Mál nr. 7/2020 - Úrskurður
Mál nr. 7/2020
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála
A
gegn
Ríkisútvarpinu ohf.
Ráðning í starf. Hæfnismat.
Kærandi, sem er kona, taldi að kærði hefði við ráðningu á karli í stöðu útvarpsstjóra brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla ásamt lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði. Kærunefndin fjallaði um þá sérstöðu sem opinber hlutafélög nytu að lögum. Þannig leiddi það af dómaframkvæmd Hæstaréttar að almennt giltu hvorki reglur opinbers starfsmannaréttar né reglur stjórnsýsluréttar um réttarstöðu starfsmanna opinberra hlutafélaga heldur reglur hins almenna vinnumarkaðar. Ráðning kærða á útvarpsstjóra lyti þar með lögmálum vinnuréttar fremur en opinbers starfsmannaréttar. Sú staða opinbers hlutafélags sem löggjafinn hefði ljáð kærða hefði þýðingu við úrlausn málsins þar sem kærði nyti samkvæmt framangreindu aukins svigrúms samanborið við opinbera veitingarvaldshafa við mat á því hvaða sjónarmið skyldu lögð til grundvallar við ráðningar sem og við mat á því hvernig einstakir umsækjendur féllu að þeim sjónarmiðum. Kærunefndin gerði ekki athugasemd við það mat kærða að karlinn hefði staðið kæranda framar í þeim tveimur matsflokkum sem vógu þyngst í ráðningarferlinu, þ.e. reynslu af stjórnun og rekstri, sem hafði 34% vægi, og reynslu af stefnumótunarvinnu, nýsköpun og innleiðingu stefnu, sem hafði 26% vægi. Heilt á litið taldist kærandi ekki hafa leitt líkur að því að henni hefði verið mismunað við ráðningu í starf útvarpsstjóra, enda þótt nefndin hefði sett fram ákveðnar aðfinnslur við mat kærða á menntun kæranda.
- Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 26. ágúst 2020 er tekið fyrir mál nr. 7/2020 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
- Með kæru, dagsettri 26. mars 2020, kærði A ákvörðun Ríkisútvarpsins ohf. um að ráða karl í stöðu útvarpsstjóra. Kærandi telur að með ráðningunni hafi Ríkisútvarpið ohf. brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þá gerir kærandi kröfu um að kærði greiði henni kostnað af því að hafa kæruna uppi.
- Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 31. mars 2020. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 27. apríl 2020. Greinargerð kærða var kynnt kæranda með bréfi kærunefndarinnar, dagsettu 12. maí 2020. Að beiðni kæranda var henni veittur viðbótarfrestur til þess að skila athugasemdum við greinargerð kærða til 3. júní 2020.
- Kærunefndinni barst bréf kæranda, dagsett 3. júní 2020, með athugasemdum við greinargerð kærða og sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 4. júní 2020. Að beiðni kærða var frestur til þess að skila athugasemdum framlengdur til 25. júní 2020. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 25. júní 2020, og voru þær kynntar kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu sama dag. Með sama bréfi var kærandi upplýst um að málið væri tekið til úrlausnar og var kærði jafnframt upplýstur um það með bréfi kærunefndar sama dag.
MÁLAVEXTIR
- Kærði auglýsti laust starf útvarpsstjóra 15. nóvember 2019. Í auglýsingunni kom fram að hlutverk útvarpsstjóra væri að framfylgja stefnu Ríkisútvarpsins og gæta hagsmuna þess í hvívetna. Leitað væri að öflugum og reyndum leiðtoga til að stýra Ríkisútvarpinu inn í nýja tíma miðlunar. Tekið var fram að útvarpsstjóri starfaði í umboði stjórnar. Einnig að ráðið yrði í stöðuna til fimm ára og viðkomandi skyldi uppfylla hæfnisskilyrði samkvæmt 5. mgr. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Í auglýsingunni voru skilgreindar eftirfarandi hæfniskröfur: Háskólamenntun sem nýtist í starfi; Reynsla af stjórnun og rekstri; Leiðtogahæfileikar og góð hæfni í mannlegum samskiptum; Skilningur og áhugi á nýjum miðlum; Reynsla af stefnumótunarvinnu, nýsköpun og innleiðingu stefnu; Þekking og reynsla af fjölmiðlun, menningar- og samfélagsmálum; Góð tungumálakunnátta og góð hæfni til tjáningar í ræðu og riti. Þá var starfssviðinu lýst með eftirfarandi hætti: Dagleg stjórnun og ábyrgð á rekstri félagsins; Yfirumsjón og ábyrgð allrar dagskrárgerðar; Stefnumótun og markmiðasetning; Samskipti við hagaðila; Alþjóðlegt samstarf.
- Alls barst 41 umsókn um starfið. Fyrsta mat á umsóknum fór þannig fram að kærði fór yfir umsóknargögn og boðaði að því loknu 19 umsækjendur í starfsviðtal. Kærandi var þar á meðal. Í viðtölunum fengu umsækjendur fyrir fram ákveðnar spurningar og voru þau tekin af tveimur ráðgjöfum Capacent. Að loknu öðru mati var ákveðið að leggja persónuleikapróf fyrir fjóra umsækjendur, þar á meðal kæranda. Þegar niðurstöður persónuleikaprófsins lágu fyrir voru umsækjendur boðaðir í viðtöl hjá ráðgjafa Capacent þar sem farið var yfir niðurstöðu prófsins. Þá voru niðurstöðurnar kynntar kærða. Að loknu þriðja mati voru þrír umsækjendur, þar á meðal kærandi, boðaðir í framhaldsviðtöl við kærða og ráðgjafa Capacent þar sem lagt var fyrir þau raunhæft verkefni. Verkefnið samanstóð af fjórum eftirfarandi spurningum: „1.) Lýstu þinni framtíðarsýn fyrir kærða 2030. 2.) Hvaða þrjár til fjórar helstu áskoranir sérð þú fyrir þér í starfsemi kærða næstu misserin og hvernig hyggst þú takast á við þær? 3.) Nú stendur kærði frammi fyrir því að þurfa skera niður í rekstri félagsins. Hvernig myndir þú bregðast við því? 4.) Hvað þarft þú að gera persónulega til að vera góður útvarpsstjóri? Hvaða þróunarplan sérðu fyrir þér til næstu fjögurra ára og af hverju?“ Að viðtölunum afstöðnum var umsagna aflað um umrædda þrjá umsækjendur. Stjórn kærða fól ráðgjöfum Capacent það verkefni að hafa samband við umsagnaraðila. Að endingu var ákveðið að bjóða einum umsækjendanna, karlmanni, starfið sem hann þáði.
- Kærði birti minnisblað í formi tilkynningar, dagsettrar 14. febrúar 2020, vegna ráðningar í starfið þar sem fjórum stigum ráðningarferlisins var lýst og gerð grein fyrir hæfni þess karls sem ráðinn var.
SJÓNARMIÐ KÆRANDA
- Kærandi vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sé atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Í 4. mgr. 26. gr. laganna sé lögfest sú regla að séu leiddar líkur að því að við ráðningu hafi einstaklingum verið mismunað á grundvelli kyns skuli atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.
- Þar sem kærði hafi hafnað því að veita rökstuðning fyrir ákvörðun sinni um ráðningu í starfið liggi ekki fyrir fullnægjandi upplýsingar um grundvöll þessarar ákvörðunar. Aftur á móti liggi fyrir upplýsingar um menntun og starfsferil kæranda og þess sem ráðinn hafi verið. Þá liggi fyrir að kærandi sé kona og að einstaklingur af því kyni hafi aldrei í 90 ára sögu kærða verið ráðinn í starf útvarpsstjóra. Þessar upplýsingar leiði líkur að því, sbr. 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 og 15. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði, að kærði hafi við ráðningu í starfið mismunað kæranda vegna kyns hennar, kynvitundar, kyneinkenna og kyntjáningar.
- Samkvæmt 1. gr. laga nr. 23/2013 sé markmið þeirra að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Kærða sé falin framkvæmd hennar eins og nánar sé kveðið á um í lögunum. Kærði sé þjóðarmiðill og skuli rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu. Hann skuli leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleið.
- Í 3. gr. laganna sé kveðið nánar á um fjölmiðlaþjónustu kærða í almannaþágu og um lýðræðislegt og menningarlegt hlutverk hans. Samkvæmt 1. mgr. skuli hann meðal annars framleiða og miðla vönduðu og fjölbreyttu efni sem skuli hið minnsta vera fréttir og fréttaskýringar, fræðsluþættir, íþróttaþættir, afþreying af ýmsum toga, lista- og menningarþættir og sérstakt efni fyrir börn og ungmenni. Samkvæmt 2. mgr. skuli hann sinna lýðræðislegu hlutverki sínu meðal annars með því að vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem séu efst á baugi hverju sinni og almenning varði, kynna margbreytileika mannlífs, lífsviðhorfa og lífsskilyrða í landinu og hafa hlut karla og kvenna sem jafnastan í starfi kærða og í dagskrá hans. Samkvæmt 3. mgr. skuli kærði sinna menningarlegu hlutverki sínu meðal annars með því að bjóða fjölbreytt og vandað menningarefni og framleiða sjálfur og í samstarfi við aðra lista- og menningarefni með sérstakri áherslu á leikið efni.
- Hlutverk útvarpsstjóra samkvæmt 11. gr. laganna sé að vera æðsti yfirmaður allrar dagskrárgerðar kærða og annast daglegan rekstur hans með framangreint hlutverk hans og skyldur að leiðarljósi. Menntun og starfsreynsla kæranda falli sérstaklega vel að framangreindu hlutverki útvarpsstjóra.
- Í fyrsta lagi búi kærandi yfir mikilli reynslu og þekkingu á starfsemi og málefnum fjölmiðla. Kærandi hafi bæði starfað sem dagskrárgerðarmaður hjá kærða þar sem hún hafi öðlast beina reynslu af starfsemi hans og sem alþingismaður og nefndarmaður í menntamálanefnd Alþingis þar sem hún hafi öðlast yfirgripsmikla þekkingu á málefnum fjölmiðla. Þá hafi kærandi átt sæti í nefnd menntamálaráðherra um íslenska fjölmiðla sem hafi skilað ítarlegri skýrslu um þróun og stöðu á íslenskum fjölmiðlamarkaði árið 2005.
- Í öðru lagi búi kærandi yfir mikilli reynslu og þekkingu á sviði menningar og lista. Hún hafi starfað bæði sem leikstjóri í Þjóðleikhúsinu og sem stjórnandi hjá mikilvægum stofnunum á vettvangi lista og menningar, til dæmis Listaháskóla Íslands auk þess að hafa stýrt samtökum á borð við Bandalag íslenskra listamanna. Í þessum störfum hafi hún öðlast mikla reynslu og þekkingu bæði á starfsemi og umgjörð menningarstofnana og samspils þeirra við menningarviðburði og framleiðslu fjölbreytts menningarefnis.
- Í þriðja lagi búi kærandi yfir fágætri reynslu á sviði lýðræðis- og samfélagsmála. Sem virkur þátttakandi í stjórnmálum og sem alþingismaður um tíu ára skeið hafi hún öðlast reynslu og þekkingu á lýðræði og samfélagsmálum sem fáir geti státað af. Þessi reynsla og skilningur kæranda á þeim áskorunum sem lýðræðið standi frammi fyrir og hlutverki fjölmiðla í því sambandi endurspeglist meðal annars með skýrum hætti í greiningu hennar á þeim áskorunum sem kærði standi frammi fyrir þar sem hún hafi bent á mikilvægi þess að takast á við upplýsingaóreiðu og falsfréttir.
- Í fjórða og síðasta lagi búi kærandi yfir mikilli reynslu og menntun á sviði stjórnunar og rekstrar. Auk þess sem kærandi hafi lokið viðbótardiplómanámi á sviði opinberrar stjórnsýslu með áherslu á breytingastjórnun og leiðtogafærni hafi hún um árabil starfað sem stjórnandi hjá félagasamtökum og stofnunum þar sem hún hafi borið beina ábyrgð á stjórnun og rekstri. Þá hafi hún leitt umfangsmikil verkefni sem verkefnisstjóri, þar með talin hátíðarhöld vegna 100 ára afmælis fullveldis sem hafi tekið til meira en 60 viðburða með þúsundum þátttakenda. Loks verði ekki litið fram hjá reynslu hennar af stjórnun og rekstri sem ráðherra um fjögurra mánaða skeið og alþingismaður í áratug.
- Enginn vafi geti leikið á því þegar menntun og starfsferill kæranda sé virtur að hún uppfylli afar vel þau hæfnisskilyrði sem lögð hafi verið og borið hafi að leggja til grundvallar mati á hæfni umsækjenda.
- Ólíkt kæranda hafi sá sem ráðinn hafi verið takmarkaða reynslu og þekkingu á fjölmiðlum. Samkvæmt því sem fram komi í minnisblaði kærða hafi hann starfað „um árabil sem blaðamaður á yngri árum“ án þess að gerð sé nánari grein fyrir þeirri reynslu. Önnur reynsla og þekking hans á fjölmiðlum sé rökstudd í minnisblaðinu með vísan til þess að hann hafi „skrifað fjölmargar greinar í blöð og tímarit“ og „reynslu af því að koma fram í fjölmiðlum“.
- Ólíkt kæranda hafi sá sem ráðinn hafi verið hvorki menntun né reynslu á sviði menningarmála. Menntun hans og reynsla sé á sviði lögfræði og lögreglumála auk þess sem hann hafi starfað innan stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Af þeim upplýsingum sem liggi fyrir verði ekki séð að hann hafi öðlast sérstaka þekkingu eða reynslu á sviði menningar og lista í þessum störfum.
- Ólíkt kæranda hafi sá sem ráðinn hafi verið enga reynslu sem frambjóðandi í lýðræðislegum kosningum eða kjörinn fulltrúi. Af þeim upplýsingum sem liggi fyrir verði ekki séð að hann hafi sérstaka reynslu eða þekkingu á lýðræði eða samfélagsmálum.
- Líkt og kærandi hafi sá sem ráðinn hafi verið mikla reynslu af stjórnun og rekstri. Aftur á móti verði ekki séð af fyrirliggjandi gögnum að hann hafi í störfum sínum öðlast reynslu af „samskiptum við ýmsa hagaðila, til að mynda starfsmenn, stéttarfélög og opinberar stofnanir“ umfram kæranda, en þessi reynsla hafi að sögn kærða vegið þungt við ákvörðun hans. Í því sambandi þurfi að hafa í huga að auk þess sem kærandi hafi langa reynslu af samskiptum við almenning og hvers kyns hagsmunaaðila sem stjórnmálamaður, alþingismaður og ráðherra hafi hún jafnframt, og umfram þann sem ráðinn hafi verið, mikla reynslu af samskiptum við hagaðila á sviði fjölmiðlunar, menningar og lista, sem ætla verði að reyni á í starfinu.
- Þótt mat og samanburður á hæfni umsækjenda um starf sé í eðli sínu háð mati verði ekki dregin önnur forsvaranleg ályktun af fyrirliggjandi gögnum en sú að kærandi standi þeim sem ráðinn hafi verið umtalsvert framar að því er varði reynslu og þekkingu á málefnum fjölmiðla og menningarmálum. Einnig verði dregin sú ályktun að kærandi búi yfir reynslu og þekkingu á lýðræði og samfélagsmálum umfram þann sem ráðinn hafi verið. Loks verði dregin sú ályktun að báðir umsækjendur búi yfir reynslu og þekkingu á sviði stjórnunar og rekstrar þótt ekki sé hægt að álykta, líkt og kærði hafi gert og byggt á, að reynsla þess sem ráðinn hafi verið af samskiptum við hagaðila sé umfram reynslu kæranda á því sviði.
- Af framangreindum samanburði sé ljóst að kærandi hafi staðið þeim einstaklingi framar sem ráðinn hafi verið hvað varði flesta hæfnisþætti sem lagðir hafi verið og leggja beri til grundvallar mati á hæfni umsækjenda og að minnsta kosti jafnfætis honum hvað aðra þætti varði. Með þessum samanburði séu því leiddar líkur að því í skilningi 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 og 15. gr. laga nr. 86/2018 að kærði hafi við ráðninguna mismunað kæranda á grundvelli kyns hennar og á grundvelli kynvitundar, kyneinkenna og kyntjáningar og þannig brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 og 8. gr. laga nr. 86/2018.
- Sönnunarbyrði þess að ákvörðunin hafi þrátt fyrir framangreint byggst á öðru en kyni hvíli með vísan til alls framangreinds á kærða. Til þess að axla þá sönnunarbyrði þurfi kærði að sýna fram á það með trúverðugum hætti að ráðningin hafi, þrátt fyrir vísbendingar um annað, verið byggð á forsvaranlegu mati þess efnis að hann stæði kæranda framar með tilliti til þeirra hlutlægu hæfnisþátta sem lagðir hafi verið og leggja hafi borið til grundvallar við ráðninguna og þá án þess að staðalímyndir og fordómar í garð kvenna, sem ómeðvitað geti haft áhrif við mat atvinnurekanda á huglægum þáttum á borð við leiðtogahæfileika, hæfni í mannlegum samskiptum og skilningi og áhuga á nýjum miðlum, hafi haft þau áhrif eða þær afleiðingar að kæranda hafi verið mismunað í þessu mati á grundvelli kyns síns.
SJÓNARMIÐ KÆRÐA
- Kærði mótmælir málatilbúnaði kæranda, einkum varðandi umfjöllun hennar um samanburð á henni og þeim karli sem starfið hlaut.
- Kærði segir að starfsemi hans sé lögbundin, sbr. nánar lög nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Hann sé þjóðarmiðill og skuli rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu. Hann skuli leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleið, sbr. nánar 1. gr. laganna. Kærði sé sjálfstætt opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Fjölmiðlaþjónustu hans í almannaþágu, auk annarrar starfsemi, sé nánar lýst í lögunum. Um starfssvið stjórnar og hlutverk útvarpsstjóra sé fjallað í 10. og 11. gr. laganna. Þar segi meðal annars að útvarpsstjóri hafi daglegan rekstur félagsins með höndum og sé jafnframt æðsti yfirmaður dagskrárgerðar. Útvarpsstjóri sé jafnframt framkvæmdastjóri félagsins í skilningi laga nr. 2/1995 um hlutafélög og beri ásamt stjórn skyldur samkvæmt því, þar á meðal tengdum fjárreiðum félagsins. Varðandi síðasttalið atriði megi og benda á að ríkisendurskoðandi hafi í skýrslu, sem hafi tekið til starfsemi kærða, talið að greiðslugeta sé veik og fjárhagsleg staða félagsins viðkvæm.
- Þá tekur kærði upp orðrétt minnisblað í formi tilkynningar sem hann birti 14. febrúar 2020 og segir að stjórn kærða hafi sent það skjal frá sér að afstöðnu ráðningarferlinu. Þar hafi meðal annars gefist tækifæri til að leiðrétta ýmsar sögusagnir sem birst hafi í fjölmiðlum um málið. Eðli málsins samkvæmt hafi ekki þótt við hæfi að lýsa í smáatriðum gangi mála í ferlinu, einkanlega að því er hafi varðað einstaka umsækjendur og samanburð þeirra, enda um að ræða viðkvæm persónuleg mál.
- Fyrsta mat hafi verið byggt á skriflegum gögnum umsækjenda, það er ferilskrá og kynningarbréfi. Umsóknargögn hafi verið metin í samræmi við menntunar- og hæfniskröfur sem hafi komið fram í auglýsingu. Við matið hafi verið stuðst við fyrir fram skilgreind viðmið og vægi sem hafi byggt á hæfniskröfum í auglýsingu. Stjórn kærða hafi rætt og tekið ákvörðun um vægi matsþátta og skilgreiningu þeirra. Nánar tiltekið hafi vægi menntunar verið 12%, stjórnunar- og rekstrarreynsla 34%, reynsla af stefnumótun og innleiðing stefnu 26%, þekking/reynsla af fjölmiðlum, menningar- og samfélagsmálum 24% og tungumálakunnátta og hæfni til tjáningar í ræðu og riti 4%. Gefin hafi verið 0-4 stig undir hverjum matsþætti. Matið á þessu stigi matsferilsins hafi verið nokkuð gróft, en síðan tekið á sig nákvæmari mynd við frekari yfirlegu umsókna og með viðtölum við umsækjendur undir öðru stigi matsins. Vægi matsþátta hafi þá verið óbreytt.
