Gagnsemi lyfja
Framfarir í lyfjafræði leiða til betri heilsu, betri lífsgæða og aukins heilbrigðis meðal almennings. Þetta sagði heilbrigðisráðherra á ráðstefnu um gagnsemi lyfja. Ráðherra ávarpaði málstofu um gildi lyfja í þjóðhagslegu og heilsuhagfræðilegu tilliti sem haldin var í Þjóðminjasafninu í gær. Ráðherra ræddi þar m.a. um þjóðhagslegan ávinning að lyfjanotkun og lyfjaframleiðslu: “Svo farið sé nánar útí efni málþingsins um þjóðhagslegan ávinning af notkun lyfja, þá er því er því stundum ranglega haldið fram að heilbrigðisyfirvöld og þeir sem vilja stuðla að skynsamri og hagkvæmri lyfjanotkun, séu á móti nýjum lyfjum og líti eingöngu á þau sem fjárhagsleg útgjöld en komi ekki auga á ávinning sjúklinga. Þetta er auðvitað mikil einföldun því að allir vita að framfarir í lyfjafræði og læknisfræði hafa leitt til betri heilsu, betri lífsgæða hjá einstaklingum og aukins heilbrigðis meðal almennings.
Lyf hafa komið að góðum notum við að bæta heilsu og líðan fólks ásamt breyttu lífsmunstri, meiri hreyfingu og bættu mataræði. Þróun ákveðinna lyfja upp úr seinni hluta síðustu aldar gerði að verkum að fleira fólk varð frískara, legum og aðgerðum á sjúkrahúsum fækkaði og heilbrigðiskostnaður varð minni en ella hefði orðið. Með hjálp lyfja hefur fólki verið bjargað og komið til heilsu, nægir þar að nefna tilkomu sýklalyfja.
Ýmsar aðrar tegundir lyfja, til dæmis magalyf og geðlyf, svo nokkuð sé nefnt, hafa bætt heilsu margra og dregið verulega úr kostnaði við heilbrigðismál. Magalyfin hafa komið í stað flókinna magaskurðaðgerða og legu sjúklings á sjúkrahúsi í allt að sex vikur. Og geðlyfin, sérstaklega svokölluð létt geðlyf, hafa gert fjölda fólks kleift að lifa sambærilegu lífi og aðrir þegnar þjóðfélagsins.”
Ráðherra vék einnig að heildarhlutdeild heilbrigðisútgjaldanna mælt af vergri þjóðarframleiðslu en þetta hlutfall er á milli 9 og tíu af hundraði, eða sem svarar um 107 milljörðum króna á liðnu ári. Ráðherra sagði að þetta hlutfall myndi að óbreyttu hækka: “Um miðbik þessarar aldar má gera ráð fyrir að hlutdeild heilbrigðisútgjalda hafi aukist í u.þ.b. 13% af vergri þjóðarframleiðslu á Íslandi. Aldurssamsetning íslensku þjóðarinnar skiptir hér miklu máli, en hins vegar þarf að taka tillit til fleiri þátta, til dæmis framfara í læknisfræði, nýrra lækningatækja og ekki hvað síst nýrra og áhrifaríkari lyfja. Hér gætum við vissulega hagnýtt okkur betur kosti heilsuhagfræðinnar og sérstaklega tel ég að aðferðin um greiningu kostnaðar og ávinnings geti komið að góðum notum.”
Sjá nánar ræðu heilbrigðisráðherra undir yfirskriftinni Ræður og greinar ráðherra