Heilsuefling og forvarnir
Guðlaugur Þór Þórðarson
Ræða Heilbrigðisráðherra 13. nóvember 2007 við undirritun samstarfssamnings
menntamálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis,
Lýðheilsustöðvar og samtaka framhaldsskólanema um
heilsueflingu og forvarnir í framhaldsskólum
Það er stefna ríkisstjórnarinnar að á Íslandi sé veitt heilbrigðisþjónusta á heimsmælikvarða.
Við viljum að stóraukin áhersla verði lögð á heilsueflingu og forvarnir á öllum sviðum og að stuðlað verði að heilbrigðari lífsháttum. Á því sviði er mjög nauðsynlegt að bregðast hart við aukinni vímuefnaneyslu, m.a. með stuðningi við ungt fólk. Í þessum anda er nú verið að vinna að mótun heildstæðrar heilsustefnu á mínum vegum.
Við vitum að ungt fólk í dag lifir í hröðum og síbreytilegum heimi þar sem þau standa frammi fyrir ógnunum við heilsu og heilbrigði tengdum lýðheilsu sem ekki voru til staðar fyrir örfáum árum. Breyttu þjóðfélagi fylgja aukin lífsgæði, breyttar kröfur, fleiri tækifæri og betri lífskjör.
Við verðum jafnframt að horfast í augu við og taka á þeim fylgikvillum sem fylgja breytingunum. Þar má m.a. nefna aukna kyrrsetu, aukið áreiti, aukna félagslega einangrun, breytt mataræði og aukna fíkniefnaneyslu meðal ungs fólks á framhaldskólaaldri sem nokkra orsakaþætti sem m.a. hafa leitt af sér offitu og tengda sjúkdóma auk aukinnar tíðni geðraskana.
Til að ná árangri þarf að hvetja ungt fólk til jákvæðrar breytni og atlætis. Gefa þarf ungu fólki tækifæri til að breyta sjálft og umbuna fyrir jákvæða breytingu á lífsháttum. Þannig getum við náð árangri í því að efla heilbrigði ungs fólks, með samvinnu og frumkvæði á sviði heilsueflingar. Það þarf að efla aðkomu nemendafélaga að stefnumótun og ákvarðanatöku og treysta þar samstarfið við fulltrúa heilbrigðisráðuneytisins og stofnana þess.
Góður árangur hefur náðst í heilsueflingu og vímuefnavörnum í grunnskólum landsins á undanförnum árum, - eins og við sjáum hér
Það er því afbragðsárangur sem náðst hefur meðal grunnskólanema. Nú þarf að huga að framhaldsskólanum, en rannsóknir hafa leitt í ljós að meðal þess aldursflokks er neysla vímuefna mun meiri og brýn þörf að bregðast við. Á þessum myndum sjáum við til að mynda þróunina yfir sumarið frá lokum grunnskóla að upphafi framhaldsskóla
Það er útfrá þessum forsendum meðal annara sem Heilbrigðisráðuneytið og Menntamálaráðuneytið, Lýðheilsustöð og samtök framhaldsskólanema hafa ákveðið að gera hér í dag með sér samstarfssamning um verkefnið ?Heilsuefling og forvanir í Framhaldsskólum?.
Verkefnið er til þriggja ára og er ætlað að
- koma heilsueflingu og forvörnum í skýran og traustan farveg í framhaldsskólum landsins,
- stuðla að bættri heilsu og líðan nemenda.og draga úr brottfalli.
Ég geri mér grein fyrir því að þessi meginmarkmið eru opin en það kemur í hlut stýrihóps verkefnisins að afmarka þau og gera aðgerðaáætlun sem verður partur af heildar -Heilsustefnu sem verið er að móta, og kynnt verður á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.
Við, fulltrúar ríkisvaldsins, gerum okkur grein fyrir því að við sem samfélag náum betri árangri ef við vinnum öll saman, - við sem kosin erum til að þjóna og þið sem kusuð okkur. Heilsuefling og forvarnir verða ekki unnar af stjórnvöldum einum sér. Þannig mun enginn árangur nást.
Slík samvinna verður best unnin með verkefni eins og þessu, - og þá aðeins þannig að það fái breiða eignaraðild. Það endurspeglar þessar breyttu áherslur ráðuneytisins að í fyrrnefndum stýrihópi verkefnisins eiga framhaldsskólanemendur sína fulltrúa.
Frumkvæðið að þessu verkefni má að stórum hluta til rekja til áhuga og hvatningar fjölskyldu og vina Susie-ar Rutar Einarsdóttur til þess á að láta gott af sér leiða og hjálpa öðrum ungmennum frá vímuefnavánni.
Ég vil þakka þeim sérstaklega fyrir að vera sá hvati sem til þurfti og um leið að sannfæra þau sem og aðra Íslendinga um að við sem að verkefninu komum munum gera okkar besta til að ná árangri í eflingu heilsu og tilvistar ungs fólks í þessu landi svo að það val að velja vímuefnin verði síður spennandi.
Takk fyrir
(Talað orð gildir)