Aukið eftirlit til að sporna við félagslegum undirboðum á vinnumarkaði
Erlendum ríkisborgurum fjölgar ört á íslenskum vinnumarkaði og spáir Vinnumálastofnun að þeir verði um eða yfir átján þúsund á næsta ári. Félags- og húsnæðismálaráðherra kynnti samantekt um þessa þróun á fundi ríkisstjórnar í dag og aðgerðir til að sporna við félagslegum undirboðum á vinnumarkaði.
Erlendir ríkisborgarar á Íslandi voru um 25.000 á öðrum ársfjórðungi þessa árs og hafði þá fjölgað stöðugt frá miðju ári 2014. Samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar um fjölda erlendra ríkisborgara á vinnualdri og áætlaðri atvinnuþátttöku þeirra gerir stofnunin ráð fyrir að þeir verði um eða yfir 17.000 á þessu ári en að á næsta ári verði þeir um eða yfir 18.000.
Vinnumálastofnun bendir á að vegna mikillar fjölgunar erlendra starfsmanna á vinnumarkaði muni reyna á eftirlit með vinnumarkaðslöggjöfinni, s.s. lögum um starfsmannaleigur, lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og lög um um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands.
Fyrirtækjum sem senda starfsfólk tímabundið til starfa á Íslandi er skylt að veita Vinnumálastofnun yfirlit með tilteknum upplýsingum um starfsemina og um hlutaðeigandi starfsfólk, m.a. hvort það njóti almannatryggingaverndar í heimalandi sínu. Árið 2014 voru 75 starfsmenn skráðir hjá Vinnumálastofnun á þessum forsendum, þ.e. sem útsendir starfsmenn en það sem af er þessu ári hafa um 200 verið skráðir hjá Vinnumálastofnun.
Vinnumálastofnun, Vinnueftirlit ríkisins, skattayfirvöld og lögreglan hafa komið á fót óformlegum samstarfshópi til að efla eftirlit á vinnumarkaði. Einnig hafa Vinnumálastofnun, Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins sammælst um að vinna saman að því að tryggja sem best eftirlit á vinnumarkaði.