Hoppa yfir valmynd
29. ágúst 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Kostnaðarþátttaka afnumin hjá 99% grunnskólabarna

könnun Velferðarvaktarinnar á kostnaðarþátttöku grunnskólabarna í skólagögnum, s.s. ritföngum og pappír, sýnir að á næsta skólaári 2018-2019 munu 99% grunnskólabarna búa í sveitarfélögum sem hafa afnumið hana.  Velferðarvaktin hefur tvívegist falið Maskínu að kanna kostnaðarþátttöku grunnskólabarna í skólagögnum. Niðurstöðurnar hafa leitt í ljós að flest sveitarfélög hafa ákveðið að afnema kostnaðarþátttöku grunnskólabarna vegna skólagagna. Skólaárið 2016-2017 höfðu 23% sveitarfélaga afnumið kostnaðarþátttökuna og 85% skólaárið 2017-2018. Á nýhöfnu skólaári; 2018-2019, er hlutfallið komið í  92%.

Í þeim sveitarfélögum sem svara því til að þau hafi ekki afnumið kostnaðarþátttöku búa um 1% grunnskólabarna landsins. Könnunin leiðir því í ljós að alls búa nú að minnsta kosti 44.643 börn, eða um 99% grunnskólanema landsins, í sveitarfélögum sem hafa aflétt kostnaðarþátttöku grunnskólanema.

Siv Friðleifsdóttir, formaður Velferðarvaktarinnar segir þessa þróun einstaklega ánægjulega: „Nýja könnunin sýnir að sveitarfélögin eru að taka stórt skref í þágu barna. Þau eru að aflétta um 300-350 milljónum króna árlega af barnafjölskyldum með þessu skrefi. Velferðarvaktin hefur lengi beitt sér fyrir því að sveitarfélögin leggi kostnaðarþátttöku af svo bágur efnahagur heimilis komi síður niður á námi og lífi barna. Barnaheill, Heimili og skóli og ýmis foreldrafélög hafa einnig beitt sér. Upplýsingar Velferðarvaktarinnar sýna að kostnaðarþátttaka hefur verið mjög mismunandi og farið allt upp í 22.300 krónur á ári. Við höfum komið því á framfæri að kostnaðarþátttaka upp á tugi þúsunda króna samrýmist hvorki anda Barnasáttmálans né grunnskólalaganna og höfum hvatt menntamálaráðherra til að beita sér fyrir endurskoðun 31. greinar grunnskólalaganna. Við í Velferðarvaktinni fögnum því að langflest grunnskólabörn erulaus við kostnaðarþátttökuna og vonum að innan tíðar verði þau öll komin í þann hóp“ segir Siv.

Grunnskólabörn á Íslandi voru 45.195 árið 2017 og er stuðst við þær tölur í ofangreindri samantekt.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta