Hoppa yfir valmynd
18. október 2012 Utanríkisráðuneytið

Ísland styður útgáfu Alþjóðabankans á handbók um nýtingu jarðhita

Frá kynningu á handbók um jarðhita

Orkuráðgjafadeild Alþjóðabankans, ESMAP, gaf í gær út handbók um nýtingu og fjármögnun jarðhita. Höfundar handbókarinnar eru Magnús Gehringer og Viktor Loksha, en utanríkisráðuneytið hefur kostað vinnu Magnúsar við verkefnið frá 2010.

Í tilefni útkomu bókarinnar var efnt til kynningar í húsakynnum Alþjóðabankans að viðstöddum um 80 manns. Þar þakkaði Rohit Khanna, framkvæmdastjóri orkuráðgjafadeildarinnar, íslenskum stjórnvöldum fyrir stuðning við jarðhitadeildina, og sérstaklega framlag utanríkisráðherra, sem hefði talað fyrir mikilvægi jarðhitans um allan heim og fylgt því tali eftir með myndarlegum stuðningi við Alþjóðabankann.

Handbókin er sú fyrsta sem Alþjóðabankinn stendur fyrir um nýtingu jarðvarma. S. Vijay Iyer, aðalframkvæmdastjóri orkusviðs Alþjóðabankans, sagði við þetta tilefni að með vaxandi áherslum Alþjóðabankans á mikilvægi nýtingar jarðhita í þróunarríkjum væri handbókinni ætlað að styðja við ráðgjafastarfsemina og nefndi sérstaklega jákvæða reynslu Íslendinga og Keníabúa sem fyrirmyndir. Í þessu sambandi má nefna að nýr forseti Alþjóðabankans, Jim Yong Kim, nefndi í setningarræðu sinni á nýafstöðnum ársfundi bankans, jarðhitaverkefni sem eitt þeirra verkefna þar sem bankinn hefði staðið sig hvað best.

Karl Gawell, framkvæmdastjóri bandarísku jarðhitasamtakanna GEA, sagði að útgáfa handbókarinnar kæmi á hárréttum tíma því mikil þörf væri á að koma nákvæmum upplýsingum um uppbyggingu jarðhitavera á framfæri við stjórnmálamenn um allan heim og þá sem mörkuðu  orkustefnu ríkja þar sem jarðhita er að finna. Of lítið hefði verið gert af því að setja fram nýjar og nákvæmar upplýsingar um jarðhitanýtingu og því væri þetta framtak Alþjóðabankans mjög mikilvægt á heimsvísu.

Í pallborðsumræðum í tengslum við kynninguna voru þátttakendur sammála um mikilvægi þess að Alþjóðabankinn ynni nú sérstaklega að jarðhitamálum og að stuðlað yrði að frekari nýtingu hans í þeim ríkjum þar sem orka væri af skornum skammti.  Fulltrúi utanríkisráðuneytisins kynnti samstarf íslensku utanríkisþjónustunnar og Alþjóðabankans í jarðhitamálum í Austur-Afríku sem hrundið var af stað með gerð sérstaks samkomulags í nóvember á síðsta ári. Sérfræðingar Alþjóðabankans sögðu mikilvægt að afla fjármagns til tilraunaborana sem hafa verið helsta hindrun í útbreiðslu jarðvarmanýtingar til raforkuframleiðslu, sérstaklega í þróunarríkjum.

Hlekkur á bók Alþjóðabankans um jarðhita

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta