarfélög hafi hvort um sig gert sjálfstæðan kjarasamning við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs vegna starfsmanna sem eigi aðild að sömu félögum og starfi hjá íslenska ríkinu. Til viðbótar séu í gildi hjá einstökum stofnunum stofnanasamningar og taki þeir mið af aðstæðum á sérhverri stofnun og séu því mismunandi að efni til.
  16. Kærði bendir á að kærandi hafi notið launagreiðslna í samræmi við ákvæði kjara- og stofnanasamnings hlutaðeigandi starfsstéttar, þ.e. sem iðjuþjálfi. Hið sama hafi gilt um starfsmann þann, sem kærandi beri sig saman við. Hann hafi notið launa og annarra starfskjara sem taki mið af ákvæðum kjarasamnings þeirrar starfsstéttar sem um ræði, þ.e. sem sálfræðingur. Erfiðlega hafi gengið að manna stöðu sálfræðings á þeim tíma sem samstarfsmaður kæranda hafi verið ráðinn til starfa og hafi laun hans tekið mið af launum nýútskrifaðs sálfræðings, jafnvel þó svo hann hefði ekki enn lokið námi að fullu. Af hálfu kærða er áréttað að mögulega hafi stofnuninni borið að endurskoða laun og launakjör hans til lækkunar í ljósi þess að dregist hafi að hann lyki námi. Hins vegar telji stofnunin með öllu fráleitt að líta svo á að um kynbundinn launamun sé að ræða.
  17. Kærði bendir á að menntun, störf og starfsskyldur kæranda og samstarfsmanns hennar hafi ekki verið einungis mismunandi heldur einnig ábyrgð í starfi og gildi um það sérstök ákvæði samkvæmt kjara- og stofnanasamningum. Efnislega miði aðgreining ábyrgðar við það hvort sérfræðingur starfi einn á fagsviði eða undir ábyrgð yfirmanns sem hafi sömu fagþekkingu. Njóti starfsmaður sérstakrar röðunar í launaflokka umfram það sem ella væri ef hann starfi einn á fagsviði. Í tilviki því sem hér um ræði hafi samstarfsmaður kæranda átt rétt til slíkra viðbótargreiðslna. Jafnvel þó svo ekki hafi sama átt við um kæranda hafi farið svo að kærði hafi eigi að síður greitt kæranda viðbótargreiðslur eins og væri ef hún starfaði ein á fagsviði. Hafi sú tilhögun í raun verið umfram skyldu enda hafi yfirmaður kæranda haft sömu menntun og hún.
  18. Kærandi vísar til bréfs frá forstöðumanni Geðheilsu-eftirfylgdar þar sem fjallað sé um störf kæranda og annarra starfsmanna. Kærði telur ástæðu til að gera athugasemdir við umfjöllun bréfsins og leggur sérstaka áherslu á að kærunefnd jafnréttismála skoði efni þess í ljósi aðstæðna þegar það hafi verið ritað. Í því sambandi megi benda á að bréfið hafi verið ritað í þeim tilgangi að óska launabreytinga kæranda til handa og beri bréfið þess öll merki. Bréfið beri því fremur að skoða sem einhvers konar yfirlýsingu um stuðning í launabaráttu kæranda fremur en formlega afstöðu til mats á sambærileika ólíkra starfa mismunandi starfsstétta.  Með bréfi sínu hafi forstöðumaðurinn reynt eftir megni að tryggja starfsemina og áframhaldandi starf kæranda. Þá beri að líta til þess að í umfjöllun forstöðumanns sé að finna almennar staðhæfingar um mikilvægi starfa en fyrir liggi að forstöðumaður hafi hvorki framkvæmt mat á störfum í þessu tilliti né haft hliðsjón af gildandi kjara- og stofnanasamningum. Loks beri að líta til þess að forstöðumaður starfseiningar sem þessarar sé hvorki bær né honum heimilt að gefa skuldbindandi yfirlýsingar um túlkanir á skyldum samkvæmt kjara- eða stofnanasamningi. Starfsmannasvið Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafi slík málefni með höndum.
  19. Kærði áréttar að starfsmenn stofnunarinnar njóti launa og annarra starfskjara sem taki mið af kjarasamningum hlutaðeigandi starfsstétta. Um kjarasamninga stéttarfélaga, sem starfsmenn stofnunarinnar eigi aðild að, gildi ákvæði laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Fari fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs með fyrirsvar við gerð kjarasamninga.
