Úrskurður nr. 575/2017
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 19. október 2017 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 575/2017
í stjórnsýslumáli nr. KNU17090056
Beiðni […] um endurupptöku
I. Málsatvik
Þann 15. júní 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 24. mars 2017 um að synja umsókn […], fd. […], ríkisborgara […] (hér eftir nefndur kærandi) um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 19. júní 2017. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 20. júní 2017. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd þann 30. júní 2017. Þann 25. júlí 2017 óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins. Með úrskurði kærunefndar, dags. 24. ágúst 2017, var kröfu kæranda um endurupptöku á máli hans hafnað.
Þann 29. september 2017 óskaði kærandi að nýju eftir endurupptöku málsins.
II. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á grundvelli ákvæðis II til bráðabirgða í lögum um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.
Með vísan til meginreglunnar um fjölskyldueiningu er þess krafist að mál kæranda verði metið og afgreitt að teknu tilliti til sambærilegra krafna eiginkonu og barns hans þannig að fjölskyldan verði ekki aðskilin. Þetta sé í samræmi við athugasemdir við frumvarp til laga nr. 81/2017, um að almennt sé eðlilegt að veita foreldrum sem fara með forsjá barns, og eftir atvikum systkinum, dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. útlendingalaga til að tryggja einingu fjölskyldunnar, að uppfylltum öðrum skilyrðum. Í því sambandi vísar kærandi í úrskurð kærunefndar útlendingamála nr. 483/2017. Með vísan til athugasemda við frumvarpið og þessa úrskurðar kærunefndar sé þess óskað að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sjónarmiða um fjölskyldueiningu.
Kærandi fer því fram á að mál sitt verði tekið upp að nýju og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. útlendingalaga.
III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku m.a. á því að hann uppfylli skilyrði nýsamþykktra laga nr. 81/2017 um lög um breytingu á lögum um útlendinga.
Með úrskurði kærunefndar, dags. 19. október 2017, var fallist á beiðni eiginkonu kæranda og barns þeirra um endurupptöku og lagt fyrir Útlendingastofnun að veita þeim dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga, sbr. lög um breytingu á lögum um útlendinga nr. 81/2017. Með vísan til meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar og til athugasemda með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 81/2017 er fallist á beiðni kæranda um endurupptöku og að veita beri honum dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga.
Úrskurðarorð
Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.
Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda varðandi umsókn hans um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla er staðfest.
The appellant‘s request for re-examination of the case is granted.
The Directorate is instructed to issue residence permit for the appellant based on Article 74 of the Act on Foreigners. The decision of the Directorate of Immigration related to his application for international protection and residence permit on the grounds of special connection with Iceland is affirmed.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Þorbjörg Inga Jónsdóttir Pétur Dam Leifsson