Fréttatilkynning
Ríkisstjórnin hefur að tillögu félagsmálaráðherra samþykkt að lagt verður fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum.
Markmið þessa frumvarps er að tryggja landsmönnum hagkvæmari húsnæðislán í gegnum Íbúðalánasjóð með ódýrari fjármögnun á almennum lánamarkaði. Þessu markmiði á að ná með endurskipulagningu á verðbréfaútgáfu Íbúðalánasjóðs sem felur í sér að í stað húsbréfa og húsnæðisbréfa verða gefin út íbúðabréf. Endurskipulagning þessi eykur hagkvæmni fjármögnunar, sníður af helstu agnúa sem eru á núverandi útgáfu og skapar grundvöll fyrir traustri verðmyndun á verðbréfamarkaði.
Með þessum breytingum er stefnt að því að bæta hag lántakenda sjóðsins bæði með lægri fjármögnunarkostnaði og minni áhættu í tengslum við fasteignaviðskipti. Kerfisbreytingin sem lögð er til í frumvarpinu leiðir til þess að íbúðalán verði greidd út í peningum og áhrif affalla við sölu verðbréfa verði þar með úr sögunni. Samkvæmt tillögunum munu lánin bera vexti í samræmi við ávöxtunarkröfu hverju sinni.
Frumvarpið miðar að því að auka seljanleika íbúðabréfa á verðbréfamarkaði en líkur eru á því að ávöxtunarkrafa fjárfesta lækki vegna þessa. Ef svo verður, getur Íbúðalánasjóður lækkað vexti á útlánum sínum til lántakenda. Væntingar eru því um að framangreindar breytingar hafi í för með sér lækkun fjármögnunarkostnaðar lántakenda og dragi úr umsýslukostnaði Íbúðalánasjóðs.
Helstu nýmæli frumvarpsins eru:
- Í stað þess að Íbúðalánasjóður afhendi lántakendum markaðsverðbréf í skiptum fyrir fasteignaveðbréf, eins og nú tíðkast í húsbréfakerfinu, verða íbúðabréf boðin út á markaði og lántakendur fá andvirði veðbréfsins greitt út í peningum. Kjör lánanna miðast við fjármagnskostnað Íbúðalánasjóðs í heild, þ.e. vaxtakjör sem ráðast af niðurstöðu útboðs íbúðabréfa og fjármagnskjör vegna uppgreiðslna lána Íbúðalánasjóðs. Vaxtaákvörðun mun byggja á vegnu meðaltali þessara tveggja þátta. Að auki kemur álag sem sjóðurinn bætir við, líkt og nú tíðkast við lánveitingar Íbúðalánasjóðs og sölu hans á húsnæðisbréfum. Þetta nýja fyrirkomulag gerir ráð fyrir að vextir af útlánum Íbúðalánasjóðs verði ákvarðaðir eftir hvert útboð og geti þ.a.l. orðið mismunandi á milli tímabila.
- Í frumvarpinu er lagt til að í stað þess að Íbúðalánasjóður gefi út tvær tegundir verðbréfa eins og verið hefur, þ.e. húsbréf og húsnæðisbréf, gefi sjóðurinn einungis út eina tegund verðbréfa, íbúðabréf.
- Gert er ráð fyrir að íbúðabréf verði verðtryggð jafngreiðslubréf með fjórum endurgreiðslum á ári. Jafngreiðslubréf eru þekkt skuldabréfaform alls staðar í heiminum og ættu því að falla að öllum kerfum sem í dag eru notuð í tengslum við verðbréfaviðskipti. Stefnt er að því að íbúðabréf verði gefin út í fáum flokkum sem verði opnir allan líftímann og verði stórir og því markaðshæfir á alþjóðlegum markaði.
- Lagt er til að nýtt heiti, ÍLS-veðbréf, komi í stað núverandi fasteignaveðbréfa sem skiptanleg eru fyrir húsbréf.
- Til að flýta fyrir að íbúðabréf verði markaðshæf verður eigendum húsbréfa og húsnæðisbréfa boðið að skipta þeim fyrir íbúðabréf og að haldin verði skiptiútboð. Unnið er að útfærslu skiptiútboða og verður útfærslan kynnt síðar. Miðað verði við markaðskjör í skiptum, að teknu tilliti til áhættu útgefandans. Stjórn Íbúðalánasjóðs áformar að fá sérfróðan aðila til aðstoðar við framkvæmd skiptanna.
- Íbúðalánasjóður mun ekki hafa heimild til innköllunar á íbúðabréfum á móti uppgreiddum lánum og er það hluti af þeirri stefnumótun að gera íbúðabréfin eftirsóknarverðari á markaði.
Gert er ráð fyrir því að breytingin geti tekið gildi 1. júlí 2004, en að útboð á íbúðabréfum hefjist eftir 15. apríl 2004.
Tilgangur frumvarpsins er að styrkja og viðhalda tilgangi laga um húsnæðismál. En lögum um húsnæðismál er ætlað að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum (á ensku)
Fréttatilkynning, dags. 9. mars 2004 (á ensku)