Heilsustefna Íslendinga
Stefna ríkisstjórnarinnar er að veita heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða. Að á Íslandi verði lögð stóraukin áhersla á forvarnir á öllum sviðum og stuðlað að heilbrigðari lífsháttum. Brýnt er að skapa þjóðfélag þar sem fólk á auðvelt með að taka heilsusamlegar ákvarðanir þegar kemur að geðrækt, mataræði og hreyfingu. Í þessum anda er nú verið að vinna að mótun heilsustefnu á vegum heilbrigðisráðherra.
Forvarnir og heilsuefling eru tvær hliðar á sama peningi í þeim skilningi að allar forvarnir stuðla að heilsueflingu og heilsuefling er forvörn. Í þeirri stefnumótunarvinnu heilbrigðisráðuneytis sem nú stendur yfir hefur verið ákveðið að nota hugtakið heilsueflingu yfir hvort tveggja þar sem það endurspeglar betur þá sýn, markmið og aðferðafræði sem lagt er upp með. Með sömu rökum má tala um Heilsustefnu í stað forvarnastefnu.
Við lifum í hröðum og síbreytilegum heimi þar sem við stöndum frammi fyrir ógnunum við heilsufar og verkefnum tengdum lýðheilsu sem síður voru til staðar fyrir örfáum árum. Breyttu þjóðfélagi fylgja aukin lífsgæði, fleiri tækifæri og betri lífskjör, en jafnframt verðum við að horfast í augu við og taka á þeim fylgikvillum sem fylgja breytingunum. Þar má m.a. nefna aukna kyrrsetu, aukið áreiti, breytt mataræði, aukna félagslega einangrun og aukna vímuefnaneyslu sem nokkra orsakaþætti sem m.a. hafa leitt af sér offitu og tengda sjúkdóma og aukna tíðni geðraskana. Því er mótun Heilsustefnu og aðgerðir tengdar orsakaþáttum heilbrigðis í kjölfarið málefni sem færist ört framar á forgangslista heilbrigðisyfirvalda á Vesturlöndum. Þess sér glöggt stað þegar litið er á hvernig forgangsmál Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) hafa þróast á síðustu árum.
Til að ná árangri þarf að hvetja fólk til jákvæðrar breytni og atlætis, gefa fólki tækifæri til að breyta sjálft og umbuna fyrir jákvæða breytingu á lífsháttum. Þannig getum við náð árangri í því að efla heilbrigði þjóðarinnar, með samvinnu og frumkvæði á sviði heilsueflingar. Það þarf að efla starf grasrótarinnar, hinna frjálsu félagasamtaka og treysta þar samstarf þeirra við fulltrúa heilbrigðisráðuneytisins og stofnana þess auk þess sem treysta þarf samstarf ólíkra fræðigreina.
Lýðheilsa er afar mikilvæg. Áhrifaþættir hennar eru fjölbreytilegir; heilsufarslegir, félagslegir, efnahagslegir, skipulagslegir. Sú vinna sem farin er af stað við mótun Heilsustefnu byggir í grófum dráttum á fjórum meginstoðum: rannsóknum, aðferðafræði, leiðum og markmiðum þ.e. hvar við stöndum, hvert við ætlum, hvaða leið við ætlum þangað og hvernig við ætlum að komast þangað. Það er ljóst að rannsóknaþátturinn leikur lykilhlutverk í því að stýra vinnu, fjármagni og öðrum aðföngum í rétta átt. Aðferðafræðin er "lárétt" þar sem aðilar ríkis og samfélagsins eru leiddir í samvinnu um leiðir að sameiginlegum markmiðum. Að lokum er síðan lögð áhersla á mælanleg markmið þannig að á hverjum tíma sé hægt að leggja faglegt mat á útkomuna og leggja línur um framhaldið. Áhersluþættir Heilsustefnunnar sem unnið verður út frá eru orsakaþættir, s.s. hreyfing og mataræði, en að sjálfsögðu er ætlunin með því að vinna á þeim afleiðingaþáttum sem ekki eru nefndir, s.s. offitu, geðröskunum, vímuefnaneyslu, félagslegri einangrun o.fl.
Gert er ráð fyrir að stefnan verði kynnt á fyrsta ársfjórðungi ársins 2008 og svo framkvæmdaáætlun til þriggja til fjögurra ára í framhaldi af því. Mótun Heilsustefnu íslensku þjóðarinnar og framkvæmd hennar á að vera samvinnuverkefni þar sem fullt tillit verður tekið til þeirrar vinnu sem þegar hefur farið fram á vettvangi sveitarfélaga, opinberra aðila og í grasrótinni. Mikil vinna hefur farið fram á vettvangi heilsueflingar á undanförnum árum og margar góðar tillögur verið settar fram. Þessar tillögur verða lagðar til grundvallar í því starfi sem nú er verið að vinna. Hugmyndin er að gera tilraun til að samhæfa reynslu okkar, stefnu og aðgerðir. Með slíkri samstöðu getum við ekki aðeins bætt heilsufar þjóðarinnar heldur getum við orðið öðrum þjóðum fyrirmynd.
Innan heilbrigðisráðuneytisins hefur verið hafin vinna við að leggja drög að stefnunni og leita til þeirra fjölmörgu aðila sem hafa lengi gengið götu forvarna og heilsueflingar og gætu lagt lóð á vogarskálarnar. Til þess að Heilsustefnan standi undir nafni sem stefna þjóðar er afar brýnt að sem flestir komi að mótun hennar. Ég vil því fara þess á leit við þá landsmenn sem telja sig hafa eitthvað fram að færa til Heilsustefnunnar og framkvæmdar hennar setja sig í samband við ráðuneytið og geri því auðveldara að veita allri íslensku þjóðinni hlutdeild í Heilsustefnunni.
Ábendingar berist á netfangið: [email protected]