Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2025 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 66/2025 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 24. janúar 2025 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 66/2025

í stjórnsýslumálum nr. KNU24090071

 

Endurtekin umsókn [...]

  1. Málsatvik

    Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 132/2023, dags. 9. mars 2023, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. desember 2022, um að taka umsókn [...]fd. [...], ríkisborgara Venesúela (hér eftir kærandi) um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 13. mars 2023.

    Hinn 16. mars 2023 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Hinn 28. mars 2023 var beiðni kæranda hafnað. Hinn 28. ágúst 2023 barst kærunefnd endurtekin umsókn kæranda. Með úrskurði kærunefndar nr. 603/2023, dags. 23. október 2023, var endurtekinni umsókn kæranda vísað frá. Hinn 23. október 2023 barst kærunefnd endurtekin umsókn kæranda að nýju. Með úrskurði kærunefndar nr. 692/2023, dags. 10. nóvember 2023, var endurtekinni umsókn kæranda vísað frá. Hinn 10. september 2024 barst kærunefnd endurtekin umsókn kæranda að nýju. Upplýsingar um málsmeðferð í máli kæranda bárust frá heimferða- og fylgdadeild Ríkislögreglustjóra, Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun 10., 11. september, 10. og 12. desember 2024. Þá bárust frekari upplýsingar frá heimferða- og fylgdadeild Ríkislögreglustjóra 23. janúar 2025.

    Af beiðni kæranda má ráða að umsókn hans byggi á 35. gr. a laga um útlendinga nr. 80/2016.

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Í beiðni kæranda um endurtekna umsókn kemur fram að með vísan til  tímafresta í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir Dyflinnarreglugerðin) skuli umsókn hans um alþjóðlega vernd tekin til efnismeðferðar.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga skal endurtekinni umsókn vísað frá. Þó skal taka endurtekna umsókn til meðferðar að nýju ef umsækjandi er staddur hér á landi og nýjar upplýsingar liggja fyrir í máli hans sem leiða til þess að sýnilega auknar líkur séu á því að fallist verði á fyrri umsókn hans samkvæmt 24. gr. laganna.

Í tölvubréfi frá Vinnumálastofnun, dags. 10. desember 2024, kemur fram að stofnunin hafi ekki upplýsingar um hvort kærandi sé staddur hér á landi. Þá kemur fram í tölvubréfi heimferða- og fylgdadeild Ríkislögreglustjóra, dags. 10. desember 2024, að kærandi sé eftirlýstur og hafi ekki látið finna sig. Í tölvubréfi Útlendingastofnunar til kærunefndar, dags. 12. desember 2024, kemur fram að kærandi hafi verið skráður horfinn og eftirlýstur frá 18. júlí 2023, en hann hafi komið sér undan flutningi til Hollands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun sé því ekki kunnugt um hvort kærandi sé staddur hér á landi. Með tölvubréfi nefndarinnar til kæranda, dags. 17. janúar 2025, var kærandi upplýstur um framangreint og honum veitt færi á því að mæta á næstu lögreglustöð og fá skráningu sinni breytt. Samkvæmt upplýsingum frá lögmanni kæranda sem bárust kærunefnd 20. janúar 2025, hafi kærandi mætt á lögreglustöðina á Hverfisgötu og gefið sig fram. Í kjölfar framangreindra upplýsinga frá kæranda óskaði kærunefnd eftir staðfestingu á framangreindu með tölvubréfi til heimferða- og fylgdadeildar Ríkislögreglustjóra. Í svari heimferða- og fylgdadeildar, dags. 23. janúar 2025, kom fram að kærandi væri enn eftirlýstur og ekkert væri skráð í þeirra kerfi um að hann hefði mætt á lögreglustöðina á Hverfisgötu.

Kærunefnd vísar til þess að á meðan kærandi er skráður „finnst ekki” í kerfum lögreglu, sem annast framkvæmd ákvarðana nefndarinnar með flutningi úr landi, lítur nefndin svo á að kærandi hafi ekki sýnt fram á að vera staddur hér á landi. Í þessu sambandi lítur nefndin svo á að kærandi þurfi að gefa sig fram við lögreglu með óyggjandi hætti. Með vísan til þess er skilyrði ákvæðis 35. gr. a laga um útlendinga, um að kærandi skuli vera staddur hér á landi, ekki uppfyllt í máli kæranda. Er það mat kærunefndar að kæranda hafi gefist nægt ráðrúm til þess að setja sig í samband við lögreglu. Verður kærandi að bera hallann að hafa ekki sinnt því, þrátt fyrir tölvubréf kærunefndar, dags. 17. janúar 2025.

Að framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurtekna umsókn vísað frá.


 

Úrskurðarorð:

 

Endurtekinni umsókn kæranda er vísað frá.

 

The appellant‘s subsequent application is dismissed.

 

 

F.h. kærunefndar útlendingamála,

 

 

Valgerður María Sigurðardóttir, varaformaður.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta