Hoppa yfir valmynd
6. júní 2024 Utanríkisráðuneytið

Aukin samvinna rædd á reglulegum samráðsfundi Íslands og Frakklands

Þátttakendur á samráðsfundi Íslands og Frakklands - mynd

Tvíhliða samráð utanríkisráðuneyta Íslands og Frakklands fór fram þann 5. júní í Reykjavík. Þetta er í þriðja sinn sem Ísland og Frakkland eiga samráð af þessu tagi, en fundir hafa verið haldnir með 18 mánaða millibili frá árinu 2021. Viðskiptaskrifstofa utanríkisráðuneytisins leiddi samráðið fyrir Íslands hönd, en einnig tóku þátt fulltrúar skrifstofu alþjóðapólitískra málefna og sendiráðs Íslands í París. Pierre-Alexandre Miquel, staðgengill skrifstofustjóra á Evrópumálaskrifstofu franska utanríkisráðuneytisins fór fyrir sendinefnd Frakklands. 

Tvíhliða samskipti ríkjanna og fletir á frekara samstarfi, meðal annars á sviði viðskipta- og orkumála, voru til umræðu, sem og staða skipulagningar Ólympíuleikanna sem Frakkar halda í París í sumar. Evrópumál voru einnig rædd, þar á meðal kosningar til Evrópuþingsins sem fara fram í vikunni, stefna Frakklands í Evrópumálum og samstarf Íslands við Evrópusambandið. Auk þess ræddu fulltrúar ríkjanna stöðu alþjóðamála og helstu áskoranir sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir, svo sem innrásarstríð Rússlands í Úkraínu og átök fyrir botni Miðjarðarhafs. Norðurslóðamál og hafráðstefna Sameinuðu þjóðanna sem Frakkland heldur á næsta ári voru loks til umræðu.  

Markmið reglulegs samráðs milli Íslands og Frakklands er að auka og viðhalda sterkum tengslum á milli landanna, ekki síst í ljósi þess veigamikla hlutverks sem Frakkland gegnir innan Evrópusambandsins og aðildar Íslands að EES-samningnum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta