Hoppa yfir valmynd
22. október 2004 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Rannsókna- og nýsköpunarhús við Háskólann á Akureyri

Formleg opnun verður þann 22.október 2004.

Rannsóknahús á AkureyriRannsókna- og nýsköpunarhús við Háskólann á Akureyri er risið, stofnanir fluttar inn og starfsemi þeirra hafin á nýjum vettvangi. Húsið verður formlega opnað föstudaginn 22. október kl. 14:00.

Fasteignir ríkissjóðs leigja húsnæðið af Landsafli hf., sem er eigandi húsnæðisins, en húsið er byggt í einkaframkvæmd. Landsafl leiddi hóp bjóðenda, sem varð hlutskarpastur fjögurra tilboðshópa í útboði Ríkiskaupa í ársbyrjun 2003, um að leggja til rannsókna- og nýsköpunarhús og reka í 25 ár. Auk Landsafls samanstóð hópur þeirra af Íslenskum aðalverktökum hf. (ÍAV) og ISS Ísland ehf.

Undirbúningur að verkinu hófst með skipun nefndar um verkefnið í ársbyrjun 2000 af þáverandi menntamálaráðherra, Birni Bjarnasyni. Umsjónaraðili með útboði var Ríkiskaup og sá Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen hf. (VST) um ráðgjöf við gerð útboðsgagna. Í framhaldinu sömdu Fasteignir ríkissjóðs við VST um eftirlit á undirbúnings-, hönnunar- og framkvæmdatíma.

Ákvörðun um útboð verksins í einkaframkvæmd var tekin á fundi ríkisstjórnarinnar þann 4. febrúar 2003 og verðtilboð voru opnuð 21. maí 2003. Í júní var ákveðið að ganga til samninga við Landsafl. Skóflustunga að byggingunni var tekin þann 10. júlí 2003 af þáverandi menntamálaráðherra, Tómasi Inga Olrich, og voru framkvæmdir komnar í fullan gang í ágúst sama ár.

Markmið með byggingu hússins er að við Háskólann á Akureyri verði byggð upp fyrsta flokks aðstaða fyrir kennslu og rannsóknir í raunvísindum með möguleika á hagnýtinu fyrir hin ýmsu svið þjóðlífsins. Jafnframt að þar verði miðstöð rannsókna- og þróunarstarfs á norðurlandi sem laði til sín frekari rannsóknatengda starfsemi. Við hönnun hússins var áhersla lögð á sveigjanleika vegna breytileika í starfseminni og jafnframt að það félli vel að umhverfinu og skapaði eina samstæða heild með öðrum byggingum HA á Sólborg.

Fyrirkomulag leigu húsnæðisins er þannig að stofnanir á vegum ríkisins leigja ákveðið húsnæði undir starfsemi sína en eigandi byggingarinnar leigir hluta hennar til sprotafyrirtækja eða undir aðra starfsemi sem nánar er tilgreind í samningsgögnum. Í þessum fyrsta áfanga byggingarinnar, sem nú er risinn, eru eingöngu stofnanir á vegum ríkisins. Fasteignir ríkissjóðs eru leigutaki og endurleigja húsnæðið til ríkisstofnananna. Er það gert til að einfalda samskipti leigukaupa og leigusala í verkefninu.

Eftirtaldar stofnanir á vegum opinberra aðila eru í húsinu:

1. Auðlindadeild HA

2. Akureyrarsetur Náttúrufræðistofnunar Íslands

3. Upplýsingatæknideild HA

4. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins

5. Háskólinn á Akureyri, aðalskrifstofur

6. Veiðistjórnunarsvið Umhverfisstofnunar

7. Jafnréttisstofa

8. Matvælasetur HA

9. Stofnun Vilhjálms Stefánssonar

10. Orkustofnun, Akureyrarútibú (AKROS)

11. Impra nýsköpunarmiðstöð á Akureyri

12. Hafrannsóknastofnun

13. PAME International Secretariat

14. CAFF International Secretariat

15. Rannsóknastofnun HA

16. Ferðamálasetur Íslands

17. Byggðarannsóknastofnun Íslands

18. Veðurstofa Íslands

19. Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar

Í töflunni hér að ofan er yfirlit yfir stofnanir ríkisins í húsinu en af þeim eru fyrirferðar­mestar auðlindadeild HA, Akureyrarsetur Náttúrufræði-stofnunar, Upplýsinga­tæknideild HA og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins.

Samstarf fyrirtækjahópsins sem stendur að byggingunni er þannig háttað að ÍAV sér um að byggja húsið og ISS um þjónustuna en Landsafl mun eiga húsið og vera leigusali. Arkitektar hússins eru ASK Arkitektar.

Rannsóknahúsið er byggt skv. nýju deiliskipulagi svæðis HA á Sólborg en í deiliskipulags­greinargerð er lögð áhersla á frekari uppbyggingu og aukin umsvif HA og leitast við að skapa stofnuninni sem mesta möguleika á svæðinu og jafnframt vinna með náttúru og landslagi þess.

Gert er ráð fyrir að byggingin verði 7.500m² og verði reist í tveimur áföngum. Fyrri áfangi, sem nú er tekinn í notkun, er um 5.500 m². Byggingin er hátæknihús og byggt með áherslu á að unnt verði að beita nýjustu tækni á öllum sviðum sem starfsemi stofnana hússins lýtur að.

Möguleikar til nýtingar byggingarinnar eru margbreytilegir og var samvinna stofnana hússins og samnýting rýma höfð að leiðarljósi við hönnun og byggingu. Í þessum hluta byggingarinnar eru eingöngu opinberar stofnanir og hafa 115 manns hafið störf í húsinu auk fjölda nemenda sem stunda þar nám í raun- og lífvísindum.

Það er von nefndar menntamálaráðherra um byggingu hússins að annar áfangi byggingarinnar verði byggður fljótlega með þátttöku svokallaðra sprotafyrirtækja. Sprotarýmið er hugsað fyrir nýsköpunarfyrirtæki í hátækni eða fyrirtæki sem geta boðið fram eftirsóknar­verða þjónustu og kjarnastarfsemi fyrir háskóla- og rannsókna­samfélagið á Akureyri.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta