Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félags- og barnamálaráðherra gerir samning við Heimilisfrið

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra og Andrés Ragnarsson frá Heimilsfriði við undirritunina.  - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, endurnýjaði í vikunni samning við Heimilisfrið um sérhæfða sálfræðiþjónustu fyrir konur og karla sem beita ofbeldi í nánum samböndum. Heimilisfriður hefur um árabil sérhæft sig í meðferðum fyrir einstaklinga sem beita maka sína ofbeldi en meðferðinni er ætlað að draga úr líkum á frekari ofbeldishegðun og felst í því að þróa leiðir til að takast á uppbyggilegan hátt við ágreining og erfiðleika í samskiptum.

Markmiðið er að fá gerendur ofbeldis til að viðurkenna ábyrgð og breyta hegðun sinni. Lögð er áhersla á að viðkomandi þiggi aðstoðina af fúsum og frjálsum vilja og hafi sjálfir frumkvæði að því að leita sér aðstoðar. Undantekningar á þessari meginreglu eru t.d. þegar barnaverndaraðilar, félagsþjónusta eða lögregla vísa málum til Heimilisfriðs.

Undanfarið hefur mikil áhersla verið lögð á að efla þjónustuna með því að stytta biðtíma eftir viðtali, auka símaþjónustu og þess háttar. Þjónustan er orðin vel þekkt meðal almennings sem hefur skilað sér í aukinni eftirspurn síðustu misseri. Heimilisfriður býður einnig upp á þjónustu á Norðurlandi.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Það er afar mikilvægt að geta greitt aðgengi þeirra sem vilja leita sér aðstoðar og losna úr viðjum ofbeldisbeitingar og það erum við að gera með þessum samningi við Heimilisfrið. Heimilisofbeldi hefur alltaf alvarlegar afleiðingar, ekki síst þegar börn búa á heimilinu. Það því mikilvægt að þeir sem beita ofbeldi fái faglega aðstoð við að ná tökum á hegðun sinni en með samningnum er þessi þjónusta mikið niðurgreidd og þar með aðgengilegri fyrir alla.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta