Hoppa yfir valmynd
23. október 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál  nr. 13/2012

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                              

 

Miðvikudaginn 23. október 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 13/2012:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

 

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 11. janúar 2012, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 11. október 2011, á beiðni hennar um leiðréttingu á greiðslu húsaleigubóta aftur í tímann frá 1. júní 2009 til 1. apríl 2011. Úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð í málinu þann 23. maí 2012, þar sem ákvörðun Reykjavíkurborgar um synjun á umsókn kæranda var staðfest. Í kjölfar fyrirspurnar umboðsmanns til úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. september 2013, afréð nefndin að afturkalla úrskurð sinn í málinu og taka málið til meðferðar á ný. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að í beiðni kæranda um leiðréttingu greiðslna hjá Reykjavíkurborg hafi falist beiðni um endurupptöku framangreindra ákvarðana á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í samræmi við framangreint telur úrskurðarnefndin enn fremur að líta verði svo á að í synjun Reykjavíkurborgar á beiðni kæranda um leiðréttingu hafi falist synjun á beiðni um endurupptöku.

 

 

I. Málavextir og málsmeðferð

 

Umsókn kæranda um húsaleigubætur vegna leigu íbúðar að B er dagsett
3. nóvember 2002. Húsaleigusamningur við Félagsbústaði hf. um sömu íbúð er dagsettur 25. október 2002. Kærandi kveðst hafa leigt hjá Félagsbústöðum hf. samfleytt í 16 ár. Hún hafi búið með dætrum sínum tveimur þar sem sonur hennar hafi flutt snemma að heiman.

 


 

Fram kemur í gögnum málsins að kærandi hafi ávallt endurnýjað umsókn sína um húsaleigubætur í janúarmánuði, ár hvert. Með bréfum, dags. 13. janúar 2009 og 11. janúar 2010, var kæranda tilkynnt um lækkun húsaleigubóta þar sem tekjur hefðu hækkað miðað við forsendur fyrra árs, en þær hafi hækkað eftir að dóttir hennar flutti af heimilinu. Dóttir kæranda, sem varð tvítug þann 30. maí 2009, lagði stund á menntaskólanám á haustönn 2009, vor- og haustönn 2010 og vorönn 2011. Hún var enn fremur í vinnu til þess að framfleyta sér. Tekjur hennar voru taldar með tekjum kæranda við útreikning til húsaleigubóta og bæturnar því lækkaðar. Kærandi kveðst hafa spurst fyrir um það hvort hún ætti rétt á því að námið yrði tekið til greina en henni hafi verið svarað neitandi. Henni hafi verið sagt að það hefði engin áhrif á útreikning húsaleigubóta þó svo að dóttir hennar væri í námi. Kærandi kveðst ekki hafa talið ástæðu til að rengja þetta svar. Í ágúst 2011 óskaði kærandi eftir endurskoðun á umsókn um húsaleigubætur allt frá árinu 2009 vegna skólagöngu dóttur hennar.

 

Beiðni kæranda um leiðréttingu á greiðslum var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar Breiðholts, dags. 2. september 2011, með þeim rökum að kærandi hafi ekki gert neinar athugasemdir við lækkun húsaleigubóta þrátt fyrir að henni hafi í tvígang verið sent bréf þar um. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs með bréfi, dags. 21. september 2011. Velferðarráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 11. október 2011 og samþykkti svohljóðandi bókun:

 

„Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um leiðréttingu á greiðslu húsaleigubóta aftur í tímann frá 1. júní 2009 til 1. apríl 2011 skv. 9. gr. og 11. gr. laga nr. 138/1997 um húsaleigubætur sbr. 2. gr. og 5. gr. reglugerðar nr. 118/2003 um húsaleigubætur.

 

Vakin er athygli á að um húsaleigubætur gilda lög nr. 138/1997. Velferðarráð hefur ekki heimild til að víkja frá settum lögum.“

 

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 12. október 2011. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 11. janúar 2012. Með bréfi, dags. 16. janúar 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun um húsaleigubætur. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lægju fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 3. febrúar 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 7. febrúar 2012, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 7. mars 2012. Úrskurður í málinu var kveðinn upp á fundi úrskurðarnefndarinnar þann 23. maí 2012 og birtur kæranda með bréfi, dags. 24. maí 2012.

 

Kærandi leitaði til umboðsmanns Alþingis og með bréfi, dags. 26. júní 2013, óskaði umboðsmaður eftir því að úrskurðarnefndin legði fram öll gögn málsins. Gögnin voru send umboðsmanni með bréfi, dags. 27. júní 2013. Í kjölfar fyrirspurnar umboðsmanns til úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. september 2013, afréð nefndin að afturkalla úrskurð sinn í málinu og taka málið til meðferðar á ný. Með bréfum, dags. 25. september 2013, var kæranda og umboðsmanni tilkynnt um framangreint og kæranda veittur frestur til að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

 


 

 

II. Málsástæður kæranda

 

Kærandi greinir frá því að þegar eldri dóttir hennar hafi orðið 20 ára árið 2009 hafi henni verið skylt að skrifa undir umsókn um húsaleigubætur hjá þjónustumiðstöð Breiðholts og veita aðgang að tekjum sínum á skattframtali. Það hafi hún gert. Kærandi segir að á þeim tíma hafi lög verið brotin á henni. Dóttir hennar hafi verið í námi á þessum tíma og hún hafi spurst fyrir um það hvort hún ætti rétt á því að það yrði tekið til greina og að húsaleigan myndi þá lækka hjá henni, en dóttir hennar hafi unnið við ræstingar með skólanum og hafi hún borgað skólagjöld sín og séð um sig hvað skólann varðaði. Þessari spurningu hennar hafi verið svarað neitandi, enginn réttur væri til staðar. Henni hafi verið sagt að það hefði engin áhrif á útreikning húsaleigubóta þó svo að dóttir hennar væri í námi. Kærandi hafi ekki talið ástæðu til að rengja það svar. Tekjur dóttur hennar hafi verið lagðar við tekjustofn hennar og húsaleigubætur síðan reiknaðar út frá því. Leigan hafi hækkað töluvert mikið. Hún hafi fengið bréf um hækkun á leigu, en hún hafi ekki gert athugasemd við það, þar sem hækkunin hlyti að vera tilkomin vegna tekna dóttur hennar og hækkunar á tekjustofni. Dóttir kæranda hafi lokið menntaskólanámi á vordögum 2011. Hún hafi þá flutt lögheimili sitt og farið að heiman. Við það hafi húsaleigubætur hækkað umtalsvert.

 

Kærandi kveðst hafa farið að kynna sér þær reglur sem gilda um húsaleigubætur og séð að í 9. gr. laga um húsaleigubætur komi fram að ekki þurfi að reikna með tekjur barna umsækjenda húsaleigubóta sem stundi skólanám í sex mánuði eða lengur á árinu. Hún hafi í kjölfarið óskað eftir leiðréttingu hjá Reykjavíkurborg þar sem henni hafi fundist að brotið hafi verið á henni vegna þess að henni hefði verið sagt að hún ætti engan rétt á að fá húsaleigubætur hækkaðar þó svo að námsmaður væri á heimilinu hjá henni.

 

 

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

 

Af hálfu Reykjavíkurborgar kemur fram að það hafi verið mat velferðarráðs að líta yrði til 11. gr. laga um húsaleigubætur en þar séu tilgreind þau gögn er fylgja skuli umsókn um húsaleigubætur. Í 4. tölul. 11. gr. laganna komi fram að framvísa skuli öðrum þeim gögnum sem tiltekin séu í reglugerð eða eðli máls, aðstæður og atvik kunni að kalla á. Í 4. tölul. 5. gr. reglugerðar um húsaleigubætur, nr. 118/2003, komi fram að umsókn um húsaleigubætur skuli fylgja staðfesting skóla um nám þeirra sem tilgreindir séu í 2. tölul. og séu 20 ára eða eldri og stundi skólanám í sex mánuði eða lengur á árinu. Skýrt sé því kveðið á um það í reglugerð um húsaleigubætur að framvísa beri staðfestingu á skólavist þeirra sem lögheimili eigi í húsnæðinu og séu 20 ára eða eldri. Engar upplýsingar hafi legið fyrir á þjónustumiðstöð um nám dóttur kæranda fyrr en kærandi hafi framvísað staðfestingu á skólavist, dags. 4. ágúst 2011, í ágústmánuði 2011. Samkvæmt því vottorði hafi dóttir kæranda hafið nám að nýju eftir rúmt árshlé á haustönn 2009. Samkvæmt tilgreindum laga- og reglugerðarákvæðum hafi kæranda borið að framvísa slíku vottorði við umsókn og/eða við endurnýjun umsóknar.

