Íslenskir námsmenn styðja flóttafólk á Íslandi í leit að menntun
Verkefnið „Student Refugees“ á vegum Landssambands íslenskra stúdenta, LÍS, veitir flóttafólki og hælisleitendum á Íslandi aðstoð og leiðsögn við að sigrast á hindrunum sem mæta þeim innan menntakerfisins. Guðbjörg Erla Hallgrímsdóttur, alþjóðafulltrúi hjá LÍS og fulltrúi Student Refugees, segir í grein á vef Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, að stutt hafi verið við bakið á um 50 hælisleitendum og flóttamönnum á Íslandi í sjálfboðaliðastarfi gegnum verkefnið.
Karolis Zibas, fulltrúi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna á Norðurlöndum og löndum Balkanskaga, lofar framtaksverkefnið. „Aðgangur að menntun er ein grunnforsenda þess að flóttafólk geti tekið framtíð sína í eigin hendur. Student Refugees sér ekki aðeins um að útvega ungu flóttafólki á Íslandi nauðsynlega aðstoð heldur styrkir verkefnið einnig tengsl þeirra við samfélagið“.
Í greininni kemur fram að í augnablikinu sé verið að gera verkefnið sjálfstæðara og síður háð LÍS sem skiptir um stjórn á hverju ári. Markmiðið sé að tryggja áframhaldandi stuðning við ungt flóttafólk á Íslandi. „Við viljum að fólk mennti sig. Það auðveldar þeim að verða hluti af samfélaginu og nýta hæfileika sína til fulls“, segir Guðbjörg Erla.
Í greininni er sögð saga afganska flóttamannsins Sayed Khanoghli sem stefnir á útskrift úr menntaskóla sumarið 2023 og í framhaldinu vonast hann til að hefja háskólanám og byggja upp framtíð á Íslandi.
„Það er ekki auðvelt að yfirgefa heimaland sitt þegar öryggi manns er ógnað og sumir láta mér líða eins og ég eigi ekki heima hér, en mig langar virkilega að aðlagast samfélaginu. Ég tala íslenskuna ekki að alveg reiprennandi ennþá en það er allt að koma og þegar ég útskrifast opnast mörg tækifæri,“ segir Sayed sem er einnig formaður ungliðahreyfingar Amnesty og vinnur hlutastarf til að afla tekna.
„Ég vona að ég geti orðið ríkisborgari þegar fram líða stundir. Ég er mjög hrifinn af landinu og á marga vini hér.“