Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2018 Matvælaráðuneytið

Ákvörðun Fiskistofu um að hafna umsókn um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 (útgerðarfélag IV).

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru [X] f.h. [Y ehf.] dags. 23. febrúar 2018, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 12. febrúar 2018, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 til bátsins [B].

Kæruheimild er í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

 

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi hin kærða ákvörðun Fiskistofu, dags. 12. febrúar 2018, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 til bátsins [B] og að lagt verði fyrir Fiskistofu að úthluta byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 til bátsins í samræmi við kröfur og málsástæður í stjórnsýslukæru.

      

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 23. janúar 2018, sem birt var í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 24. sama mánaðar, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 í nokkrum byggðarlögum, m.a. á Árskógssandi í Dalvíkurbyggð en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, sbr. og 5. gr. reglugerðar nr. 604/2017, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2017/2018. Einnig var framangreind auglýsing birt á vefsíðu Fiskistofu og tölvupóstur með auglýsingunni sendur til viðkomandi sveitarfélaga þar sem þau voru beðin um að setja frétt um auglýsinguna inn á sínar heimasíður. Umsóknarfrestur var til og með 7. febrúar 2018. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafði þá úthlutað 373 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Dalvíkurbyggðar sem skiptust á byggðarlögin Dalvík, 103 þorskígildistonn, Hauganes, 15 þorskígildistonn og Árskógssand, 255 þorskígildistonn. Úthlutunin var tilkynnt Dalvíkurbyggð með bréfi, dags. 21. nóvember 2017.

Kærandi sótti um byggðakvóta fyrir [B] með umsókn til Fiskistofu, dags. 11. janúar 2018.

Hinn 12. febrúar 2018 tilkynnti Fiskistofa eigendum og útgerðaraðilum báta á Árskógssandi í Dalvíkurbyggð ákvarðanir sínar um úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa eða höfnun umsókna um úthlutun. Kæranda var tilkynnt að hafnað væri framangreindri umsókn félagsins. Ákvörðun Fiskistofu var byggð á því að samkvæmt staflið a 1. gr. reglugerðar nr. 604/2017, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2017/2018, verði fiskiskip að hafa gilt leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests til að koma til greina við úthlutun. [B] hafi ekki haft almennt leyfi til fiskveiða síðan 31. ágúst 2017.

Þá kom þar fram að ákvörðunin væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá framangreindri tilkynningu Fiskistofu um ákvörðunina, sbr. 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

 

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með stjórnsýslukæru, dags. 23. febrúar 2018, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, kærði [X] f.h. [Y ehf.] til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins framangreinda ákvörðun Fiskistofu, dags. 12. febrúar 2018, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 til [B].

Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að óskað sé eftir að tekin verði til endurskoðunar ákvörðun Fiskistofu um að hafna umsókn um úthlutun byggðakvóta vegna [B] á Árskógssandi í Dalvíkurbyggð í ljósi aðstæðna sem hafi komið upp í rekstri bátsins. Á síðasta fiskveiðiári 2016/2017 hafi komið upp alvarleg vélarbilun í bátnum og hafi verið tekin ákvörðun um að skipta um vél og hafi verið búið að senda inn beiðni á Fiskistofu um flutning úr krókaaflamarkskerfi yfir í aflamarkskerfi. Báturinn hafi því farið í núllflokk 1. september 2017 eða á nýju fiskveiðiári og hafi því orðið veiðileyfislaus. Vegna þess að vélarskiptin hafi verið framkvæmd hafi ekki verið hægt að fá haffærisskírteini á bátinn og þar af leiðandi ekki veiðileyfi. [Y ehf.] hafi leigt bát með tilheyrandi kostnaði eftir vélarbilunina til þess að sækja veiðireynslu fyrir þetta fiskveiðiár sem átti eftir að veiða á bátinn og fylla upp í fyrri byggðakvóta 2016/2017. Það hafi verið sótt um byggðakvóta vel fyrir skilafrest eða 11. janúar 2018 eins og gert hafi verið undanfarin ár og hafi verið beðið eftir skoðunarmanni til að taka út bátinn eftir vélarskiptin og eftir það sækja um veiðileyfi á bátinn, en vegna veðurs hafi skoðunarmenn ekki komist á tilsettum tíma. Forsvarsmaður kæranda hafi séð 12. febrúar 2018 að [B] hafði ekki fengið úthlutað byggðakvóta án þess þó að fá aðvörunarbréf frá Fiskistofu um það hvenær byggðakvótanum væri úthlutað. Vegna þessa óski kærandi eftir endurskoðun á ákvörðun Fiskistofu með vísan til þess að ákvörðunina megi rekja til kerfisbreytinga, þ.e. flutnings bátsins úr krókaaflamarkskerfi yfir í aflamarkskerfi. Meðfylgjandi sé afrit af umsókninni og útskýring skoðunarmanns frá tilteknu skoðunarfyrirtæki vegna tafa á skoðuninni. [B] hafði fengið haffærisskírteini og veiðileyfi með aflamarki þegar bréf vegna málsins hafi verið sent ráðuneytinu í febrúar 2018. Í ljós hafi komið að upplýsingaflæði af hálfu Fiskistofu sé ábótavant, en ekki hafi borist til útgerðarinnar bréf um höfnun umsóknar um úthlutun byggðakvóta frá Fiskistofu. Þetta hafi tilteknir starfsmenn Fiskistofu staðfest og segi að póstkerfi stofnunarinnar hafi oft ekki virkað. Þessu hefði væntanlega verið hægt að bregðast við í tæka tíð hefði bréfið borist varðandi veiðileyfið.

Stjórnsýslukærunni fylgdi yfirlýsing skoðunarmanns frá tilteknu skoðunarfyrirtæki.

Með bréfi, dags. 6. mars 2018, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um málið, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.

Í umsögn Fiskistofu, dags. 11. júní 2018, sem barst ráðuneytinu 13. sama mánaðar, segir að samkvæmt umsókn um byggðakvóta, dags. 11. janúar 2018, hafi kærandi sótt um byggðakvóta fyrir Árskógssand í Dalvíkurbyggð á fiskveiðiárinu 2017/2018 vegna [B]. Þann 12. febrúar 2018 hafi umsókninni verið hafnað þar sem umræddur bátur hafi ekki haft gilt leyfi til fiskveiða síðan 31. ágúst 2017. Báturinn hafi ekki fengið haffærisskírteini fyrr en 19. febrúar 2018 og almennt veiðileyfi 20. sama mánaðar, sbr. meðfylgjandi gögn. Umsóknarfrestur um úthlutun byggðakvóta hafi verið til og með 7. febrúar 2018. Auglýsingar um úthlutun byggðakvóta hafi birst í dagblöðum og víðar. Kærandi staðhæfi að upplýsingar um höfnun umsóknar um byggðakvóta hafi ekki borist. Það breyti engu í ljósi þess að báturinn hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir úthlutun. Um framangreint sé vísað til stafliðar a 1. gr. reglugerðar nr. 604/2017, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2017/2018 og auglýsingar (III) nr. 24/2018, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta.

Umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins fylgdu eftirtalin gögn í ljósritum: 1) Staðfest afrit af hinni kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 12. febrúar 2018. 2) Auglýsing Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta, m.a. á Árskógssandi í Dalvíkurbyggð, dags. 23. janúar 2018. 3) Umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta fyrir [B], dags. 11. janúar 2018 og samningar við tvær fiskvinnslur um vinnslu afla, dags. 16. og 17. janúar 2018. 4) Stjórnsýslukæra, dags. 23. febrúar 2018. 5) Yfirlit um úthlutun byggðakvóta á Árskógssandi í Dalvíkurbyggð fiskveiðiárið 2017/2018, dags. 12. febrúar 2018. 6) Skjal um skoðun báts og útgáfu haffærisskírteinis frá tilteknu skoðunarfyrirtæki, dags. 19. febrúar 2018. 7) Útprentun af vef Fiskistofu með upplýsingum um að [B] hafi aflamarksleyfi, dags. 20. febrúar 2018.

Með bréfi, dags. 14. júní 2018, sendi ráðuneytið ljósrit af umsögn Fiskistofu til kæranda og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við umsögnina, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Frestur til þess var veittur til og með 28. júní 2018.

Engar athugasemdir bárust ráðuneytinu frá kæranda, [Y ehf.], við framangreinda umsögn Fiskistofu.

 

Rökstuðningur

I.  Fiskistofa hefur lagt fram í málinu staðfest afrit af ákvörðun Fiskistofu, dags. 12. febrúar 2018, þar sem hafnað var umsókn [Y ehf.]. um úthlutun af byggðakvóta Árskógssands í Dalvíkurbyggð fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 til [B] og í bréfi Fiskistofu til ráðuneytisins, dags. 11. júní 2018, kemur fram að ákvörðunin hafi verið send kæranda.

Kærandi hefur ekki lagt fram nein gögn til sönnunar því að umrædd ákvörðun hafi ekki borist félaginu en samkvæmt því verður lagt til grundvallar í málinu að umsókn kæranda, dags. 11. janúar 2018, hafi verið svarað með ákvörðun Fiskistofu, dags. 12. febrúar 2018.

 

II. Um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 gildir ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Í 5. mgr. greinarinnar er ráðherra falið að setja með reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar.

Á grundvelli framangreinds ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð nr. 604/2017, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2017/2018. Í 1. gr. reglugerðarinnar eru talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2017/2018 sem eru: a) að skip hafi haft leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, b) að skip hafi verið skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2017 og c) að skip hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2017. Miðað skal við lögheimili einstaklinga samkvæmt þjóðskrá og heimilisfang lögaðila samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.

Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 getur ráðherra heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórnar að sett verði sérstök viðbótarskilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga. Sambærilegt ákvæði er í 2. gr. reglugerðar nr. 604/2017.

Sett hafa verið sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í Dalvíkurbyggð, m.a. á Árskógssandi fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 samkvæmt framangreindu ákvæði með auglýsingu (III) nr. 24/2018, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta, sem ekki hafa áhrif á niðurstöðu þessa máls.

Um skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa á Árskógssandi í Dalvíkurbyggð fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 fer því eftir 10. gr. laga nr. 116/2006, ákvæðum reglugerðar nr. 604/2017 og auglýsingu (III) nr. 24/2018.

Eins og gerð hefur verið grein fyrir hér að framan eru í 1. gr. reglugerðar nr. 604/2017 talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2017/2018 en samkvæmt staflið a 1. gr. reglugerðarinnar eru þau m.a. að skip hafi haft leyfi til veiða í atvinnuskyni, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, við lok umsóknarfrests. Báturinn [B] hafði ekki leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests um úthlutun byggðakvóta Árskógssands í Dalvíkurbyggð sem lauk þann 7. febrúar 2018 og hafði því ekki veiðileyfi á þeim tíma sem miðað er við í framangreindu ákvæði reglugerðar nr. 604/2017. Það er mat ráðuneytisins að þær ástæður sem koma fram í stjórnsýslukærunni fyrir því að báturinn hafði ekki slíkt leyfi á umræddu tímamarki geti ekki haft þýðingu fyrir niðurstöðu þessa máls.

Einnig er það mat ráðuneytisins að aðrar málsástæður kæranda í stjórnsýslukærunni og öðrum gögnum málsins geti ekki haft áhrif á úrlausn þessa máls.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki séu skilyrði fyrir að fella úr gildi hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 12. febrúar 2018, um að hafna umsókn kæranda, [Y ehf.], um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 til bátsins [B] en samkvæmt því verður ákvörðunin staðfest.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 12. febrúar 2018, um að hafna umsókn kæranda, [Y ehf.], um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 til bátsins [B].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta