Upplýsingar varðandi Brexit
Í kvöld, 31. janúar 2020 kl. 23:00 GMT, gengur Bretland formlega úr Evrópusambandinu.
Staða mála er Ísland varðar er í hnotskurn þessi:
- Ísland, Noregur og Liechtenstein hafa undirritað samning við Bretland vegna útgöngu þess úr ESB og þar með úr EES.
- Samningurinn tryggir m.a. réttindi Íslendinga sem búsettir eru í Bretlandi og Breta sem búa hér á landi ásamt öðrum úrlausnarefnum.
- Þegar Bretland gengur úr ESB verða þó engar breytingar á sambandi okkar við Bretland fyrst um sinn þar sem aðlögunartímabil tekur gildi til loka árs 2020.
- Lög um ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu tryggja að samningurinn geti tekið gildi á Íslandi og lögfestir auk þess aðlögunartímabilið.
- Ísland mun hefja samningaviðræður við Bretland um framtíðarsamband ríkjanna fljótlega eftir útgöngu og samhliða viðræðum Bretlands og ESB.
- Almennt stefna Ísland og Bretland á að viðhalda nánu og góðu framtíðarsambandi og nýta best þau tækifæri sem kunna að skapast.
- Í megindráttum lúta samningsmarkmið Íslands að því að tryggja markaðsaðgang fyrir vörur og þjónustu, fjárfestingar, búsetu- og atvinnuréttindi, rétt til námsdvalar og loftferðir svo fátt eitt sé nefnt.
- Verið er að skoða hvort EFTA-ríkin innan EES (Ísland, Noregur og Liechtenstein) semji við Bretland í sameiningu a.m.k. á sviðum þar sem hagsmunir ríkjanna fara saman.
- Gert er ráð fyrir að viðræður um framtíðarsamband fari fram á aðlögunartímabilinu og markmiðið er að ná sem hagstæðustu samningum við Bretland áður en því lýkur sem verður að öllum líkindum í lok þessa árs nema Bretland óski eftir framlengingu.
- Sá möguleiki er fyrir hendi að aðlögunartímabilinu ljúki áður en framtíðarsamningur hefur tekið gildi. Komi til þess munu samningar sem þegar hafa verið gerðir við Bretland vegna undirbúnings fyrir hugsanlega útgöngu Bretlands úr ESB án samnings geta tryggt kjarnahagsmuni Íslands á sviði vöruviðskipta og loftferða þar til viðræðum um víðtækari framtíðarsamning er lokið.
- Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra leggur áfram mikla áherslu á gott samstarf og náið samráð við atvinnulífið og aðra hagsmunaaðila þegar kemur að framtíðarsamningum við Bretland.
Vinsamlegast hafið samband við utanríkisráðuneytið ef einhverjar spurningar vakna eða til þess að koma ábendingum á framfæri.