Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2019 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Nýr heimur fjarskipta

Ræða á ráðstefnunni Nýr heimur fjarskipta á Grand hótel 30. ágúst 2019

Ágætu fundarmenn.

 Eins og kunnugt er er staða Íslands hvað varðar fjarskiptainnviði mjög góð í samanburði við önnur lönd. Því ber að fagna - en jafnframt er ljóst að halda þarf vel á spöðunum eigi okkur að takast að halda okkur í fremstu röð ríkja í fjarskiptum. Þar gegna fjarskiptafyrirtækin að sjálfsögðu mikilvægu hlutverki en að sama skapi er mikilvægt að opinberir aðilar sjái til þess að lagaleg umgjörð fjarskiptanna sé í takti við tækniþróunina og önnur Evrópulönd.

Þegar stjórnmálamenn og aðrir framtíðarspekúlantar líta fram á veginn og fjalla um áskoranir 21. aldarinnar - eru tækniframfarir og áhrif þeirra á líf okkar og störf fyrirferðarmikil. Rætt er um að fjórða iðnbyltingin sé þegar hafin og tími sé til kominn að takast á við 5G, internet hlutanna og sjálfvirkni í samgöngum.

Mikill ávinningur fyrir samfélagið er fyrirsjáanlegur en tækninni fylgja einnig skuggahliðar. Þar staldra menn gjarnan við netöryggismálin og fækkun starfa. En eitt er alveg ljóst og það er að fjarskipti eru rauði þráðurinn, grundvöllurinn og viðfangsefnið í þeim tæknibreytingum sem framundan eru – og regluverk fjarskipta þarf að þróast í takti við þær breytingar.

Ég hef lagt áherslu á fyrir liggi skýr stefna í þeim málaflokkum sem undir ráðuneytið heyra. Stefnan birtist í stefnuskjölum eins og fjarskiptaáætlun og samgönguáætlun en hún birtist einnig í lögum sem varða viðkomandi málaflokk. Hvað varðar fjarskiptin þá hefur umtalsverð vinna átt sér stað síðustu misseri. Vil ég nefna í því sambandi að á síðastliðnu vorþingi náðist að koma tveimur mikilvægum málum í gegnum þingið.  

  • Fyrst ber að nefna fjarskiptaáætlun sem birtist í tveimur þingsályktunum um stefnu og aðgerðaráætlun í fjarskiptum. Þær ná yfir málaflokkana fjarskipti, netöryggismál, póstmál og málefni Þjóðskrár Íslands. Fjarskiptaráð undirbýr nú innleiðingu fjarskiptaáætlunarinnar og er að móta aðgerðaráætlun sem fylgt verður eftir.
  • Á vorþingi samþykkti Alþingi einnig lög um net- og upplýsingaöryggi mikilvægra innviða, sem byggð er á tilskipun Evrópusambandsins varðandi ráðstafanir til að ná háu sameiginlegu öryggisstigi í net- og upplýsingakerfum í öllu Evrópusambandinu, oft nefnd NIS eða NIS-D. Lögunum er ætlað að auka hæfni Íslands til að bæta netöryggi og bregðast við aðstæðum þar sem netöryggi er raskað. Áhersla er einkum á rekstraraðila mikilvægra innviða samfélagsins. Mikilvægur þáttur í nýrri löggjöf er krafa um miðlæga netöryggissveit sem gegni meðal annars samhæfingarhlutverki. Netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar, CERT-IS, hefur sinnt því hlutverki en efla þarf sveitina til að hún geti staðið undir þeim auknu verkefnum sem henni er ætlað að sinna.
  • Á síðasta þingi var einnig lagt fram frumvarp til laga um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraða fjarskiptaneta en ekki náðist að afgreiða það. Frumvarpið snýst um reglusetningu varðandi samnýtingu jarðvegsframkvæmda á  sviði fjarskipta-, raforku- og veitukerfa. Meginmarkmið tilskipunarinnar er að draga úr kostnaði við uppbyggingu háhraða fjarskiptaneta. Frumvarp sama efnis verður, að óbreyttu, lagt fram nú á haustþingi 2019. 

Framundan eru fyrirsjáanlegar miklar tæknilegar breytingar í fjarskiptum en miklar breytingar verða einnig í lagaumhverfinu.

  • Í ráðuneytinu er nú verið að undirbúa frumvarp um landshöfuðlénið .is en íslensk lög ná ekki til þess enn sem komið er. Frumvarp til laga um landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén var lagt fram á löggjafarþingi 2010–2011, löggjafarþingi 2011–2012 og löggjafarþingi 2012–2013 en hlaut ekki framgang. Við samningu frumvarps um lénamál nú er litið til eldri frumvarpa, umsagna sem bárust Alþingi á sínum tíma, og samtals við hagsmunaaðila sem staðið hefur yfir um nokkuð skeið.  Ráðuneytið nálgast verkefnið út frá sjónarmiðum neytenda en einnig út frá öryggissjónarmiði, þ.e. hve mikilvæg lénaumsýsla er fyrir íslenskt samfélag. Geri ég ráð fyrir að frumvarpsdrög verði birt í samráðsgátt stjórnvalda í dag.
  • Annað verkefni sem ég vil nefna er verkefnið Ísland ljóstengt sem snýst um ljósleiðarvæðingu í dreifbýli. Verkefnið gengur vel og þegar hafa verið veittir styrkir til tenginga við 5.850 heimili og vinnustaði í dreifbýli. Áætlað er að verkefninu ljúki á árinu 2021 og þá verði búið að tengja um 6000 staði. Þá verða 99,9% heimila og fyrirtækja tengt við ljósleiðara sem er heimsmet.
  • Auk innleiðingar á fjarskiptaáætlun sem nær m.a. til netöryggismála er Netöryggisráð að hrinda í framkvæmd þeim ráðleggingum sem fram komu í skýrslu sem  Oxford-háskóli vann fyrir ráðuneytið um stöðu netöryggismála hér á landi. Hefur ráðleggingunum verið stillt upp sem verkefnum sem viðeigandi aðilar hafa tekið að sér að fylgja eftir. Netöryggisráð hefur heildaryfirsýn um framgang verkefnanna og fylgir þeim eftir.
  • Stærsta lagalega verkefnið sem nú er í vinnslu á sviði fjarskipta er svo undirbúningur nýrrar heildarlöggjafar um fjarskipti. Þessi löggjöf er í daglegu tali kölluð Kóðinn og er aðalefni þessa fundar. Um er að ræða stórt og flókið verkefni og er starfandi vinnuhópur sem í eiga sæti fulltrúar ráðuneytisins og Póst- og fjarskiptastofnunar. Þessi fundur er mikilvægur þáttur í mótun þessa frumvarps því hér hefst opið samtal milli þeirra sem skrifa frumvarpið og hagsmunaaðila. Þegar kemur að því að frumvarpsdrög verði lögð fram til umsagnar í samráðsgáttinni vil ég svo hvetja ykkur til að leggja inn umsagnir þannig að hægt sé að bregðast við þeim áður en frumvarpið gengur til ríkisstjórnar og Alþingis. Stefnt er að því að frumvarpið verði lagt fram á vorþingi 2020. 

Að lokum vona ég að þessi fundur verði gagnlegur og stuðli að því að hagsmunaaðilar séu upplýstir um hvert stefnir í lagaumhverfi fjarskipta. 

Takk fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta