Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Lyfjakostnaður og lyfjaverð: Hvað getum við gert betur?

Opnun lyfjamarkaðar

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra

ávarpaði morgunverðarfund á vegum Samtaka Verslunar og Þjónustu

17. janúar 2008.

Ágætu fundarmenn

Ég vil byrja á því að þakka Samtökum Verslunar og Þjónustu fyrir að efna til málþings um lyfjakostnað og lyfjaverð þar sem varpað er fram mikilvægri spurningu:

Hvað getum við gert betur?

Í mínum huga er ljóst að íslenskur lyfjamarkaður virkar ekki sem skyldi. Lyfjaverð er hærra á Íslandi en gengur og gerist á hinum Norðurlöndunum og að auki er það langt yfir meðalverði lyfja í ríkjum Evrópubandalagsins. Þá er lyfjaframboð hér á landi með öðrum hætti en í stærri ríkjum markaðssvæðisins.

Smæð lyfjamarkaðarins er talin ein helsta ástæða þess að takmarkaður áhugi er á innflutningi ódýrra samheitalyfja til landsins.

Fullyrt er að túlkun okkar á kröfum og reglum ESB, til markaðsleyfa lyfja dragi úr áhuga á innflutningi ódýrra samheitalyfja og þrýsta á hærra verð en yfirvöld eru tilbúin að sætta sig við. Hér er m.a. átt við kröfuna um íslenskan texta á merkimiða og fylgiseðla lyfja sem er sjálfsögð neytendakrafa en má hins vegar segja að virki sem tæknileg hindrun á markaðnum. Þessi krafa hefur m.a. leitt til þess að erfitt hefur reynst að veita sjúklingum aðgang að ýmsum nauðsynlegum lyfjum sem seljast í litlum mæli og þau verið afskráð. Ég tel hins vegar að nálgast megi þessa kröfu með öðrum hætti, þ.e. að heimila í sérstökum tilfellum útprentun fylgiseðla á íslensku í lyfjabúðum og um leið bæta þjónustuna t.d. með uppfærðum fylgiseðli, stærra letri fyrir eldra fólk og sjóndapurt, o.sfrv.

Auk kröfu um íslenska fylgiseðla hefur skortur á gagnsæi verðlagningar einna helst verið talinn hindra frjálsa samkeppni á lyfjamarkaði. Mér hefur því þótt ástæða til að skoða þann þátt sérstaklega.

Að mati Samkeppniseftirlitsins ríkir einokun og fákeppni á lyfjamarkaðnum bæði í heildsölu og smásölu sem auðveldar ekki aðgengi nýrra aðila og nýrra lyfja að markaðnum.

Hvað getum við gert betur?

Á undanförnum mánuðum hef ég ítrekað lýst því yfir að markmið mitt varðandi lyfjamarkaðinn á Íslandi er í grófum dráttum tvíþætt: Annars vegar að lækka lyfjakostnað ríkisins og hins vegar að lækka lyfjaverð til almennings, samhliða auknu framboði lyfja og fyllsta öryggi sjúklinga. 

Við þær aðstæður sem hér ríkja eru tvær leiðir til að ná fram þessu markmiði. Annars vegar að auka afskipti ríkisins af verðlagningu, innflutningi og dreifingu lyfja eða að reyna að opna markaðinn, auðvelda aðkomu fleiri aðila og stuðla að aukinni samkeppni og frjálsari viðskiptum á markaðinum. Það þarf enginn að velkjast í vafa um að ég aðhyllist síðari kostinn enda er hann í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar:

“Opna á lyfjamarkaðinn til að efla samkeppni, ná fram auknu framboði og lægra lyfjaverði og þar með lyfjakostnaði”. 

 Hvað getum við gert betur? Hvernig ætlum við að opna lyfjamarkaðinn? 

Ýmsar aðgerðir sem hafa verið í undirbúningi liggja nú fyrir í drögum að breytingum á lyfjalögum og reglugerðum og koma nú á næstu dögum og vikum til afgreiðslu.

Í fyrsta lagi hefur Lyfjastofnun í samvinnu við innlenda og erlenda aðila unnið áætlun um fjölgun lyfja á markaði sem þegar er farin að skila árangri.

Í öðru lagi fær Lyfjastofnun heimild til að veita leyfi til markaðssetningar nauðsynlegra lyfja sem erfitt hefur reynst að útvega. Þá mun stofnunin geta samþykkt að upplýsingar á fylgiseðlum séu í sérstökum tilfellum á ensku eða Norðurlandamáli að undanskildu finnsku og grænlensku enda séu umræddar upplýsingar aðgengilegar á íslensku á heimasíðu Lyfjastofnunar og til útprentunar og afhendingar við afgreiðslu viðkomandi lyfs.
Ég geri mér ljóst að þessar breytingar leysa ekki allan vandann en munu vonandi með öðrum aðgerðum tryggja aðgengi að nauðsynlegum lyfjum og upplýsingum um þau á íslensku.

Í þriðja lagi má nefna nokkrar breytingar á gildandi lögum sem miða að því að efla samkeppni og auka þjónustu við neytendur með því að fella niður bann við póstverslun með lyf.
Póstverslun bundin lyfsöluleyfum mun væntanlega opna ýmsa möguleika og efla samkeppni á markaðnum. 

Í fjórða lagi er stefnt að því að sala nikótín- og flúorlyfja utan lyfjabúða verði heimiluð.
Nikótínlyf geta hjálpað reykingamönnum að hætta að reykja og því má færa lýðheilsufræðileg rök fyrir því að slík lyf skuli vera jafnaðgengileg og tóbak. Það sama má segja um flúorlyf sem eru talin ein áhrifamesta og hagkvæmasta vörn gegn tannskemmdum sem völ er á og ættu þau að vera jafnaðgengileg almenningi og gosdrykkir og sætindi. Að sjálfsögðu munu þessi lausasölulyf ekki verða í sjálfvali frekar en þau eru nú í lyfjaverslunum.

Í því skyni að ná niður lyfjaverði og halda lyfjakostnaði stofnana í lágmarki er í fimmta lagi mikilvægt að auka gegnsæi lyfjaverðlagningar og er stefnt að breytingum í þá veru. 

Í sjötta lagi er gert ráð fyrir að lyfjanefndir sjúkrahúsa gefi út bindandi lista um notkun lyfja á viðkomandi stofnun.

Í sjöunda lagi verður eftirlit og eftirfylgni með lyfjaávísunum og aukaverkunum lyfja styrkt með því að lengja varðveislutíma gagna í lyfjagagnagrunni Landlæknis.

Í áttunda lagi verður lögð til einföldun á stjórnsýslu þessara mála, meðal annars verða leyfisveitingar á sviði lyfjamála færðar frá ráðuneytinu til Lyfjastofnunar.

Í níunda lagi get ég nefnt að á undanförnum mánuðum hefur verið unnið ötullega að innleiðingu rafrænna lyfseðla sem ásamt heimild til reksturs póstapóteka mun væntanlega efla samkeppni á lyfjamarkaðinum.

Í tíunda lagi hef ég formlega falið heilbrigðisstofnunum að hefja samvinnu um útboð og innkaup á lyfjum til nota á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum.  Einnig skulu þau leita eftir samstarfi við öldrunarstofnanir um útboð og innkaup lyfja.  Með þessu er átt við að stofnanirnar leitist við að samræma sem mest lyfjalista sína og bjóða út sem mest af þeim lyfjum sem þær nota.  M.a. skulu stofnanirnar leita eftir samstarfi við L.I.S. í Noregi og Amgros í Danmörku um sameiginleg útboð og innkaup.

Í þessu sambandi má í ellefta lagi geta þess að Tryggingastofnun ríkisins vinnur nú í samvinnu við Landlæknisembættið og læknasamtökin að gerð lista yfir þau lyf sem hægt er að mæla með að séu notuð útfrá faglegu og fjárhaglegu sjónarmiði.

 

Góðir ráðstefnugestir.

Framangreindar aðgerðir eru allar hugsaðar og til þess fallnar að auka samkeppni og lækka lyfjaverð og lyfjakostnað.

Eins og kunnugt er hef ég einnig unnið að framgangi þessara mála bæði á Norðurlanda- og Evrópuvettvangi.

Í ferð minni til Brussel í lok ágúst ræddi ég vandamál er snúa að litlum markaðssvæðum í Evrópu við háttsetta aðila hjá ESB, EFTA og ESA.

Þessar viðræður hafa nú leitt til þess að Evrópusambandið hefur sett á laggirnar samráðshóp með fulltrúum Eistlands, Íslands, Kýpur, Möltu og Slóveníu til að finna lausnir á vanda lítilla markaðssvæða.

Það sama hefur gerst á vettvangi Norðurlanda. Ég átti frumkvæði að því að boðað var til sérstaks fundar norrænu heilbrigðisráðherrana um lyfjamál í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Ósló þann 1. nóvember  s.l. Fundarefnið var sameiginlegur markaður lyfja og annarrar heilbrigðisþjónustu á Norðurlöndum.

Á fundinum greindi ég frá hugmyndum mínum og lagði til að Norðurlöndin samþykktu að setja á stofn sérfræðinganefnd með fulltrúa frá hverju landi sem fengi það hlutverk að kanna möguleika á nánara samstarfi um markaðsleyfi og opnun lyfjamarkaðar landanna. Markmið er meðal annars að freista þess að auka viðskipti með lyf landa á milli með sérstakri áherslu á að styrkja minnstu markaðssvæði EES, þ.e. Norðurlöndin, Möltu og Kýpur og fjölga þar lyfjum á markaði, sérstaklega ódýrari samheitalyfjum.

Í framhaldi af þessum fundi heilbrigðisráðherra Norðurlanda var sett á laggirnar starfshópur undir formennsku Rannveigar Gunnarsdóttur forstjóra Lyfjastofnunar til að kanna forsendur fyrir sameiginlegum norrænum lyfjamarkaði.  Starfshópurinn mun skila áfangaskýrslu nú í janúar og lokaskýrslu í vor. Jafnframt var ákveðið að setja af stað reynsluverkefni Íslands og Svíþjóðar um samvinnu í veitingu markaðsleyfa en þar er verið að opna möguleika sem ég bind miklar vonir við.

Sameiginlegur norrænn lyfjamarkaður er spennandi verkefni en það er nokkuð ljóst að Ísland hefur þar mestra hagsmuna að gæta, er minnsta markaðssvæðið og hefur fæst lyf á markaði, sérstaklega samheitalyf.

Þá er ljóst er að núverandi fyrirkomulag á greiðslum almannatrygginga í lyfjakostnaði er gengið sér til húðar. Það er flókið og torskilið og virkar í sumum tilfellum neyslu-hvetjandi.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að stefnt skuli að einföldun á reglum almannatrygginga.

Til að fylgja eftir þeirri stefnu skipaði ég nefnd undir forystu Péturs Blöndal og Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur alþingismanna til að gera tillögu að réttlátari, einfaldari og gagnsærri þátttöku einstaklinga í kostnaði vegna lyfja og annarar heilbrigðisþjónustu með það að leiðarljósi að verja einstaklinga gegn of háum kostnaði.

Nefndin starfar nú að krafti við að kanna hvort og þá með hvaða hætti er hægt að fella læknis-, lyfja-, rannsóknar-, sjúkraþjálfunar- og annan heilbrigðiskostnað undir eitt niðurgreiðslu- og afsláttarfyrirkomulag þannig að þátttaka borgarans í heilbrigðiskostnaði verði takmörkuð hvort sem kostnaðurinn fellur til utan eða innan heilbrigðisstofnana og hver sem þörf hans fyrir heilbrigðisþjónustu er.

 

Góðir fundarmenn

Ég hef hér að framan lýst í stórum dráttum þeim verkefnum sem unnið er að í lyfjamálum. Ég vænti þess að þessi verkefni muni skila árangri þegar þau koma til framkvæmda á næstu vikum og mánuðum og leiða til hóflegra lyfjaverðs og lægri lyfjakostnaðar fyrir landsmenn og hið opinbera.

Ég tel að leiðin að settu marki sé heiðarleg samkeppni og frjáls verslun og og í þeim tilgangi vil ég opna lyfjamarkaðinn.

 

(Talað orð gildir)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta