Hoppa yfir valmynd
10. júní 2015 Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018, Heilbrigðisráðuneytið

Stjórnsýslukæra vegna málsmeðferðar Embættis landlæknis

Úrskurður velferðarráðuneytisins nr. 006/2015

 

Miðvikudaginn 10. júní 2015 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Með bréfi, dags. 1. janúar 2015, kærði A, (hér eftir nefndur kærandi), til velferðarráðuneytisins álit landlæknis, dags. 22. desember 2014.

I. Málavextir og málsástæður.

Mál þetta varðar erindi kæranda, dags. 1. janúar 2015, vegna álits landlæknis, dags. 22. desember 2014, þar sem niðurstaða landlæknis er að sjúkranuddari hafi brotið þagnarskyldu gagnvart kæranda. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 27. janúar sl., var óskað eftir umsögn Embættis landlæknis um erindið og öllum gögnum er málið varðar. Umsögn og gögn frá Embætti landlæknis bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 4. mars sl. Kæranda var með bréfi, dags. 9. mars sl., send umsögn embættisins ásamt gögnum og gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 19. mars sl.

Með fyrrgreindu erindi sínu kærir kærandi þá ákvörðun landlæknis að gera skrif sjúkranuddara um hann í Morgunblaðið að einkamáli á milli landlæknis og sjúkranuddarans, þ.e. að kærandi fái ekkert að fylgjast með framgangi þess hluta málsins og hver niðurstaða landlæknis verði. Málið snúi að kæranda, þ.e. þagnarskyldubroti sjúkranuddarans vegna skrifa hans í Morgunblaðið um kæranda og því telji kærandi sig eiga fullan rétt á að fylgjast með framgangi málsins; lesa bréfaskipti Embættis landlæknis og sjúkranuddarans og fá upplýsingar um niðurstöðu þess máls.

Kærandi rekur að niðurstaða samkvæmt áliti landlæknis hafi verið sú að sjúkranuddarinn var talinn hafa brotið trúnað við kæranda en hann hafi hins vegar ekki beittur neinum viðurlögum. Þagnarskyldubrot sjúkranuddarans sé kallað vanræksla í álitinu en sjúkranuddarinn fái ekki svo mikið sem áminningu, þó svo að þagnarskyldubrot hans í garð kæranda hafi verið mjög alvarlegt. Það sé víst svo að ekki sé hægt að kæra niðurstöðu landlæknis til velferðarráðuneytisins hins vegar sé niðurstaða landlæknis byggð á röngum forsendum sem hljóti að vera hluti af málsmeðferð landlæknis sem sé kæranleg.

Kærandi fer yfir það í kærunni m.a. að sjúkranuddarinn hafi haldið því fram í einu bréfa sinna til landlæknis að kærandi hafi ætlað að svíkja fé frá tryggingafélagi. Kærandi staðhæfir að ofangreind orð sjúkranuddarans séu ósönn en þau séu tekin trúanleg af landlækni. Kærandi heldur því einnig fram að hann hafi ekki verið í nokkurri aðstöðu til að svíkja fé frá tryggingafélagi.

Enn fremur rekur kærandi að ýmislegt í áliti landlæknis standist ekki skoðun varðandi mál hans. Að mati kæranda sleppi sjúkranuddarinn við viðurlög vegna alvarlegra brota gagnvart kæranda. Kærandi metur brotin þess eðlis að svipta hefði átt sjúkranuddarann starfsleyfinu eða a.m.k. áminna hann.

Í bréfi Embættis landlæknis, dags. 4. mars sl., er vísað til þess að samkvæmt 6. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007 sé heimilt að kæra málsmeðferð landlæknis í kvörtunarmálum til ráðherra. Embætti landlæknis fái ekki séð af efni erindis kæranda, dags. 1. janúar 2015, að kærð sé málsmeðferð landlæknis í því máli sem álitið lýtur að. Því muni embættið ekki veita umsögn um erindi kæranda sem kæru á þeirri málsmeðferð.

Embættið telur rétt að taka fram að fullyrðing kæranda um að niðurstaða landlæknis sé byggð á röngum forsendum fái engan veginn staðist og bendir á að kærandi hafi fengið afrit af öllum gögnum málsins og fengið tækifæri til að koma að sínum sjónarmiðum.

Embættið bendir einnig á ályktanir kæranda þess efnis að landlæknir taki fullyrðingar sjúkranuddarans trúanlegar og noti þær gegn kæranda með því að vísa til þeirra í áliti sínu fái ekki staðist og virðist á misskilningi byggðar.

Kærandi geri einnig athugasemd við að hann sé ekki aðili að eftirlitsmáli landlæknis gagnvart sjúkranuddaranum vegna erindis kæranda til landlæknis er varðar skrif í Morgunblaðið, dags. 16. apríl 2014. Embættið bendir á að þar sé um að ræða annað erindi en það sem umrætt álit landlæknis, dags. 22. desember 2014, lúti að. Embættið muni ekki veita umsögn um þessa athugasemd kæranda þar sem landlæknir hafi fellt niður eftirlitsmál gagnvart sjúkranuddaranum. Að mati landlæknis fái það ekki staðist skynsamlega stjórnsýsluhætti að stjórnvald hafi annars vegar mál til meðferðar gagnvart heilbrigðisstarfsmanni á grundvelli 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, með tilheyrandi rannsóknarskyldu, og hins vegar, á sama tíma, eftirlitsmál skv. III. kafla laganna til meðferðar vegna sama erindis, gagnvart sama heilbrigðisstarfsmanni. Af þeim sökum hafi landlæknir fellt niður eftirlitsmál gagnvart sjúkranuddaranum.

Landlæknir muni þó taka ákvörðun um hvort tilefni verði til eftirlitsmáls að lokinni málsmeðferð kvörtunarmáls. Hið sama eigi við um málsmeðferð vegna kvörtunarmáls sem landlæknir hefur lokið, sbr. álit landlæknis dags. 22. desember 2014, en landlæknir hafi ekki tekið ákvörðun um hvort eftirlitsúrræðum skv. III. kafla laganna verði beitt vegna þess máls. Því fái staðhæfingar kæranda um að sjúkranuddarinn verði „ekki beittur neinum viðurlögum“, eða að sjúkranuddarinn „fái ekki svo mikið sem áminningu“, ekki staðist.

Til upplýsingar tilgreinir embættið að staða málsmeðferðar á erindi kæranda er varðar skrif í Morgunblaðið, dags. 16. apríl 2014, sem embættinu er gert að taka til meðferðar sem kvörtun skv. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, er sú að kærandi hefur sjónarmið sjúkranuddarans til skoðunar.

Þá gerir kærandi athugasemd við að landlæknir tali um þagnarskyldubrot sjúkranuddarans sem vanrækslu. Embætti landlæknis áréttar að embættinu hafi verið gert að fjalla um mögulegt þagnarskyldubrot á grundvelli 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, sbr. úrskurð velferðarráðuneytisins, dags. 24. apríl 2013. Niðurstöðu landlæknis um þagnarskyldubrot hafi því þurft að finna stað í 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu og sé útkoman sem raun beri vitni, þ.e. að líta verði á umrætt þagnarskyldubrot sem vanrækslu.

II. Niðurstaða.

Landlæknir gaf út álit vegna kvörtunar kæranda, dags. 22. desember 2014, með vísan til úrskurðar velferðarráðuneytisins, dags. 24. apríl 2013, einnig sbr. 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007, þar sem niðurstaðan er að sjúkranuddari sem hafði kæranda til meðferðar hafi sýnt af sér vanrækslu með því að brjóta þagnarskyldu gagnvart kæranda.

Með erindi, dags. 1. janúar sl., kærði kærandi til ráðuneytisins ákvörðun landlæknis um að gera skrif sjúkranuddarans um hann í Morgunblaðið að einkamáli milli landlæknis og sjúkranuddarans. Í bréfi Embætti landlæknis, dags. 4. mars sl., er bent á að athugasemdir kæranda vegna skrifa sjúkranuddarans í Morgunblaðið varði annað mál sem sé til afgreiðslu hjá embættinu vegna kvörtunar kæranda, dags. 16. apríl 2014. Ráðuneytið vísar því þeim hluta kærunnar frá.

Enn fremur kemur fram í erindi kæranda að hann telji að niðurstaða landlæknis hafi verið byggð á röngum forsendum sem hljóti að vera hluti af málsmeðferð landlæknis. Í erindinu er enginn rökstuðningur eða nánari útskýringar á því hvaða röngu forsendur átt er við né hvernig þær hafi haft áhrif á málsmeðferð landlæknis, við afgreiðslu málsins hefur kærandi þó haft nokkur tækifæri til að koma slíkum rökstuðningi á framfæri.

Hlutverk ráðuneytisins er að endurskoða stjórnsýslulega málsmeðferð Embættis landlæknis á kvörtunum, sbr. 6. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu, með síðari breytingum. Ráðuneytið hefur farið yfir gögn málsins en af þeim verður ekki annað séð en að landlæknir hafi staðið réttilega að áliti í kvörtunarmáli kæranda og telur ráðuneytið málið hafa verið unnið í samræmi við 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, og ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Með vísan til framanritaðs er kæru kæranda því hafnað.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, varðandi málsmeðferð Embættis landlæknis í kvörtunarmáli sem lauk með áliti dags. 22. desember 2014, er hér með hafnað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta