Ávarp forsætisráðherra
Við verðum að vanda okkur því verkefninu er langt í frá lokið, sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, í ávarpi til íslensku þjóðarinnar í kvöld, degi áður en fyrsta skrefið er stigið í afléttingu samkomubanns á morgun.
„Frá og með morgundeginum hefjum við vegferð okkar, skref fyrir skref í átt að bjartari dögum. Við skulum njóta þess og muna að ástæðan fyrir því að hægt er að taka þetta skref í að slaka á samkomubanninu er sú að við höfum staðið okkur frábærlega og náð tökum á útbreiðslu veirunnar. En við skulum við samt muna að faraldurinn geisar enn um heiminn og nú tekur við erfitt uppbyggingarstarf sem mun reyna á þolinmæðina,“ sagði Katrín í ávarpi sínu og minnti á að ef við missum einbeitinguna þá getur illa farið.
Hún vottaði ástvinum þeirra sem hafa látist vegna Covid-19 samúð sína og ríkisstjórnarinnar.