Hoppa yfir valmynd
17. mars 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 19/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 19/2015

Fimmtudaginn 17. mars 2016

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Guðrún Agnes Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 19. október 2015, kærir A til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála, greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 22. júlí 2015.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 5. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í þrjá mánuði vegna barns hans sem fæddist þann X. júní 2015. Með bréfi, dags. 15. maí 2015, óskaði Fæðingarorlofssjóður eftir frekari gögnum frá kæranda vegna umsóknar hans, meðal annars launaseðlum fyrir desember 2014 og janúar og maí 2015. Kærandi sendi Fæðingarorlofssjóði frekari gögn og var afgreiddur í fæðingarorlof í samræmi við þau, sbr. greiðsluáætlun til hans, dags. 22. júlí 2015, en samkvæmt henni voru þrír mánuðir undanskildir við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála 19. október 2015 og fór fram á að fimm mánuðir til viðbótar yrðu undanskildir við útreikning á meðaltali heildarlauna hans. Með bréfi, dags. 22. október 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Fæðingarorlofssjóðs barst með bréfi, dags. 17. nóvember 2015, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. nóvember 2015, var greinargerð Fæðingarorlofssjóðs send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda, dags. 28. nóvember 2015, og voru þær sendar Fæðingarorlofssjóði til kynningar með bréfi, dags. 1. desember 2015. Viðbótargreinargerð barst frá Fæðingarorlofssjóði, dags. 2. desember 2015, sem var send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. desember 2015.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi verið í háskólanámi meirihluta þess tímabils sem útreikningur greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði taki mið af. Fæðingarorlofssjóður hafi því undanskilið þrjá mánuði í útreikningnum en kærandi fer fram á að fimm mánuðir til viðbótar verði undanskildir. Kærandi hafi verið í fullu háskólanámi og því ekki þátttakandi á innlendum vinnumarkaði í skilningi 13. gr. a laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof en hann hafi einungis unnið hlutastarf með náminu. Í desember 2013, janúar, maí, september og október 2014 hafi kærandi unnið hlutastörf samhliða fullu námi við Háskóla Íslands og laun hans verið á bilinu núll til tæplega 130.000 kr. Allir þessir mánuðir komi stórlega til lækkunar á meðaltali heildarlauna yfir tólf mánaða tímabilið sem Fæðingarorlofssjóður miði við og þar með þeirri fjárhæð sem kærandi telur sig eiga rétt á að fá greidda frá sjóðnum.

Kærandi tekur fram að þau laun sem hann hafi fengið fyrir störf samhliða náminu séu langt undir öllum viðmiðum um lágmarkslaun og breyti engu um það að hann hafi verið námsmaður í fullu námi á framangreindu tímabili. Ljóst sé að Fæðingarorlofssjóður hafi heimild til þess að undanskilja fimm mánuði til viðbótar, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000. Eftir standi júní, júlí, ágúst og nóvember 2014 en kærandi hafi hafið störf sem X seinni hluta nóvembermánaðar 2014. Í öllu falli hljóti Fæðingarorlofssjóði að vera rétt að líta á kæranda sem námsmann frekar en þátttakanda á vinnumarkaði þar sem sú ákvörðun sé minna íþyngjandi, sbr. meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Þá sé sú ákvörðun betur til þess fallin að ná markmiði laga nr. 95/2000 að tryggja barni samvistir við báða foreldra en kærandi hafi vart efni á þeirri tekjuskerðingu sem óbreytt greiðsluáætlun hefði í för með sér. Þá bendir kærandi á að skerðing á greiðslum til hans vegna framangreindra mánaða sé meiri en þau laun sem hann hafi fengið fyrir að vinna samhliða náminu.  

Í athugasemdum kæranda til úrskurðarnefndarinnar gerir kærandi athugasemdir við að Fæðingarorlofssjóður hafi á kærustigi hafið rannsókn á málinu að nýju. Óeðlilegt væri að lægra sett stjórnvald væri að rannsaka mál upp á eigið frumkvæði meðan það væri enn til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Því hafi kærandi einungis skilað inn hluta af umbeðnum gögnum til Fæðingarorlofssjóðs.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 þar sem kveðið sé á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr., í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingardag barns. Til launa teljist meðal annars hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Í 2. mgr. 13. gr. laganna segi enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a, án tillits til þess hvort laun samkvæmt 2. málsl. eða reiknað endurgjald samkvæmt 5. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Við mat á því hvort foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði í skilningi 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a, verði jafnframt að horfa til 1. mgr. 13. gr. A, en þar komi meðal annars fram að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Fullt starf starfsmanns miðist við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljist fullt starf. Í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 komi fram að starfsmaður sé hver sá sem vinni launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði.

Í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2000 sé kveðið á um að útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun afli um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segi jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila samkvæmt 2., 5. og 6. mgr. 13. gr. laganna.

Fæðingardagur barns kæranda hafi verið þann X. júní 2015 og því skuli, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hans þá mánuði sem kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði tímabilið desember 2013 til nóvember 2014. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hafi kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram komi í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hans á framangreindu viðmiðunartímabili og telji Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Kærandi fái greidd laun á öllu tímabilinu utan október 2014.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra séu laun kæranda í febrúar til apríl 2014 undir þeim mörkum að hann geti talist hafa verið á innlendum vinnumarkaði þá mánuði, sbr. einnig staðfesting um skólavist, og því hafi þeir mánuðir verið undanskildir við útreikning á meðaltali heildarlauna hans. Í kæru til úrskurðarnefndar geri kærandi þá kröfu að mánuðirnir desember 2013 og janúar, maí, september og október 2014 verði einnig undanskildir við útreikning á meðaltali heildarlauna hans samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000. Í kærunni komi meðal annars fram að hann hafi unnið hlutastörf samhliða námi sínu en launin séu undir viðmiðum um lágmarkslaun. Fæðingarorlofssjóður hafi fyrir mistök óskað eftir gögnum frá kæranda fyrir röng ár og því hafi sjóðurinn ákveðið á kærustigi að óska eftir frekari gögnum frá kæranda sem sýnt gætu fram á að hann hefði ekki verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði í skilningi laganna á umdeildu tímabili. Hluti umbeðinna gagna og skýringa hafi borist frá kæranda, en með þeim hafi hann ekki sýnt fram á að hafa ekki verið á innlendum vinnumarkaði þá mánuði sem hann fari fram á að verði undanskildir.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að greiðsluáætlun til kæranda, dags. 22. júlí 2015, beri með sér réttan útreikning á greiðslum til hans.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 22. júlí 2015, um að mánaðarleg greiðsla til kæranda yrði 163.427 kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. a laganna, sbr. 2. mgr. 7. gr., felur þátttaka á innlendum vinnumarkaði meðal annars í sér að starfa sem starfsmaður, þ.e. að vinna launuð störf í annarra þjónustu, í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Þá telst enn fremur til þátttöku á innlendum vinnumarkaði meðal annars orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti.

Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til foreldris í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna. Miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann dag sem barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Auk þess segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a, án tillits til þess hvort laun samkvæmt 2. málsl. eða reiknað endurgjald samkvæmt 5. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Barn kæranda fæddist þann X. júní 2015. Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum skal því mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hans þá mánuði sem kærandi var á innlendum vinnumarkaði tímabilið desember 2013 til nóvember 2014. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði í skilningi laga nr. 95/2000 í desember 2013, janúar, maí, september og október 2014. Fyrir mistök óskaði Fæðingarorlofssjóður eftir gögnum frá kæranda fyrir ranga mánuði, nánar tiltekið desember 2014, janúar og maí 2015 og á grundvelli þeirra gagna var ákvörðun tekin. Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs er stjórnvaldsákvörðun og við slíkar ákvarðanir ber stofnuninni að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 10. gr. laganna hvílir sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Mál telst nægilega rannsakað þegar upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Af gögnum málsins má ráða að ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum um aðstæður kæranda á því tímabili sem leggja skal til grundvallar við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Með vísan til þess þykir hin kærða ákvörðun ekki reist á fullnægjandi gögnum og er hún því felld úr gildi og lagt fyrir Fæðingarorlofssjóð að taka málið til nýrrar meðferðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 22. júlí 2015, um mánaðarlegar greiðslur til A er felld úr gildi og málinu vísað til sjóðsins til nýrrar meðferðar.

 

Guðrún A. Þorsteinsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Þórhildur Líndal

 

 

                                                                    

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta