Fjárfesting ríkisins jókst á síðasta ári og gert ráð fyrir áframhaldandi vexti
Í fyrra nam fjárfesting ríkisins 66,1 milljarði króna, sem er 3,6 milljörðum hærra en árið 2019 á verðlagi hvors árs. Talsverð áhrif á mælingar Hagstofunnar hefur meðhöndlun Vestmannaeyjaferju í uppgjörinu. Útgjöld vegna nýs Herjólfs féllu til á árunum 2017-2019. Í tölum Hagstofunnar koma þau fram að fullu árið 2019 þegar skipið kom til landsins, en fjárfesting er þeim mun minni árin 2017-2018. Ef leiðrétt er fyrir þessu jókst fjárfesting ríkisins um 12% milli ára árið 2020 og fór úr 59 milljörðum króna í 66,1 milljarð króna. Á föstu verðlagi er vöxturinn 7,7% árið 2020.
Spornað gegn samdrætti með fjárfestingar- og uppbyggingarátaki
Þegar heimsfaraldur kórónuveiru skall á í fyrra ákvað ríkisstjórnin að ráðast í fjárfestingar- og uppbyggingarátak á árunum 2020-2023 til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu. Ræður það miklu um að gert er ráð fyrir áframhaldandi vexti fjárfestingar árið 2021 og að fjárfestingarstig hins opinbera haldist áfram hátt á næstu árum. Markmið átaksins er annars vegar að sporna gegn samdrætti í efnahagslífinu í yfirstandandi efnahagslægð og hins vegar að leggja grundvöll að kraftmiklu skeiði hagvaxtar eftir faraldurinn með fjölbreyttum verkefum sem auka framleiðni. Dæmi um slík verkefni eru stuðningur við nýsköpun og rannsóknir, stafræn þróun, viðhald og endurbætur fasteigna og verkefni tengd orkuskiptum og grænum lausnum.