- Annað mat hafi falist í ítarlegum viðtölum við 19 umsækjendur, þar á meðal kæranda og þann sem ráðinn hafi verið. Viðtölin hafi verið tekin af tveimur ráðgjöfum Capacent. Viðtölin hafi verið sérsniðin með tilliti til starfsins og tekið mið af hæfniskröfum sem hafi komið fram í auglýsingu um starfið. Í viðtölunum hafi verið reynt að fá fram með skýrum hætti hvernig umsækjendur mátu reynslu sína, þekkingu og hæfni til að sinna starfinu, sem og viðhorf þeirra, metnað og væntingar til starfsins. Viðtalið hafi byggt á nokkrum hæfniskröfum; stjórnunarreynslu, reynslu af rekstri og sýn á hlutverk útvarpsstjóra auk þess sem viðmælendur hafi átt að gera grein fyrir ástæðu umsóknar um starfið.
- Varðandi menntun þá hafi umsækjendur sem lokið hefðu meistarastigi í háskólanámi jafnan fengið fjögur stig, líkt og hafi háttað til um þann sem ráðinn hafi verið, en hann hafi meðal annars lokið 5 ára námi í lögfræði. Umsækjendur sem lokið hefðu grunnnámi í háskóla hafi fengið þrjú stig. Kærandi hafi fengið þrjú stig í þessum þætti, en hún hafi meðal annars lokapróf frá Leiklistarskóla Íslands, sem sé jafngildi BA gráðu frá Listaháskóla Íslands, auk diplómanáms í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands sem sé ekki jafngildi meistaraprófs. Ekki hafi þótt ástæða til að gera sérstakan greinarmun á því hvers konar háskólanám væri jafnan um að ræða, heldur fyrst og síðast að umsækjendur hefðu háskólapróf og þannig tileinkað sér rökhugsun, gagnrýna hugsun og skipulega aðferðafræði.
- Umsóknir kæranda og þess sem ráðinn hafi verið hafi jafnframt gefið ástæðu til að ætla að þau byggju yfir góðri tungumálakunnáttu, bæði í íslensku og ensku, og Norðurlandamáli, ásamt því að geta tjáð sig í ræðu og riti. Þau hafi bæði fengið fjögur stig fyrir þennan þátt.
- Kærandi hafi skorað hærra þegar komið hafi að þekkingu/reynslu af fjölmiðlum, menningar- og samfélagsmálum. Hún hafi fengið fjögur stig, þ.e. hæstu einkunn, og þótt búa yfir umfangsmikilli þekkingu/reynslu í öllum þessum þáttum, líkt og hún sjálf leggi mikla áherslu á í kæru sinni og minnisblaði. Sá sem ráðinn hafi verið hafi jafnframt þótt búa yfir ákveðinni þekkingu/reynslu í öllum þessum flokkum, en þó aðallega samfélagsmálum, þar á meðal sem sviðsstjóri velferðarsviðs og borgarritari Reykjavíkurborgar, og áður sem lögreglustjóri, sem séu störf af mjög samfélagslegum toga. Aftur á móti hafi hann ekki þótt hafa jafn víðtæka reynslu og þekkingu í öðrum málaflokkum. Hann hafi fengið tvö stig.
- Hvað stjórnunar- og rekstrarreynslu hafi varðað, sem hafi jafnframt verið veigamesti matsþátturinn, þá hafi sá sem ráðinn hafi verið staðið kæranda framar. Hann hafi fengið fjögur stig í þessum þætti, en kærandi þrjú stig. Sá sem ráðinn hafi verið hafi fjölbreytta reynslu af stjórnun og rekstri opinberra stofnana og opinberra hlutafélaga. Hann hafi sinnt starfi skrifstofustjóra og verið staðgengill ráðuneytisstjóra dóms- og kirkjumálaráðuneytis frá árinu 2002 til 2006. Hann hafi stýrt lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá stofnun embættisins árið 2007 til 2014, en mjög hafi reynt á lögregluna á því tímabili. Á árunum 2002 til 2006 hafi hann jafnframt verið stjórnarformaður Neyðarlínunnar ohf. Frá árinu 2014 til ársins 2017 hafi hann starfað sem sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar en undanfarin tvö ár hafi hann gegnt starfi borgarritara og haldið þar utan um miðlæga stjórnsýslu borgarinnar og samskipti við hlutafélög í eigu borgarinnar. Hann hafi jafnframt verið staðgengill borgarstjóra. Kærandi búi einnig yfir stjórnunar- og rekstrarreynslu, en hún sé aftur á móti ekki talin jafn fjölþætt og mikil og reynsla þess sem ráðinn hafi verið, þar á meðal að teknu tilliti til þess að kærði sé opinbert hlutafélag og rekstur þess um ýmislegt áþekkur rekstri stórra opinberra stofnana. Í umsókn kæranda hafi hún meðal annars tiltekið að rekstrarreynsla sé margvísleg „en ekki hefðbundin“ og aðallega á sviði lista og menningar. Hún hafi meðal annars verið forseti og framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra listamanna um langt skeið. Hún hafi jafnframt verið umhverfisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlandanna um þriggja mánaða skeið árið 1999. Hún hafi einnig annast verkefnastjórnun í tengslum við tilgreindar hátíðir, sem talin hafi verið stór og krefjandi verkefni, og gegnt stjórnunarstöðum við Leikminjasafn Íslands og Kramhúsið, svo dæmi séu tekin. Þá hafi hún gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum, einkum á sviði lista og menningar og annarra samfélagsmálefna, líkt og ráða megi af umsókn hennar.
- Hvað varði reynslu af stefnumótun og innleiðingu stefnu þá hafi sá sem ráðinn hafi verið fengið fjögur stig en kærandi þrjú. Þegar hann hafi tekið við starfi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu hafi hann fengið það verkefni að undirbúa stofnun embættisins. Embættið hafi formlega orðið til 1. janúar 2007 við sameiningu þriggja lögregluliða á höfuðborgarsvæðinu. Hann hafi leitt verkefnastjórnun og síðar framkvæmdanefnd um nýskipan lögreglumála sem hafi mótað þær umfangsmiklu breytingar sem gerðar hafi verið á skipulagi lögreglunnar árið 2007. Auk þess hafi hann komið að fjölmörgum breytingarstjórnunarverkefnum, stórum sem smáum, í tengslum við störf sín innan lögreglunnar, hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu sem og hjá Reykjavíkurborg, svo sem ráða megi af umsókn hans. Hann hafi jafnframt haft forystu um verkefni sem hafi meðal annars verið tilnefnd til nýsköpunarverðlauna, bæði hér heima og á erlendum vettvangi. Reynsla kæranda hér sé einnig umtalsverð, einkum á sviði lista og menningar, líkt og ráða megi af umsókn hennar. Þeir umsækjendur sem hafi fengið fjögur stig í þessum hætti hafi jafnan verið í „bílstjórasæti“ (leiðandi hlutverki) í mjög stórum og umfangsmiklum verkefnum með háu flækjustigi, svo sem þær umfangsmiklu breytingar á skipulagi lögreglunnar séu dæmi um. Þeir umsækjendur sem hafi fengið þrjú stig hafi ekki verið í jafn miklum mæli í leiðandi hlutverki og/eða ekki í jafn stórum og umfangsmiklum verkefnum.
- Samkvæmt öllu framangreindu hafi einkunn þess sem hafi fengið starfið verið 3,52 en kæranda 3,28 og þannig munað talsverðu.
- Áður hafi verið rakið að viðtölin sem sérfræðingarnir hafi tekið í öðru stigi matsins hafi verið sérsniðin með tilliti til starfsins og tekið mið af hæfniskröfum sem fram hafi komið í auglýsingu um starfið. Tilgangurinn með viðtölunum hafi meðal annars verið sá að afla frekari upplýsinga en þeirra sem eingöngu hafi komið fram í umsóknargögnum. Mat á frammistöðu í viðtali sé alltaf í eðli sínu að einhverju leyti huglægt. Það breyti því ekki að þau séu, svo sem alkunna sé, talin skipta verulegu máli við mat á starfshæfni umsækjenda og séu viðurkenndur mælikvarði sem líta beri til. Meðfylgjandi séu niðurstöður og mat þeirra sérfræðinga sem hafi framkvæmt viðtölin í öðru stigi matsferilsins.
- Hvað varði þann sem ráðinn hafi verið þá hafi það verið mat þeirra að hann hafi komið vel fyrir í viðtali, verið skýr og skipulagður í svörum. Hann hafi komið reynslu sinni sem leiðtogi og stjórnandi vel til skila og tekið mörg dæmi. Hann hafi verið afslappaður og yfirvegaður í viðtali og í erfiðum aðstæðum nýti hann þann hæfileika vel. Hann skilji hlutverk forstjóra mjög vel, þ.e. að stjórna í gegnum stjórnendur. Hann skilji skipulag, vinnu með stoðdeildum, mannauðsstjóra, fjármálastjóra, markaðsstjóra og að það séu þau sem hafi sérfræðiþekkingu. Hann fari ekki í smáatriði eins og hvað þessi og hinn dagskrárgerðarmaður geri heldur fari réttar boðleiðir.
- Um kæranda hafi sagt að hún væri lifandi og skeleggur viðmælandi. Hún væri hugmyndarík, hafi heilmikla reynslu af því að stýra stórum, umfangsmiklum og krefjandi verkefnum/viðburðum og leiksýningum. Hún „hefur nokkra reynslu af stjórnun með bein mannaforráð, gömul reynsla“. Hún hafi gott tengslanet innan skapandi greina, hún hafi meðal annars verið forseti Bandalags íslenskra listamanna og starfandi framkvæmdastjóri þess um átta ára skeið, hún hafi verið stjórnarformaður og forstöðumaður Leikminjasafns Íslands í nokkur ár. Hún hafi verið framkvæmdastjóri íslenskra leikfélaga fyrir allmörgum árum síðan, eða á tímabilinu 1988-1993. Hún hafi borið ábyrgð á rekstri, s.s. verkefna, viðburða, leiksýninga og Bandalagi íslenskra listamanna. Þá hafi hún reynslu af áætlanagerð, gerð verkefnaáætlana, rekstraráætlana, hún hafi sagst hafa ríka kostnaðar- og rekstrarvitund. Af svörum að dæma hafi kærandi skýra sýn á menningarhlutverk kærða, hún hafi sýnt metnað og hugsað vel ástæðu umsóknar og verið með í huganum aðgerðaáætlun til ársins 2030 og lýst vel sýn sinni fyrir kærða.
