Hoppa yfir valmynd
1. október 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 101/2012

Þriðjudaginn 1. október 2013

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Haukur Guðmundsson hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 4. desember 2012 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 3. desember 2012. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður), dags. 7. nóvember 2012, þar sem umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og umsókn um fæðingarstyrk var synjað.

Með bréfi, dags. 10. desember 2012, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 21. desember 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 3. janúar 2013, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dags. 13. janúar 2013.

I. Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hann hafi starfað hjá U ehf. á tímabilinu frá nóvember 2009 til júní 2010. Barnið hafi fæðst þann Y. maí 2010. Þegar mat á hæfi til fæðingarstyrks hafi verið metið hafi verið kallað eftir starfslokavottorði frá U ehf. Þá hafi annað fyrirtæki, V hf., verið búið að taka yfir rekstur þess fyrrnefnda og hafði þá innleitt sitt launakerfi þannig að launatengd gögn frá U ehf. hafi ekki verið aðgengileg. Starfsmaður V hf. hafi gefið út starfslokavottorð fyrir hönd U ehf., þó með þeim fyrirvara að hann hefði ekki aðgang að gögnum U ehf. Þetta vottorð hafi ekki staðist skoðun þegar það hafi verið borið saman við útgefna launaseðla og því hafi aftur verið leitað til V hf. eftir leiðréttingu. Yfirmaður starfsmannamála hjá V hf. hafi gefið út nýtt starfslokavottorð sem byggst hafi á launaskrá U ehf. Síðara vottorðið hafi Fæðingarorlofssjóður ekki tekið gilt. Staðan sé því sú að gefin hafi verið út tvö starfslokavottorð af sama aðila sem stangist á. Úrskurða þurfi um hvort vottorðið skuli metið gilt.

Í ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 7. nóvember 2012, komi einnig fram að tímamörk umsóknar hafi verið útrunnin. Kærandi fari fram á að litið sé framhjá þeim hluta ákvörðunarinnar þar sem umrædd tímamörk eigi ekki við um foreldra á vinnumarkaði.

Kærandi hafi farið í fæðingarorlof þann 12. desember 2011 í fjóra mánuði. Kærandi hafi ekki sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði fyrr en orlofinu lauk, þann 21. apríl 2012, vegna atriða sem eigi sér lengri sögu. Þegar kærandi hafi sótt um greiðslur hafi Fæðingarorlofssjóður óskað eftir ýmsum gögnum, þar á meðal starfslokavottorði frá U ehf. þar sem kærandi hafi starfað þegar barnið fæddist. Líkt og áður segir hafði V hf. tekið yfir rekstur U ehf. á þeim tíma og því hafi ekki verið hægt að fá aðgang að launatengdum gögnum. Kærandi hafi þó fengið útgefið starfslokavottorð frá starfsmanni V hf. sem síðar hafi komið í ljós að hafi ekki staðist. Þá hafi hann fengið annað vottorð frá yfirmanni starfsmannamála sem hafi haft betri aðgang að gögnum U ehf. Þá hafi kærandi skilað hinu nýja vottorði til Fæðingarorlofssjóðs.

Samkvæmt ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 7. nóvember 2012, hafi sjóðurinn ekki tekið síðara vottorðið gilt og er það orðað svo að staðfesting frá U ehf. séu tekin gild en ekki frá V hf. Kærandi telji að ekki sé hægt að skilja niðurstöðu sjóðsins öðruvísi en hann telji U ehf. hafa gefið út annað vottorðið en V hf. hitt. Staðreyndin sé hins vegar sú að bæði vottorðin hafi verið gefin út af V hf. í desember 2011.

Fyrra starfslokavottorð sé ekki í samræmi við tímaskráningu, útgefna launaseðla eða staðgreiðsluyfirlit RSK og því ljóst að það sé rangt, enda hafi það verið gefið út með fyrirvara um að nauðsynleg gögn til að styðja það hefðu ekki fundist. Seinna vottorðið sé í samræmi við tímaskráningar, útgefna launaseðla og staðgreiðsluyfirlit RSK og því ætti ekki að draga það í efa.

II. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að með umsókn, dags. 7. maí 2012, hafi kærandi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna barnsfæðingar þann Y. maí 2010.

