Skýrsla nefndar um lækningar yfir landamæri
Nefnd sem skipuð var til að meta möguleika íslenska heilbrigðiskerfisins til að sinna erlendum sjúklingum á komandi árum og meta tækifæri á sviði lækningatengdrar ferðaþjónustu hefur skilað velferðarráðherra áliti sínu í skýrslunni Lækningar yfir landamæri.
Álfheiður Ingadóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, skipaði nefndina í febrúar 2010. Nefndinni var ekki einungis ætlað að leggja mat á fyrirliggjandi áform fyrirtækja um að hasla sér völl á þessu sviði heldur var henni einnig falið að skoða hvort unnt sé að nota í þessu skyni tæki, mannafla og húsnæði sem þegar er til staðar og einnig þá aðstöðu sem losnar þegar nýr Landspítali verður tekinn í notkun.
Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að þrátt fyrir umtalsverða markaðssetningu Landspítala undanfarin ár komi innan við hundrað sjúklingar ár hvert frá nágrannaþjóðum okkar til meðferðar á sjúkrahúsinu. Sjálfstæð fyrirtæki á sviði augnlækninga og tæknifrjóvgunar veita útlendingum heilbrigðisþjónustu í einhverjum mæli en vegna takmarkaðs fjölda sérþjálfaðra starfsmanna geta þau ekki aukið starfsemi sína að ráði, að því er segir í skýrslunni.
Það er mat nefndarinnar að þótt heilbrigðisþjónusta við útlendinga sé aðeins veitt í litlum mæli hér á landi enn sem komið er séu fyrir hendi sóknarfæri á alþjóðlegum heilbrigðismarkaði. Með skipulögðum aðgerðum megi á löngum tíma byggja hér upp heilbrigðisþjónustu í tilteknum sérgreinum fyrir útlendinga. Sú starfsemi verði hins vegar að uppfylla ýtrustu gæðakröfur og eiga sér bakhjarl í þeirri heilbrigðisþjónustu sem fyrir er í landinu segja skýrsluhöfundar.
Áhersla er lögð á að sjálfstæðum heilbrigðisfyrirtækjum og einkaspítölum sem ætla að hasla sér völl hér á landi þurfi að gera ljóst að uppbygging og rekstur slíkrar starfsemi sé á þeirra eigin ábyrgð. Ríkisvaldið hafi engar fjárhagslegar skyldur gagnvart þessum aðilum og sé einungis ætlað að grípa til almennra aðgerða sem lúta að því að tryggja samkeppnisstöðu, jafnræði og gæði starfseminnar. Það hindrar þó ekki að velferðarráðherra getur á hverjum tíma gengið til samstarfs við einkaaðila og frjáls félagasamtök um uppbyggingu og rekstur tiltekinna þátta heilbrigðisþjónustu.
Skýrsluhöfundar telja æskilegt að heilbrigðisstofnanir sem bjóða erlendum borgurum upp á læknisþjónustu hér á landi skuli fá starfsemi sína vottaða af viðurkenndum alþjóðlegum matsaðilum jafnframt því að uppfylla faglegar kröfur embættis landlæknis. Með fjölgun erlendra sjúklinga verði eftirlit embættisins jafnframt eflt.
Í lokin benda höfundar skýrslunnar á að skynsamlegt geti verið fyrir þá sem ætla að starfrækja heilbrigðisþjónustu hér á landi fyrir erlenda borgara að vinna saman að markaðssetningu og markaðsathugunum.
Í nefndinni sátu Ingimar Einarsson, velferðarráðuneytinu, formaður, Elínborg Bárðardóttir heilsugæslulæknir, Laura Scheving Thorsteinsson, landlæknisembættinu, Lilja Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri skurðlækningasviðs Landspítala, og Rúnar Vilhjálmsson, prófessor við Háskóla Íslands.