- Að loknum viðtölum hafi ráðgjafar fundað með stjórn kærða þar sem farið hafi verið yfir niðurstöður þeirra.
- Í ljósi niðurstöðu annars mats hafi stjórn kærða lagt viðurkennt persónuleikapróf (OPQ 32) fyrir fjóra umsækjendur sem hafi þótt, að teknu tilliti til alls framangreinds, hafa sérstöðu í hópi umsækjenda og uppfyllt best hæfniskröfur sem hafi komið fram í auglýsingu um starfið. Bæði kærandi og sá sem ráðinn hafi verið hafi verið í þeim hópi. Þegar niðurstöður persónuleikamatsins hafi legið fyrir hafi umsækjendurnir fjórir verið boðaðir í viðtal til ráðgjafa sem hafi farið með þeim yfir niðurstöðuna og túlkun hennar. Niðurstöður persónuleikamatsins hafi síðan verið kynntar stjórn kærða, en bæði hafi þau komið vel út. Niðurstöður persónuleikamatsins hafi leitt til þess að þrír umsækjendur hafi þótt best uppfylla þær kröfur sem fram hafi komið í auglýsingu um starfið, og hafi kærandi og sá sem fengið hafi starfið verið þar á meðal.
- Í kjölfarið hafi stjórn kærða ákveðið að bjóða þremur umsækjendum í framhaldsviðtöl, þar á meðal kæranda, og leggja fyrir þá raunhæft verkefni, þar sem þeim hafi meðal annars gefist tækifæri til að kynna sýn sína um framtíð kærða. Bæði kærandi og sá sem ráðinn hafi verið hafi staðið sig vel. Að loknum kynningum og framhaldsviðtölum hafi stjórn kærða ákveðið að afla skyldi umsagna um umsækjendurna þrjá.
- Að endingu hafi það orðið samhljóða niðurstaða stjórnar að loknu heildstæðu ítarlegu matsferli, sem lýst hafi verið, að sá sem ráðinn hafi verið hafi verið hæfastur umsækjenda til að gegna starfinu. Hann hafi staðið kæranda framar samkvæmt hinum hlutlægu viðmiðunum í þremur þáttum af fimm, þar með talið þeim tveimur sem hafi haft mest vægi, en kærandi hafi staðið honum framar í einum þætti. Bæði kærandi og sá sem ráðinn hafi verið hafi staðið sig með ágætum í viðtölum og framhaldsviðtölum, persónuleikaprófum og raunhæfum verkefnum. Áður sé rakið að útvarpsstjóri sé jafnframt framkvæmdastjóri félagsins í skilningi laga nr. 2/1995 um hlutafélög og beri ásamt stjórn skyldur samkvæmt því, þar á meðal tengdum fjárreiðum félagsins. Varðandi síðasttalið atriði megi og benda á að ríkisendurskoðandi hafi í skýrslu, sem hafi tekið til starfsemi kærða, talið að greiðslugeta félagsins sé veik og fjárhagsleg staða þess viðkvæm. Ljóst sé að kærði standi frammi fyrir margvíslegum rekstraráskorunum í þessu tilliti, sem kunni að kalla á stefnumótun ýmiss konar og fleira. Stjórnunar- og rekstrarreynsla þess sem ráðinn hafi verið og tengd reynsla, þar á meðal varðandi stefnumótun og þess háttar, hafi vegið þyngra á metum en þekking/reynsla kæranda af fjölmiðlum, menningar- og samfélagsmálum, bæði samkvæmt upphaflegum matsviðmiðunum og þegar stjórn kærða hafi tekið endanlega ákvörðun. Geti það mat fjarri lagi, að öllu framansögðu virtu, talist ómálefnalegt.
ATHUGASEMDIR KÆRANDA
- Kærði tekur fram að samkvæmt því sem fram komi í greinargerð kærða hafi vægi matsþátta verið byggt á ákvörðun stjórnar kærða sem „ræddi og tók ákvörðun um vægi matsþátta og skilgreiningu þeirra“. Greinargerðinni hafi hvorki fylgt gögn um né nánari skýringar á þessari ákvörðun stjórnarinnar. Þannig sé engin grein gerð fyrir því í greinargerðinni hvernig ólíkt vægi einstakra matsþátta hafi verið ákveðið eða horfi að mati stjórnar kærða við inntaki starfsins.
- Kærði geti ekki axlað sönnunarbyrði sína samkvæmt 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 og 15. gr. laga nr. 86/2018 með vísan til stigagjafar án þess að forsendur hennar liggi fyrir. Ljóst sé að ákvörðun um vægi matsþátta hafi löngum verið sú leið sem farin hafi verið til að mismuna körlum og konum með því að gefa matsþáttum sem sniðnir séu að menntun og reynslu karlkyns umsækjenda aukið vægi. Til að axla sönnunarbyrði sína fyrir því að sú hafi ekki verið raunin í þessu tilviki, eins og byggt sé á af hálfu kærða, verði kærði að sýna fram á að vægi matsþátta hafi verið ákveðið á hlutlausan og málefnalegan hátt sem feli hvorki í sér beina né óbeina mismunun á grundvelli kyns.
- Þessa sönnunarbyrði hafi kærði ekki axlað í fyrirliggjandi greinargerð. Ekki verði séð af henni að samræmi sé milli afmörkunar og vægis þeirra matsþátta sem þar sé vísað til og lagagrundvallar málsins. Eins og kærði bendi sjálfur á sé hlutverk útvarpsstjóra lögbundið. Samkvæmt 11. gr. laga nr. 23/2013 felist í starfi útvarpsstjóra framkvæmdastjórn, daglegur rekstur og yfirstjórn allrar dagskrárgerðar kærða. Í ákvæðinu sé sérstaklega tekið fram að við daglegan rekstur hans skuli útvarpsstjóri hafa að leiðarljósi hlutverk og skyldur hans samkvæmt lögunum. Þessu hlutverki og skyldum sé ítarlega lýst í II. kafla laganna, einkum 3. gr. þeirra þar sem hlutverk stofnunarinnar sem fjölmiðils í almannaþágu sé útfært.
- Ekkert í þessum lagagrundvelli gefi tilefni til þeirrar ályktunar að stjórnun, stefnumótun og rekstur, án tillits til málefnasviðs eða viðfangsefnis, geti vegið 60% af starfi útvarpsstjóra eins og lagt hafi verið til grundvallar í framangreindu mati kærða þar sem stjórnunar- og rekstrarreynsla og reynsla af stefnumótun og innleiðingu stefnu hafi vegið samtals 60%. Munur á stigagjöf til kæranda og þess sem ráðinn hafi verið skýrist að meginstefnu til af því að sá sem ráðinn hafi verið hafi fengið fjögur stig fyrir þessa tvo matsþætti en kærandi þrjú.
- Ekkert í framangreindum lagagrundvelli gefi heldur tilefni til þeirrar ályktunar að fjölmiðlar og menningar- og samfélagsmál vegi einvörðungu 24% af stafi útvarpsstjóra eins og kærði hafi lagt til grundvallar mati sínu. Í ljósi þess að kærði sé fjölmiðill sem hafi það lögbundna markmið með starfsemi sinni að „mæta lýðræðislegum, menningarlegum og samfélagslegum þörfum í íslensku samfélagi“ hefði fyrir fram mátt ætla að þekking á og reynsla af fjölmiðlum, menningar- og samfélagsmálum, þar sem kærandi hafi fengið fjögur stig en sá einstaklingur sem ráðinn hafi verið aðeins tvö, vægi þyngra en 24%. Að minnsta kosti sé ljóst að stjórn kærða geti ekki axlað sönnunarbyrði sína án þess að rökstyðja það nánar hvernig það samrýmist lögbundinni starfslýsingu útvarpsstjóra að gefa þekkingu á og reynslu af kjarnastarfsemi þess 24% vægi við mat á hæfni umsækjenda á sama tíma og almenn þekking á og reynsla af rekstri, stjórnun og stefnumótun vegi 60%.
- Þar sem ákvörðun kærða á vægi framangreindra matsþátta hafi í þessu tilviki komið mun verr við kæranda en þann sem ráðinn hafi verið, og í ljósi þess að forsendur þessarar ákvörðunar verði hvorki ráðnar af fyrirliggjandi gögnum né af lagagrundvelli málsins, hvíli það á kærða að sýna fram á það að til grundvallar þessari ákvörðun hafi legið aðrar ástæður en kyn umsækjendanna og að vægi sé ákveðið með hætti sem komi ekki verr við konur en karla. Ítrekað skuli í því sambandi að ákvörðun á vægi matsþátta hafi löngum verið sú leið sem farin hafi verið til að mismuna umsækjendum um störf á grundvelli kyns þeirra.
- Samkvæmt greinargerðinni hafi reynsla kæranda af stefnumótun og innleiðingu stefnu verið metin til þriggja stiga en samsvarandi reynsla þess sem ráðinn hafi verið til fjögurra stiga. Af þessu tilefni skuli ítrekað að kærandi hafi í áratug gegnt starfi alþingismanns og um hríð einnig embætti ráðherra. Vandfundið sé starf þar sem reyni meira á stefnumótun en starf alþingismanns sem lúti að því alfarið að móta og taka afstöðu til stefnumótunar á öllum sviðum samfélagsins. Í starfi sínu sem alþingismaður hafi kærandi komið mjög að stefnumótun á sviði lista og menningar. Að lokinni þingmennsku hafi hún gegnt starfi forseta Bandalags íslenskra listamanna um átta ára skeið þar sem hún hafi komið að stefnumótun á þessu sviði fyrir hönd allra aðildarfélaga bandalagsins auk þess sem hún hafi átt sæti í fjölda nefnda og ráða sem hafi haft það hlutverk að móta stefnu á þessu sviði, þar á meðal á vegum Íslandsstofu, Miðstöðvar lista og hönnunar, Listahátíðar í Reykjavík og Hörpu svo nefnd séu fáein dæmi. Auk almennrar reynslu sinnar af stefnumótun búi kærandi þannig einnig yfir mikilli reynslu af stefnumótun á því sviði sem kærði starfi á, þar með talið beinlínis um málefni þeirrar stofnunnar. Vandséð sé að til sé betri undirbúningur undir þann þátt í starfi útvarpsstjóra sem lúti að stefnumótun en áratugareynsla kæranda af stefnumótun beinlínis á því málefnasviði sem undir hann heyri lögum samkvæmt. Að minnsta kosti hljóti það að vera hlutverk kærða að skýra betur mat sitt að þessu leyti og sýna þannig fram á að sá greinarmunur sem gerður hafi verið með því á kæranda og karlkyns meðumsækjenda hennar hafi byggst á hlutlægum grundvelli en ekki á kyni þeirra.
- Í greinargerðinni komi fram að menntun kæranda hafi verið metin til þriggja stiga en menntun þess sem ráðinn hafi verið til fjögurra stiga. Fram komi í greinargerðinni að mat kærða á menntun umsækjenda hafi byggst á stigi háskólamenntunar (grunnnám eða meistaranám) en ekki hafi verið gerður greinarmunur á menntun umsækjenda eftir inntaki hennar. Kærandi hafi fengið þrjú stig þar sem leiklistarnám hennar og diplómanám í opinberri stjórnsýslu hafi að mati kærða ekki verið jafngilt kandídatsprófi þess sem ráðinn hafi verið.
- Kærandi geri verulegar athugasemdir við framangreint mat kærða á menntun hennar og þess sem ráðinn hafi verið. Hvað sem líði því álitaefni hversu vel menntun á sviði lögfræði nýtist í starfi útvarpsstjóra sé alveg ótvírætt að nám kæranda á sviði leiklistar og opinberrar stjórnsýslu falli mjög vel að lögbundinni starfslýsingu útvarpsstjóra sem beri ábyrgð á rekstri og dagskrárgerð opinberrar menningarstofnunar sem sérstaklega sé falið það verkefni að framleiða og miðla leiknu menningarefni og varðveita það í safni sínu til langrar framtíðar sem hluta að menningararfi þjóðarinnar. Í þessu sambandi sé bent á að í starfsauglýsingu hafi verið gerð krafa um háskólamenntun sem nýtist í starfi. Þá verði ekki séð hvernig unnt sé að líta fram hjá þeirri staðreynd að sú menntun sem kærandi hafi öðlast með námi á sviði leiklistar hafi gefið af sér færni og kunnáttu í að koma fram og flytja áheyrilegt talað mál sem óneitanlega komi sér vel í starfinu. Að gera menntun kæranda á sviði leiklistar og opinberrar stjórnsýslu lægra undir höfði en menntun á sviði lögfræði af þeirri ástæðu einni að síðarnefnda námið jafngildi að mati kærða meistaranámi en hið fyrrnefnda ekki samrýmist hvorki þessari kröfu í starfsauglýsingu né forsvaranlegu mati á hæfni umsækjenda um starf útvarpsstjóra. Miðað við þennan matsgrundvöll kærða hefði einstaklingur með meistaranám í matvælafræði verið metinn hæfari hvað menntun varði en kærandi þessa máls til að gegna starfi útvarpsstjóra. Atvinnurekandi sem beri fyrir sig slíkan matsgrundvöll í máli þar sem fyrir liggi að hann hafi komið karlkyns umsækjanda til góða við ráðningu í starf sem kona hafi aldrei gegnt í 90 ára sögu þess þurfi að sýna fram á það með gögnum og skýringum að ekki sé um að ræða mismunun á grundvelli kyns, þrátt fyrir að svo virðist hafa verið.
- Samkvæmt framansögðu geri kærandi í fyrsta lagi athugasemdir við það að afmörkun og vægi matsþátta sé hvorki skýrt í greinargerð kærða né í samræmi við lögbundna starfslýsingu útvarpsstjóra. Þar sem þessi ákvörðun kærða komi mun verr við kæranda en þann sem ráðinn hafi verið séu með þeim skorti á skýringum á henni, sem fyrir liggi í málinu, leiddar líkur að því í skilningi 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 og 15. gr. laga nr. 86/2018 að þessum einstaklingum hafi verið mismunað í þessu tilliti á grundvelli kyns þeirra.
- Í öðru lagi séu gerðar athugasemdir við mat kærða og samanburð við þann sem ráðinn hafi verið á reynslu af stefnumótun og innleiðingu stefnu. Hvað sem líði reynslu þess sem ráðinn hafi verið af slíkri stefnumótun verði að mati kæranda ekki, svo forsvaranlegt sé, lagt til grundvallar að hann standi kæranda framar að þessu leyti, enda liggi fyrir að hún hafi haft stefnumótun að aðalstarfi í áratugi og komið í því starfi meðal annars mjög að stefnumótun á því sviði sem kærði starfi á og telja verði að reynt geti á í starfinu. Þar sem mat kærða og samanburður á umsækjendum hafi að þessu leyti komið mun verr við kæranda en þann sem ráðinn hafi verið séu með þeim skorti á skýringum á honum, sem fyrir liggi í málinu, leiddar líkur að því í skilningi 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 og 15. gr. laga nr. 86/2018 að þessum einstaklingum hafi verið mismunað í þessu tilliti á grundvelli kyns þeirra.
- Í þriðja lagi séu gerðar athugasemdir við mat kærða og samanburð við þann sem ráðinn hafi verið á menntun. Hvað sem líði menntun þess sem ráðinn hafi verið verði að mati kæranda ekki svo forsvaranlegt sé lagt til grundvallar að hann standi kæranda framar að þessu leyti, enda búi kærandi, ólíkt honum, yfir háskólamenntun á tveimur sviðum sem ljóslega nýtist í starfinu á meðan sá sem ráðinn hafi verið búi yfir menntun á sviði lögfræði sem ekki tengist starfi útvarpsstjóra með beinum hætti. Sú forsenda kærða að líta eingöngu til þess hvort um væri að ræða nám sem jafngilti meistaraprófi eigi sér enga stoð í lagagrundvelli málsins eða starfsauglýsingu. Þá séu gerðar verulegar athugasemdir við mat kærða á diplómanámi hennar á meistarastigi í opinberri stjórnsýslu sem hann leggi til grundvallar, án rökstuðnings, að jafngildi ekki kandídatsprófi þess sem ráðinn hafi verið.
- Að lokum sé áréttað að þýðing laga nr. 10/2008 og 86/2018 felist ekki síst í þeirri kröfu sem þar sé gerð til þess að atvinnurekendur sýni fram á það með viðhlítandi gögnum og skýringum að ráðstafanir þeirra sem falli undir gildissvið þessara laga hafi ekki verið byggð á kyni. Að baki þessari kröfu búi það sjónarmið sem vísað sé til í forsendum dóms Hæstaréttar 2. desember 1993 í máli nr. 339/1990 að erfitt geti reynst fyrir þann sem verði fyrir kynbundinni mismunun að sýna fram á hana.
- Í því máli sem hér sé til umfjöllunar sé uppi sú staða að karlkyns umsækjandi hafi verið ráðinn í starf sem kona hafi aldrei gegnt í 90 ára sögu hlutaðeigandi atvinnurekanda. Sú kynbundna mismunun sem búi að baki þessari sögulegu staðreynd hafi ekki falist í því að gengið væri fram hjá konum, sem viðurkennt hafi verið af hálfu kærða að væru hæfari en karlkyns umsækjendur, heldur þvert á móti í mati kærða sem hafi byggt á kynjuðum sjónarmiðum sem hafi komið verr við konur en karla. Eins og ljóst sé af atvikum þessa máls eigi það enn við í dag. Þannig liggi fyrir að kvenkyns umsækjandi með fjölþættan bakgrunn sem helgað hefur líf sitt listum og menningu, menntað sig á því sviði og starfað innan þess til margra áratuga sé að mati kærða síður hæf til að bera ábyrgð á rekstri og dagskrárgerð hans heldur en karlkyns umsækjandi sem, þrátt fyrir góða menntun og farsælan starfsferil á öðrum sviðum, hafi lítið komið að þeim viðfangsefnum sem falli undir starfssvið kærða áður en hann hafi verið ráðinn til þess að stýra þeim.
ATHUGASEMDIR KÆRÐA
- Kærði segir að af athugasemdum kæranda megi ráða að þær séu í meginatriðum þríþættar. Í fyrsta lagi að „afmörkun og vægi matsþátta sé hvorki skýrt í greinargerð kærða né í samræmi við lögbundna starfslýsingu útvarpsstjóra“. Í annan stað gerir kærandi „athugasemdir við mat kærða og samanburð við þann umsækjanda sem ráðinn var á reynslu af stefnumótun og innleiðingu stefnu“. Í þriðja lagi geri kærandi „athugasemdir við mat kærða og samanburð við þann umsækjanda sem ráðinn var á menntun“. Framangreindum sjónarmiðum sé mótmælt sem og öðrum málatilbúnaði kæranda.
- Í fyrsta lagi hafi matsþættirnir að öllu leyti verið málefnalegir. Af athugasemdum kæranda verði tæpast annað ráðið en að hún telji þessa matsþætti, og innbyrðis vægi þeirra, ómálefnalega og að val á matsviðmiðunum sé í samræmi við rótgróna kynjamismunun sem stjórn kærða hafi ekki skeytt um að vinna gegn.
- Þessu áliti kæranda sé hafnað. Eins og fram hafi komið í greinargerð kærða sé um starfssvið stjórnar og hlutverk útvarpsstjóra fjallað í 10. og 11. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Þar segi meðal annars að útvarpsstjóri hafi daglegan rekstur félagsins með höndum og sé jafnframt æðsti yfirmaður dagskrárgerðar. Útvarpsstjóri sé jafnframt framkvæmdastjóri félagsins í skilningi laga nr. 2/1995 um hlutafélög og hafi ásamt stjórn skyldu samkvæmt því, þar á meðal gagnvart fjárreiðum félagsins. Ljóst sé þar að auki að greiðslugeta félagssins sé veik um þessar mundir og fjárhagsleg staða félagsins viðkvæm, eins og fram komi í skýrslu Ríkisendurskoðanda frá síðasta ári sem hafi tekið til starfsemi kærða. Þá liggi fyrir að kærði hafi verulegar fjárreiður með höndum, starfsemin sé síbreytileg, og svo framvegis. Það hafi því blasað við þegar gengið hafi verið frá auglýsingu um starfið að áherslu þyrfti meðal annars að leggja á rekstrar- og stjórnunarreynslu og stefnumótun. Allir þeir matsþættir sem litið sé til séu einnig viðurkenndir mælikvarðar í ráðningarfræðum, enda hafi umsækjendur af báðum kynjum skorað hátt með tilliti til þeirra. Því fari um leið fjarri að það teljist styðja við rótgróna kynjamismunun að gera slíkum sjónarmiðum hátt undir höfði við ráðningu æðsta stjórnanda stórrar stofnunar/fyrirtækis með umfangsmikinn rekstur og flókið mannahald. Verði því ekki með neinu móti ráðið að vægi einstakra matsþátta, þar með talin áhersla á stjórnunar- og rekstrarreynslu, stefnumótun og þess háttar kunni að vera ómálefnalegt eða andstætt lögum.
- Í athugasemdum kæranda sé vísað til innbyggðs misréttis og kynjaðra sjónarmiða. Í því tilefni skuli bent á að stjórn kærða hafi lagt áherslu á jafnréttismál í hvívetna í starfsemi sinni og kærði vinni samkvæmt virkri jafnréttisáætlun. Stjórn, stjórnendur og starfsmenn hafi sýnt í störfum og skipulagi að jafnréttisvitund sé hluti vinnustaðarbrags eða -menningar í fyrirtækinu. Kærði hafi hlotið jafnlaunavottun og heimild Jafnréttisstofu til að nota jafnlaunamerkið. Í því felist að staðfest sé að kærði hafi fengið vottun á jafnlaunakerfi sínu samkvæmt jafnlaunastaðli ÍST 85:2012 og uppfylli skilyrði staðalsins. Jafnlaunavottun veiti staðfestingu á því að launaákvarðanir séu kerfisbundnar, að fyrir hendi sé jafnlaunakerfi samkvæmt kröfum jafnlaunastaðals og reglubundið sé fylgst með því að starfsfólk sem vinni sömu eða jafnverðmæt störf hafi sambærileg laun, óháð kyni. Í jafnréttisáætlun kærða komi fram að konum og körlum skuli greidd jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf og skuli njóta sömu kjara er varði önnur starfskjör og réttindi. Enn fremur sé fylgst reglulega með kynjahlutföllum í fréttum og dagskrárgerð og stefnt að því að þau séu sem jöfnust. Skipan stjórnar og framkvæmdastjórnar kærða endurspegli jafnframt vel bæði kyn og stjórnin hafi fylgst vel með jafnréttismálum kærða og lagt ríka áherslu á þau.
- Fyrir þáttinn um reynslu af stefnumótun og innleiðingu, sbr. aðra meginröksemd kæranda, hafi sá sem ráðinn hafi verið fengið fjögur stig en kærandi þrjú stig. Þegar sá sem starfið hafi hlotið hafi tekið við embætti lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins hafi hann fengið það verkefni að undirbúa sameiningu þriggja lögregluliða á höfuðborgarsvæðinu, eins og rakið er hér að framan ásamt öðrum verkefnum. Stjórnin hafi talið að reynsla af margbrotnum rekstri ásamt mannaforráðum, ábyrgð á ráðningum og stefnumótun stofnunar til lengri tíma þar sem nauðsynlegt væri að horfa til framtíðaruppbyggingar, vægi þyngra á metum. Til þessa hafi aðallega verið horft en ekki hvort reynsla væri á einu sviði frekar en öðru. Nýtt erindi kæranda haggi ekki fyrra mati í þessu sambandi. Í athugasemdum kæranda sé því meðal annars haldið fram að það starf sé vandfundið „sem reynir meira á stefnumótun en starf alþingismanns“. Þótt ljóst sé að hlutverk alþingismanna sé umfangsmikið og áhrif þingmanna á þróun samfélagsins sem hluti af löggjafarvaldinu verulegt, ásamt því að þeir veiti framkvæmdarvaldinu virkt eftirlit, sé ekki sjálfkrafa hægt að leggja það að jöfnu við leiðandi hlutverk við stefnumótun stórra og umfangsmikilla verkefna innan fyrirtækja eða stjórnsýslu. Sömuleiðis, vegna tilvísunar kæranda til þess að hún hafi gegnt ráðherraembætti, þá verði ekki fram hjá því horft að það hafi verið um mjög skamma hríð.
- Hvað menntun varði, sbr. þriðju meginröksemd kæranda, skuli áréttað frá fyrri umsögn að umsækjendur sem höfðu lokið meistaranámi eða ígildi þess (eða doktorsprófi) í háskólanámi hafi jafnan fengið fjögur stig. Kærandi hafi fengið þrjú stig í þessum þætti. Hún hafi meðal annars lokapróf frá Leiklistarskóla Íslands sem hafi verið metið sem jafngildi BA-gráðu frá Listaháskóla Íslands. Einnig hafi hún lokið diplómanámi í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Það sé aftur á móti ekki ígildi meistaraprófs. Þannig leiki enginn vafi á því að sá sem ráðinn hafi verið hafi meira formlegt háskólanám að baki en kærandi. Ekki hafi þótt ástæða til að gera sérstakan greinarmun á því hvers konar háskólanám um væri að ræða, enda hafi það nýst í starfi, heldur fyrst og síðast að umsækjendur hefðu háskólapróf og hefði því tileinkað sér rökhugsun, gagnrýna hugsun og skipulega aðferðafræði. Fullgilt meistarapróf hafi þar vegið þyngra en BA-próf og nám á meistarastigi sem sé skilgreining diplómagráðu.
- Hvorki verði ráðið að þetta mat sé ómálefnalegt, þótt kærandi kunni að vera ósammála því og telji sig geta fært rök fyrir annarri aðferðafræði að menntun hennar, sem sé aðallega á sviði leiklistar, nýtist betur til starfans en til dæmis lögfræðinám, svo sem kærandi virðist telja með tilliti til lögbundins hlutverks útvarpsstjóra. Að því sögðu, og til áréttingar, hafi ekki hvílt sérstök áhersla á lögfræðimenntun þess sem ráðinn hafi verið heldur hafi skipt máli að hann, eins og fjölmargir aðrir umsækjendur sem hafi fengið sama stigafjölda og hann í þessum matsþætti, hafi verið með fullgilda meistaragráðu á háskólastigi.
- Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af heildstæðum samanburði á framkomnum umsóknum með tilliti til þeirra krafna sem lög geri til þess einstaklings sem gegna megi starfinu og þeirra sjónarmiða sem kærði hafi ákveðið að auki að byggja val sitt milli umsækjenda á, fái hann ekki séð að það hafi verið ómálefnalegt mat að telja þann sem ráðinn hafi verið hæfari til starfans en aðra umsækjendur, þar á meðal kæranda.
NIÐURSTAÐA
- Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
- Kærandi reisir málatilbúnað sinn bæði á lögum nr. 10/2008 og lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði. Séu vísbendingar um að umsækjanda hafi sérstaklega verið mismunað á grundvelli kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar við ráðningu í starf kemur til greina að beita 8. gr. laga nr. 86/2018 við úrlausn máls og þá eftir atvikum samhliða lögum nr. 10/2008. Í hinu fyrirliggjandi máli hefur kærandi aftur á móti ekki dregið fram í málatilbúnaði sínum einstök atriði sem gefa til kynna að umfram almenna mismunun á grundvelli kyns hafi hér verið um að ræða mismunun sem sérstaklega hafi beinst að kæranda á grundvelli kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar hennar og bera gögn málsins auk þess ekki með sér slíka mismunun. Að þessu virtu hefur kærandi ekki leitt líkur að því að kærði hafi brotið gegn lögum nr. 86/2018, sbr. 15. gr. laganna.
- Þegar kærunefnd jafnréttismála hefur fjallað um ráðningar í formi matskenndra stjórnvaldsákvarðana opinberra aðila hefur nefndin lagt til grundvallar að almennt verði að játa stjórnvöldum nokkurt svigrúm við mat þeirra á því hvaða málefnalegu sjónarmið skuli lögð til grundvallar og þá hvernig einstakir umsækjendur falli að slíkum sjónarmiðum, enda sé að öðru leyti sýnt fram á að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir til að slíkt mat geti farið fram, sbr. til hliðsjónar úrskurð kærunefndarinnar í máli nr. 2/2020. Kemur þá til skoðunar hvaða stöðu kærði nýtur í þessum efnum.
- Fyrir liggur að í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, kemur fram að Ríkisútvarpið sé sjálfstætt opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Efnislega sambærilega skilgreiningu var að finna í 1. mgr. 1. gr. eldri laga nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið ohf.
- Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög er hugtakið opinbert hlutafélag skilgreint sem félag sem hið opinbera, einn eða fleiri hluthafar, á að öllu leyti, beint eða óbeint. Í athugasemdum með frumvarpi því er síðar varð að lögum nr. 90/2006, sem bættu fyrrgreindri skilgreiningu við lög nr. 2/1995, kemur meðal annars fram að ákvæði stjórnsýslulaga og laga um opinbera starfsmenn gildi ekki formlega um opinber hlutafélög. Í samræmi við þetta segir meðal annars í 1. tölulið 2. mgr. 2. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að lögin taki ekki til starfsmanna hlutafélaga jafnvel þótt þau séu að öllu leyti í eigu ríkisins.
- Í dómi Hæstaréttar frá 7. júní 2018 í máli nr. 557/2017 er rakið að með lögum nr. 6/2007 hafi Ríkisútvarpinu verið breytt í opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Um slík félög gildi almennt ekki reglur opinbers starfsmannaréttar, sbr. 1. tölulið 2. mgr. 2. gr. laga nr. 70/1996. Frá því kunni þó að vera undantekningar á grundvelli lagaákvæða, samkomulags eða vegna annarra atvikabundinna aðstæðna. Síðar í dóminum segir um gildandi lög nr. 23/2013 í tengslum við skýringu Hæstaréttar á 1. mgr. 12. gr. laganna: „Áréttað er það sem fram er komið að almennt gilda hvorki reglur opinbers starfsmannaréttar né reglur stjórnsýsluréttar um réttarstöðu [...] starfsmanna opinberra hlutafélaga heldur reglur hins almenna vinnumarkaðar.“
- Ráðning kærða á starfsfólki, þar með talið útvarpsstjóra, lýtur þar með lögmálum vinnuréttar fremur en opinbers starfsmannaréttar. Það er meginregla vinnuréttar að atvinnurekandi hefur um það frjálsar hendur hvern hann velur til starfa í sína þágu, sbr. dóm Hæstaréttar frá 22. janúar 2004 í máli nr. 330/2003. Því vali eru þó settar þær skorður sem leiddar verða af ákvæðum laga nr. 10/2008 þegar kona og karl sækja um sama starfið, enda tekur ákvæði 1. mgr. 26. gr. laganna um bann við mismunun á grundvelli kyns við ráðningu ekki aðeins til stjórnvalda heldur jafnframt til einkaaðila á borð við opinber hlutafélög.
- Sú staða opinbers hlutafélags sem löggjafinn hefur ljáð kærða hefur þýðingu við úrlausn málsins þar sem kærði nýtur samkvæmt framangreindu aukins svigrúms samanborið við opinbera veitingarvaldshafa við mat á því hvaða sjónarmið skuli lögð til grundvallar við ráðningar sem og við mat á því hvernig einstakir umsækjendur falla að þeim sjónarmiðum. Svigrúm kærða í þessu máli takmarkast fyrst og fremst af lögbundnum kröfum um starfsgengi og hlutverk útvarpsstjóra, sbr. 11. gr. laga nr. 23/2013 og að nokkru leyti 10. gr. og 5. mgr. 9. gr. laganna.
- Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 23/2013 er útvarpsstjóri framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins. Skal hann uppfylla hæfisskilyrði samkvæmt 5. mgr. 9. gr. laganna, en ákvæðið vísar meðal annars til 66. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Af þessu leiðir einkum að útvarpsstjóri skal vera lögráða, fjár síns ráðandi og má ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt nánar tilgreindum lögum.
- Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 23/2013 skal útvarpsstjóri ráðinn til fimm ára í senn og er heimilt að endurráða hann einu sinni. Fram kemur að hann hafi daglegan rekstur Ríkisútvarpsins með höndum og sé jafnframt æðsti yfirmaður allrar dagskrárgerðar. Í 3. mgr. 11. gr. er rakið að við daglegan rekstur Ríkisútvarpsins skuli útvarpsstjóri hafa að leiðarljósi hlutverk og skyldur þess eins og kveðið sé á um í lögunum. Í þeim efnum hafa einkum þýðingu að mati kærunefndarinnar 3. gr. og 4. gr. laganna. Í 3. gr. er fjallað um fjölmiðlaþjónustu félagsins í almannaþágu. Í 4. gr. er síðan fjallað um aðra starfsemi félagsins. Í 4. mgr. 11. gr. er meðal annars kveðið á um að útvarpsstjóri ráði aðra starfsmenn Ríkisútvarpsins.
- Vikið er að samspili stjórnar kærða og útvarpsstjóra í 10. gr. laga nr. 23/2013. Vert er að rekja efni þessa lagaákvæðis að því marki sem það varpar sérstöku ljósi á hlutverk útvarpsstjóra. Í 1. tölulið 10. gr. kemur fram að starfssvið stjórnar nái til þess að móta í samvinnu við útvarpsstjóra dagskrárstefnu og megináherslur í starfi Ríkisútvarpsins til lengri tíma. Í 4. tölulið 10. gr. er rakið að stjórn sé falið að taka meiri háttar ákvarðanir um rekstur Ríkisútvarpsins, þ.e. ákvarðanir sem ekki falli undir daglegan rekstur, ýmist að eigin frumkvæði eða að fengnum tillögum útvarpsstjóra eða annarra starfsmanna. Af 5. tölulið 10. gr. verður loks ráðið að útvarpsstjóra er falið að gæta þess að stjórnin sé á hverjum tíma upplýst um helstu þætti í starfsemi Ríkisútvarpsins. Áætlanir sem gerðar séu fyrir hvert ár skuli jafnframt kynntar í stjórn.
- Einnig er vikið að hlutverki útvarpsstjóra í samþykktum kærða. Þar kemur meðal annars fram í grein 5.3. að útvarpsstjóri skuli sjá um að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur. Auk þess skuli hann sjá til þess að meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti.
- Í starfsauglýsingu kærða voru, eins og áður segir, settar fram eftirfarandi hæfniskröfur: Háskólamenntun sem nýtist í starfi; Reynsla af stjórnun og rekstri; Leiðtogahæfileikar og góð hæfni í mannlegum samskiptum; Skilningur og áhugi á nýjum miðlum; Reynsla af stefnumótunarvinnu, nýsköpun og innleiðingu stefnu; Þekking og reynsla af fjölmiðlun, menningar- og samfélagsmálum; Góð tungumálakunnátta og góð hæfni til tjáningar í ræðu og riti. Þá var starfssviði útvarpsstjóra lýst með eftirfarandi hætti: Dagleg stjórnun og ábyrgð á rekstri félagsins; Yfirumsjón og ábyrgð allrar dagskrárgerðar; Stefnumótun og markmiðasetning; Samskipti við hagaðila; Alþjóðlegt samstarf.
- Að mati kærunefndarinnar voru fyrrgreindar hæfniskröfur málefnalegar og rúmuðust innan svigrúms kærða til að skilgreina þær að þessu leyti, sbr. einnig kröfur til starfsgengis útvarpsstjóra samkvæmt lögum nr. 23/2013 og umfjöllun laganna um hlutverk hans.
- Í fyrrgreindu minnisblaði kærða sem birtist í formi tilkynningar, dagsettrar 14. febrúar 2020, kemur fram að fyrsta mat kærða hafi byggst á skriflegum gögnum umsækjenda, þ.e. ferilskrá og kynningarbréfi. Umsóknargögn hafi verið metin í samræmi við menntunar- og hæfniskröfur sem fram komu í auglýsingu. Við matið hafi verið stuðst við fyrir fram skilgreind viðmið og vægi sem byggðust á hæfniskröfum í auglýsingu. Markmið fyrsta mats hafi verið að vinna forsendur fyrir ákvörðun um hvaða umsækjendur skyldu boðaðir í fyrsta viðtal. Stjórn kærða hafi metið öll gögn og tekið ákvörðun um vægi hvers matsþáttar. Ráðgjafar Capacent hafi fundað með stjórn kærða til að fara yfir matið og hafi stjórnin ákveðið að boða 19 umsækjendur í viðtal við ráðgjafa, þ.e. þá sem best hafi þótt uppfylla þau hæfnisskilyrði sem komið hafi fram í starfsauglýsingu.
- Kærði byggir á því fyrir nefndinni að matið á fyrsta stigi ráðningarferlisins hafi verið fremur gróft en síðan hafi tekið við nákvæmara mat við frekari yfirlegu umsókna og með viðtölum við umsækjendur. Aftur á móti hafi vægi matsþátta verið óbreytt.
- Í gögnum málsins er að finna eyðublað sem ber heitið „Mat á innsendum gögnum, ferilskrá og kynningarbréfi“. Þar birtist mat stjórnar kærða á kæranda og þeim karli sem starfið hlaut. Samkvæmt málatilbúnaði kærða var þetta skjal ekki einungis notað við frummat kærða heldur einnig í framhaldinu, þar með talið eftir viðtöl við umsækjendur. Kærandi hafi hlotið 3,28 stig af 4 stigum mögulegum í frummatinu og endanlegu mati. Karlinn sem ráðinn var í starfið hafi aftur á móti hlotið 3,52 stig bæði í frummati og í endanlegu mati.
- Í skjalinu kemur fram hvaða vægi kærði ljéði eftirfarandi hæfniskröfum: Háskólamenntun sem nýtist í starfi (12% vægi); Reynsla af stjórnun og rekstri (34% vægi); Reynsla af stefnumótunarvinnu, nýsköpun og innleiðingu stefnu (26% vægi); Þekking og reynsla af fjölmiðlun, menningar- og samfélagsmálum (24% vægi); Góð tungumálakunnátta og góð hæfni til tjáningar í ræðu og riti (4% vægi). Stig á kvarðanum 0 til 4 voru veitt fyrir hvern flokk.
- Að mati kærunefndarinnar fellur mat kærða á vægi hvers og eins framangreindra þátta innan þess svigrúms sem kærði naut til að móta þær kröfur til starfsins, en hvað varðar vægi stjórnunar- og rekstrarreynslu þá hefur kærði byggt á því fyrir nefndinni að ríkisendurskoðandi hafi talið greiðslugetu félagsins veika og fjárhagsstöðu þess viðkvæma. Þá er ekki unnt að fallast á það með kæranda að kærði hafi með einhverjum hætti farið út fyrir það svigrúm sem leiðir af lögum nr. 23/2013, en hér að framan er fjallað um hlutverk útvarpsstjóra samkvæmt lögunum sem og um samspil stjórnar og útvarpsstjóra.
- Þess skal getið að í skjalinu er ekki vikið að eftirfarandi hæfniskröfum starfsauglýsingar: Leiðtogahæfileikar og góð hæfni í mannlegum samskiptum; Skilningur og áhugi á nýjum miðlum. Þá er hæfniskrafa um reynslu af nýsköpun ekki talin með reynslu af stefnumótunarvinnu og innleiðingu stefnu sem tekin er upp í skjalið. Nánar er að þessu vikið hér á eftir.
- Í starfsauglýsingu var, eins og áður segir, gerður áskilnaður um háskólamenntun sem nýtist í starfi. Í þeim efnum hlaut kærandi þrjú stig en karlinn sem ráðinn var fjögur stig. Af hálfu kærða hefur verið byggt á því fyrir nefndinni að umsækjendur sem lokið hefðu háskólanámi á meistarastigi hefðu jafnan fengið fjögur stig. Ekki hefði þótt ástæða til að gera sérstakan greinarmun á því hvers konar háskólanám væri jafnan um að ræða, heldur fyrst og síðast að umsækjendur hefðu háskólapróf og þannig tileinkað sér rökhugsun, gagnrýna hugsun og skipulega aðferðafræði. Fullgilt meistarapróf karlsins hafi vegið þyngra en BA-próf kæranda og nám á meistarastigi sem sé skilgreining diplómagráðu. Kærandi gerir athugasemdir við þennan málatilbúnað og telur ekki unnt að leggja alla háskólamenntun að jöfnu. Í síðari málatilbúnaði kærða fyrir nefndinni bregst hann við þessari athugasemd með því að rita að ekki hafi þótt ástæða til að gera sérstakan greinarmun á því hvers konar háskólanám væri um að ræða, enda hafi það nýst í starfi, heldur fyrst og síðast að umsækjendur hefðu háskólapróf og hefðu því tileinkað sér rökhugsun, gagnrýna hugsun og skipulega aðferðafræði. Enda þótt kærunefndin geti fallist á það með kærða að málefnalegt hafi verið að meta hvort umsækjendur hefðu tileinkað sér framangreind atriði þá varð starfsauglýsing kærða ekki skilin öðruvísi en svo að öll háskólamenntun stæði ekki jafnfætis, heldur væri sérstaklega óskað eftir háskólamenntun sem myndi nýtast í því starfi sem til stóð að ráðið yrði í. Við þær aðstæður varð kærði óhjákvæmilega að meta hvernig menntun umsækjenda kæmi til með að nýtast í starfi útvarpsstjóra miðað við starfsauglýsingu og lögbundið hlutverk hans samkvæmt lögum nr. 23/2013, sbr. nánari umfjöllun um ákvæði laganna hér að framan. Embættispróf karlsins í lögfræði er ígildi BA-gráðu og meistaragráðu. Kærandi hafði lokapróf frá Leiklistarskóla Íslands sem var metið af kærða sem jafngildi BA-gráðu frá Listaháskóla Íslands. Einnig hafði hún lokið námi í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands, en þar var um diplómanám að ræða. Liggur því fyrir að karlinn hafði hlutrænt séð meiri háskólamenntun en kærandi. Námsgráða kæranda frá Leiklistarskóla Íslands og námsgráða karlsins í lögfræði gátu báðar nýst í starfi útvarpsstjóra, en að mati kærunefndarinnar verður að ætla að umrætt nám kæranda hafi meiri skírskotun til lögbundins hlutverks kærða, sbr. 1. gr. laga nr. 23/2013. Ekki síst vegna áherslu sem kærði leggur í málatilbúnaði sínum á að kærði skuli leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð. Að mati kærunefndarinnar verður því ekki fullyrt að karlinn hafi staðið kæranda framar í þessum matsflokki.
- Hvað viðvíkur hæfniskröfu um stjórnunar- og rekstrarreynslu þá hlaut kærandi þrjú stig en karlinn hlaut þar fjögur stig. Kærunefndin gerir ekki athugasemd við þá niðurstöðu kærða, ekki síst vegna starfa hans sem staðgengill ráðuneytisstjóra dómsmálaráðuneytisins, borgarritari, og þar með hlutverks hans sem eins af staðgenglum borgarstjóra, og sem lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, en fram kemur í gögnum málsins að yfir 400 manns hafi heyrt undir karlinn í lögreglustjórastarfi hans. Við þessari niðurstöðu hróflar ekki reynsla kæranda af stjórnun og rekstri sem ráðherra þar sem hún gegndi því starfi einungis um fjögurra mánaða skeið.
- Varðandi hæfniskröfu um reynslu af stefnumótunarvinnu og innleiðingu stefnu þá var það niðurstaða kærða að veita kæranda þrjú stig í þeim flokki en karlinum fjögur stig. Þess skal getið að í starfsauglýsingu kærða var þessi krafa um hæfni sett fram samhliða kröfu um reynslu af nýsköpun, en ekki er vikið að nýsköpun í þessum dálki skjalsins. Í málatilbúnaði kærða er niðurstaða vegna þessa dálks þó rökstudd meðal annars með vísan til verkefna karlsins sem tilnefnd hafi verið til nýsköpunarverðlauna og virðist þannig við þetta mat hafa verið litið til reynslu sem tengist nýsköpun. Kærði vísar til þess að báðir umsækjendur hafi umtalsverða reynslu í þessum matsflokki en byggir á því að þeir umsækjendur sem hafi fengið þrjú stig í stað fjögurra hafi ekki verið í jafn miklum mæli í leiðandi hlutverki eða í jafn stórum og umfangsmiklum verkefnum. Enda þótt fallast megi á það með kæranda að mikið hafi reynt á stefnumótun í starfi hennar sem alþingismaður þá verður að líta til þess að stefnumótun á vettvangi löggjafans er ekki að öllu leyti sambærileg stefnumótun í rekstri lögaðila. Þá verður ekki fram hjá því litið að í þessum matsflokki er einnig áskilnaður um reynslu af innleiðingu stefnu. Að öllu þessu virtu og með vísan til verkefna karlsins sem kærði tilgreinir í málatilbúnaði sínum og rakin eru hér að framan telur kærunefndin ekki tilefni til að gera athugasemd við framangreinda niðurstöðu kærða, sbr. einnig umfjöllun kærunefndarinnar hér að framan um aukið svigrúm kærða sem opinbers hlutafélags samanborið við stjórnvöld við mat á því hvernig einstakir umsækjendur falla að þeim sjónarmiðum sem lögð eru til grundvallar ráðningu.
- Hvað varðar hæfniskröfuna um þekkingu og reynslu af fjölmiðlun, menningar- og samfélagsmálum þá hlaut kærandi fjögur stig en karlinn hlaut tvö stig. Af matsblaði kærða verður ráðið að til að hljóta þrjú stig í þessum flokki þurfti umsækjandi að hafa þekkingu og reynslu af tveimur efnisþáttum samkvæmt þessari hæfniskröfu. Til að hljóta fjögur stig þurfti umsækjandi að hafa þekkingu og reynslu á öllum þremur efnisþáttum samkvæmt þessari hæfniskröfu. Með vísan til röksemda kærða um þennan matsflokk, sem raktar eru hér að framan, gerir kærunefndin ekki athugasemd við niðurstöðu kærða í þessum flokki.
- Hvað varðar kröfu í starfsauglýsingu um góða tungumálakunnáttu og góða hæfni til tjáningar í ræðu og riti þá fengu kærandi og sá karl sem starfið hlaut fjögur stig í þeim flokki. Stóðu þau þar með jafnfætis hvað þessa hæfniskröfu varðaði. Gerir kærunefndin ekki athugasemd við þá niðurstöðu kærða.
- Eins og áður segir víkur skjal kærða um tölulegt mat á umsækjendum ekki að hæfniskröfum starfsauglýsingar um annars vegar leiðtogahæfileika og góða hæfni í mannlegum samskiptum og hins vegar skilning og áhuga á nýjum miðlum. Aftur á móti voru tekin viðtöl við kæranda og karlinn á fyrri og síðari stigum ráðningarferlisins auk þess sem þau gengust undir svokölluð persónuleikapróf ásamt því að leysa úr raunhæfu verkefni þar sem meðal annars reyndi á framtíðarsýn þeirra fyrir starf útvarpsstjóra. Kærði kveður bæði kæranda og karlinn hafa staðið sig með ágætum í viðtölum og framhaldsviðtölum, persónuleikaprófum og raunhæfu verkefni. Í málatilbúnaði kærða felst að úrslitum hafi ráðið það mat kærða að karlinn hafi staðið kæranda framar í þremur þáttum af þeim fimm sem tilgreindir eru á fyrrgreindu matsblaði, þ.e. matsflokkunum (1) háskólamenntun sem nýtist í starfi, (2) stjórnunar- og rekstrarreynsla og (3) reynsla af stefnumótun og innleiðingu stefnu, en þar hafi síðastnefndu matsþættirnir tveir haft mest vægi, en kærandi hafi aðeins staðið karlinum framar í einum þætti. Nefndin hefur þegar fjallað sérstaklega um alla þessa þætti.
- Að öllu framangreindu virtu, einkum þeirri staðreynd að karlinn sem starfið hlaut stóð kæranda framar í þeim tveimur matsflokkum sem vógu þyngst í ráðningarferlinu, þ.e. reynslu af stjórnun og rekstri, sem hafði 34% vægi, og reynslu af stefnumótunarvinnu, nýsköpun og innleiðingu stefnu, sem hafði 26% vægi, telst kærandi ekki hafa leitt líkur að því að henni hafi verið mismunað við ráðningu í starf útvarpsstjóra. Nægja aðfinnslur nefndarinnar við mat kærða á menntun kæranda ekki til að hrófla við þeirri niðurstöðu.
- Samkvæmt 5. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008, sbr. 6. gr. laga nr. 86/2018, getur kærunefnd jafnréttismála ákveðið að sá sem kæra beinist gegn greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi fyrir kærunefndinni. Kærandi hefur haft uppi slíka kröfu í málinu. Skilyrði fyrir slíkri ákvörðun er að niðurstaða nefndarinnar falli kæranda í hag. Þar sem svo er ekki getur ekki komið til þess að nefndin ákvarði kæranda málskostnað.
- Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna umfangs málsins, annríkis nefndarinnar og veittra fresta til málsaðila undir rekstri málsins.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kærði, Ríkisútvarpið ohf., braut hvorki gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla né gegn lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði er kæranda, A, var ekki boðið starf útvarpsstjóra sem ráðið var í með samningi 29. janúar 2020.
Hafnað er kröfu kæranda um að kærða verði gert að greiða henni málskostnað.
Arnaldur Hjartarson
Björn L. Bergsson
Þórey S. Þórðardóttir