Innanríkisráðherra vígði Norðausturveg í Vopnafirði
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra opnaði formlega í dag nýjan kafla á Norðausturvegi milli Hringvegar og Vopnafjarðar með því að klippa á borða ásamt Hreini Haraldssyni vegamálastjóra. Viðstaddir voru fjölmargir íbúar Vopnafjarðar, þingmenn kjördæmisins og aðrir gestir og var þessari samgöngubót síðan fagnað með kaffisamsæti á Vopnafirði.
Unnið hefur verið að verkinu nokkur undanfarin ár en það fólst í uppbyggingu Norðausturvegar með nýrri tengingu Vopnafjarðar við Hringveginn á Háreksstaðaleið. Vegurinn er 49 km langur og ný tenging milli Vesturárdals og Hofsárdals er 7 km. Með veginum er kominn góður heilsársvegur og Vopnafjörður kominn í betra vegasamband við Norðurland og Austurland. Verkinu var skipt í nokkra áfanga sem ýmsir verktakar unnu en alls kostaði verkið á núverandi verðlagi rúmlega 3,2 milljarða króna.
Hreinn Haraldsson vegamálastjóri og Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra klipptu á borða við vígslu vegarins og óskuðu þau bæði íbúum byggðarlagsins til hamingju með þessa samgöngubót. Í kaffisamsæti að lokinni vígslu greindi Sveinn Sveinsson, deildarstjóri hjá Vegagerðinni, frá verkinu sjálfu, Hanna Birna Kristjánsdóttir flutti ávarp og nokkrir þingmenn kjördæmisins.
Innanríkisráðherra sagði að með verkinu hefði verið stigið enn eitt skref í samgöngubótum en fleiri skref væru eftir og mikið verk óunnið á Austurlandi og sagði meðal annars. ,,Ég hef í gær og í dag verið á ferð um Austurland og setið marga fundi, m.a. með sveitarstjórnarmönnum, sýslumönnum og lögreglustjórum á svæðinu. Það fer ekki á milli mála að samgöngumál eru ofarlega á lista þegar rætt er um það hvað má betur fara og þið megið vita að sveitastjórnarmenn ykkar eru duglegir við það að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við þá sem hér stendur.”
Einnig sagði ráðherra að þó að nýir áfangar næðust kæmu alltaf fram nýjar óskir, ný verkefni og nýjar áherslur. ,,Þjóðfélagið breytist, byggðaþróunin heldur áfram, atvinnulífið kallar á nýjar lausnir og samgönguyfirvöld þurfa að vera viðbúin að laga verkefnin að slíkum breytingum.”
Viðstödd athöfnina voru nemendur 8., 9. og 10. bekkjar grunnskólans sem höfðu boðið innanríksráðherra að vera viðstödd vinaviku í bænum og færðu þau ráðherra vinaband og bol vinavikunnar.