Með umsókn kæranda hafi fylgt staðfesting á umgengnisrétti, dags. 10. júní 2012, fæðingarvottorð o.fl. frá Costa Rica, staðfesting á íslensku ríkisfangi, dags. 5. júlí 2011, launaseðlar frá Z ehf. fyrir tímabilið frá maí til desember 2011, yfirlýsingar frá Z ehf., dags. 18. júní og 12. júlí 2012, flugmiðar, ódagsett bréf frá kæranda með yfirliti tekna á tímabilinu frá 2009 til 2010, bréf frá kæranda, dags. 7. maí og 14. júlí 2012, ódagsett starfslokavottorð frá U ehf., staðfesting frá V hf., dags. 29. október 2012, launaseðlar frá U ehf. fyrir tímabilið frá maí til júní 2010 auk tölvupósta milli kæranda og Fæðingarorlofssjóðs frá 2. október til 19. nóvember 2012. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og Þjóðskrá Íslands.

Fæðingarorlofssjóður hafi sent kæranda bréf, dags. 4. júlí 2012, þar sem athygli hans hafi verið vakin á því að svo hafi virst sem hann hafi ekki uppfyllt skilyrði um rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þar sem engar tekjur hafi verið skráðar á hann tímabilið frá apríl 2010 og fram að fæðingu barnsins en að auki yrði ekki séð af tekjum hans í mars 2010 að hann hafi verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli í þeim mánuði. Kæranda hafi verið leiðbeint um hvað teldist til þátttöku á innlendum vinnumarkaði.

Með tveimur bréfum til kæranda, dags. 26. september og 7. nóvember 2012, hafi honum verið synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þar sem ekki yrði ráðið að hann hafi verið á innlendum vinnumarkaði á framangreindu tímabili. Honum hafi jafnframt verið synjað um fæðingarstyrk utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi þar sem barn hans hafi verið orðið 18 mánaða þegar umsókn hans hafi borist. 

Á kærustigi hafi verið ákveðið að kalla eftir frekari skýringum frá V hf. á bréfi frá 29. október 2012, sbr. tölvupósta, dags. 20. desember 2012.

Í 13. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 7. gr. laga nr. 74/2008, sé kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Í 1. mgr. komi fram að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skuli miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil.

Í 2. og 3. mgr. 7. gr. laganna séu skilgreiningar á því hverjir teljast starfsmenn og sjálfstætt starfandi en samkvæmt ákvæðunum teljist starfsmaður hver sá sem vinni launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Sjálfstætt starfandi einstaklingur sé aftur á móti sá sem starfi við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í 1. mgr. 13. gr. a ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 136/2011, sé skilgreint hvað felist í þátttöku á innlendum vinnumarkaði í skilningi laganna. Þannig komi fram að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr., eða sem sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr. Fullt starf starfsmanns miðist við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljast fullt starf. Fullt starf sjálfstætt starfandi einstaklings miðast við að viðkomandi hafi greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein.

Í 2. mgr. 13. gr. a sé síðan talið upp í eftirfarandi fimm stafliðum hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði:

a.       orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b.      sá tími sem foreldri fái greiddar atvinnuleysisbætur, sé á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar,

c.       sá tími sem foreldri fái greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, sé á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almanna­tryggingar, eða fái greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d.      sá tími sem foreldri njóti bóta frá tryggingafélagi sem komi í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e.       sá tími er foreldri fái tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Barn kæranda sé fætt þann Y. maí 2010. Sex mánaða ávinnslutímabil samkvæmt framangreindu ákvæði 1. mgr. 13. gr. ffl. sé frá 6. nóvember 2009 fram að fæðingardegi barnsins. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði hefði kærandi þurft, samkvæmt framangreindu, að hafa verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði á tímabilinu, sbr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 136/2011.

Samkvæmt skrám ríkisskattstjóra sé kærandi með lág laun frá U ehf. í mars 2010, launalaus í apríl 2010 og einungis með greiðslu orlofsuppbótar í maí 2010, sbr. launaseðil fyrir maí 2010. Í gögnum málsins komi fram að kærandi hafi verið í Costa Rica á tímabilinu 26. febrúar–25. maí 2010. Samkvæmt því uppfylli kærandi ekki meginreglu 1. mgr. 13. gr., sbr. 1. mgr. 13. gr. a ffl., um að hafa verið samfellt í a.m.k. 25% starfshlutfalli á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardag barns.

Þá komi til skoðunar 2. mgr. 13. gr. a ffl. sem kveði á um hvað annað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði. Þannig komi fram í b-lið að sá tími sem foreldri fái greiddar atvinnuleysisbætur, sé á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði. Fyrir liggi í gögnum málsins eins og áður segi að kærandi hafi verið staddur í Costa Rica á tímabilinu 26. febrúar–25. maí 2010 og því ekki á innlendum vinnumarkaði og því ljóst að kærandi hafi ekki getað átt rétt til atvinnuleysisbóta á því tímabili. Samkvæmt því sé ljóst að b-liður 2. mgr. 13. gr. a ffl. geti ekki átt við í tilviki kæranda.

Þá komi næst til skoðunar a-liður 2. mgr. 13. gr. a ffl. þar sem kveðið sé á um að jafnframt teljist til þátttöku á vinnumarkaði orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti. Í gögnum málsins komi fram að kærandi telji sig hafa verið í launalausu leyfi frá U ehf. á því tímabili sem um ræðir, þ.e. frá 25. febrúar 2010 og fram að fæðingu barnsins þann Y. maí 2010.

Í bréfi kæranda, dags. 14. júlí 2012, komi þannig fram að hann hafi verið í launalausu fríi í mars og apríl 2010 og þannig slitið samfelldri vinnu síðustu sex mánuði fyrir fæðingu barns. Í því sama bréfi segi að kærandi hafi verið í vinnu hjá U ehf. Eigendaskipti hafi orðið á því fyrirtæki og séu gögn frá fyrri eiganda ekki aðgengileg en þau liggi óflokkuð í mörgum kössum í einhverri geymslu hjá núverandi eigendum sem að auki telji að þetta mál sé þeim óviðkomandi.

Í starfslokavottorði sem kærandi hafi aflað, ódagsettu en borist 27. júní 2012, og sé undirritað af B f.h. U ehf., segi að kærandi hafi hætt störfum hjá fyrirtækinu þann 20. janúar 2010. Jafnframt sé staðfest að kærandi hafi hafið störf hjá fyrirtækinu í nóvember 2009 og unnið fram í janúar 2010. Ekki hafi verið unnt að útvega launaseðla fyrir þetta tímabil þar sem eigendaskipti hafi átt sér stað og gögn ekki fundist.

Í staðfestingu frá mannauðsstjóra V hf., dags. 29. október 2012, komi fram að kærandi hafi starfað hjá U ehf. á tímabilinu nóvember 2009–júní 2010. Hann hafi verið ráðinn sem almennur starfsmaður á veitingahúsi samkvæmt kjarasamningi milli Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Frá 26. febrúar til 26. maí 2010 hafi kærandi verið í launalausu leyfi vegna fæðingu barns.

Í tölvupósti frá kæranda, dags. 19. nóvember 2012, komi meðal annars fram að sá starfsmaður sem hafi gefið út starfslokavottorðið f.h. U ehf. sé starfsmaður V hf. alveg eins og mannauðsstjóri V hf. sé starfsmaður þess fyrirtækis. Eins og komi fram í fyrra vottorðinu hafi sá starfsmaður haft fyrirvara þar sem hann hafi ekki fundið nein launatengd gögn enda hafi þá verið búið að leggja launakerfi U ehf. niður. Seinna starfslokavottorðið sé hins vegar gefið út af mannauðsstjóra sem hafi haft aðgang að þessum gögnum.

Í tölvupósti frá mannauðsstjóra V hf., dags. 20. desember 2012, þeim sama og gaf út staðfestinguna, dags. 29. október 2012, komi fram að enginn ráðningarsamningur hafi verið til milli kæranda og U ehf. og engin skrifleg staðfesting á samkomulagi milli kæranda og U ehf. um launalaust leyfi. Staðfestingin hafi verið byggð á munnlegum heimildum kæranda og starfsmanna sem starfi hjá V hf. en hafi áður starfað hjá U ehf.

Af framangreindu sé ljóst að kærandi hafi hafið störf hjá U ehf. í nóvember 2009. Hann hafi fengið greidd laun frá fyrirtækinu út febrúar 2010 ásamt lágri fjárhæð í mars 2010 auk orlofsuppbótar í maí 2010. Kærandi hafi verið í Costa Rica á tímabilinu 26. febrúar til 25. maí 2010. Samkvæmt starfslokavottorði f.h. U ehf., ódagsettu en barst 27. júní 2012, hafi hann hætt störfum hjá fyrirtækinu þann 20. janúar 2010 og samkvæmt mannauðsstjóra V hf. sem yfirtók rekstur U ehf., dags. 20. desember 2012, sé enginn skriflegur ráðningarsamningur til milli kæranda og U ehf. né heldur skrifleg staðfesting á samkomulagi milli kæranda og U ehf. heldur hafi staðfesting hans, dags. 29. október 2012, byggst á munnlegum heimildum sem hann hafi fengið frá kæranda sjálfum og starfsmönnum sem hafi unnið hjá U ehf., nú V hf.

Ekki verði því annað séð en kærandi hafi hætt störfum hjá U ehf. í síðasta lagi þann 26. febrúar 2010 þegar hann hafi farið til Costa Rica en þá hafi hann starfað hjá fyrirtækinu í tæpa fjóra mánuði eða frá því í nóvember 2009. Hvorki hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur milli kæranda og fyrirtækisins né heldur sé til skriflegt samkomulag milli kæranda og fyrirtækisins sem staðfesti það að honum hafi verið veitt launalaust leyfi á þeim tíma sem kærandi haldi sjálfur fram. Engu breyti þar um þó kærandi hafi unnið 109 vinnustundir fyrir fyrirtækið í júní 2010 en eftir þann tíma hafi hann ekki starfað fyrir fyrirtækið. Í samræmi við framangreint verði ekki séð að kærandi uppfylli skilyrði a-liðar 2. mgr. 13. gr. a ffl. um að hafa verið í launalausu leyfi frá U ehf. á tímabilinu.

Ekki verði séð að aðrir stafliðir 2. mgr. 13. gr. a ffl. geti átt við í tilviki kæranda.

Samkvæmt framangreindu verði ekki séð að kærandi hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns þann Y. maí 2010, sbr. 1. mgr. 13. gr. ffl. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a ffl.

Enga heimild sé að finna í ffl. né heldur í reglugerð sem sett hefur verið með stoð í lögunum til að víkja frá ákvæðum 1. mgr. 13. gr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a ffl. við mat á því hvort foreldri hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar foreldri hefur töku fæðingarorlofs fyrir fæðingardag barns, sbr. 2. mgr. 8. gr., 11. gr. og 4. mgr. 17. gr. ffl.

Í 1. mgr. 18. gr. ffl. sé fjallað um rétt foreldra til fæðingarstyrks utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi. Í lokamálsliðnum kemur þannig fram að réttur til fæðingarstyrks vegna fæðingar falli niður er barnið nái 18 mánaða aldri. Í samræmi við það féll réttur kæranda til greiðslu fæðingarstyrks utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi sjálfkrafa niður þegar barn hans hafi orðið 18 mánaða þann 6. nóvember 2011. Umsókn kæranda sé eins og áður segi dagsett þann 7. maí 2012.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. bréf til hans dags. 26. september og 7. nóvember 2012. Kærandi eigi heldur ekki rétt til fæðingarstyrks utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi þar sem barn hans hafi verið orðið 18 mánaða er umsókn hans hafi borist sjóðnum. 

III. Athugasemdir kæranda.

Mál þetta snúist um hvort kærandi hafi uppfyllt skilyrði um þátttöku á innlendum vinnumarkaði síðustu sex mánuðina fyrir fæðingu barnsins.

Haustið 2008 hafi kærandi farið til ársdvalar til Costa Rica. Þegar kærandi hafi komið til Íslands þann 16. ágúst 2009 hafi hann farið að leita að vinnu. Kærandi hafi meðal annars unnið við kennslu og sölumennsku þar til hann hafi fengið fast starf hjá U ehf. í nóvember 2009. Nokkuð eftir heimkomu kæranda hafi komið í ljós að hann hafi átt von á barni með stúlku frá Costa Rica og hafi áætlaður fæðingardagur verið vorið 2010.

Kærandi hafi náð samkomulagi við yfirmann sinn um að hann fengi launalaust leyfi til að vera viðstaddur fæðinguna. Þar sem legið hafi í loftinu að fæðingin gæti orðið fyrir tímann og ferðalag til Costa Rica bæði kostnaðarsamt og langt hafi það samkomulag orðið að kærandi mætti nýta allan dvalarleyfistímann eða þrjá mánuði. Kærandi hafi unnið fram á síðasta dag og hafið vinnu á ný strax við heimkomu. Þetta sé mikilvægt atriði að mati kæranda þar sem mikið hafi verið um atvinnuleysi á Íslandi á umræddum tíma og erfitt að fá vinnu. Þó ekki sé til undirritaður samningur um framangreint leyfi þá sé það ljóst að kærandi hafi ekki getað gengið úr og í vinnu án samkomulags við vinnuveitanda. Kærandi telji að framangreind atvikalýsing auk vottorðs frá mannauðsstjóra V hf. staðfesti að kærandi hafi fengið launalaust leyfi frá störfum í samræmi við það sem áður segir.

Meðal smærri fyrirtækja tíðkist skriflegir ráðningarsamningar ekki. Komi upp atvik þar sem nauðsynlegt sé að framvísa skriflegum ráðningarsamningi sé iðulega ekki mikið mál að útbúa slíka. Í tilviki kæranda hafi það þó verið svo að annað fyrirtæki hafi tekið yfir rekstur vinnuveitanda kæranda svo erfitt hafi verið að nálgast launatengd gögn. Kærandi bendi á að munnlegur samningur sé jafngildur skriflegum þannig að framvísun launaseðla auk vottorðs frá mannauðsstjóra hljóti að duga í stað skriflegs ráðningarsamnings.

Kærandi telji sig geta fullyrt að skriflegur samningur um tímabundið launalaust leyfi sé aldrei gerður hjá neinu fyrirtæki, enda dugi yfirleitt að semja um slíkt við sinn yfirmann. Kærandi telur langsótt að opinber stofnun geri svo lítið úr munnlegum heimildum fyrrum starfsmanna U ehf.

IV. Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Í hinni kærðu ákvörðun er á því byggt að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um samfellda þátttöku í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns.

Af hálfu kæranda er byggt á því að hann hafi verið í launalausu leyfi á því tímabili sem Fæðingarorlofssjóður segir hann hafa verið utan vinnumarkaðar, sem skv. a-lið 2. mgr. 13. gr. a ffl. teljist einnig til þátttöku á innlendum vinnumarkaði.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn komi inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur, sbr. 2. og 5. mgr. 8. gr.

Barn kæranda er fætt þann Y. maí 2010. Ávinnslutímabil 1. mgr. 13. gr. er því frá 6. nóvember 2009 og fram að fæðingardegi barnsins. Óumdeilt virðist í málinu að kærandi hafi talist hafa verið á innlendum vinnumarkaði á framangreindu tímabili að undanskildum mánuðunum mars, apríl og maí 2010.

Hin kærða ákvörðun byggir á því að kærandi hafi verið með lág laun í marsmánuði, engin laun í aprílmánuði og einungis fengið greiðslu orlofsuppbótar í maímánuði 2010 auk þess sem byggt er á starfslokavottorði B, f.h. U ehf., ódagsettu. Kærandi byggir á því að hann hafi verið í launalausu leyfi á tímabilinu frá 26. febrúar til 26. maí 2010 eins og staðfest hafi verið af mannauðsstjóra V hf. með starfslokavottorði, dags. 29. nóvember 2012.

Í starfslokavottorði B, f.h.U ehf., segir eftirfarandi: „Hér með staðfestist að A hafi hætt störfum hjá U ehf kt. 441108-1170 þann 20. janúar 2010. Jafnframt staðfestist að A hóf störf hjá U í Nóvember 2009 og vann fram í janúar 2010 Ekki var unnt að útvega launaseðla fyrir þetta tímabil þar sem eigendaskipti áttu sér stað og gögn finnast ekki.“ Í starfslokavottorði mannauðsstjóra V hf., dags. 29. nóvember 2012, segir eftirfarandi: „V tók yfir rekstur U ehf. í desember 2011. Það vottast hér með að A starfaði hjá U ehf. frá nóvember 2009 til júní 2010. A var ráðinn sem almennur starfsmaður á veitingahúsi skv. kjarasamningi milli Eflingar og SA. Frá 26 febrúar – 26 maí 2010 var A í launalausu leyfi vegna fæðingu barns.“ Framangreint starfslokavottorð B, f.h. U ehf., er hvorki í samræmi við staðgreiðsluskrá RSK né launaseðla kæranda frá U ehf. fyrir febrúar, mars, maí og júní 2010. Hins vegar er hið síðara starfslokavottorð, gefið út af mannauðsstjóra V hf., dags. 29. nóvember 2012, í samræmi við framangreind gögn. Ekki er að sjá að öðrum sé til að dreifa sem gefið gætu upplýsingar um starfsferil kæranda hjá hinu gjaldþrota félagi. Það er því álit úrskurðarnefndar að ákvörðun um rétt kæranda til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði beri að byggja á hinu síðara starfslokavottorði, dags. 29. nóvember 2012.

Með vísan til framangreinds telur úrskurðarnefnd kæranda hafa sýnt nægilega fram á að hann hafi verið í launalausu leyfi frá 26. febrúar 2010 og fram að fæðingardegi barnsins. Óumdeilt virðist í málinu að kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði mánuðina nóvember 2009, desember 2009, janúar 2010 og febrúar 2010. Þá virðist ekki deilt um önnur skilyrði greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 7. nóvember 2012, um að synja kæranda A um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði er felld úr gildi.

 

Haukur Guðmundsson

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta