Nýtt meistaranám í Stjórnun heilbrigðisþjónustu á Bifröst
Guðlaugur Þór Þórðarson
heilbrigðisráðherra
Ávarp við setningu meistaranáms
í Stjórnun heilbrigðisþjónustu á Bifröst
þann 18. janúar 2008
Ágætu nemendur, kennarar og aðrir góðir gestir.
Fyrir ykkur sem hafið unnið sleitulaust undanfarna mánuði að undirbúningi þessa náms hlýtur dagurinn í dag að vera langþráður. Þið sjáið nú árangur erfiðis, fræin sem þið hafið sáð eru búin að skjóta rótum og jurtin byrjuð að teygja sig upp úr jörðinni.
Ágætu nemendur, þetta er líka stór dagur fyrir ykkur. Þið eruð ekki aðeins að hefja nýtt nám, þið eruð frumherjar, þau fyrstu sem reyna nýtt nám, getið engan spurt hvernig það hefur reynst. Það kemur því í ykkar hlut umfram aðra nemendur, ásamt kennurum að þroska og þróa námið frekar. Ykkar mat getur haft mikil áhrif á hvernig það þróast og dafnar.
Á undanförnum árum hefur orðið mikil þróun í stjórnunarmenntun á heilbrigðissviði um allan heim. Stjórnun er mikilvægur þáttur í öllum rekstri og rekstur heilbrigðisþjónustu er þar ekki undanskilinn. Á Íslandi er heilbrigðisþjónusta fjárfrekasta þjónusta ríkisins. Hún mætir líka fólki þegar það er varnarlaust og veikt, því er mikilvægt að vel sé á málum haldið.
Í náminu verður áhersla lögð á stjórnun fyrirtækja eða eininga í heilbrigðisgeiranum, í einkarekstri eða opinberum, innanlands og erlendis. Eitt af því sem verður fléttað inn í námið er sú staðreynd að heilbrigðisþjónusta er ekki lengur bundin af landamærum. Það er ljóst að í nokkurn tíma hefur legið fyrir að umhverfi og skipulag heilbrigðisþjónustu landa innan ESB og EES muni taka breytingum, jafnt hjá þeim sem veita þjónustuna og þeim sem þiggja hana. Á fundi mínum með tveimur af framkvæmdastjórum Evrópusambandsins í Brussel í ágúst sl. var af hálfu þeirra lögð mikil áhersla á þá framtíðarsýn að réttur fólks til heilbrigðisþjónustu næði yfir landamæri einstaka ríkja, áhrif þeirrar sýnar á heilbrigðisþjónustu í hverju ríki og mikilvægi þess að þar sé vel vandað til undirbúnings.
Evrópusambandið hyggst á næstu vikum kynna tillögu að tilskipun fyrir heilbrigðisþjónustu á innri markaði ESB og EES. Tilgangur tillögunnar er að eyða óvissu og skýra reglur sem gilda um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri í Evrópu, meðal annars hvenær fólk getur sótt þjónustu til annarra landa og fengið greitt í heimalandi. Í greinargerð með tillögunni er tekið fram að sérstaklega þurfi að huga að forsendum fyrir sjúklinga til að taka upplýstar ákvarðanir um heilbrigðisþjónustu, gæðum og öryggi heilbrigðisþjónustu óháð staðsetningu og samfellu í þjónustu milli ólíkra stofnana og aðila sem veita þá þjónustu.
Það má búast við því að nokkur ár líði þar til tillagan verður endanlega samþykkt og í millitíðinni er óhætt að gera ráð fyrir mikilli og heitri umræðu um málið. Við þurfum að fylgjast vel með framvindunni, ekki síst með hliðsjón af íslenskum hagsmunum. Íslendingar njóta þess að hafa vel menntaða og afar færa heilbrigðisstarfsmenn og árangurinn af starfi þeirra er eftir því. Þó að boðaðar breytingar feli í sér mikla áskorun fyrir heilbrigðiskerfi ESB og EES landa eru tækifærin að sama skapi gríðarleg og slíkt hvetur menn til frekari dáða.
Í skýrslu OECD, Health at a glance, sem kom út seint á síðasta ári, kemur fram að við stöndum okkur mjög vel í þeim mælikvörðum sem notaðir eru til að meta árangur heilbrigðisþjónustunnar. Ævilíkur Íslendinga við fæðingu eru með þeim bestu í heiminum. Lífslíkur eftir krabbamein í brjósti eru hvergi betri. Andlát í kjölfar hjartaáfalls og blóðþurrðar í heila er með því minnsta sem gerist og innlagnir á spítala vegna astma eru hvergi fátíðari. Við erum að ná framúrskarandi árangri í tæknifrjóvgun og svona mætti áfram telja.
Samfara þeim mikla og góða árangri sem við höfum náð eru líka miklar áskoranir. Þær áskoranir bíða ekki síst fólks sem menntað hefur sig sérstaklega í stjórnun heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt upplýsingum frá OECD eru aðeins 5 þjóðir sem á árinu 2005 nota meira fé til heilbrigðismála en Ísland, sé miðað við kostnað á íbúa. Það sýnir svo ekki verði um villst áherslu íslenskra stjórnvalda á mikilvægi góðrar heilbrigðisþjónustu. Áskoranirnar felast hins vegar ekki síst í því að annars vegar erum við Íslendingar ung þjóð og hins vegar að almennt er talið að heilbrigðisþjónusta við einstakling yfir 65 ára aldri kosti fjórfalt miðað við einstakling yngri en 65 ára. Þannig gerir OECD ráð fyrir að Íslendingar muni að óbreyttu nota 15% af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála á árinu 2050 í stað þeirra 9,5% sem við notuðum árið 2005.
Verkefnið er þetta: Við ætlum að reka hér besta heilbrigðiskerfi í heimi og erum reyndar, miðað við alþjóðlega mælikvarða, ekki langt frá því markmiði. Við viljum líka hafa stjórn á vexti heilbrigðisútgjalda í framtíðinni og til þess þarf styrka stjórn á heilbrigðismálum í landinu. Ég geri hér með ráð fyrir því að fá í hendur nokkur áhugaverð lokaverkefni frá þessum hópi þar sem tekið er á þessum áskorunum!
Þá vil ég koma því á framfæri að ég hef áhuga á að nýta fjölbreytileg rekstrarform í heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðisþjónustan er margþætt, við þurfum að efla lýðheilsu og breyta hegðun fólks, við þurfum að sinna bráðatilvikum og við þurfum að sinna langtímameðferð og eftirfylgni. Mismunandi verkefni kalla á mismunandi aðferðir og skipulagningu. Til að mæta þessum breytilegu verkefnum þurfum við vel menntaða stjórnendur sem hafa heildarsýn og geta beitt þeim aðferðum sem duga til að ná hámarks nýtingu þekkingar og aðfanga.
Það er því sérstök ástæða til að fagna því að hér er að fara af stað nýtt nám í stjórnun í heilbrigðisþjónustu, og með aukinni menntun stjórnenda munu koma ný viðhorf og nýjar lausnir. Þá trúi ég því að námið muni opna nýjar leiðir, tækifærin eru um allan heim og þetta nám mun gera ykkur færari um að nýta þau ykkur sjálfum og þjóðinni til gagns.
Svo þetta er gleðidagur hérna í Borgarfirðinum og Borgnesingnum finnst við hæfi að metnaðarfullt nám eins og nú er að fara af stað sé einmitt hér, í þessari fallegu sveit. Það er verið að stíga mikilvægt skref í menntunarmálum á heilbrigðissviði. Veröldin er að verða flóknari, en tækifærin eru líka allt um kring.
Ég óska ykkur öllum til hamingju með daginn. Nemendum óska ég góðs gengis í námi og starfi og háskólanum óska ég velfarnaðar í þeirra metnaðarfulla starfi í nútíð og framtíð.
Talað orð gildir