Hoppa yfir valmynd
26. október 2013 Innviðaráðuneytið

Innanríkisráðherra ávarpaði aðalfund Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra ávarpaði í gær aðalfund Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem haldinn var í Reykjavík. Ráðherra hefur undanfarnar vikur sótt marga aðalfundi landshlutasamtaka sveitarfélaga, meðal annars hjá Eyþingi, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga.

Hanna Birna Kristjánsdóttir ávarpaði aðalfund Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Hanna Birna Kristjánsdóttir ávarpaði aðalfund Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Innanríkisráðherra flutti ávarp í upphafi fundar en á dagskrá fundarins var meðal annars umræða um starfsemi framtíðarhóps SSH og umfjöllun um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og sóknaráætlun. Þá var sérstök umræða um samstarf sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og horft bæði fram á við og til baka.

Í ávarpi sínu sagði innanríkisráðherra það sér vera ánægjuefni að ávarpa fundinn sem ráðherra sveitarstjórnarmála, hún þekkti þann málaflokk ágætlega eftir að hafa starfað á þeim vettvangi í mörg ár. Ráðherra kvaðst í þessu embætti ætla að vinna með sveitarfélögunum, þau væru ekki undirstofnanir ríkisins heldur standi þau ríkinu jafnfætis. Á þeim grundvelli ættu samskipti ríkis og sveitarfélaga að fara fram. ,,Ég vil líka taka fram að ég tel að sveitarstjórnir hafi almennt staðið sig vel á síðustu árum og það á ekki síst við hér á höfuðborgarsvæðinu. Það vill oft gleymast í umræðunni um sveitarfélög og þá sérstaklega þegar fjallað er um erfiða fjárhagsstöðu sumra þeirra. Flest sveitarfélög landsins eru almennt vel rekin og þeir sem þeim stjórna hafa gert það að ábyrgð og festu,“ sagði ráðherra. Einnig sagði hún sveitarstjórnarmenn halda vel á spilunum í kjölfar hrunsins. ,,Eins og þið vitið er sveitarfélögum ekki heimilt að skila fjárhagsáætlun sem gerir ráð fyrir taprekstri og samkvæmt lögum er ekkert annað í boði en að láta rekstur þeirra ganga upp. Þetta vildi ég hafa sagt þannig að eftir því væri munað í umræðu um sveitarstjórnarmál.“

Innanríkisráðherra minnti á að í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar væri kveðið á um að lágmarksútsvar verði afnumið á tímabilinu. Frumvarp væri í undirbúningi og væri það liður í því að færa valdið í frekari mæli til sveitarfélaga og mætti huga að fleiri slíkum breytingum á næstu árum.

,,Ég er einnig með til skoðunar reglur um álagningu annarra gjalda. Ég tel, svo dæmi sé tekið, að sveitarfélögum eigi að vera heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatta ef þau kjósa svo. Þá tel ég einnig að við þurfum að breyta reglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga með þeim hætti að úthlutanir hans hafi ekki letjandi áhrif á sveitarfélögin til að lækka skatta og gjöld. Sjálfsagt mætti finna fleiri dæmi um það hvernig sveitarfélög geta bætt samkeppnisstöðu sína.“

Á fundinum hjá SSH ræddi innanríkisráðherra einnig löggæslumál og samgöngumál eins og hún hefur gert hjá öðum aðalfundum landshlutasamtaka og minnti á að fyrir dyrum stæði að efla löggæsluna með auknum fjárveitingum. Nauðsynlegt væri að treysta þessar stoðir samfélagsins. Einnig minnti hún á það sem fram kæmi í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að áhersla hennar í byggðamálum væri að vinna að samgöngubótum með áherslu á tengingu byggða.

Innanríkisráðherra hefur einnig á þessum fundum varpað fram þeirri hugmynd að fjármagna bæði byggingu og rekstur samgöngumannvirkja með öðrum hætti en úr ríkissjóði. Þannig mætti hugsanlega flýta framkvæmdum og nefndi ráðherra að á höfuðborgarsvæðinu væri Sundabraut dæmi um verkefni sem fallið gæti undir þessa leið.

Í lok ræðu sinnar óskaði ráðherra eftir góðu samstarfi við sveitarfélögin og hvatti hún sveitarstjórnarfulltrúa til að koma til sín og nánustu samstarfsmanna ábendingum og tillögum um verkefni eða það sem betur mætti fara. ,,Ég lýsi því yfir vilja mínum til að eiga gott og náið samstarf við ykkur og bið um það sama af ykkar hálfu. Við skulum vinna saman að því að gera samfélagið okkar betra, að gæta þess að stjórnmálin snúist fyrst og fremst um það að bæta hag og tryggja öryggi almennings og að missa aldrei sjónar á því fyrir hverja við erum að vinna.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta