Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2023 Utanríkisráðuneytið

Nýir rammasamningar við landsnefndir UN Women og UNICEF og Félag Sameinuðu þjóðanna

Utanríkisráðherra hefur undirritað rammasamninga við landsnefndir UN Women og UNICEF á Íslandi auk Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Samningarnir ná til kynningar- og fræðslumála á sviði alþjóðlegar þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar.

„Ísland á í fjölþættu samstarfi við stofnanir Sameinuðu þjóðanna í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og UN Women og UNICEF eru meðal okkar helstu áherslustofnana. Samningarnir munu veita félögunum dýrmætan fyrirsjáanleika sem auðveldar þeim skipulagningu verkefna. Þá er mjög mikilvægt að starfsemi stofnananna sé miðlað til almennings í gegnum félögin þrjú og fólk hvatt til að styðja við starfsemi þeirra,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Utanríkisráðuneytið hefur um árabil átt í margþættu samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna og landsnefndir UN Women og UNICEF. Samningarnir eru liður í áherslu ráðuneytisins á upplýsingagjöf, kynningu og fræðslu um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlega þróunarsamvinnu. Markmið samninganna er að auka þekkingu á þeim hnattrænu áskorunum sem til staðar eru, auka gagnsæi og skilvirkni. 

Landsnefnd UN Women á Íslandi styður og styrkir starfsemi UN Women í baráttunni fyrir jafnrétti og bættri stöðu kvenna. Markmið landsnefndarinnar er að afla fjár til verkefna UN Women, kynna og auka áhuga landsmanna á starfsemi UN Women og vera málsvari kvenna í efnaminni ríkjum með það að leiðarljósi að störf þeirra séu órjúfanlegur hluti efnahags- og félagslegrar framþróunar. 

Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og utanríkisráðuneytið hafa frá árinu 1948 starfað saman að kynningu á málefnum Sameinuðu þjóðanna hér á landi. Stefna félagsins er að vinna markvisst að aukinni þekkingu almennings á starfsemi Sameinuðu þjóðanna, að heimsmarkmiðin og gildi Sameinuðu þjóðanna njóti viðtæks stuðnings í samfélaginu og þorri þjóðarinnar styðji við alþjóðlega þróunarsamvinnu.

Landsnefnd UNICEF á Íslandi styður og styrkir starfsemi UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, en stofnunin er leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn í yfir 190 löndum á heimsvísu. Hlutverk landsnefndarinnar á Íslandi er meðal annars að afla fjárstuðnings við verkefni UNICEF á heimsvísu,  kynna og auka áhuga landsmanna á starfsemi UNICEF, standa vörð um réttindi barna á Íslandi og hvetja til virkrar þátttöku ungs fólks og barna í samfélaginu.

  • Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. - mynd
  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. - mynd
  • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta