Hoppa yfir valmynd
15. maí 2021 Forsætisráðuneytið

1005/2021. Úrskurður frá 28. apríl 2021.

Úrskurður

Hinn 28. apríl 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð
nr. 1005/2021 í máli ÚNU 21040005.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 9. apríl 2021, fór A fram á endurupptöku máls ÚNU 20110015 sem lauk þann 5. febrúar 2021 með úrskurði nr. 973/2021. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun prófnefndar um próf til að öðlast réttindi til að vera héraðsdómslögmaður um að synja beiðni kæranda um aðgang að fyrirliggjandi eldri prófum sem lögð voru fyrir árin 2014 – 2020. Í úrskurðinum var á því byggt að þrátt fyrir að ekki væri víst að öll prófin yrðu notuð á öllum námskeiðum framvegis teldi úrskurðarnefnd um upplýsingamál ljóst að þau yrðu lögð fyrir með svo reglubundnum hætti að hætta væri á að þau yrðu þýðingarlaus ef þau yrðu afhent, sbr. 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga.

Í erindi kæranda, dags. 9. apríl 2021, er athygli úrskurðarnefndarinnar vakin á því að í úrskurði nefndarinnar nr. 973/2021 komi ranglega fram að athugasemdir kæranda við umsögn prófnefndarinnar hafi ekki borist á meðan málið var til meðferðar hjá nefndinni. Þvert á móti hafi kærandi sent athugasemdir með tölvupósti, dags. 17. desember 2020, í tilefni af umsögn prófnefndar. Kærandi telur ljóst að mistök hafi átt sér stað við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni sem hafi leitt til þess að andmælaréttur kæranda hafi verið að engu hafður. Af þeim sökum telur kærandi úrskurðinn ógildanlegan og fer þess á leit við úrskurðarnefndina að hún taki málið til meðferðar að nýju með hliðsjón af framangreindum athugasemdum kæranda.

Niðurstaða

1.

Í málinu er deilt um þá niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál í úrskurði nr. 973/2021 að staðfesta ákvörðun prófnefndar um að synja kæranda um aðgang að munnlegum prófum sem lögð voru fyrir á námskeiði til öflunar réttinda til að flytja mál fyrir héraðsdómi árin 2014-2020.

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku málsins á því að úrskurðurinn sé ógildanlegur þar sem andmælaréttur kæranda hafi ekki verið virtur en í úrskurðinum komi ranglega fram að athugasemdir kæranda hafi ekki borist vegna umsagnar prófnefndarinnar. Hið rétta sé að kærandi hafi sent úrskurðarnefndinni athugasemdir með tölvupósti, dags. 17. desember 2020. Af þessu tilefni tekur úrskurðarnefndin fram að nefndinni bárust athugasemdir kæranda við umsögn prófnefndarinnar með tölvupósti, dags. 17. desember 2020, svo sem fram kemur í erindi kæranda og var höfð hliðsjón af þeim við meðferð málsins. Mistök ollu því hins vegar að þess var ekki getið í úrskurðinum.

Fyrirmæli um endurupptöku stjórnsýslumála koma fram í 24. gr. stjórnsýslulaga. Í 1. mgr. þess ákvæðis segir svo:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.“

Í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál komst nefndin sem fyrr segir að þeirri niðurstöðu að staðfesta bæri ákvörðun prófnefndar um að synja beiðni kæranda um aðgang að prófverkefnum, að undanskildum eldri verkefnum sem ekki væri fyrirhugað að leggja fyrir á nýjan leik og prófnefnd hafði í umsögn sinni fallist á að veita bæri aðgang að. Niðurstaðan byggði á því að þrátt fyrir að ekki væri víst að öll prófin yrðu notuð á öllum námskeiðum framvegis teldi úrskurðarnefndin ljóst að þau væru lögð fyrir með svo reglubundnum hætti að hætta væri á að þau yrðu þýðingarlaus yrðu þau afhent, sbr. 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga.

Sem fyrr segir er beiðni kæranda um endurupptöku málsins reist á því að andmælaréttur hafi ekki verið virtur gagnvart kæranda við meðferð málsins. Eins og fram hefur komið bárust úrskurðarnefndinni umræddar athugasemdir kæranda og var höfð hliðsjón af þeim við úrlausn málsins. Úrskurðarnefndin telur því ljóst að þessi mistök leiði ekki til þess að andmælaregla 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin enda var höfð hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem kærandi annars vegar færði fram í kæru og hins vegar í athugasemdum við umsögn prófnefndar sem bárust úrskurðarnefndinni á meðan á meðferð málsins stóð. Að mati úrskurðarnefndarinnar leiða framangreind mistök því ekki til þess að úrskurður nr. 973/2021 sé byggður á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik þannig að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga.

Í ljósi atvika málsins taldi úrskurðarnefndin engu að síður rétt að fara á ný yfir þau sjónarmið sem fram koma í athugasemdum kæranda, dags. 17. desember 2020, í því skyni að taka afstöðu til þess hvort þar kæmu fram sjónarmið sem leiddu til þess að skilyrði endurupptöku væru fyrir hendi. Var niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að svo væri ekki.

Að mati úrskurðarnefndarinnar er úrskurður nr. 973/2021 ekki byggður á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik þannig að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga.

Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir atvikum að vera rétt og heimilt að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Í því tilviki sem hér um ræðir veltur skylda til slíkrar endurupptöku, að mati nefndarinnar, á því að rökstuddar vísbendingar séu um að á úrskurði hennar séu verulegir annmarkar að lögum. Úrskurðarnefndin telur röksemdir kæranda ekki leiða í ljós slíkar vísbendingar. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er hafnað beiðni um endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 973/2021 frá 5. febrúar 2021.


Úrskurðarorð:
Beiðni A dags. 9. apríl 2021, um endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 973/2021 frá 5. febrúar 2021, er hafnað.

Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Símon Sigvaldason Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta