Starfsendurhæfing verði tryggð þeim sem þurfa
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, harmar að Starfsendurhæfingarsjóðurinn VIRK hyggist hafna 200 milljóna króna framlagi sem sjóðnum er ætlað í fjárlögum næsta árs. Áhersla verður lögð á að tryggja fólki atvinnutengda starfsendurhæfingu í samræmi við lög telji VIRK sig ekki geta veitt hana.
Lög um starfsendurhæfingu og starfsendurhæfingarsjóði tóku gildi í október árið 2012. Með lögunum var áhersla lögð á að tryggja starfsendurhæfingu öllum sem hún gæti gagnast til að verða virkir á vinnumarkaði.
VIRK er eini starfsendurhæfingarsjóðurinn hér á landi og skal samkvæmt lögum vera fjármagnaður með framlögum frá atvinnurekendum, lífeyrissjóðum og ríkinu. Hann hefur frá upphafi haft mun meiri tekjur en svara til útgjalda hans og því safnað umtalsverðum fjármunum í varasjóð.
„Það er ekki hlutverk VIRK að safna í sjóð og Alþingi lagði áherslu á þá afstöðu sína þegar lög um starfsenduhæfingarsjóði voru samþykkt. Það er ágreiningur um framlög þeirra þriggja aðila sem eiga að leggja sjóðnum til fé. Ég tel eðlilegt að lækka framlögin þannig að ekki verði óeðlileg sjóðssöfnum, aðhalds verði gætt í rekstrinum og að allir aðilarnir þrír greiði jafnt í sjóðinn.“
Eygló segir að falli VIRK ekki frá þessari ákvörðun um að hafna framlagi ríkisins verði allt kapp lagt á að tryggja fólki þá þjónustu sem það þarf hjá VIRK eða eftir öðrum leiðum.
Ráðherra mun óska eftir fundi með stjórn VIRK sem fyrst til að halda áfram viðræðum um lausn á þessu máli.