 


 

Þá hafi einnig í þessu samhengi orðið að líta til þess að í 14. gr. laga um húsaleigubætur sé að finna ákvæði er varði upplýsingaskyldu leigjanda. Þar segi að bótaþegi skuli tilkynna viðkomandi sveitarfélagi þegar í stað um hverjar þær breytingar á högum sínum og heimilisaðstæðum og öðrum þeim atriðum sem áhrif geti haft á rétt hans til húsaleigubóta og á bótafjárhæð. Sé umrætt ákvæði 14. gr. laga um húsaleigubætur ítrekað á umsóknum um húsaleigubætur sem og umsóknum um endurnýjun á húsaleigubótum. Í 4. gr. áðurnefndrar reglugerðar um húsaleigubætur komi fram í 4. mgr. að ákvörðun um rétt til húsaleigubóta og um bótafjárhæðir skuli endurskoða á grundvelli breyttra aðstæðna bótaþega. Framangreint lagaákvæði hafi því lagt skýra upplýsingaskyldu á kæranda en kærandi hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni að tilkynna til þjónustumiðstöðvar um breyttar aðstæður er dóttir hennar hafi hafið nám á ný. Á þjónustumiðstöð hafi því ekki verið að finna neinar upplýsingar eða gögn um að kærandi hafi haft samband við þjónustumiðstöð til að tilkynna um nám dóttur sinnar eða til að kanna hvort réttur hennar til húsaleigubóta hefði breyst þar sem dóttir hennar hóf nám á ný. Ljóst sé að ef kærandi hefði tilkynnt slíkt til þjónustumiðstöðvar hefði slíkt leitt til þess að ákvörðun bótafjárhæðar hefði verið endurskoðuð, sbr. 4. mgr. 4. gr. reglugerðar um húsaleigubætur.

 

Þjónustumiðstöð hafi því ekki verið kunnugt um nám dóttur kæranda. Með bréfi frá þjónustumiðstöð, dags. 11. janúar 2010, hafi athygli kæranda þó verið vakin á breyttri bótafjárhæð sökum þess að tekjur hefðu hækkað. Telja verði að slíkt bréf hefði átt að gefa kæranda tilefni til að skoða forsendur fyrir útreikningi húsaleigubóta og veita henni tilefni til að setja sig í samband við þjónustumiðstöð. Þá sé í lögum um húsaleigubætur hvergi að finna ákvæði er heimili greiðslur húsaleigubóta aftur í tímann og hafi velferðarráð ekki talið heimilt að greiða húsaleigubætur aftur í tímann.

 

 

IV. Niðurstaða

 

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Í máli þessu er ágreiningur um greiðslu húsaleigubóta.

 

Kærandi óskaði eftir leiðréttingu á greiðslu húsaleigubóta aftur í tímann frá 1. júní 2009 til 1. apríl 2011 á grundvelli þess að tekjur dóttur hennar hefðu ekki átt að skerða bótarétt hennar þar sem dóttir hennar hafi verið í námi. Beiðni kæranda var synjað með vísan til 9. og 11. gr. laga um húsaleigubætur, sbr. 2. og 5. gr. reglugerðar um húsaleigubætur, nr. 118/2003. Við meðferð málsins hefur af hálfu Reykjavíkurborgar komið fram að engar upplýsingar hafi legið fyrir á þjónustumiðstöð um nám dóttur kæranda fyrr en hún hafi framvísað staðfestingu á skólavist í ágúst 2011. Það er mat sveitarfélagsins að kæranda hafi borið að framvísa slíku vottorði við umsókn og/eða við endurnýjun umsóknar. Þá byggir Reykjavíkurborg á því að kæranda hafi á grundvelli 14. gr. laga um húsaleigubætur borið að upplýsa um breyttar aðstæður dóttur hennar er hún hóf nám á ný. Reykjavíkurborg tekur sérstaklega fram að hefði kærandi tilkynnt slíkt til þjónustumiðstöðvar hefði slíkt leitt til þess að ákvörðun bótafjárhæðar hefði verið endurskoðuð, sbr. 4. mgr. 4. gr. reglugerðar um húsaleigubætur. Þá er af hálfu Reykjavíkurborgar tekið fram að í lögum um húsaleigubætur sé ekki að finna ákvæði er heimili greiðslu húsaleigubóta aftur í tímann og hafi sveitarfélagið því ekki talið sér heimilt að greiða húsaleigubætur aftur í tímann. Kærandi kveðst hafa fengið þær upplýsingar frá sveitarfélaginu að hún ætti ekki rétt á hærri húsaleigubótum þrátt fyrir að dóttir hennar væri í námi.

