Skipun starfshóps um vinnumarkaðsaðgerðir
Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, kynnti á fundi ríkisstjórnar í morgun skýrslu Vinnumálastofnunar um horfur á vinnumarkaði fyrri hluta ársins 2009. Ráðherra hefur ákveðið að skipa starfshóp til að móta tillögur um aðgerðir á vinnumarkaði og mun hann hefja störf nú þegar. Honum er ætlað að skila fyrstu tillögum sínum fyrir 1. febrúar og verða þær þá kynntar í ríkisstjórn.
Starfshópurinn verður skipaður fulltrúum Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bandalagi háskólamanna, fjármálaráðherra og félags- og tryggingamálaráðherra sem fer með formennsku hópsins. Hópurinn skal hafa samráð við og kalla til fulltrúa frá öðrum ráðuneytum eftir því sem tilefni gefst til.
Verkefni hópsins munu að hluta til byggjast á ákvæðum reglugerðar um vinnumarkaðsaðgerðir sem kveður meðal annars á um aukna möguleika Vinnumálastofnunar til að bregðast við atvinnuleysi og tryggja virkni fólks sem er á atvinnuleysisskrá auk heimilda til átaksverkefna og ýmissa vinnumarkaðsúrræða sem atvinnuleitendur geta tekið þátt í þótt þeir séu á atvinnleysisbótum.
Helstu verkefni starfshópsins eru eftirtalin:
- Að kanna möguleika Íbúðalánasjóðs til þess að lána til mannaflsfrekra verkefna í byggingariðnaði.
- Að fylgja eftir og tryggja virka framkvæmd vinnumarkaðsaðgerða á grundvelli aukinna möguleika Vinnumálastofnunar til þess að bregðast við atvinnuleysi og tryggja virkni fólks sem er á atvinnuleysisskrá.
- Að kynna aukna möguleika til átaksverkefna, frumkvöðlastarfs og fleiri vinnumarkaðsaðgerða fyrir fyrirtækjum, félagasamtökum og sveitarfélögum og hvetja þau til að nýta þá. Þetta er ekki síst mikilvægur undirbúningur fyrir næsta sumar þegar námsfólk kemur út á vinnumarkaðinn.
- Að virkja sveitarfélög til átaksverkefna, svo sem viðhaldsverkefna á ferðamannastöðum, verkefna við umhverfisúrbætur og velferðarþjónustu.
- Að hvetja félagasamtök um land allt til atvinnuskapandi verkefna.
- Að samræma tillögur vinnumarkaðsráða um aðgerðir um land allt.
- Að huga sérstaklega að stöðu hópa sem hafa veika stöðu á vinnumarkaði og stuðla að virkni þeirra, meðal annars með endurskoðun reglna um vinnustaðasamninga öryrkja.