Hoppa yfir valmynd
24. október 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Stofnfrumur til rannsókna

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra leggur á næstunni fram frumvarp til laga sem felur í sér að heimilt verður að nýta stofnfrumur til rannsókna.

Í frumvarpinu sem heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra kynnti í ríkisstjórn og ríkisstjórnin samþykkti fyrir sitt leyti, er gert ráð fyrir að heimilt verði að nota svonefnda umframfósturvísa til að búa til stofnfrumulínur sem nýst geta til lækninga eða til að afla þekkingar í líf- og læknisfræði. Not þessi eru háð skilyrðum. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að heimilt verði í undantekningartilvikum, þ.e. þegar ekki er talið unnt að ná sama árangri með notkun umframfósturvísa eða með öðrum hætti, að framkvæma megi kjarnaflutning í þeim tilgangi að búa til stofnfrumulínur sem nýst geta til lækninga eða til að afla þekkingar í líf- og læknisfræði. Kjarnaflutningur er sú aðferð sem notuð er við einræktun og felst í því að kjarni er fjarlægður úr eggfrumu konu og í stað hans komið fyrir kjarna úr líkamsfrumu. Við þetta verður til fruma sem hefur sambærilega eiginleika og frjóvguð eggfruma eða fósturvísir. Hér er í engu vikið frá ótvíræðu banni núgildandi laga við kjarnaflutningi í æxlunartilgangi, þ.e. í þeim tilgangi að einrækta manneskju.

Frumvarpið er samið af nefnd sem skipuð var af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra 5. október 2005, til að fjalla um nýtingu stofnfruma til rannsókna og lækninga og semja drög að frumvarpi til laga um stofnfrumurannsóknir. Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu var skipaður formaður nefndarinnar en aðrir nefndarmenn voru: Sigurður Guðmundsson, landlæknir, Magnús Karl Magnússon, læknir, Björn Guðbjörnsson, læknir, Þórarinn Guðjónsson, frumulíffræðingur, Ingileif Jónsdóttir, ónæmisfræðingur, Vilhjálmur Árnason, prófessor, Sólveig Anna Bóasdóttir, guðfræðingur og Jóhann Hjartarson, lögfræðingur. Starfsmaður nefndarinnar var Ágúst Geir Ágústsson, lögfræðingur.

Frumvarp heilbrigðisráðherra um stofnfrumur til rannsókna (pdf 191KB – opnast í nýjum glugga).



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta