Mál nr. 13/2023 - Úrskurður
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála
A
gegn
B ehf.
Framkoma á vinnustað. Frávísun.
Máli A gegn B ehf. var vísað frá kærunefnd þar sem ekki lágu fyrir upplýsingar um ákvörðun eða tilvik sem vörðuðu mismunun á grundvelli ákvæða laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði.
- Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 19. apríl 2024 er tekið fyrir mál nr. 13/2023 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
- Með kæru, dags. 30. ágúst 2023, kærði A B ehf. til kærunefndar jafnréttismála. Af kæru og frekari skýringum kæranda 6., 10., 15. og 17. september 2023 og 2., 16. og 18. janúar 2024 að beiðni kærunefndar með tölvupóstum 6. og 15. september 2023, símleiðis 27. október s.á. og með tölvupóstum 2. og 16. janúar 2024 má ráða að kæran beinist að óánægju með framkomu yfirmanns kæranda gagnvart honum sem leiði til þess að vinnuaðstæður séu óboðlegar. Sem dæmi nefnir kærandi að yfirmaðurinn hafi sniðgengið hann við val í starf vaktstjóra, hótað honum brottrekstri þegar hann var að grínast með samstarfsmanni sínum, hafi ekki heilsað honum þegar hann hafi heilsað hópi starfsfólks á móðurmáli sínu og ekki leyft honum að tala á fundi sem hann hefði óskað eftir. Telur kærandi að sér hafi verið mismunað á grundvelli kynþáttar, þjóðernisuppruna og lífsskoðunar. Hvorki hafa verið lögð fram gögn eða upplýsingar fyrir kærunefnd sem varpa ljósi á það hvenær þau tilvik sem kæran beinist að hafi átt sér stað né í hverju ætluð mismunun hafi verið fólgin.
NIÐURSTAÐA
- Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, kemur fram að lögin gildi um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Í 1. mgr. 2. gr. sömu laga kemur fram að markmið laganna sé að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr.
- Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
- Af kæru og þeim upplýsingum sem liggja fyrir í málinu má ráða að kærandi telji að framkoma yfirmanns hans feli í sér mismunun á grundvelli laga nr. 86/2018. Jafnvel þótt framkoma yfirmanns gagnvart starfsmanni geti falið í sér niðurlægjandi meðferð verða að liggja fyrir upplýsingar um ákvörðun eða tilvik sem varða mismunun samkvæmt ákvæðum laganna til þess að kærunefnd geti tekið það til umfjöllunar, sbr. til hliðsjónar 15. gr. laga nr. 86/2018. Í máli þessu liggja engar slíkar upplýsingar fyrir þrátt fyrir að kærunefnd hafi ítrekað farið þess á leit við kæranda að bæta úr því. Að því virtu verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá, sbr. og 1. mgr. 23. gr. reglugerðar nr. 408/2021, um kærunefnd jafnréttismála.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Máli þessu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.
Kristín Benediktsdóttir
Andri Árnason
Ari Karlsson