 


 

 

Úrskurðarnefndin tekur fram að ákvörðun um greiðslu húsaleigubóta er stjórnvaldsákvörðun og felur í sér samþykki sveitarfélagsins á því að greiða húsaleigubætur fyrir almanaksárið sem sótt er um, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga um húsaleigubætur. Í máli þessu liggja fyrir þrjár ákvarðanir Reykjavíkurborgar um greiðslu húsaleigubóta til kæranda, þ.e. fyrir árið 2009, 2010 og 2011. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að líta verði svo á að í beiðni kæranda um leiðréttingu greiðslna hjá Reykjavíkurborg hafi falist beiðni um endurupptöku framangreindra ákvarðana á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í samræmi við framangreint telur úrskurðarnefndin enn fremur að líta verði á að í synjun Reykjavíkurborgar á beiðni kæranda um leiðréttingu hafi falist synjun á beiðni um endurupptöku.

 

Af gögnum málsins má ráða að synjun Reykjavíkurborgar hafi að hluta til byggst á því að sveitarfélagið telji óheimilt að greiða húsaleigubætur aftur í tímann. Líkt og að framan er rakið er það mat úrskurðarnefndarinnar að beiðni kæranda um leiðréttingu hafi verið beiðni um endurupptöku þriggja ákvarðana um greiðslu húsaleigubóta. Verður því ekki litið svo á að um hafi verið að ræða beiðni um greiðslu húsaleigubóta aftur í tímann enda sótti kærandi um húsaleigubætur í byrjun árs 2009, 2010 og 2011 og fékk greiðslur þegar bótaréttur hennar hafði verið staðreyndur, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga um húsaleigubætur. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Reykjavíkurborgar að tryggja að beiðnir sem sveitarfélaginu berast verði rannsakaðar til hlítar svo standa megi rétt að afgreiðslu þeirra.

 

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um húsaleigubætur skal reikna samanlagðar tekjur allra þeirra sem eiga lögheimili eða hafa skráð eða fast aðsetur í viðkomandi leiguhúsnæði og eru þá tekjur barna umsækjenda sem eru 20 ára og eldri meðtaldar. Þó eru í ákvæðinu undanskildar tekjur barna umsækjenda sem stunda skólanám í sex mánuði eða lengur á árinu. Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. reglugerðar um húsaleigubætur, nr. 118/2003, skerðast húsaleigubætur óháð fjölskyldustærð í hverjum mánuði um 0,67% af árstekjum umfram 2,55 millj. kr., sbr. 9. gr. laga um húsaleigubætur. Af gögnum málsins má ráða að tekjur dóttur kæranda hafi komið til skerðingar húsaleigubóta frá því hún varð 20 ára þann 30. maí 2009 þar til hún flutti lögheimili sitt þann 1. apríl 2011.

 

Í málinu liggur fyrir staðfesting á skólavist dóttur kæranda en samkvæmt henni stundaði hún nám frá 1. ágúst 2009 til 12. desember 2009, 6. janúar 2010 til 21. maí 2010. 20. ágúst 2010 til 20. desember 2010 og 6. janúar 2011 til 21. maí 2011. Dóttir kæranda stundaði nám í fjóra mánuði og tólf daga á árinu 2009. Verður því að telja að tekjur dóttur kæranda hafi ekki átt að undanskilja við afgreiðslu umsóknar kæranda um húsaleigubætur fyrir árið 2009 enda stundaði dóttir hennar ekki skólanám í sex mánuði eða lengur á árinu 2009. Þá stundaði dóttir kæranda nám í fjóra mánuði og 15 daga á árinu 2011. Verður því að telja að tekjur dóttur kæranda hafi ekki átt að undanskilja við afgreiðslu umsóknar kæranda um húsaleigubætur fyrir árið 2011 enda stundaði dóttir hennar ekki skólanám í sex mánuði eða lengur á árinu 2011. Ákvörðun Reykjavíkurborgar um synjun á beiðni um endurupptöku ákvarðana um húsaleigubætur fyrir árið 2009 og árið 2011 verður því staðfest.

 

Á árinu 2010 stundaði dóttir kæranda nám í samtals átta mánuði og 15 daga. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að í ljósi þess að dóttir kæranda stundaði nám í meira en sex mánuði á árinu 2010 hafi borið að undanskilja tekjur hennar, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um húsaleigubætur, við ákvörðun um húsaleigubætur til kæranda fyrir árið 2010.

 


 

 

Reykjavíkurborg hefur hins vegar byggt á því að kæranda hafi borið að upplýsa sveitarfélagið um breytingar á högum hennar og leggja fram gögn því til staðfestingar, sbr. 11. og 14. gr. laga um húsaleigubætur. Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laganna skal umsækjandi gefa allar þær upplýsingar sem krafist er á umsóknareyðublaði og nauðsynlegar eru að öðru leyti til að staðreyna megi bótarétt hans. Umsókn um húsaleigubætur skal fylgja staðfesting skóla um nám þeirra sem lögheimili eiga í íbúðinni og eru 20 ára eða eldri og stunda skólanám í sex mánuði eða lengur á árinu, sbr. 4. tölul. 11. gr. laga um húsaleigubætur, sbr. 4. tölul. 5. gr. reglugerðar um húsaleigubætur. Í máli þessu liggur fyrir að kærandi lagði ekki fram staðfestingu skóla um nám dóttur sinnar þegar hún sótti um húsaleigubætur fyrir árið 2010. Í 6. mgr. 10. gr. laganna kemur hins vegar fram að sveitarfélög skuli veita allar upplýsingar um skilyrði húsaleigubóta og útreikning þeirra og önnur atriði sem máli kunna að skipta og veita umsækjendum nauðsynlegar leiðbeiningar og aðstoð við gerð og frágang umsókna, sbr. 6. mgr. 10. gr. laganna.

 

Kærandi sótti fyrst um húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg árið 2002 og liggur umsóknin fyrir í málinu. Á umsókninni kemur meðal annars fram að með henni skuli fylgja staðfesting skóla um nám ungmenna 20 ára og eldri. Í umsókn fyrir árið 2010 kemur hins vegar ekkert fram um að leggja þurfi fram slíka staðfestingu skóla. Þá liggur ekki fyrir að Reykjavíkurborg hafi að öðru leyti leiðbeint kæranda um að henni hafi borið að leggja fram umrædda staðfestingu skóla né hvaða áhrif það hefði á bótarétt hennar ef hún léti það hjá líða. Verður bréf Reykjavíkurborgar til kæranda, dags. 11. janúar 2010, um lækkun húsaleigubóta ekki talið nægjanlegt í því efni. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að Reykjavíkurborg hafi ekki fullnægt skyldu þeirri er lögð er á sveitarfélagið með 6. mgr. 10. gr. laganna.

 

Að framangreindu virtu er það er mat úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að kærandi hafi ekki gefið allar þær upplýsingar sem krafist var á umsóknareyðublaði. Þá verður að telja að kærandi hafi ekki fengið leiðbeiningar um að frekari gögn væru nauðsynleg. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Reykjavíkurborg hafi verið óheimilt að synja um endurupptöku ákvörðunar um greiðslu húsaleigubóta fyrir árið 2010 á grundvelli þess að kærandi hafi ekki sinnt upplýsingaskyldu 11. og 14. gr. laga um húsaleigubætur.

 

Líkt og að framan greinir er það mat úrskurðarnefndarinnar að við ákvörðun um húsaleigubætur til kæranda fyrir árið 2010 hafi Reykjavíkurborg borið að undanskilja tekjur dóttur kæranda. Liggur þannig fyrir að ákvörðunin byggðist á ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Verður því að telja að kærandi hafi átt rétt á því að Reykjavíkurborg tæki til meðferðar á ný hvort hún ætti rétt á húsaleigubótum fyrir árið 2010. Ákvörðun Reykjavíkurborgar um synjun á beiðni um endurupptöku ákvarðana um húsaleigubætur fyrir árið 2010 verður því felld úr gildi og lagt fyrir Reykjavíkurborg að taka málið til löglegrar meðferðar með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 12. október 2011, um synjun á beiðni A, um endurupptöku ákvarðana um húsaleigubætur fyrir árið 2009 og 2011 er staðfest.

 

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 12. október 2011, um synjun á beiðni A, ákvörðunar um húsaleigubætur fyrir árið 2010 er felld úr gildi og lagt fyrir Reykjavíkurborg að taka málið til löglegrar meðferðar.

 

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir,

 

formaður

 

 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir                Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta