Stafræna Fab Lab smiðjan á Akranesi stórefld
Fab Lab smiðjan á Akranesi hefur nú verið flutt í nýtt húsnæði og tækjabúnaður endurnýjaður að hluta. Samningur um stuðning ríkisins við Fab Lab smiðjuna var undirritaður í gær af Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Rakel Óskarsdóttur stjórnarformanni Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi.
Markmiðið með starfsemi Fab Lab smiðjanna er að auka þekkingu skólafólks og almennings á persónumiðaðri framleiðslu og stafrænum framleiðsluaðferðum. Verkefninu er ætlað að auka áhuga á verk- og tækninámi í grunn- og framhaldskólum, auka tæknilæsi og tæknivitund og efla hæfi til nýsköpunar í námi og atvinnulífi. Markmið verkefnisins er enn fremur að skapa vettvang fyrir nýsköpun og að efla samkeppnishæfni fyrirtækja, menntastofnana og nemenda á Vesturlandi.