  20. Kærði bendir á að launakjör starfsmanna ráðist að jafnaði af röðun starfa eða starfsheita í launaflokka. Í kjarasamningum opinberra starfsmanna sé að finna ákvæði um gerð svonefnds stofnanasamnings, þ.e. samnings starfsstéttar við stofnun sem gerður er á grundvelli ákvæða kjarasamnings. Í kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og aðildarfélaga Bandalags háskólamanna, sem undirritaður hafi verið þann 6. júní 2011, sé að finna svofellt ákvæði í gr. 11.1.3. um stofnanasamninga: „Við gerð samningsins skal semja um röðun starfa, sbr. gr. 1.2.1. og hvaða þættir og/eða forsendur skuli ráða röðun þeirra. Þar skulu fyrst og fremst metin þau verkefni og skyldur sem í starfinu felast auk þeirrar færni (kunnáttustig/sérhæfing) sem þarf til að geta innt starfið af hendi. Þá skal litið til skipurits stofnunar eða annars formlegs starfsskipulags við gerð samningsins. Starfslýsingar eru ein af forsendum röðunar starfa í launaflokka og skulu þær endurskoðaðar í takt við þróun starfa. Stéttarfélög eða stofnun geta gert sameiginlegan stofnanasamning, ýmist sameiginlega fyrir félög innan stofnunar eða fyrir hóp stofnana.“
  21. Af framangreindri umfjöllun megi ráða að röðun starfa í launaflokka byggi á ákvæðum kjara- og stofnanasamninga, þ.e. með beinni aðkomu ríkisins annars vegar og stéttarfélaga/starfsmanna stofnunar hins vegar. Röðun í launaflokka sé því hluti samningsniðurstöðu sömu aðila, sem byggi á forsendum og mati sem aðilar hafi sameiginlega ákveðið að leggja til grundvallar. Mismunandi röðun starfa eftir kjara- og stofnanasamningum byggi því á efnislegu mati samningsaðila en um innbyrðis samræmi sé ávallt að ræða.
  22. Í kjölfar umræðna um launakjör kæranda haustið 2011 hafi kærði ákveðið að hækka laun hennar og koma þannig til móts við kröfur hennar. Í launabreytingum hafi falist að laun kæranda hafi hækkað um tvo launaflokka og með því hafi laun hennar verið orðin sambærileg launum þeirra sem ábyrgð beri á fagsviði starfsstöðvar. Framangreind ráðstöfun hafi verið gerð umfram skyldu enda séu skilyrði kjarasamnings í þessum efnum í reynd ekki fyrir hendi þar sem yfirmaður kæranda sé jafnframt iðjuþjálfi.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA
  23. Kærandi byggir á að henni og karlkyns samstarfsmanni hennar hafi verið mismunað í launum fyrir sambærileg störf og kærði hafi þannig brotið gegn ákvæðum 19. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
  24. Kæranda sé fullljóst að hún og samstarfsfélagi hennar eigi aðild að mismunandi stéttarfélögum og þannig einnig mismunandi kjara- og stofnanasamningum. Kærandi mótmælir hins vegar að þau hafi sinnt ólíkum störfum, bæði hvað varðar innihald og ábyrgð. Í raun megi frekar segja að kærandi hafi haft meiri ábyrgð frá júlí 2010 þegar hún varð launaður staðgengill yfirmanns.
  25. Kærandi rekur að hjá Geðheilsu-eftirfylgd vinni starfsmenn stöðvarinnar í þverfaglegu teymi og þeim sem þangað leita sé útvegaður tengill sem eftir aðstæðum geti verið sálfræðimenntaður eða iðjuþjálfi. Ekki sé hægt að biðja sérstaklega um meðferð hjá sálfræðingi eða iðjuþjálfa heldur sinni þessi tengill stuðningi og eftirfylgd. Mikilvægt sé að allir starfsmenn stöðvarinnar geti gengið í störf hvers annars. Kærandi telji að vegna sambærileika starfanna geti í skilningi jafnréttislaga mismunandi kjarasamningar, einir og sér, ekki réttlætt ólík starfskjör þeirra.
  26. Í bréfi forstöðumanns komi fram hvernig aðdragandinn var að ráðningu samstarfsmanns hennar og vísi kærandi til þess. Hann hafi aldrei verið starfandi sem sálfræðingur innan Geðheilsu-eftirfylgdar eða borið faglega ábyrgð sem slíkur eins og staðhæft sé í greinargerð kærða. Fyrir því séu tvær ástæður, í fyrsta lagi hafi hann, þegar hann hafi verið ráðinn til starfa 1. desember 2007, ekki lokið námi sem sálfræðingur.  Hann hafi því ekki haft leyfi til að sinna verkefnum sem sálfræðingur og ekki gert það í raun. Í öðru lagi sé innan starfsemi Geðheilsu-eftirfylgdar ekki hægt að biðja sérstaklega um sálfræðimeðferð.
  27. Þrátt fyrir að stjórn kærða hafi verið ljóst að samstarfsmaður hennar hafi ekki haft tilskilin starfsréttindi hafi verið ákveðið að greiða honum laun sálfræðings og tvo launaflokka að auki fyrir að starfa einn á fagsviði, slík ákvörðun hljóti að vera alfarið á ábyrgð kærða.
  28. Kærandi vísar til föðurhúsanna þeirri staðhæfingu að bréf forstöðumanns sé skrifað undir þeirri pressu að kærandi hyggðist hætta störfum. Kærandi hafi aldrei ýjað að neinu slíku fyrr en hún hafi sagt upp eftir áramót 2012. Bréfið sé því ekki viðbrögð við mögulegri uppsögn.
  29. Starfsemi Geðheilsu-eftirfylgdar sé frumkvöðlastarf forstöðumanns. Sem hugmyndasmiður og forstöðumaður starfseminnar frá upphafi sé hún hæfust til að meta innihald og verðmæti þeirra starfa sem þar fara fram. Hún hafi greint frá því afdráttarlaust að um sambærileg og jafnverðmæt störf sé að ræða.
  30. Kærandi bendir á að það sé skylda kærða að sýna fram á að launamuninn megi skýra út frá öðru en mismunandi kynferði og færa hlutlæg og málefnaleg rök fyrir því að störf kæranda og samstarfsmanns séu ólík hvað varði verkefni og skyldur. Slíkt hafi ekki verið gert. Þvert á móti liggi fyrir afdráttarlaus yfirlýsing forstöðumanns að um sambærileg og jafnverðmæt störf sé að ræða.
  31. Áréttað er af hálfu kæranda að málflutningur hennar snúist um þá mismunun sem verið hafi áður en kærandi fékk launahækkun 1. desember 2011. Samstarfsmaður hennar hafi verið frá upphafi í launaflokki 087 og kærandi á þeim tíma í launaflokki 073. Kærandi hafi jafnframt fengið þær upplýsingar að fyrir mistök hafi hún verið einum launaflokki hærri en hún hafi átt að vera frá því í júní 2007. Í raun hafi því munur á launum hennar og hans átt að vera meiri þegar hann hafi hafið störf. Vegna þessara mistaka hafi kærandi ekki fengið eins launaflokks samningsbundna hækkun eftir fimm ára starf haustið 2010. Þetta hafi kærandi ekki fengið upplýsingar um fyrr en haustið 2011.
  32. Kærandi vill árétta að 1. júní 2010 hafi hún fengið eins launaflokks hækkun og þá ábyrgð að vera staðgengill yfirmanns sem hún hafi sinnt til starfsloka 30. maí 2012. Laun kæranda og samstarfsmanns hennar hafi verið jöfnuð 1. desember 2011 en þá hafi kærða ekki þótt ástæða til að greiða sérstaklega fyrir þessa staðgengilsábyrgð eins og áður. Sé því eftir launahækkun ekki enn hægt að tala um jöfn laun.

    ATHUGASEMDIR KÆRÐA
  33. Kærði áréttar fyrri sjónarmið en mótmælir sérstaklega staðhæfingu kæranda um að starfsmenn stöðvarinnar geti gengið í störf hvers annars. Störf hlutaðeigandi starfsmanna séu sérfræðistörf, vegna ólíks bakgrunns og menntunar verði slík skörun aldrei með þeim hætti sem kærandi leitist við að færa rök fyrir. Að mati kærða verði sambærileiki slíkra starfa í skilningi jafnréttislaga ekki á því byggður.

    NIÐURSTAÐA
  34. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 18. gr. laganna skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og samkvæmt 19. gr. skulu konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda greidd jöfn laun og þau njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna konum og körlum í launum og öðrum kjörum á grundvelli kyns.  Ef leiddar eru líkur að því að karl og kona sem starfa hjá sama atvinnurekanda njóti mismunandi launakjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf skal atvinnurekandi sýna fram á að munurinn skýrist af öðrum þáttum en kyni, sbr. 2. mgr. 25. gr. laganna.
  35. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna.
  36. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 10/2008 skulu erindi berast kærunefnd jafnréttismála skriflega innan sex mánaða frá því að ástandi sem talið er brot á lögunum lauk. Kærunefndin getur þegar sérstaklega stendur á ákveðið að taka erindi til umfjöllunar þótt liðinn sé framangreindur frestur, þó aldrei ef liðið er meira en eitt ár. Laun kæranda voru hækkuð um tvo launaflokka hinn 1. desember 2011. Erindi Jafnréttisstofu fyrir hönd kæranda var móttekið af nefndinni 1. júní 2012 en jafnframt liggur fyrir að kærandi leitaði til Jafnréttisstofu ekki síðar en í apríl 2012.  Verður ekki talið nauðsynlegt að skera nánar úr um hvenær kærufrestur hafi byrjað að líða þar sem fyrir liggur að kærandi leitaði til Jafnréttisstofu innan sex mánaða frá nefndri launahækkun auk þess sem að sú hækkun nægði ekki til að vega upp þann mun sem var á launum kæranda og þess sem hún ber sig saman við.
  37. Á fundi kærunefndar upplýstu fulltrúar kærða að þegar sálfræðingur er starfaði hjá Geðheilsu eftirfylgd hætti störfum 1. nóvember 2007 hefði verið auglýst eftir starfsmanni. Ein umsókn hefði borist, frá karlmanni þeim er kærandi ber sig saman við í launakjörum. Á fundinum kom fram að á þessum tíma hefðu fagmenntaðir starfsmenn einingarinnar verið þrír, umræddir tveir starfsmenn og forstöðumaður sem er iðjuþjálfi en síðar hefði verið bætt við einum fagmenntuðum starfsmanni.
  38. Fyrirspurn kærunefndar til kærða leiddi í ljós að ekki liggja fyrir skriflegar starfslýsingar um störf hjá kærða. Á fundi fyrirsvarsmanna kærða með kærunefnd kom fram að í raun hefðu báðir starfsmennirnir gegnt sama starfinu sem felst í margháttaðri aðstoð við einstaklinga með geðræn vandamál og að ábyrgð þeirra gagnvart skjólstæðingum hefði verið sú sama. Sérhæfing starfsmannanna hefði fremur falist í reynslu þeirra af einstaklingum með tiltekin einkenni eða vandamál heldur en í mismunandi menntun. Viðfangsefni starfsmanna gagnvart skjólstæðingum og þjónustuþörf þeirra hefði þannig ekki tekið mið af fagstétt hvers starfsmanns. Þessar upplýsingar eru í aðalatriðum í góðu samræmi við skriflega umfjöllun forstöðumanns Geðheilsu-eftirfylgdar. Fyrir liggur einnig að sá er kærandi ber sig saman við hafði ekki starfsréttindi sem sálfræðingur.  Telur nefndin með vísan til þessa að störf kæranda og þess er hún ber sig saman við hafi verið sambærileg og jafnverðmæt í skilningi 19. gr. laga nr. 10/2008.
  39. Samkvæmt 19. gr. og 1. mgr. 25. gr. laga nr. 10/2008 bar kærða, með vísan til framangreinds, að tryggja að kærandi nyti sömu launakjara og hliðsettur karl.
  40. Eftir leiðréttingu launa kæranda 1. desember 2011 urðu laun hennar og þess karlmanns sem hún ber sig saman við nánast þau sömu. Kærandi byggir á því að sú staðreynd feli í sér að henni hafi áfram verið mismunað á grundvelli kynferðis enda hafi hún gegnt starfi staðgengils og beri greiðsla sem nemi einum launaflokki fyrir það. Til þess að kjör hennar séu jöfn þeim kjörum sem karlmaðurinn njóti hefði hún með réttu átt að vera einum launaflokki hærri vegna staðgengilshlutverksins.
  41. Kærði hefur staðfest að kærandi hafi verið launaður staðgengill forstöðumanns.  Fyrir liggur að eftir leiðréttingu launa hinn 1. desember 2011 naut kærandi þess þó ekki í launakjörum. Engin skýring hefur komið fram af hálfu kærða hverju þetta sætir og er það því niðurstaða kærunefndar að kæranda hafi frá 1. nóvember 2011 til starfsloka hjá kærða einnig verið mismunað í launum að þessu leyti.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins braut gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ákvörðun launakjara kæranda, A á tímabilinu 1. desember 2007 fram til starfsloka hennar 30. maí 2012.

 

Erla S. Árnadóttir

Björn L. Bergsson

Þórey S. Þórðardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta